örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Rósinberg Gíslason 1923-2013 · Heim · Magnús S Magnússon 1929-2013 »

Björk Kristinsdóttir 1953-2013

Örn Bárður @ 16.45 19/3/13

bjorkkristinsdottirMinningarorð
Björk Kristinsdóttir
1953-2013
starfsmaður Íslandspósts

Útför frá Guðríðarkirkju
þriðjudaginn 19. mars 2013 kl. 13
Jarðsett í Gufunesi

Ræðuna er hægt að hlusta á hér fyrir neðan og einnig lesa.

Innskot eru í ræðunni hér og þar sem ekki eru í texta en koma fram á hljóðupptökunni.

Lífið er erfitt.“

Á þessum orðum hefst metsölubók um lífsspeki sem ber heitið Hinn fáfarni vegur – The Road Less Traveled.

Lífið er erfitt.

Ég man hvað upphafsorðin komu mér á óvart en svo reyndist bókin öll vera á jákvæðun nótum.

Lífð er erfitt.

Ég geri ráð fyrir að einmitt þannig birtist lífið ykkur nú sem hér kveðjið Björk Kristinsdóttur sem horfin er af þessum heimi á besta aldri. Lífið er grimmt en samt svo dásamlegt. Mér kemur til hugar að lífið sé eyðslusamt, að sóun eigi sér stað þegar væn manneskja er hrifin á brott í blóma lífsins. Hvers vegna fer lífið svona óvarlega með dýrmæti sín? Við kveðjum í dag duglega konu sem lifði fyrir mann sinn og fjölskyldu alla tíð og stóð allar vaktir lífsins með sóma. En dauðinn spyr ekki um slíkt. Hann hirðir hvorki um dugnað, gott hjartalag eða heilbrigða hugsun, bros eða hlátur. Sláttumaður dauðans slær allt hvað fyrir er.

Björk vann lengi hjá Pósti og síma og síðar hjá Íslandspósti. Að koma bréfum og bögglum til skila er mikilvæg þjónusta í hverju þjóðfélagi. Á dögum Jesú var hægt að senda bréf með öruggum hætti í pósti milli landa. Páll postuli sem var einn ötulasti talsmaður kristinnar trúar sendi mörg bréf um ævina og eitt þeirra er kennt við Rómverja því hann sendi það safnaðarsystkinum sínum þar í borg. Í því bréfi er boðskapur sem ég vona að geti huggað ykkur sem nú syrgið. Þar segir m.a.:

„Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum?“ (Rm 8.31b-32)

Hér er minnt á fórn Krists sem er íhugunarefni kirkjunnar á föstunni. En það er jafnframt talað um gjöf. Hver er þessi gjöf? Hvað gefur Guð okkur með Kristi? Þeirri gjöf fögnum við á páskum, upprisunni sjálfri. Hún er reyndar íhugunarefni kirkjunnar hvern sunnudag ársins. Björk þekkti boðskap kirkjunnar. Þegar þau Þröstur bjuggu á Flateyri vann hún mikið fyrir kirkjuna og lagði sig m.a. fram um að helgidómurinn væri fagur og fínn. Hún vissi að kirkja í hverri sókn er í senn griðarstaður og vonarhús. Og nú er hún kvödd í vonarhúsinu í Grafarholti sem kennt er við Guðríði Þorbjarnardóttur sem var íslenskur landkönnuður og talin ein víðförlasta kona heims sem uppi var kringum árið 1000. Að því er sögur herma sigldi hún átta sinnum yfir úthöf og ferðaðist fótgangandi um þvera Evrópu. Guðríður var fædd á Íslandi en sigldi til Grænlands og þaðan til Vínlands. Hún eignaðist þar barn, Snorra Þorfinnsson, og er talið að hún sé fyrsta konan af evrópskum uppruna sem fæddi barn í Ameríku. Guðríður fór að sögn einnig til Rómar.

Kista Bjarkar er hér í húsi kenndu við Guðríði og hún bíður þess að leggja upp í ferðina stærstu sem bíður okkar allra.

Björk fæddist í Reykjavík 25. nóvember 1953 og ólst þar upp. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut sunnudaginn 10. mars síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru Kristinn Pálsson, f. 5. febrúar 1915, d. 11. desember 1999 og Andrea Guðmundsdóttir , f. 3. desember 1923, d. 3. júlí 2000.

Systkini Bjarkar eru: Páll f. 1.október.1951, Ingibjörg Gróa f. 2. september.1952, Reynir tvíburi Bjarkar f. 25. nóvember.1953, d. 28. mars 2002 og Anna Rósa f. 16.mars.1966. Hálfsystur Bjarkar samfeðra eru: Sigurlaug Hulda f. 22. september 1934 og Ragnheiður Magný f. 3. apríl 1936. Hálfbræður Bjarkar sammæðra eru: Steingrímur Örn f. 4. september 1945 og Sveinn Gunnar f. 29.október 1946, d. 16.janúar 1995.

Björk giftist 7. október 1978 Þresti Þorvaldssyni sem fæddist á Flateyri en á ættir að rekja í Valþjófsdal í Önundarfirði 24. október 1956. Foreldrar hans eru: Þorvaldur Reynir Gunnarsson f. 13. mars 1938, d. 1. maí 1990 og Sólveig Gísladóttir f. 24. ágúst 1938. Systkini Þrastar eru Þorfinnur, Ösp og Björg.

Börn Bjarkar og Þrastar eru Kristinn Andri, f. 2. desember 1976. Unnusta hans er Dagný Ingadóttir f. 17. maí. 1979 og eiga þau 3 syni, Reyni Örn f. 4. september 2005 og tvíburana Viktor f. 2. janúar 2013, d. 2. janúar 2013 og Alexander Örn f. 2. janúar 2013.

Sólveig f. 23. júlí 1980. Maður hennar er Gretar Þór Sæþórsson f. 9. mars 1976. Dóttir þeirra er Guðrún Mjöll f. 8. desember 2006 og svo eiga þau von á öðru barni.
Lífið heldur áfram og gefur okkur nýja von.

Björk ólst upp í Reykjavík. Hún var Vesturbæingur, bjó sem barn í því merka húsi, Verkó, við Ásvallagötu 49. Þar var margt barna, mikið um að vera og nóg að sýsla alla daga. Þar kynntist hún því fljótlega að lífið er barátta og heimurinn harður. Hún sýndi strax dugnað og festu, áræðni og réttlætiskennd. Hún varði t.d. tvíburabróður sinn með oddi og egg en hann var hjartveikur frá fæðingu. Stundum þurfi hún að lúskra á hrekkjusvínum og sýna í verki mátt sinn og megin. Hún var kröftug og áræðin frá fyrstu tíð. Hún var alla tíð jákvæð og bjartsýn kona. Hlátur og gleði einkenndi hana alla tíð.

Björk og Þröstur kynntust í Reykjavík þegar hann var í Vélskólanum og hún vann í Öskjuhlíðarskóla. Hún lagði margt gott til á þeim vinnustað og þroskaðist við að starfa þar. Þau fluttu vestur og voru einn vetur á Þorfinnsstöðum í Valþjófsdal hjá foreldrum Þrastar en fluttu svo til Suðureyrar 1978 og bjuggu þar til ársins 1983. Björk stýrði þar leikskóla. Þau fluttu til Flateyrar 1983 og bjuggu þar í 10 ár. Skömmu eftir að þau fluttu suður urðu snjóflóð á Vestfjörðum og missti Björk bróður sinn í Súðavík en ein 15 skyldmenni þeirra fórust í snjóflóðinu á Flateyri.

Lífið er erfitt.

Björk var myndarleg húsmóðir og dugleg og svo vann hún ýmis störf utan heimilis uns hún hóf störf hjá Pósti og síma. Hún sat í hreppsnefnd um tíma og tók virkan þátt í félagslífi. Hún mátti aldrei aumt sjá, var hjálpsöm og greiðvikin og heimsótti gjarnan gamalt fólk og stytti því stundir. Fyrr var sagt frá þjónustu hennar við kirkjuna á Flateyri.

Árið 1993 fluttu þau suður og settust að á Seltjarnarnesi. Þröstur sem er vélstjóri að mennt var í 17 ár á sjó en hefur unnið í landi í mörg ár, lengst af hjá Kælitækni. Björk fékk starf hjá Pósti og síma, síðar Íslandspósti og vann þar til dauðadags.

Hún greindist með krabbamein í nóvember 2011. Vorið 2012 var henni gefin góð von um að tekist hefði að komast fyrir meinið en það tók sig upp aftur í október s.l. Þröstur stóð henni við hlið alla tíð, börnin, tengdabörnin og barnabörnin heimsóttu hana og studdu. Hún var mikil móðir og amma sem lifði fyrir barnabörnin. Hún gætti þeirra oft og var alltaf til í að gefa sér tíma fyrir þau en bara ekki helgina sem danskir dagar voru haldnir í Stykkishólmi! Þar vildi hún vera með Þresti í góðum húsvagni en þau höfðu ferðast víða um land árum saman, fyrst í tjaldi, svo í tjaldvagni og loks í húsvagni. Þau fóru síður til útlanda en tóku þó þátt í skemmtilegri gönguferð í Austuríki eitt sinn og fóru í ferð til Bandaríkjanna.

Þröstur sér nú á eftir yndislegri eiginkonu og lífförunauti, „konunni með hárið og krullurnar“ eins og hann orðaði það, konunni sem gaf honum svo ótrúlega mikið. Þegar við komum saman við kistulagninguna sungum við sálminn Ó, faðir gjör mig lítið ljós. Sálmurinn fjallar um lífsverkefni okkar sem felst í því að styðja aðra, vera öðrum til gleði og góðs. Sálmurinn er eins og yfirskrift yfir líf Bjarkar sem hér er kvödd með sorg og trega.

Ég flyt ykkur sérstakar kveðjur bróður hennar, Steingríms Arnar Steingrímssonar, sem búið hefur í Svíþjóð í 40 ár. Hann biður þess og óskar að Guð gefi Þresti, börnum hans og fjölskyldu, styrk á sorgarstundu. Einnig hafa borist kveðjur frá Steinu og Halldóri sem eru í útlöndum, frá Aldísi og Halla sem eru stödd í Bandaríkjunum og frá Huldu Haukdsóttur, vinkonu Bjarkar sem einnig er erlendis og loks frá Guðmundi Kristjánssyni og stjúpdætrum.

[Kveðja barst mér eftir athöfnina frá systur Bjarkar, Sigurlaugu Huldu og fjölskyldu sem býr í Bandaríkjunum. Hún er sett hér inn í ræðuna en er ekki á hljóðupptökunni.]

Fjölskylda Bjarkar vill færa starfsfólki á deild 21A á Landsspítalanum þakkir fyrir einstaka umhyggju og elskusemi. Móðir Þrastar og Ingibjörg systir Bjarkar voru mikið hjá henni heima í veikindunum og á sjúkrahúsinu og var það henni mikill styrkur. Börnin og Þröstur voru við dánarbeðið ásamt systkinum þeirra beggja.
Lífið er erfitt.

Kæru vinir, þið hafði gengið í gegnum erfiða reynslu. Sorgin tekur tíma. Hún hverfur ekki eins og dögg fyrir sólu en hún mun mildast á komandi mánuðum og árum. Enginn verður þó nokkru sinni samur eftir sáran missi en sárin gróa samt.

Lífið er erfitt en um leið er það dásamlegt því við erum aldrei ein. Við eigum góða vini og samferðafólk og svo er Guð með í verki eins og postulinn sagði:

„Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? “

Hann sagði líka þetta í sama kafla Rómverjabréfsins (8.31-39)

„Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? [. . . ] Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur.“

Svo heldur postulinn áfram og nú með hina sterku von um ást og vernd í öllum hugsanlegum aðstæðum lífsins:

„Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.“

Ekkert skilur okkur frá elsku Guðs í Kristi. Það er huggun harmi gegn.

Guð blessi ykkur, kæri Þröstur og fjölskylda, frændfólk, vinir og samferðafólk Bjarkar.

Guð blessi ykkur í þessu lífi erfiðleika, mótlætis og sorgar en einnig á góðum dögum, hlýjum og björtum. Lífið heldur áfram með sínum verkefnum og við erum studd af mikilvægasta afli tilverunnar í öllum aðstæðum, studd af elsku Guðs.

Guð blessi minning Bjarkar Kristinsdóttur og Guð blessi þig.

Amen.

Tilkynningar:

Jarðsett verður í Gufunesi.

Erfi í safnaðarsal kirkjunnar.

Ræðan birt.

Postulleg kveðja: Guð vonarinnar . . .

Amen.

url: http://ornbardur.annall.is/2013-03-19/bjork-kristinsdottir-1953-2013/

Athugasemdir

Fjöldi 3, nýjasta neðst

Pálína Ármannsdóttir @ 20/3/2013 08.30

Kæri séra Örn Bárður það er dásamlegt að geta lesið ræðuna í rólegheitum heima hjá sér,ég er heyrnarskert og heyri ekki alltaf allt sem sagt er þrátt fyrir hátalara sem þið prestar eru farnir að hafa.Tónmöskvar sem eru í sumum kirkjum eru það besta fyrir okkur sem eru heyrnarskert þá kemur talið beint í heyrnartækið! Kærar þakkir fyrir mig þetta var dásamleg kona sem var jarðsungin í gær og fyrrverandi vinnufélagi minn.

Bestu kveðjur.

Örn Bárður @ 20/3/2013 10.55

Kæra Pálína.

Þakka þér fyrir viðbrögðin við ræðunni.

Ég spurði starfsfólk kirkjunnar hvort tónmöskvi væri í henni og enginn kannaðist við það. Ég var nefnilega að hugsa um að nota engan hljóðnema en vegna fjöldans gerði ég það og þar sem tónmöskvi er til staðar nota ég að sálfsögðu hljóðnema því annars fer ekkert í heyrnartækin sem stillt eru á möskvann.

Gott að heyra að þetta brölt mitt á netinu geri gagn.

Mbk,
Örn B

Guðbjörg Ásgeirsdóttir @ 20/3/2013 18.41

Kæri frændi þakka þér fyrir að færa ræðuna hér inn.
Átti því miður ekki heimagengt til að kveðja kæra vinnkonu
Björkina mína,mjög dýrmætt fyrir mig að lesa hana hér.
Kv. Gugga Ásgeirs.


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli