örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Ásgerður Jónsdóttir 1919-2013 · Heim · Illugi Steinar Franksson 1973-2013 »

Guðni Albert Guðjónsson 1931-2013

Örn Bárður @ 17.04 4/3/13

gudnialberggudjonssonMinningarorð
Guðni Albert Guðjónsson
rennismíðameistari frá Súgandafirði
1931-2013
Útför frá Neskirkju
mánudaginn 4. mars 2013 kl. 13

Ræðuna er hægt að hlusta á hér fyrir neðan og einnig lesa

Í kvæði um Súgandafjörð segir:

Nú angar af sumri um Súgandafjörð -
og sólin blessar þann reit,
en fögur og stolt halda fjöllin vörð
og friðsæla vernda sveit,
því vindar blása um hauður og haf,
en hérna er oft svo rótt.
Hér er ylur frá öllu, sem andar og hrærist
og indæl vorsins nótt.
Gunnar M. Magnúss

Þegar ég var drengur á Ísafirði og var að komast til vits og ára skynjaði ég fjótt að í Súgandafirði var gott mannlíf. Þar var góður andi og gott fólk. Sumarið 1965 var ég í vegavinnu. Vinnuflokkurinn bjó í tjöldum nærri Botni hluta af sumri og við unnum við það að bera ofan í veginn þaðan og út að Stað. Sumarið var fagurt og sólin skein. Vörubílstjórarnir á Suðureyri komu með ofaníburðinn, Eddi Sturlu, Þórhallur og fleiri og við strákarnir stóðum með skóflurnar og dreifðum úr hlössunum. Ísfirðingar sóttu oft skemmtanir á Suðureyri og ég man það t.d. þegar Raggi Bjarna kom vestur með hljómsveit og skemmtikröftum og nánast allir Súgfirðingar mættu á skemmtunina. Svo fóru yngstu börnin heim og þá byrjaði ballið með þeim sem voru komin yfir fermingu eða svo. Samstaða Súgfirðinga var einstök og gleðin sem ríkti á meðal þeirra var hrein og tær.

Haustið eftir vegavinnuna, eftir að okkur snjóaði inni í búðunum okkar á Breiðadalsheiðinni í ágúst, hélt ég suður og settist á skólabekk. Meðal skólasystkina voru nokkrir nemendur af Suðureyrir, vel gert fólk og vandað.

Mannlífið í fjörðunum fyrir vestan snerist um útgerð og fiskvinnslu og á Suðureyri voru margir öflugir sjósóknarar og vel rekin fyrirtæki í landi. Flotinn þarfnaðist þjónustu og þar var smiðjan hans Guðjóns mikilvæg. Þar logaði í aflinum og karlarnir komu í smiðjuna sem var fundarstaður og einskonar heiti potturi staðarins þar sem málin voru brotin til mergjar. Um aldir hefur maðurinn beislað afl eldsins og smíðað úr málmum plógjárn og sverð. Skáldið Davíð Stefánsson orti um Höfðingja smiðjunnar og verður það sungið hér á eftir. Kvæðið minnir á Guðna sem keyrði belginn og æsti eldinn í smiðjunni og hamraði járnið meðan það var heitt eins og faðir hans og bróðir gerðu einnig.

Hann var myndarlegur á velli, hávaxinn og samsvaraði sér vel. Það var eftir honum tekið og yfir honum mikil reisn. Hann var dökkur á brún og brá eins og móðir hans og systkinin öll.

Nafn sitt hlaut hann af móðurbróður sínum, sem kallaður var kóngabani en hann hafði lagt glímukóng að velli en varð sjálfur að lúta í lægra haldi fyrir dauðanum ungur að árum er hann lést úr botnlangabólgu. Svona var lífið nú á bláþræði þá og er reyndar enn þótt með öðrum hætti sé því hætturnar eru ýmsar og sumar með öðru móti en áður.

Guðni var hlédrægur og dulur á tilfinningar sínar á yngri árum en opnari og ræðnari með aldrinum. Hann var traustur og bóngóður, studdi stelpurnar sínar þegar þær leituðu til hans, og var stoltur af námsárangri þeirra og dugnaði.

Hann var einstaklega barngóður og bar dætur sínar, barnabörn og barnabarnabörn á höndum sér þegar þau voru ung að árum, spilaði við þau og lék, og sýndi þeim umtalsverða þolinmæði. Ótal ljósmyndir bera því vitni og sjálfur var hann líka duglegur að taka myndir á sínum yngri árum. Töluvert magn „slides“-mynda hans er fjársjóður minninga fyrir afkomendurna.

Guðni var mikill hagleiksmaður eins og Guðjón faðir hans. Það lék allt í höndunum á honum og dætrum hans fannst hann geta „allt“. Hann hafði sérstaklega fallega rithönd og honum lét vel að smíða úr málmi og gerði marga fagra smíðisgripi, t.d. mörg handrið sem prýða hús á Suðureyri, að innan og utan, þar á meðal sjúkraskýlið þar sem nú er rekið hótel. Einnig smíðajárnskertastjaka sem dætur hans varðveita til minningar um listfengi föður síns.

Í félagi við frænda sinn, Guðna Ólafsson, byggði Guðni reisulegt steinhús á Suðureyri fyrir sig og fjölskyldu sína og stendur það við Eyrargötu 4. Hann reisti einnig sumarbústað með aðstoð tengdasona sinna í Hraunborgum í Grímsnesi og var það sælureitur þeirra hjóna í fjölda mörg ár. Barnabörnin eiga þaðan margar góðar minningar og sama gildir um dætur og tengdasyni. Yfirleitt svignaði borðið þar undan veitingum því Sigríður og Guðni voru höfðingjar heima að sækja. Fyrir fáum árum fór Guðni með dóttur sinni á námskeið í silfursmíði og smíðaði þar silfurhringi og -hálsmen fyrir eiginkonu sína og dætur. Hann hafði greinilega engu gleymt þegar kom að því að sveigja málma og sjóða saman. Ungan dreymdi hann um að verða gullsmiður en rennismíðin varð hans starf, smiðjan hans ríki og gripirnir hans mikilvægir hlekkir í gangverki skipa og samfélags.

Foreldrar Guðna voru hjónin Rebekka Kristín Guðnadóttir (f. 8. sept. 1892, d. 14. sept. 1964) og Guðjón Halldórsson, járn- og vélsmiður (f. 16. apríl 1882, d. 24. febr. 1960). Þeim Rebekku og Guðjóni varð 6 barna auðið og er Guðni yngstur.

Þau eru í aldursröð: Egill, f. 11. des. 1917, d. 31. okt. 1988; Halldór, f. 3. okt. 1919, d. 17. mars 1922 og Guðríður, f. 10. maí 1921, d. 12. sept. 1998, sem eru látin, Jóhanna, f. 28. maí 1926 og Guðrún, f. 15. mars 1928, sem lifa yngsta bróðurinn, Guðna Albert.

Um Guðjón föður Guðna segir m.a. í Súgfirðingabók: „Þegar Guðjón settist að í Súgandafirði, voru vélbátarnir að koma hver af öðrum, en enginn sem við þeim tók kunni neitt á vélar. En oft urðu bilanir á vélunum. Þá kom hinn ólærði smiður frá Hóli í Önundarfirði, sem aldrei hafði séð vélar áður, og tók að aðstoða menn og gera við bilaða hluti, taka sundur vélar og setja saman aftur, kveikja rör, sverfa, smíða nýja hluti. Guðjón vann sýknt og heilagt og mátti raunar aldrei um frjálst höfuð strjúka vegna anna. Útgerðin treysti á starf hans og hæfileika.“

Sagt er að glettni og góðsemi hafi geislaði af ásjónu Guðjóns föður hans, þar sem hann stóð við aflinn og sló til glóandi járnið og gneistaflug í allar áttir. Smiðjan mun hafa verið samkomustaður karlanna í þorpinu og krakkar komu þar við og fengu gert við hjólin sín eða fylgdust með því sem fram fór á þessu verkstæði þar sem gert var við alla skapaða hluti og vélar sem voru forsenda þess að bátar færu á sjó og menn gætu dregið björg í bú. Það sama gilti eftir að Guðni og Egill bróðir hans tóku við smiðjunni 1958 og glettnina og góðsemina fengu þeir bræður í föðurarf. Guðni var gamansamur þegar þannig lá á honum og hélt hann í húmorinn fram á síðasta dag þrátt fyrir erfið veikindi.

Guðni ólst upp á Suðureyri og stóð hús foreldra hans á fjörukambinum. Við hlið þess var smiðja föður hans. Hann þótti að eigin sögn nokkuð baldinn krakki. Hann var bráðþroska og lærði ungur að lesa. Hann var alla tíð mikill íslenskumaður og hafði gaman af vestfirskum fróðleik. Guðni fór snemma til sjós og var ungur að árum smali í Staðardal hjá frænda sínum. 19 ára gamall tók hann mótorvélstjórapróf á Ísafirði og nam seinna rennismíði í Vélsmiðjunni Héðni í Reykjavík.

Guðni kvæntist 30. júní 1956, Sigríði Friðrikku Jónsdóttur, f. 27. maí 1937, frá Flateyri við Önundarfjörð,. Þau kynntust á Flateyri en þangað kom hann 1954 sem vélstjóri á bát sem hét Báran.

Þau sigldu með Bárunni til Reykjavíkur, sama ár, þar sem þau trúlofuðu sig. Þau komu vestur aftur og Guðni fór á síldveiðar. Í kjölfarið fluttu þau til Reykjavíkur, hann til að læra rennismíði og hún fór í Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Guðni var á þessum árum líka í siglingum. Hann fór t.d. með Arnarfellinu til New York þar sem hann keypti brúðakjól á verðandi brúði sína.
Þau fluttu aftur til Suðureyrar árið 1958 og keyptu lítið hús sem þau gerðu upp.

Þegar hann kom vestur réð hann sig sem vélstjóra á bát sem verið var að smíða í Danmörku. Þar dvaldist hann í nokkra mánuði til að fylgjast með þegar vélin var sett í bátinn. Í Danmörku keypti hann búslóð sem hann flutti heim með bátnum. Sum þessara húsgagna eru enn í notkun, til dæmis svefnherbergishúsgögn og sófaborð. Guðni og Sigríður eignuðust fimm dætur. Þær eru:

Rebekka Kristín
Anna Ólafía,
Arnfríður Lára,
Kristín og
Jóna Björk.

Nánari upplýsingar um fjölskylduna er finna í Morgunblaðinu í dag og verða þær upplýsingar einnig birta á vefsíðu minni ásamt ræðunni.

Guðni vann alla tíð mikið til að sjá ört stækkandi fjölskyldu farborða og oft myrkranna á milli, sérstaklega á Suðureyri. Fyrstu árin í Reykjavík voru líka krefjandi en þá voru dæturnar orðnar fimm og miklar efnahagsþrengingar í þjóðfélaginu. Löngu síðar sagði Guðni frá því að um það leiti sem elsta dóttirin fermdist og bíllinn bilaði í miðjum fermingarundirbúningi hafi honum fundist erfitt að ná endum saman. Hann var alla tíð meðvitaður um ríkidæmi sitt sem fólst í samheldnum systkinum, stórum frændgarði, góðri eiginkonu og mannvænlegum dætrum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Nýverið gladdi það hann að heyra að í Litháen væru menn sem eignuðust bara dætur kallaðir gullsmiðir.

Guðni Albert var gjarnan kallaður Lalli og eiginkonan, Sigga Lalla í Smiðjunni.

Guðni og Sigríður ferðuðust bæði innanlands og utan. Til Danmerkur, Englands, Frakklands, Spánar og nokkuð oft til Noregs þar sem elsta dóttirin Rebekka hefur búið í 38 ár og Stefán tvíburabróðir Sigríðar enn lengur. Óhætt er að fullyrða að alltaf áttu heimahagarnir fyrir vestan stórt pláss í hjarta hans.

Guðni og Sigríður héldu upp á gullbrúðkaup sitt 2006 og sumarið 2011 héldu dæturnar honum veislu í tilefni áttræðisafmælis hans. Hún var einstaklega vel heppnuð og í minnum höfð. Sjálfur var hann glaður á þessum sólríka degi og sagðist hann alls ekki hafa átt von á að ná svona háum aldri.

Guðni og Sigríður bjuggu í 25 ár á Nesvegi 63 í Reykjavík og síðastliðin 2 ár á Sléttuvegi 29. Þann 15. janúar síðastliðinn var heilsu Guðna farið að hraka mjög og flutti hann þá á hjúkrunarheimilið Skógarbæ. Hann lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi eftir að hafa dvalið þar í innan við sólarhring.

Guðna er sárt saknað og hann kvaddur af þakkklátu fólki. Börn Rebekku í Noregi, tengdabörn og barnabarn sem ekki komust til útfararinnar biðja fyrir kveðju en þau eru:

Daniel og Malin
Caroline og Thomas
Sigbjørn og Telma

Lífið er stutt. Við ferðumst um lífsins veg, sum stuttan spöl en önnur lengri. Við eigum það sameiginlegt að hafa öll verið ung og átt drauma og þrár. Í ljóði Gunnars M. Magnúss um Súgandafjörð sem fyrr var vitnað til segir einnig þetta:

Mundu það æska, að allt þitt lán
og auðlegð í sjálfri þér býr.
Hver drengileg hugsun, hvert drengilegt orð,
til dáðrakkra verka knýr.
Vetur leitandi, vakandi, starfandi og sterk
og styrktu þinn undra mátt.
Haltu hreinleika og dirfð, berðu höfuð hátt
og horfðu í sólarátt.

Við skulum leitast við að varðveita æskunnar þrótt og vonir í hjörtum okkar og horfa jafnan til sólar, til upprisu sólar í austri. Hin kristna von beinir sjónum okkar þangað og því hvílir fólk jafnan þannig í gröfum að ásjóna snúi til upprisu sólar. Þannig snýr einnig altarið í flestum kirkjum landsins. Austrið er tákn vonar, sólar og ljóss, tákn upprisunnar.

Þjóðskáldið Matthías nefnir Guð, „sólnanna sól“ og skáldbróðir hans Davíð segir:

Þú stýrir vorsins veldi

og verndar hverja rós.

Frá þínum ástareldi

fá allir heimar ljós.

Hér er vitnað til elds og afls sem býr í hjarta Guðs, afls sem skapaði heiminn og setti hann á braut elskunnar. Við erum kölluð til að vinna í smiðju lífsins og láta ástareldinn loga og hamra þar lífið og skapa betri heim af ástareldi Guðs. Hver sem menntunin er eða starfið sem við innum af hendi þá erum við öll kölluð til að vinna að hinu góða.

Við kveðjum góðan dreng sem lagði sig fram um að lifa og starfa í heimi Guðs sem góður og sannur verkmaður.

Guð blessi Sigríði og dæturnar, tengdasyni, afkomendur, systur hans, frændgarð og vini. Guð blessi minningu Guðna Alberts Guðjónssonar.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.

Amen.

Erfi í Safnaðarheimili Neskirkju.

Jarðsett að því loknu í Gufuneskirkju
garði.

Ræðan birt á netinu . . .

Postulleg kveðja:
Guð vonarinnar fylli ykkur öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þið séuð auðug af voninni í krafti heilags anda. Amen.

- – -

Æviágrip eins og þau birtust í Morgunblaðinu útfarardaginn:

Guðni Albert Guðjónsson rennismíðameistari fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 16. maí 1931. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 21. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðjón Halldórsson, fæddur á Hóli í Önundarfirði 16. apríl 1882, d. 24. febrúar 1960 og Rebekka Kristín Guðnadóttir, fædd á Kvíanesi í Súgandafirði 8. sept. 1892, d. 14. september 1964. Guðjón og Rebekka eignuðust sex börn. Þau eru í aldursröð: Egill, f. 11. des. 1917, d. 31. okt. 1988. Halldór, f. 3. okt. 1919, d. 17. mars 1922. Guðríður, f. 10. maí 1921, d. 12. sept. 1998, Jóhanna, f. 28. maí 1926, Guðrún, f. 15. mars 1928, og yngstur Guðni Albert sem hér er minnst.
Árið 1956 kvæntist Guðni Sigríði Friðrikku Jónsdóttur, f. 27. maí 1937, frá Flateyri við Önundarfjörð. Foreldrar hennar voru Arnfríður Lára Álfsdóttir, f. 2. nóv. 1896, d. 27. feb. 1980, og Jón Ólafur Kristjánsson, f. 27.12. 1876, d. 29. júlí 1966.
Guðni og Sigríður eignuðust fimm dætur. Þær eru: 1) Rebekka, búsett í Ósló, f. 29. febr. 1956. Eiginmaður hennar er Anders Gundhus, f. 1956, og eiga þau soninn b) Christoffer, f. 1992. Dóttir Rebekku af fyrra hjónabandi er: a) Tinna Guðmundsdóttir, búsett í Ósló, f. 1981. Tinna á eina dóttur. Börn Andersar af fyrra hjónabandi eru Daniel, f. 1981 og Caroline, f. 1983. 2) Anna Ólafía, f. 19. jan. 1958. Eiginmaður hennar er Viðar Böðvarsson, f. 1951. Dóttir þeirra er: a) Rakel, f. 1978. Hún á tvö börn. 3) Arnfríður Lára, f. 5. júlí 1960. Eiginmaður hennar er Sveinbjörn Lárusson, f. 1959. Börn þeirra eru: a) Vera, f. 1981, sem á tvö börn, b) Marta, f. 1988 og c) Símon Guðni, f. 1995. 4) Kristín, f. 7. júní 1964. Sonur hennar og manns hennar Einars Vignis Sigurðssonar, f. 1964, er: a) Benedikt Leó, f. 2002. Börn Einars af fyrra sambandi eru Valgerður Brynja, f. 1985, hún á þrjú börn, og Pálmar Dan, f. 1988. 5) Jóna Björk, f. 31. mars 1967. Börn hennar og eiginmanns hennar Jóns Marinós Jónssonar, f. 1964, eru: a) Sonja Sigríður, f. 1994 og b) Sölvi Steinn, f. 1997.
Að loknu námi í Vélsmiðjunni Héðni, 1958, tók Guðni við rekstri vélsmiðju föður síns á Suðureyri og rak hana ásamt Agli bróður sínum til 1966 er þau Guðni og Sigríður fluttu með dætrum sínum til Reykjavíkur. Guðni starfaði m.a. hjá Olíufélaginu Skeljungi, við eigið fyrirtæki; Plötuofna í Kópavogi, sem hann stofnaði með Ómari Þórðarsyni, systursyni sínum, sem verkstjóri hjá Mjólkurfélagi Reykjavíkur og í Húsasmiðjunni þar til hann lét af störfum 2001.
Guðni og Sigríður bjuggu lengi á Nesvegi 63 í Reykjavík en síðastliðin tvö ár á Sléttuvegi 29 í Reykjavík.

- – -

Tvö vers úr kvæði Davíðs Stefánssonar Höfðingi smiðjunnar:

Hann stingur stálinu í eldinn.
Hann stendur við aflinn og blæs.
Það brakar í brennandi kolum.
Í belgnum er stormahvæs.
Í smiðjunni er ryk og reykur
og ríki hans talið snautt.
Hann stendur við steðjann og lemur
stálið glóandi rautt.

Hér er voldugur maður að verki,
með vit og skapandi mátt.
Af stálinu stjörnur hrökkva.
Í steðjanum glymur hátt.
Málmgnýinn mikla heyrir
hver maður, sem veginn fer.
Höndin, sem hamrinum lyftir,
er hörð og æðaber.

url: http://ornbardur.annall.is/2013-03-04/gudni-albert-gudjonsson-1931-2013/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Valbjörg Jónsdóttir @ 4/3/2013 22.08

Hverjum þykir sinn fugl fagur, stendur einhvers staðar. Þess vegna hlýtur sá hinn sami að gleðjast þegar fleiri láta í ljós sama álit. Þess vegna þykir mér alltaf vænt um þegar vel er talað um mína heimabyggð. Enda þótt ég hafi ekki átt þar heima síðustu 53 árin eða svo.


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli