örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Guðni Albert Guðjónsson 1931-2013 · Heim · Halldór Ólafsson 1928-2013 »

Illugi Steinar Franksson 1973-2013

Örn Bárður @ 20.56 14/3/13

illugisteinarfrankssobnMinningarorð
Illugi Steinar Franksson
1973-2013

Útför í kyrrþey frá
Fossvogskapellu 14. mars 2013
Jarðsett í Gufunesi

Ræðuna er hægt að hlusta á hér fyrir neðan og einnig lesa.

Lóan sást á Suðurnesjum í gær við Útskála. Hún mætir óvenju snemma þetta árið enda kalt á meginlandi Evrópu. Hún gefur allri þjóðinni von, þessi litli fugl. Lóan trúir á landið, hún trúir á sumarið.

Í hinni miklu trúarbók, Biblíunni, er trúin aðeins skilgreind á einum stað með örfáum orðum. Þar segir:

„Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ (Heb 11.1)

Lóan er komin, sumarið kemur og trén sem enn sofa eiga öll eftir að laufgast. Og blómin, þau mun brjótast upp úr moldinni og brosa mót sumarsól. Vetur hverfur, vorið kemur og sumar með sól og blóm.

Lífið er dásamlegt og fagurt en það hefur jafnframt sínar skuggahliðar. Það er undur að fá að vera til en það er líka flókið að vera manneskja. Ótal þættir þurfa að samstillast til að lífið dafni og verði til gleði og ánægju. Við réðum engu um fæðingu okkar. Við urðum til fyrir tilviljun eina við það að ein agnarlítil fruma, ein af milljónatugum, fann eitt lítið egg af mörgum. Lífið sem varð til hafði í sér forrit með ótal upplýsingum um andlegt og líkamlegt atgervi. Íslendingar hafa löngum haldið því fram að fórðungi bregði til fósturs þ.e.a.s. að uppeldið móti okkur að einum fjórða hluta. Annars var talað um það forðum að 1/4 kæmi frá föður og 1/4 frá móður og 1/4 kæmi af mótunaráhrifum nafnsins sem við berum og loks væri það uppeldið. Hér eru ekki til neinar sannanir en svona var nú þetta litið hér áður fyrr og kannski er hin forna speki best.

Hvað verður úr fóstri sem dafnar í móðurkviði veit enginn. Lífið er leyndardómur og áhrifaþættir eru margir. Hver er sinnar gæfu smiður, segir á einum stað en ekkert verður alhæft í þeim efnum því ávallt skiptir það miklu máli hvernig gefið er í upphafi.

Illugi Steinar fæddist 6. maí 1973. Foreldrar hans eru Ingveldur Vigdís Illugadóttir f. 8. ágúst 1951 og Frank Óskar Guðmundsson f. 15. september 1949. Hann var fyrstu fjögur árin hjá móðurforeldrum sínum sem léttu undir með móður hans. Foreldrar Ingveldar eru Illugi Hallsson se lést 1984 og Steinunn Hafliðadóttir sem lést í maí í fyrra.

Fjögurra ára flytur hann til Ísafjarðar til föðurforeldra sinna Mildrid og Guðmundar B. Sigurðssonar að Hlíðarvegi 5. Milla (30.8.1925 – 4.1.2009) og Guðmundur (7.4.1925-29.2.2000) reyndust honum vel.

Illugi Steinar var myndarlegur drengur með ljóst hár og brún augu eins og móðir hans. Hann kom til afa og ömmu vegna erfiðleika hjá Ingveldi en Frank og hún bjuggu ekki saman og gátu ekki annast hann sem skyldi. Hann átti góða daga hjá ömmu og afa á Ísafirði, var tápmikill strákur og átti góða vini.

Enginn vissi í raun þá að hann glímdi við veikindi sem síðar komu í ljós en þegar Illugi Steinar var orðinn rúmlega tvítugur greindist hann með geðsjúkdóm en áður hafði borið á depurð og fælni hjá honum um nokkurt skeið sem einkum fram í því að hann lokaði sig af. Hann var alla tíð mjög barngóður og í veikindum sínum þegar hann vildi helst ekki fá fólk inn í herbergið sitt máttu börnin alltaf koma.

Sem ungur strákur var hann á skíðum eins og mörg ungmenni á Ísafirði og tók þátt í lífinu eins og gengur og gerist.

Hann starfaði um árabil við löndum hjá fyrirtæki Magnúsar Haukssonar.

Hann flutti suður 1998 vegna veikinda sinna og eftir að hann greindist rétt átti hann nokkur góð ár án eiturlyfja sem ekki eru nú þeirrar gerðar að bæta ástand sjúkra einstaklinga.

Síðustu árin bjó hann á sambýli að Miklubraut 20. Þá var stutt fyrir hann að fara til mömmu yfir í Hátúni. Hann labbaði oft til mömmu þar til hún varð fyrir áfalli í haust og flutti að Fellsenda sem er dvalarheimili í Dalasýslu. Hún kveður hann hér ásamt systkinum sínum og ættmennum.

Hann var sagður hógvær og prúður. Hann hafði mikinn áhuga á tónlist og hljómsveitin Guns n’ Roses var í miklu uppáhaldi hjá honum ásamt fleiri hljómsveitum. Við heyrðum áðan forspil með lagi þeirrar hljómsveitar og annað verður leikið þegar kistan verður borin út.

Illugi Steinar hafði gaman af ýmsu í sjónvarpi og kvikmyndum og hló t.d. mjög dátt þegar Mr. Bean var á skjánum.

Lífið er skemmtilegt, dásamlegt og saklaust – í það minnsta þegar maður horfir á Mr. Bean. En það er ekkert grín að glíma við geðraskanir og geðveiki. Geðsjúkdómar eru eins og nafnið ber með sér, sjúkdómar eins og aðrir sjúkdómar. En það sem gerir geðsjúkdóma þungbærari en marga aðra eru fordómarnir sem fólk hefur gegn geðsjúkum. Það er þyngra en tárun taki. Margt hefur verði gert á liðnum árum til að hamla gegn slíku og mikill árangur orðið af kynningarstarfi Geðhjálpar og fleiri samtaka og stofnana.

Líf ungs fólks í dag er mun flóknara en forðum daga og hætturnar fleiri og meiri, en um leið eru tækifærin stórkostleg og möguleikar ungs fólks til menntunar, starfa og þátttöku í fjölbreyttum verkefnum lífsins miklir og spennandi.

Verkefni okkar í lífinu er mörg. En hver eru þau helst? Mikilvægasta hlutverk allra manna er að elska náungann, að láta gott af sér leiða, að nýta gáfur sínar og krafta öðrum til góðs. Jesús orðaði þetta þannig að við ættum að elska Guð og náunga okkar eins og okkur sjálf. Að lifa fyrir aðra með heilbrigðum hætti er leið hamingjunnar. Þau sem lifa aðeins fyrir sig sjálf finna ekki hamingjuna því hún er ávöxtur elskunnar, vextirnir af innlánsreikningi kærleikans.

Þau voru mörg sem reyndust Illuga Steinari vel eftir aðstæðum, kunnáttu og getu. Mamma og pabbi reyndu sitt, afar og ömmur bæði í Helgafellssveitinni og á Ísafirði, ennfremur frændfólk og vinir. Fólkið sem annaðist hann á Miklubrautinni reyndist honum vel og því er hér með þakkað fyrir elskusemi og þjónustulund.

Illugi Steinar hefur lokið lífsgöngu sinni. Hún varð allt of stutt og erfið en nú hefur hann hlotið hvíld.

Við kveðjum hann með söknuði og þökk. Ástvinir hans finna til vanmáttar þykist ég vita. Við erum svo ráðalaus gagnvart sumu í lífinu. [Innskot: Sjá hljóðupptöku]. Lífið er viðkvæmt, eins og blóm sem gægist upp úr moldinni í vorhreti.

Séra Hallgrímur líkir lífinu við gróður sem stendur stutt og segir:

Allt eins og blómstrið eina
upp vex á sléttri grund
fagurt með frjóvgun hreina
fyrst um dags morgunstund,
á snöggu augabragði
af skorið verður fljótt,
lit og blöð niður lagði -
líf mannlegt endar skjótt.

Hann minnir líka á æskuna og unga fólkið sem dauðinn nær einnig – því hann fellir að lokum alla menn:

Svo hleypur æskan unga
óvissa dauðans leið
sem aldur og ellin þunga,
allt rennur sama skeið.
Innsigli engir fengu
upp á lífsstunda bið,
en þann kost undir gengu
allir að skilja við.

[Innskot: Sjá hljóðupptöku]

Við kveðjum Illuga Steinar og biðjum Guð að geyma hann í faðmi sínum. Hann var vígður ríki Guðs og himni hans í heilagri skírn með sigurtákni krossins á enni og brjóst, upprisutákninu mikla. Megi hann njóta nýs lífs í nýjum heimi þar sem enginn þjáist.

Guð blessi minningu Illuga Steinars Frankssonar og Guð blessi þig.

Amen.

Jarðsett í Gufuneskirkjugarði

url: http://ornbardur.annall.is/2013-03-14/illugi-steinar-franksson-1973-2013/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli