örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Halldór Ólafsson 1928-2013 · Heim · Björk Kristinsdóttir 1953-2013 »

Rósinberg Gíslason 1923-2013

Örn Bárður @ 14.00 18/3/13

rosinberggislasonMinningarorð
Rósinberg Gíslason
1923-2013
fv. vörubifreiðarstjóri
Nesvegi 44, Reykjavík

Útför frá Neskirkju mánudaginn 18. mars 2013 kl. 13
Jarðsett í Fossvogskirkjugarði

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan.

Kæra fjölskylda, frændfólk, vinir og samferðarfólk, Rósinbergs.

Skammt er stórra högga á milli, segir í máltækinu. Þið, ástvinir Rósinbergs og Maríu hafið nú kvatt þau bæði á innan við mánuði en aðeins 16 dagar skildu þau að. Beggi var orðinn gamall og lúinn þegar við kvöddum Maríu og við kistulagninguna sat hann allan tímann í hjólastólnum við kistu hennar, djúpt hugsi og sorgmæddur. Þrátt fyrir bága heilsu og sorg þann dag var skapgerð hans þó óbuguð, glettni og gamansemi hans var ekki horfin. Það fann ég í eridrykkjunni. En kraftarnir voru þrotnir og skömmu síðar hafði hann sjálfur hlotið sína hinstu hvíld. Það var engu líkara en að hann ætlaði að standa sig meðan hún var veik en gæfi svo eftir þegar hún var farin. Kallið hans er komið.

Við verðum öll burtkölluð í fyllingu tímans. Þetta líf er svo stutt og stopult. Við lærum ýmislegt á lífsleiðinni, vinnum þetta eða hitt, verðum ástfangin og finnum flest lífsförunaut, eignumst börn og jafnvel barnabörn en svo lýkur þessu öllu allt í einu. Lífið er gjöf sem þegin er af lífinu sjálfu, hinu stóra lífi, sem á að baki sér hið stærsta líf, Guð almáttugan.

Rósinberg fæddist 28. apríl 1923. Hann lést 7. mars 2013.

Foreldrar hans voru: Gísli Sveinsson, f. 1. apríl 1890, d. 15. febrúar 1988, og Kristín Theodóra Guðmundsdóttir, f. 16. okt. 1901, d. 24. apríl 1937. Systkini: Guðrún, f. 1926, d. 1985; Sveinn, f. 1929.

Eiginkona Rósinbergs var María Bender, f. 27. júlí 1930, d. 19. febrúar 2013.

Börn þeirra eru:

Karl Rósinbergsson, f. 16. apríl 1952, d. 29 mars 2004. Eftirlifandi eiginkona hans er Steinunn Steinþórsdóttir.

Leifur Rósinbergsson, f. 4. maí 1953. Eiginkona hans var Árelía Þórdís Andrésdóttir, f. 4. desember 1956, dáin 8. ágúst 2010, sem er látin. Sambýliskona hans er Kristín Pálsdóttir.

Kristín Rósinbergsdóttir, f. 1955.

Guðrún Rósinbergsdóttir, f. 10. desember 1959, maki Páll Hólm, f. 1954.

Hrefna Rósinbergsdóttir, f. 25. apríl 1964, sambýlismaður hennar er Guðjón Elí Sturluson.

Nánari upplýsingar um barnabörn og afkomendur Rósinbergs eru í Morgunblaðinu í dag og verða ennfremur birtar á vefsíðu minni ásamt ræðunni.

Beggi bjó alla sína tíð á fæðingarstað sínum. Hann fæddist að Sveinsstöðum sem stóðu handan götunnar þar sem hann byggði sér síðar hús að Nesvegi 44 en þar bjuggu þau María alla tíð. Þar var nóg að sýsla. Börnin tóku til hendinni, stelpurnar heima með mömmu en strákarnir voru oftar en ekki í bílskúrnum því hjól, mótorhjól og bílar urðu þeirra ástíða. Þetta var fjörugur hópur og duglegur.

Beggi reyndi margt á sinni ævi. Ungur varð hann fyrir þeirri sorg að móðir hans dó 3 dögum fyrir fermingardaginn hans. Presturinn spurði hvort hann vildi ekki fresta fermingunni en Beggi vildi það ekki. Fermd börn á þeim tíma töldust vera komin í fullorðinna manna tölu. Nú er öldin önnur. Ungt fólk er margt við nám fram undir þrítugt og býr jafnvel heima og allt sem það gerir telst jafnvel til kraftaverka. Beggi var niðri við höfn daginn sem mamma dó. Hann fékk 2 appelsínur gefins úr skipi og fór heim með þær glaður og ætlaði að gefa mömmu aðra en þegar heim kom var hún skilin við. Beggi fór á sjó og var bæði á fiskiskipum og svo farskipum. Hann brosti breitt þegar hann sagði mér að í hverri höfn í útlöndum hefði beðið sín bréf frá Mæju sem sendi þau á undan honum í flugpósti. Ekki fór á milli mála að ástin var sterk og traust alla tíð. Hún vann sem afgreiðslustúlka í London og Beggi tók rúntinn framhjá til að skoða þessa fallegu stelpu sem síðar varð konan hans. Þau eignuðust börnin sína og komust af á erfiðum tímum og misjöfnum. Vinna fyrir vörubílstjóra var óstöðug og árstíðabundin. Yfir vetrartímann var oft lítið að gera og stundum bjargaði það að fá nokkra túra við að keyra snjó af götum og koma honum í sjóinn. Faðir Begga var líka bílstjóri en bílar komu fyrst til landsins 1904.

Fyrsti bíllinn á Íslandi, sem kenndur er við Ditlev Thomsen, kaupmann og konsúl, var fransk-þýskur af svonefndri Cudell-gerð. Alþingi samþykkti árið 1903 að veita 2.000 kr. styrk til að flytja inn bifreið og taldi ráðlegast að einkaaðili stæði fyrir því. Thomsen kaupmaður varð fyrir valinu og sá hann um rekstur bifreiðarinnar. Thomsensbíllinn var smíðaður árið 1900 eða 1901 og var eiginlega orðinn úreltur þegar hann kom til landsins, í raun aðeins hestakerra með vél aftur í. [. . . ] Þorkell Þ. Clementz varð fyrsti bílstjóri Íslendinga, hann kenndi Tómasi Jónssyni að aka og saman ferðuðust þeir um takmarkaða vegi landsins, meðal annars til Eyrarbakka.

Thomsensbíllinn varð líka fyrsti leigubíll landsins. Menn gátu til dæmis keypt ferðir niður Bakarabrekku og í Austurstræti á 25 aura, að því tilskildu að þeir ýttu bifreiðinni fyrst upp brekkuna! Þorkell ætlaði sér að keppa við Thomsensbílinn og mótorhjólin hans höfðu hraðann framyfir, eins og lesa má í auglýsingu í blaðinu Reykjavík, 15. júlí 1905: „Bifhjól eru til sölu. Þau eru svo fljót í ferðum að farið hefur verið á þeim á 19 mínútum milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.“

Ný öld var runnin upp, öld bílanna. Bíll heitir á ensku og fleiri tungum automobile og komu fram ýmsar tillögur um nafn á þessu furðuverki. Orðið bifreið kom nokkuð snemma inn í íslensku, eða rétt eftir að bílar fóru að sjást á Íslandi. En ekki voru allir samþykkir þeirri nafngift í upphafi. Þrír alþingismenn, þeir Jón Ólafsson, Bjarni Jónsson frá Vogi og Matthías Ólafsson, lögðu fram tillögu sem fól í sér að hafna orðinu bifreið en taka þess í stað upp orðið sjálfrenningur. Tillagan var samþykkt. Ýmsar fleiri hugmyndir komu fram, til dæmis lagði Vigfús Guðmundsson til í Ísafold 9. júlí 1913 að kalla bifreiðar þeysivagna eða þeysa; í samsettum orðum vöruþeysir, fólksþeysir o.s.frv. Önnur nöfn sem fram komu á þessum árum voru til dæmis sjálfhreyfivél, sjálfrennireið (sem enn er stundum höfð um bíl í gamansömum tón), skellireið og rennireið.

Þegar Beggi fór að muna eftir sér rétt fyrir 1930 höfðu bílar aðeins verið til í landinu í aldarfjórðung. En hugsið ykkur tæknina sem hann lifði að sjá. Flugvélar komu til sögunnar, stærri og stærri skip, rafknúin heimilistæki af ýmsu tagi, sjónvarp, tölvur og loks farsímar.

Það minnir mig á söguna af manninum sem var nýbúinn að fá sér farsíma skömmu eftir að þeir komu til sögunnar. Hann var staddur upp á Akranesi og þá hringdi síminn og hann svarði: Sæll, Jói, hvernig vissirðu að ég væri á Skaganum!

Beggi ók mikið á stíðsárunum sem var gósentími. Hann ók mörgum hlössum til og frá flugvellinum fyrir Bretann á gamla bílnum sem hann keypti af pabba sínum og var með trépalli en pabbi hafði þá fengið sér nýjan. Síðar eignaðist hann marga góða og gljáfægða vörubíla. Fordinn frá 1959 var flottur, grænn að lit. Seinna setti hann í hann dísilvél þegar bensínið var orðið óheyrilega dýrt en Kalla fannst nú hálfskrítið að heyra nýju vélina glamra svona undarlega í stað rymjandi átta gata vélarinnar frá Ameríku. Svo kom Volvo 1963 og Benz 1966 og aftur 1971 og svo 2 notaðir Benzar og flestir ef ekki allir grænir uns einn appelsínugulur Benz kom undir lokin. Beggi vann til 79 ára aldurs og spurði gjarnan síðustu árin hvort hann ætti ekki að fara að hætt en Leifur sagði gjaran við hann: Þú getur alveg keyrt í 1-2 ár enn. Og Beggi hélt áfram þar til hann taldi nóg komið af kílómetrum.

Beggi hafði alla tíð áhuga á fótbolta og strákarnir hans áttu að verða fótboltahetjur en þeir vildu bara eiga við mótorhjól og bíla. Þeir smíðuðu sér kassabíla um leið og þeir gátu rekið nagla og yfirleitt þegar Beggi þurfti á nagla að halda voru þeir allir horfnir úr skúrnum.

Stelpurnar áttu að vera stelpur og strákar strákar. Þetta var áður en jafnréttisumræðan náði flugi en þær hafa spjarað sig og þjóðfélagið breyst til hins betra fyrir konur og karla líka því við erum öll menn og þurfum að lifa sem eitt mannkyn og virða hvert annað, konur og karlar.

Börnin segja að pabbi hafi verið góður maður. Hann var glettinn og gamansamur en líka strangur og skapmikill. María vann heima, eldaði og bakaði en hann kunni varla að laga kaffi en þegar hún var orðin gleymin og heilsan farin að bila þá hringdi hann gjarnan í dæturnar til að fá uppskriftir eða spurði hvað steikin þyrfti að vera lengi í ofninum. Hann gekk í verkin þegar þess þurfti en hafði lifað við hina gömlu verkaskiptingu milli karla og kvenna.

Ekki má gleyma fólksbílnum sem hann eignaðist á sínum tíma Chevrolette ’55 sem var auðvitað grænn og keyptur notaður á 50 þúsund og borgaður á borðið. Hann var keyrður mörg hundruð þúsund kílómetra enda gamall leigubíll. Beggi var alla sunnudagsmorgna með hann í gangi heima og helti á hann STP og öðrum bætiefnum til að fá ganginn í lag og þegar vökvaundirlyfturnar voru orðnar baðaðar í bætiefnum og ventlarnir farnir að glamra minna var hægt að fara í sunnudagsbíltúr á Þingvöll. Seinna var sett í hann ný vél sem kom úr öðrum samskonar bíl sem var líka með betri afturbrettum og því var afturendinn skorinn af þeim bíl og honum skeytt aftan á hinn og Kalli og Leifur suðu allt saman á Lettann sem varð sem nýr. Þá keyptu menn ekki lúxusvagna á kaupleigusamingum til að monta sig á rúntinum án þess að eiga í bílnum eina skrúfu.

Og þegar Beggi sá Pinto tryllitækið sem Leifur spyrnir á kvartmílubrautinni í Hafnarfirði og nær 100 km hraða á 1 sekúndu talaði hann um hvað bíllinn „orkaði“ svakalega.

Það var alltaf kapp í karlinum og þegar hann var að keyra á vörubílnum og karlarnir á Þrótti kepptust við að ná sem flestum túrum sama daginn þá var hart ekið og reynt að passa að enginn kæmist fram úr öðrum. Gvendur terta reyndi einu sinni heilan dag að komast fram úr Begga en tókst ekki. Beggi á Sveinsstöðum gaf ekkert efir enda þótt karlarnir á Þrótti stríddu honum á því að hann væri með Mæju-kaffi með sér í vinnunni og nesti að heiman. Hann vissi að Mæju-kaffið og smurða nestið hennar var best og óþarfi að kaupa það úti í bæ.

Og nú fer hann ekki í fleiri túra með Mæju-kaffi á brúsa. Þeir tímar eru liðnir og ekki fer hann heldur með barnabörnin út í sjoppu að kupa nammi og kók. En minningarnar lifa.

Ég flyt ykkur sérstaka kveðju frá Páli Hólm, tengdasyni Rósenbergs sem ekki komst itl að vera við útförina.

Lífið er leyndardómur og ævintýri sem er nýtt á hverjum degi. En svo er það allt í einu á enda runnið, síðasti túrinn búinn. Lífsvélin hljóðnar, hjartað hættir að slá, augun sjá ekki lengur og eyrun lokast.

Hvað verður þá um lífið? Hvert fer það? Svar trúarinnar er: Guð geymir lífið. Við erum í hendi Guðs frá getnaði til grafar og um alla eilífð. Vél Guðs hættir aldrei að mala. Hún heldur áfram jafnvel eftir að efnisheimurinn hverfur allur inn í stærsta svarthol geimsins.

Guð er Guð, þótt veröld væri eigi,

verður Guð, þótt allt á jörðu deyi.

Þótt farist heimur

sem hjóm og eimur,

mun heilagt streyma

nýtt líf um geim, Guðs á degi.

Lífið er í hendi Guðs.

Guð blessi minningu Rósinbergs Gíslasonar og Guð blessi þig á lífsins vegi.

Amen.

# # #

Hér er hægt að nálgast ræðu Maríu.

Ægiágripin eins og þau birtust í Morgunblaðinu útfarardaginn 18. mars. 2013.

Rósinberg Gíslason fæddist 28. apríl 1923. Hann lést 7. mars 2013.
Foreldrar hans voru: Gísli Sveinsson, f. 1. apríl 1890, d. 15. febrúar 1988, og Kristín Theodóra Guðmundsdóttir, f. 16. okt. 1901, d. 24. apríl 1937. Systkini: Guðrún, f. 1926, d. 1985; Sveinn, f. 1929.
Kona Rósinbergs var María Bender, f. 27. júlí 1930, d. 19. febrúar 2013. Börn: 1) Karl, f. 16. apríl 1952, d. 29. mars 2004. Eftirlifandi eiginkona hans er Steinunn Steinþórsdóttir, f. 1952. Börn þeirra eru: María Rós, f. 1973, eiginmaður hennar er Hreinn Mikael, börn hennar eru Karl Aron, f. 1982, og Ástrós Anna, f. 1998. Steinþór Carl, f. 1976, eiginkona hans er Bergljót Kvaran, f. 1983, börn þeirra eru Hrafnhildur Lóa, f. 2007, og Lilja Steinunn, f. 2012. Gunnar Dór, f. 1980, sambýliskona hans er Elfa Björk, f. 1978, börn þeirra eru Kjartan Karl, f. 2005, og Svandís María, f. 2012. Karen Peta, f. 1982. 2) Leifur, f. 4. maí 1953. Eiginkona hans var Árelía Þórdís Andrésdóttir, f. 4. desember 1956, d. 8. ágúst 2010. Sambýliskona hans er Kristín Pálsdóttir. Börn Leifs og Dísu eru Leifur Þór, f. 1975, maki Sigrún, f. 1978. Börn þeirra eru Eyrún Alda, f. 2001, Kolbrún Ósk, f. 2003, og Bergrós María, f. 2009. Róbert, f. 1978, maki Kristín, barn hans er Þórdís María, f. 2007 Anna María, f. 1979, maki Róbert Ragnar, f. 1979, börn þeirra eru Guðrún Emma, f. 2009, og Benedikt, f. 2012. Karl Kristján, f. 1983, sambýliskona hans er Angeline Theresa f. 1976. 3) Kristín, f. 21. apríl 1955. Hennar börn eru Theodór, f. 1974, Heiða, f. 1977, hennar börn eru Kristín Lilja, f. 2003, og Sunneva Rós, f. 2009. Kristín Jóna, f. 1984. Maki Guðjón Ólafur, f. 1979, þeirra börn eru Eygló Hulda, f. 2005, og Andri Hrafn, f. 2008. Berglind, f. 1991. Sambýlismaður Hlynur Þór. 4) Guðrún, f. 10. desember 1959. Maki Páll Hólm, f. 1954. Þeirra börn eru Elín, f. 1983, maki Marteinn Svanbjörnsson, f. 1982. Þeirra barn er Axel Leví, f. 2009. Rúnar Páll, f. 1986. Ómar, f. 1991. 5) Hrefna, f. 25. apríl 1064. Sambýlismaður hennar er Guðjón Elí Sturluson, f. 1959. Börn Hrefnu eru Elísa, f. 2004, og Fríður, f. 1984, maki Fríðar er Ríkarður Ríkarðsson. Þeirra barn er Gabríel Blær, f. 2012.
Útför Rósinbergs fer fram í Neskirkju í dag, 18. mars 2013, kl. 13.

url: http://ornbardur.annall.is/2013-03-18/rosinberg-gislason-1923-2013/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

örnbárður.annáll.is - » María Bender 1930-2013 @ 18/3/2013 14.10

[...] Ræðuna yfir Rósinberg manni hennar sem lést 16 dögun á eftir henni er hægt að nálgast hér. [...]


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli