örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Björk Kristinsdóttir 1953-2013 · Heim · Óvissa, vinir, ættingjar »

Magnús S Magnússon 1929-2013

Örn Bárður @ 23.18 25/3/13

magnussmagnussonMinningarorð
Magnús S Magnússon
1929-2013
fv. framkvæmdastjóri

Hægt er að hlusta á ræðuna hér fyrir neðan og einnig lesa.

Alltaf þegar ég kem hingað í þetta fagra guðshús, Garðakirkju, sem stendur hér í sveit og við sjó, verður mér hugsað til séra Braga Friðrikssonar og fólksins sem með honum starfaði í sókninni á 9. áratugi liðinnar aldar. Þegar ég var vígður prestur til þjónustu hér 1984 var Magnús S. Magnússon í þeim fríða flokki fólks sem starfaði með séra Braga. Magnús var einstakur maður í viðkynningu. Góðvild og elskusemi einkenndu hann, snyrtimennska og fágun. Ég þjónaði hér í eitt ár og var ráðinn af söfnuðinum í hálft starf og því var það sóknarnefndin sem var vinnuveitandi minn. Magnús var gjaldkeri og hann greiddi mér launin. Við hittumst mánaðarlega og gjarnan fór ég heimt til hans og Guðbjargar að Hagaflöt 8 til að sækja ávísun fyrir laununum. Alltaf mætti mér elskusemi þeirra beggja.

Magnús Sigurður Heimdal Magnússon fæddist í Bræðraborg á Geirseyri, Patreksfirði, þann 21. september 1929.

Foreldrar hans voru hjónin Ingibjörg G. Þórðardóttir f. 25. ágúst 1909, d. 16.4.1990 og Magnús Brynjólfsson, f. 8. 9.1894, d. 14.1.1942, sjómaður og verkamaður á Patreksfirði. Magnús átti systur samfeðra, Hrefnu Magnúsdóttur f. 1.1.1920, d. 16.5.1933 sem lést aðeins 13 ára og bróður sammæðra, Birgi Harðarson f. 18.08.1946, d. 20.06.1987 sem lést á besta aldri, 41 árs.

Lífið er aldrei öruggt og framtíðin því óviss. Magnús missti föður sinn er hann var aðeins 12 ára gamall. Föðursystir Magnúsar, Guðrún Þórdís Brynjólfsdóttir, tók hann að sér eftir föðurmissinn og var hún honum alla tíð mjög kær. Hann naut einnig umhyggju og elsku móður sinnar og reyndist þeim sjálfur vel alla tíð.

Framtíðin var óviss þegar hann var drengur og unglingur og ekki miklar líkur á að hann gæti framkvæmt drauma sína, en hann hafði mikla þrá til þess að mennta sig. Einhver ráð varð að hafa og fór hann í kvöldskóla á Patreksfirði veturinn 1944 og hálfan vetur var hann við nám hjá séra Trausta Péturssyni í Sauðlauksdal í ársbyrjun 1946. Nám þetta var undirbúningur fyrir inntökupróf í Samvinnuskólann. Haustið 1946 settist hann á skólabekk í Samvinnuskólanum og lauk þaðan prófum vorið 1948 en skólinn var þá starfræktur í Sölvhólsgötu í Reykjavík. Sama ár hóf hann skrifstofustörf hjá Eimskipafélagi Íslands og vann þar til ársins 1957. Frá 1957-1969 starfaði Magnús hjá Gamla Kompaníinu, sem fulltrúi og 1969-1972 við skrifstofu- og sölustörf hjá Marco hf. Árið 1972 keypti Magnús sig inn í fyrirtækið Skúlason & Jónsson og varð aðaleigandi og framkvæmdastjóri þess og starfaði við það til ársins 2004. Magnús var mjög talnaglöggur maður, nákvæmur og áreiðanlegur og því átti það vel við hann að starfa við bókhald og rekstur fyrirtækja.

Gæfa hans var að kynnast góðri konu og þann 1. mars 1952 kvæntist Magnús Guðbjörgu Maríu Gunnarsdóttur f. 8.9.1931. Foreldrar hennar voru hjónin Gunnar Benediktsson f. 26.08.1892, d. 27. 10.1934 og Stefanía Kristín Guðnadóttir f. 15.10.1895, d. 31.10.1975.
Synir Magnúsar og Guðbjargar eru:

Gunnar Heimdal f. 18.9.1952, börn hans og konu hans Elísabetar Eyjólfsdóttur f. 24.5.1955 eru a) Eyjólfur, kona hans er Margrét Gunnarsdóttir, þeirra börn: Gunnar Trausti, Atli Már, Magnús Daði og Lára Ósk; b) Guðbjörg María, sambýlismaður Jón Valgeir Björnsson, börn Guðbjargar og Matthíasar V. Baldurssonar eru Baldur Snær og Guðrún Thelma, synir Guðbjargar og Jóns eru Viktor Björn og Óliver Darri; c) Einhildur Ýr.

Jón Heimdal f. 18.9.1952.

Magnús Heimdal f. 17.06.1962, kona hans Sissel Sördal, þeirra börn:a) Elísabeth Sördal, börn hennar: Nicolay, Semine og Marcus, b) Magnús Sördal d. 7.3.2009 c) Kristian Heimdal.

Magnús og fjölskylda fluttu í Garðabæ árið 1964 og voru þau meðal frumbyggja þar og þar bjuggu þau í 35 ár.

Áhugamál Magnúsar beindust mjög að kristilegu starfi. Hann var þátttakandi í að byggja upp safnaðarheimili og kirkju í Garðasókn og var meðal stofnenda Bræðrafélags Garðakirkju og formaður árin 1976 til 1978. Magnús var í sóknarnefnd Garðakirkju frá 1979. Hann lét sér mjög annt um þessa starfsemi. Þá var Magnús í stjórn Sjálfstæðisfélags Garða- og Bessastaðahrepps frá 1965 til 1967. Magnús hafði fleiri áhugamál, hann stundaði sund upp á hvern dag og hafði ánægju af gönguferðum. Þá voru ófáar stundir sem hann vann í garðinum sínum og dittaði að húsinu, Hann naut hverrar stundar sem hann gat verið úti við störf af þessum toga.

Hann átti góða ævi og var farsæll maður í einkalífi og starfi.

Og nú stend ég hér og kveð þennan öðling sem var reyndar horfinn í vissum skilningi fyrir löngu því hann varð fyrir því að fá blóðtappa í heila árið 1993 sem skerti minni hans til muna.

Seinna þróaði hann með sér minnissjúkdóm og var að mestu horfinn í heim gleymskunnar. En alltaf var hann jafn elskulegur, kurteis og fágaður í framkomu og þakkaði fyrir sig.

Guðbjörg sá til þess að hann héldi alltaf sinni reisn og væri vel klæddur að degi til eins og hann hafði alltaf verið. Hann var í dagvist á heimilinu í Holtsbúð á árunum 2004-6 en svo alveg upp frá því. Starfssemin var flutt á Vífilsstaði og þar lést hann 14. mars s.l. Öllu því góða fólki sem hefur annast hann á liðnum árum er hér þakkað fyrir elskusemi og góðvild í garð hans og fjölskyldunnar. Alltaf sagði Magnús: „Mér líður vel.“ Hann var þakklátur maður og í hinni helgu bók segir að hinn þakkláta skorti aldrei neitt. Hann hafði barist áfram af dugnaði og komist vel af. Hann sló ekkert af sem ungur maður, var vel á sig kominn og duglegur. Rifjað var upp að hann handgróf grunninn fyrir húsi sem þau hjónin byggðu við Sogaveg og mörg handtökin átti hann um ævina við þau heimili þeirra. Þau byrjuðu að búa á Sólvallagötunni en bjuggu síðan í 2 ár við Laugaveg áður en þau byggðu við Sogaveginn en lengst af bjuggu þau á Hagaflöt 8.

Magnús vann í 11 ár í sínu fyrirtæki eftir að hafa orðið fyrir heilablæðingu. Hann var svo duglegur og útsjónarsamur við sín störf enda þótt minnið væri orðið skert.

Hann var orðinn gleyminn en hann gleymist ekki því þið, ástvinir hans, munið hið góða og fagra sem var í fari hans alla tíð. Frábær eiginmaður, faðir, tengdafaðir og afi, samferðamaður og vinur er horfinn á braut. Lífi okkar allra lýkur einhvern tímann. Magnús er hér kvaddur af þakklátu fólki og vonandi verðurm við, ég og þú, kvödd í fyllingu tímans af þakklátu fólki. Hvort við verðum orðin gleymin þegar að þeim skilum kemur í okkar tilvist veit Guð einn en hann gleymir aldrei neinu sinna barna. Í bók Jesaja í GT er samtal milli þjóðarinnar og Guðs:

Jesaja spyr fyrir hönd þjóðar sinnar og segir:

En Síon segir: „Drottinn hefur yfirgefið mig,
Guð hefur gleymt mér.“

Og Guð svarar:

Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu
að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?
Og þó að þær gætu gleymt
þá gleymi ég þér samt ekki.
Ég hef rist þig í lófa mér,
múra þína hef ég sífellt fyrir augum.

Við erum í hendi Guðs í lífi og í dauða og um alla eilífð. Við felum látinn ástvin Guði á vald og biðjum honum blessunar. Guð geymi fólkið hans og leiði okkur öll um lífsins veg í trú, von og kærleika.

Við þökkum fyrir lífi Magnúsar. Og nú er sem ég heyri hann sjálfan tala og segja: „Takk fyrir mig.“ Hann var þakklátur maður og elskusemin var honum í blóð borin.

Blessuð sé minning Magnúsar Sigurðar Heimdal Magnússonar og Guð blessi þig.

Amen.

Tilkynna um jarðsetningu í Garðakirkjugarði.

Erfi í Garðaholti.

Ræðan verður birt . . .

Postulleg blessun.

Guð vonarinnar . . .

url: http://ornbardur.annall.is/2013-03-25/magnus-s-magnusson-1929-2013/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli