örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Illugi Steinar Franksson 1973-2013 · Heim · Rósinberg Gíslason 1923-2013 »

Halldór Ólafsson 1928-2013

Örn Bárður @ 15.00 15/3/13

halldorolafssonMinningarorð
Halldór Ólafsson
fv. útibússtjóri
1928-2013

Bálför frá Neskirkju
föstudaginn 15. mars 2013 kl. 13

Ræðuna er hægt að hlusta á hér fyrir neðan og einnig lesa.

Hver er maðurinn? Þannig var gjarnan spurt forðum daga þegar fólk hittist og vildi vita deili hvort á öðru. Hver er maðurinn? Nú er oftar spurt: Hvað gerir maðurinn? Sú þróun lýsir vissri mynd af nytjahyggju. Við gerum eitt og annað. Hlutverk okkar í lífinu eru mörg og margvísleg. En þegar öllu er á botninn hvolft skiptir það líklega engu hvað við fáumst við á lífsleiðinni heldur hitt hvað við erum innst inni. Eðli og innræti skiptir meira máli en ytri umbúðir. Hver er maðurinn? Hver er ég? Hver ert þú?

Í einu merkasta riti heimsbókenntanna, Jóhannesarguðspjalli, eru þekktar setningar hafðar eftir áhrifamestu persónu mannkynssögunnar, Jesú Kristi. Þar vísa ég til orða er hann lýsir sjálfum sér. Þessar setningar eru nefndar: Ég-er-setningarnar, á grísku EGO EIMI. Við þekkjum öll þessi orð:

Ég er brauð lífsins

Ég er ljós heimsins

Ég er dyrnar

Ég er vínviðurinn

Ég er góði hirðirinn

Ég er upprisan og lífið

Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið

Jesús Kristur vissi hver hann var. Hann hafði þá vitund að hann væri frá upphafi vega, frá því áður en veröldin varð til, áður en tíminn tók að tifa.

Og tíminn líður og við fæðumst inn í þennan heim tímans. Ævin er stutt, örfáar þverhendur, segir sálmaskáldið í hinni helgu bók, nokkrir þumlungar eða sentímetrar myndu menn segja í dag.

Við fæðumst, lifum og deyjum. Er það allt of sumt? Erum við aðeins börn tímans eða erum við jafnframt börn eilífðar? Til hvers kom hann sem kallaði sig Ég-er inn í þessa veröld tímans? Kom hann bara í heimsókn si svona eða kom hann til að setja mannlíf allt í hið stóra samhengi, tengja það í báðar áttir, frá eilífð til eilífðar? Og meira en í báðar áttir! Í allar áttir! Þetta snýst ekki bara um fortíð og framtíð án upphafs og endis, heldur snýst það líka um víddirnar upp og niður, himinn og jörð, hið upphafna og hið jarðneska, hið himneska og veraldlega. Hver erum við í þessum stóru víddum? Hver er ég? Hver ert þú?

Hann situr í brekkunni heima og tálgar fugla í tré og stein. Alabastur finnur hann í hlíðinni fyrir ofan bæinn. Undir dalanna sól er gott að alast upp hjá pabba og mömmu sem elska og dá drenginn sinn, eina barnið sem komst á legg. Hann nýtur umhyggju og elsku. Hann er studdur til góðra verka og fær að njóta alls þess besta sem lífið þá gat veitt, góðs atlætis, góðrar skólagöngu og menntunar. Efniviðurinn var góður, skaplyndið gott, heiðríkja í sál og sinni.

Ég man hann ekki nema brosandi og bjartan. Handtakið var traust og hlýtt og tekið með sveiflu. Hann dró mann að sér, brosti eins og sólin, spurði um eitthvað forvitnilegt eða fór með eitthvað fróðlegt. Orð postulans eiga vel við um hann:

„Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd.“

Halldór fæddist í Neðri-Vífilsdal, Hörðadal í Dalasýslu 6. mars 1928. Hann lést á Landspítalanum 4. mars 2013. Foreldrar hans voru hjónin Laufey Teitsdóttir frá Hlíð í Hörðadal, fædd 5. maí 1898, dáin 1976 og Ólafur Br. Gunnlaugsson bóndi í Neðri-Vífilsdal, fæddur 27. september 1892, dáinn 1974.

Halldór ólst upp í Neðri-Vífilsdal til 15 ára aldurs en flutti til Reykjavíkur með foreldrum sínum 1943. Þau bjuggu fyrst í Sogamýrinni í nánd við Meltungu, en fluttu síðan að Þormóðsstöðum á Grímsstaðarholtinu.

Halldór hóf nám í Ingimarsskólanum þegar hann kom til Reykjavíkur og fór síðan í Menntaskólann í Reykjavík og lauk stúdentsprófi vorið 1950.

Halldór var gæfumaður og eins og gerist í öllum alvöru ævintýrum hitti hann aðra gæfumanneskju sem varð lífsförunautur hans. Þau sáust fyrst í afmælisveislu í Skerjafirði en Halldór kom þangað léttfættur úr Laugarnesi, sagði hún mér með glampa í augum.

Þau gengu í hjónaband 20. nóvember 1954, Halldór og Erla Björgvinsdóttir. Hún starfaði lengst af sem ritari hjá ríkisskattstjóra, f. 7. desember 1930 en var auk þess fyrirmyndar húsmóðir og frábær lífsförunautur. Hún er dóttir Jónínu Mettu Bergsdóttur húsmóður, f. 16. október 1902,  d.1983 og Björgvins Friðrikssonar bakarameistara, f. 17.júní 1901, d. 1989.

Börn Halldórs og Erlu eru: Hildur, sérkennari f. 4.janúar 1956 og Ólafur Brynjar, arkítekt, f. 20. júlí 1957.

Hildur er gift Jónasi Kristjánssyni, bankamanni, f. 5. maí 1958. Börn þeirra eru Halldór, nemi í H.Í., f. 13. október 1988 og Helga nemi í H.Í., f. 17. mars 1990.
Halldór fór í Háskóla Íslands og var tvö ár í viðskiptafræði. Hann hóf störf í Búnaðarbanka Íslands haustið 1953 og vann þar allan sinn starfsaldur til ársloka 1997. Hann vann í verðbréfadeild bankans, varð útibússtjóri í Garðabæ og síðar forstöðumaður skjalasafns bankans.

Halldór var mikill fjölskyldumaður. Börnin og barnabörnin nutu áhuga hans og elsku, umhyggju hans og atlætis. Hann las fyrir barnabörnin og sagði þeim sögur. Halldór laðaði að sér börn og gaf sig að þeim. Hann var ættrækinn og ræddi oft um Dalina og svo fór hann gjarnan með heilu síðurnar utanbókar úr Íslendingasögum, Eyrbyggju, Laxdælu, Njálu og fleirum. Þá minnist fjölskyldan þess að oft fór hann með upphafssíðurnar úr latnesku lestrarbókinni úr MR sem hann þuldi stafrétt.

Halldór var stálminnugur og fróður, víðlesinn og vel að sér um allt milli himins og jarðar. Hann var eins og besta gúgl löngu áður en slíkt undur var fundið upp. Hann gat þulið upp ártöl og atburði, vísur og kveðskap, sögur og sagnir. Ef keppnin Gettu betur hefði verið til á menntaskólaárum Halldórs hefði hann án efa lent í liði skólans en síðar á ævinni tók hann þátt í spurningakeppni í Útvarpinu og lagði þar hvern mannin á fætur öðrum. Hann settist varla í stól um ævina án þess að hafa bók í hönd.

Halldór var mjög félagslyndur og eignaðist marga góða vini innan bankans og einnig meðal viðskiptavina. Honum var mikið í mun að skólafélagar úr MR héldu hópinn og var hann einn af þremur sem sáu um að hópurinn hittist árlega.

Hann sótti nám í Handíða- og myndlistarskólanum, var í stjórn Hjálparstofnunar kirkjunnar og í stjórn Sögufélags frá 1984-1988  og var endurskoðandi ársreikninga félagsins í nokkur ár.

Hann var mikill áhugamaður um lestur bóka, um laxveiði, skák, fuglaskoðun, ferðalög, söfnun penna, hann teiknaði og málaði og skrautritaði í bækur og skjöl. Verk hans eru til í Vatíkaninu þar sem nú er kominn nýr húsbóndi og víðar á merkum stöðum og stofnunum, heimilum og háskólum. Þá hannaði hann fagra gripi sem aðrir mótuðu í silfur, bæði skeiðar og skart. Sumt tengt skákeinvíginu stóra og annað handa fjölskyldunni.

Halldór gekk í Frímúrararegluna 1983 og hafði bæði gagn og gleði af þeim félagsskap. Hann las mikið um Regluna og sökkti sér niður í fræði hennar sem snúast um mannrækt á kristnum grunni. Hann las fræði Reglunnar jafnan með Biblíuna við hönd því hann sá skyldleikann svo víða. Bræður hans í Reglunni heiðra minningu hans með heiðursverði hér í dag og sem líkmenn. Að auki fylgir honum fjöldi bræðra. Hann vann af áhuga í Reglunni og oft sat hann og ritaði með sinni listrænu hönd m.a. nafnspjöld fyrir stórveislur og fundi. Í seinni tíð voru menn farnir að prenta slíkt úr tölvum en það þótti Halldóri nú ekki jafnast á við alvöru skrift!

Halldór og Erla tóku virkan þátt í safnaðarstarfi hér í Neskirkju. Þau voru virk í starfi eldri borgara sem nú heitir Opið hús og komu oft í starf á laugardögum í tíð séra Franks og annarra forvera minna hér.

Halldór var náttúruunnandi. Hann ferðaðist víða, tók myndir og skoðaði héruð og sveitir. Hann hafði þó ekki farið mikið um Vestfirði en þó komið til Ísafjarðar á skákmót. Seinna ók hann um Vestfirði í fyrsta sinn og það kom samferðafólki hans á óvart að hann þekkti þar hvern bæ, hvern stein og vík, fjall og fjörð. Hann var búinn að fara um allt svæðið í bókum áður en hann lagði upp í för. Ferðagarpurinn og skáldið góða, Jónas Hallgrímsson, orti:

Eg er kominn upp á það
- allra þakka verðast –
að sitja kyrr í sama stað,
og samt að vera’ að ferðast.

Hann fór reglulega út á Seltjarnarnes til að kíkja á kríuna og á Mýrdalssand til að skoða skúminn. Og nú er lóan komin. Sést hefur til hennar óvenju snemma. Fyrst sást hún á Útskálum á Suðurnesjum fyrr í vikunni. Hún kom fljúgandi frá meginlandinu þar sem verið hefur óvenju kalt upp á síðkastið. Hún flaug í gegnum élin og til landsins bjarta og fagra, þessi litli fugl sem gefur allri þjóðinni von á hverju vori.

Í Biblíunni er trúin skilgreind á einum stað með örfáum orðum. Þar segir:

„Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ (Heb 11.1)

Lóan er komin, sumarið kemur og trén sem enn sofa eiga öll eftir að laufgast. Veturinn deyðir en sumarið lífgar. Ekkert líf án dauða. Enginn dauði án lífs.
Lóan er trúaður fugl. Lóan trúir á Ísland og hún trúir á sumarið, hún trúir á bjartari tíð. Hugsum til lóunnar þegar við örvæntum um hag Íslands. „Lítið til fugla himinsins“, sagði Jesús.

Halldór var trúaður maður. Hann þekkti helga texta og þau fyrirheit sem Bókin mikla flytur um lífið og hið stóra samhengi. Hann þekktir oðin hans sem vissi hver hann var og sagði: EGO EIMI – Ég er!

Hann sagið ekki aðeins: „Ég er ljós heimsins“, heldur sagði hann líka: „Þér eruð ljós heimsins.“

Hvað við gerum í lífinu skiptir okkur öll miklu máli en hitt skiptir meiru hver við erum. Hver erum við? Hver er ég? Hver ert þú?

Í fyrsta kafla Jóhannesarguðspjalls er fyrirheit um það sem við getum verið eða orðið. Þar er talað um hann sem var frá upphafi, um Orðið, LOGOS, sem er fyrri en allt. Hann varð hold. Hann varð manneskja í Jesú Kristi. Og svo kemur fyrirheitið:

„En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans.“

Við erum eða getum í það minnsta orðið Guðs börn skv. þessum texta og það skiptir öllu máli
Hvað gerir maðurinn? er oft spurt. En áður var gjarnan sagt: Hver er maðurinn?

Svar okkar við þessum spurningum er vonandi þetta: Ég er Guðs barn.

Það er hið mikla þakkarefni alla daga lífsins og ekki síst þegar við kveðjum látinn ástvin að eiga þetta fyrriheit um að vera eða geta orðið Guðs barn.
Hið stóra samhengi er lárétt og nær til beggja átta, frá eilífð til eilífðar, og enn fremur lóðrétt, milli himins og jarðar. Þar erum við í miðju krossins þar sem ásarnir mætast og allt er í réttu samhengi. Þar er Kristur og þar erum við, ég og þú. Við erum á krossgötum þar sem hann er sem sagði:

„Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið“.

Við kveðjum Halldór Ólafsson á krossgötum. Hér skiljast leiðir en samt erum við öll á einum og sama vegi, lífs og liðin, börn Guðs á ferð í tilveru sem er svo miklu stærri en við getum ímyndað okkur.

Lífið er ævintýri. Það er undur að fá að vera til og lifa í heimi Guðs sem hann elskar og annast.

Halldór ritaði margt fagurt um ævina og hafði fallega rithönd sem forðum daga var talið til sérstakrar prýði og spurt um þegar hæfileikar manna voru metnir.
Hið ritaða orð skiptir miklu. Arfur Íslendinga sem ritaður var fyrir mörgum öldum er enn uppspretta menningar og mennta og jafnvel auðs því enn flytjum við út mennngu og menntir, sögur gamlar og nýjar. Þannig er nú menning okkar á við margar verksmiðjur.

Talað orð og ritað.

Í Opinberunarbók Jóhannesar segir:

„Og ég heyrði rödd af himni sem sagði: „Rita þú: Sælir eru dánir, þeir sem í Drottni deyja upp frá þessu. Já, segir andinn, þeir skulu fá hvíld frá erfiði sínu því að verk þeirra fylgja þeim.““

Verkin fylgja en mestu skiptir þó hver við erum – að við erum Guðs börnb.

Guð geymi Halldór og Guð geymi Erlu, Ólaf Brynjar, Hildi og Jónas, Halldór og Helgu, ástvini alla og samferðarfólk.

Halldór er falin hinum hæsta höfuðsmiði himins og jarðar, honum sem sagði: „Ég er“. Hann veit hver við erum og hann veit hver Halldór var og er.
Guð blessi minningu Halldórs Ólafssonar og Guð blessi þig.

Amen.

url: http://ornbardur.annall.is/2013-03-15/halldor-olafsson-1928-2013/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli