örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« María Bender 1930-2013 · Heim · Guðni Albert Guðjónsson 1931-2013 »

Ásgerður Jónsdóttir 1919-2013

Örn Bárður @ 15.54 28/2/13

asgerdurjonsdottirMinningarorð
Ásgerður Jónsdóttir
1919-2013
kennari
frá Gautlöndum
Minningarathöfn í Neskirkju
fimmtudaginn 28. febrúar 2013 kl. 13
Útför og jarðsetning 1. mars 2013
á Skútustöðum
Mývatnssveit

Ritningarlestrar:
Jesaja 40.3-8
Efesusbréfið 5.8-14
Matteus 5.1-16

Hægt er að hlusta á ræðuna og lesa hana hér fyrir neðan.

Rætur.

Eftir að hafa heyrt um Ásgerði, lesið um hana og séð brot af hennar eigin skrifum hallast ég að því að hún hafi verið róttæk kona.

Íslenskan er gegnsætt mál. Orðið róttækur er útskýrt svo í orðabók: sá eða sú sem vill breyta einhverju frá rótum. Í samheitaorðabók segir: djúptækur, gagnger, gertækur, rauður, sósíalískur, byltingargjarn, íhaldssamur.

Hér kennir ýmissra grasa og ekki síst í tveimur síðustu orðunum: byltingargjarn, íhaldssamur. Þetta virkar mótsagnarkennt en er það ekki þegar betur er að gáð. Ég tel að Ásgerður hafi einmitt sameinað þetta tvennt og verið róttæk í þeim skilningi að hún átti djúpar rætur í íslenskri bænda- og sveitamenningu og gat af þeim kögunarhóli skyggnst um allar sveitir heims og fræða. Af þessum orðum má svo draga þá ályktun að rótslitin manneskja geti í raun ekki verið róttæk. Einungis þau sem standa sterk og föst með djúpar rætur geta leyft sér víðsýni og viðhorf sem ná út yfir öll mæri. Hún sagði t.a.m. að sá sem ekki væri sannur Íslendingur yrði aldrei heimsmaður.

Í fyrsta Davíðssálmi er þeirri manneskju, sem lifir í samhljómi við hið stóra samhengi lífsins og ræktar hin dýpri gildi í lífi sínu og störfum, líkt við tré með þessum orðum:

Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.

Ásgerðu var sem tré við lind, með djúpar rætur, sem nærðust á fegurð lífs og visku formæðra og feðra, tré sem stóð sterkt með laufskrúð og ávöxt sem margir fengu að njóta.

Í sama sálmi er örlögum þeirra sem ekki eru sem tré í blóma líkt við sáð er vindur feykir, sem hismi í stormi.

Hún var barnlaus en átti þó mörg systkinabörn sem voru henni svo kær sem hún ætti þau sjálf. Þau voru af sama stofni sem hún með rætur í frjórri menningarmold Gautlanda og Mývetninga þar sem fók var jafnan í fyrirrúmi og ást á landi og þjóð.

Ásgerður fæddist á Gautlöndum í Mývatnssveit að vori 29. maí 1919.

Foreldrar hennar voru Anna Jakobsdóttir frá Narfastöðum í Reykjadal (f. 11.des. 1891, d.10. feb.1934) og Jón Gauti Pjetursson bóndi á Gautlöndum (f. 17.des.1889, d. 27.sept. 1972).

Ásgerður var elst fjögurra systkina. Þau voru í aldursröð:

Sigríður, kennari, (f. 1922 d. 1993) sem giftist Ragnari H. Ragnar skólastjóra Tónlistarskóla Ísafjarðar. Þeirra börn: Anna Áslaug, Sigríður og Hjálmar Helgi.

Böðvar, bóndi á Gautlöndum (f. 1925 d. 2009). Kvæntur Hildi Guðnýju Ásvaldsdóttur og áttu þau 5 syni: Ásgeir, Jóhann, Jón Gauta, Sigurður Guðna og Björn.

Ragnhildur, skrifstofumaður (f. 1926 d. 2011). Giftist Jóni Sigurgeirssyni frá Helluvaði og bjuggu allan sinn búskap á Akureyri. Þeirra börn: Jón Gauti, Geirfinnur, Sólveig Anna og Herdís Anna.

Gautlönd eru landstór heiðajörð í Mývatnssveit, en stendur nokkuð langt frá Mývatni.

Gautlandaheimilið var þekkt félags- ogmenningarheimili í æsku Ásgerðar og ætíð mannmargt. Þótt ekki væri þar ríkidæmi var aldrei skortur á nauðsynjum. Þegar Ásgerður var á fimmtánda ári lést móðir hennar úr lungnabólgu. Þá tók við búsforráðum Jóhanna Björg Illugadóttir (f. 1891 d. 1990) ættuð frá Laugum í Flóa. Hún kom kaupakona árið sem Jón Gauti og Anna giftu sig og fór þaðan aldrei aftur. Jóhanna reyndist börnunum góð fóstra, sérstaklega Ásgerði. Tengsl systkinanna við Narfastaði voru einnig mikil. Þegar Ásgerður talaði um Jóhönnu sagði hún ávallt: „hún Jóhanna mín.“

Tvennt var það sem öðru fremur setti mark sitt á hana sem barn og það var móðurmissirinn og alvarleg veikindi hennar sjálfrar er hún var á 7. ári. Hún fékk lífhimnubólgu á sama tíma og móðir hennar var barnshafandi af Böðvari. Hún var flutt um miðjan vetur á sleðum til Húsavíkur og þaðan með skipi til Akureyrar og var ekki hugað líf en hún „Jóhanna mín“ fór með henni og hélt í henni lífinu. Björn Jakobsson sem stofnaði íþróttaskólann á Laugavatni hét Ásgerði að gefa henni nál úr rafi ef hún næði heilsu. Nálina fékk hún og geymdi alla ævi uns hún afhenti hana nöfnu sinni og frænku til varðveislu.

Ásgerður var alla tíð sterk og ákveðin kona. Hún gekk í öll verk og vann öll störf af krafti. Hún tók við búsforráðum 15 ára og dró hvergi af sér. Hún minntist í skrifum sínum handbragðs föður síns í sveitastörfum enda hafði hún lært margt af honum.

Faðir hennar var félagsmálamaður og hún var gjarnan ritari hans og skrifaði fundargerðir hreppsnefndar. Á Arnarvatni var póststöð og þangað hljóp hún oft enda ekki nema klukkustundar skokk hvora leið!

Hún var stjórnsöm í sveitinni, segja frændsystkinin, en hér á mölinni var hún í öðrum ham og fór með þau í Alþingishúsið, á helstu söfn borgarinnar og gerði unga fólkið stolt af höfuðstaðnum.

Foreldrarnir kenndu Ásgerði að lesa, skrifa og reikna, aðallega þó Jón Gauti. Hún rifjaði upp minningu um bókhneigð sína.

„Ég minnist þess einu sinni í heyþurrki, að ég gekk inn í bæ til þess að fá mér að drekka. Síðan réð ég hvorki við hendur né fætur, sem stefndu beint að bók, sem ég var að lesa. Með hana stóð ég, þegar pabbi kom að mér. Hann veitti mér áminningu um skyldurækni, sem ég hef reynt að muna síðan.“ (Átján konur s. 144).

Skólaskylda á þessum árum var 3-4 ár, 6-8 vikur á ári og var farskóli. Nemendur dvöldu yfir námstímann á þeim bæjum þar sem var húsrúm til skólahalds.

Sjálfsagt þótti að Ásgerður gengi til allra starfa með kaupafólkinu á sumrin og gegndi í öllu sömu skyldum og það. Ásgerður taldi sig líka hafa lært margt og mikið af heimilisfólkinu á Gautlöndum, kaupafólkinu sem kom víðs vegar að með fjölbreytta lífsreynslu.

Haustið 1937 komust þær systur, Ásgerður og Sigga, í Menntaskólann á Akureyri og luku þar gagnfræðaprófi vorið 1939. Báðar voru afburða námsmenn, en loku var skotið fyrir frekara nám að sinni vegna kostnaðar.

Ásgerði dreymdi um að verða læknir, en úr því varð ekki, en umönnun annarra var henni ávallt sjálfsögð.

Eftir um 20 ára hlé tók hún námsþráðinn upp aftur, tók próf upp í 3.bekk Kennaraskólans, fyrst til reynslu, svo af fullri alvöru. Hún lauk kennaraprófi árið 1961 og starfaði að kennslu eftir það.

Ásgerður sótti einnig tíma í mannskynssögu við Háskóla Íslands 1963-1966. Hún hafði alla tíð gífurlegan áhuga á sögu og íslensku, sótti fjölda fyrirlestra um þau málefni og fleiri, eða alltaf þegar færi gafst, enda með eindæmum fróðleiksfús.

Á Gautlöndum var mikill gestagangur og kom það í systranna hlut, og þá sérstaklega Ásgerðar sem var elst, að gegna húsmóðurhlutverkinu. Eftir námsdvölina á Akureyri var hún að mestu heima á Gautlöndum þar sem hún stýrði heimilinu hjá föður sínum og bróður til ársins 1956 Hún var þó einhvern tíma í Reykjavík, a.m.k. á stríðsárunum, því að þá var hún í Þingeyingakórnum sem þar starfaði. Ásgerður gekk oft til starfa með karlmönnum, og víst að henni líkaði það ekki miður, og hún kunni góð skil á flestum bústörfum frá fyrri hluta aldarinnar. Ásgerður hafði samt aldrei mikinn áhuga á heimilisstörfum, né bústörfum, framar því sem nauðsyn krafðist.

Ásgerður flutti alfarin til Reykjavíkur árið 1957 en varði sumrum jafnan á Gautlöndum.

Í Reykjavík starfaði hún við ýmis skrifstofustörf, aðallega í Landsbankanum og hjá Landssímanum, en eftir að hún lauk kennaraprófinu starfaði hún við kennslu. Hún var stundakennari við Kvennaskólann í Reykjavík 1961-1965, og við Hagaskólann í Reykjavík 1962-1963. Hún kenndi við barna- og unglingaskólann á Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd 1966-1967, en það ár hóf hún störf við barnaskólann á Varmá í Mosfellssveit. Þar kenndi hún í 22 ár eða til ársins 1989, er hún fór á eftirlaun. Ásgerður kenndi einnig um árail við Námsflokka Reykjavíkur, langt fram á áttræðisaldur. Kennsla var henni ástríða og hún var ávallt reiðubúin að „leggja sál sína að veði fyrir gengi starfsins“ (sjá 18 konur bls. 155). Mætti skrifa margar blaðsíður um kennslustörf hennar, hún sá ávallt það besta í börnunum og þeir nemendur sem stóðu höllum fæti stóðu kannski hjarta hennar næst, hvort sem um börn eða fullorðna var að ræða. Ásgerður tók þessa nemendur með sér heim og hjálpaði þeim af öllum mætti, „menntun, menntun, menntun“, voru kjörorð hennar kynslóðar, ekki síst þeirra sem ekki fengu að njóta hennar sem skyldi.

Ásgerður var alla tíð mikil félagsvera og tók þátt í félagsstörfum á fjölmörgum sviðum.

Á árunum í Mývatnssveit starfaði hún af miklum krafti með Ungmennafélaginu Mývetningi, og tók m.a. þátt í leiksýningum félagsins og þótti hafa hæfileika á því sviði eins og þau öll systkinin. Hún var líka ötul að láta nemendur sína í Varmárskóla leika og taldi leik, tónlist og dans vera með nauðsynlegustu námsgreinum.

Hún var ákaflega pólitísk og hreifst ung af hugsjónum sósíalismans. Ásgerður var virkur félagi í Alþýðubandalaginu og var m.a. í fulltrúaráði flokksins.

[Eftir að athöfn lauk fékk ég þær upplýsingar að Ásgerður hafði sótt undirbúningsfund að stofnun Kvennalistans á Hótel Borg á sínum tíma. Framboðið var stofnað upp úr þeim fundi og hún varð með þeim fyrstu til að ganga til liðs við þetta nýja og mikilvæga stjórnmálaafl.]

Ásgerður var mikill friðarsinni og lét að sér kveða í félagssamtökum herstöðvarandstæðinga. Hún gekk Keflavíkurgönguna ótal sinnum, lét sig aldrei vanta í Friðargönguna á Þorláksmessu eða kertafleytingu við Reykjavíkurtjörn til að minnast fórnarlambanna í Hiroshima. Hún var alltaf mjög upptekin af kjarnorkuvánni og var ein þeirra sem skrifuðu undir yfirlýsinguna um kjarnorkulaust Ísland. Árið 2003 var hún mætt fyrst allra á laugardögum við Stjórnarráðið í Lækjargötu til að mótmæla þátttöku Íslands í Íraksstríðinu alveg sama hvernig viðraði, ásamt félögum sínum í menningar- og friðarsamtökum kvenna.

MFÍK voru mikilvægur þáttur í lífi Ásgerðar – hún sat þar í stjórn um tíma og var þá ritari og eru fundargerðir hennar taldar þær bestu, bæði að innihaldi og skrift, í sögu félagsins. Hún mætti þar fyrst á fund líklega 1981, þar sem umræðuefnið var afleiðingar kjarnorkustyrjaldar og auðvitað lét hún sínar skoðanir í ljós svo eftirminnilegt var þeim sem á fundinum voru. MFÍK-konur héldu ávallt upp á 8. mars og 1. maí og eftirminnilegt þykir frændfólki hennar að hafa séð þær marséra niður Fischersundið með alpahúfur og fána á leið á mótmælafundi, þessar flottu konur, margar komnar vel á áttræðisaldur.

Ásgerður var líka mikill náttúruverndarsinni. Líklegt er að hún hafi fyrst notað nafnið „umhverfissóði“. Hópur kvenna úr MFÍK var mjög virkur á því sviði og þær kölluðu sig sín á milli Hálendishópinn. Hálendishópurinn mætti á Austurvöll daglega veturinn 2003 til að mótmæla Kárahnjúkavirkun og fræg eru orð Ásgerðar sem hún hrópaði, 84 ára gömul, að einum helsta talsmanni virkjunarinnar, er hann átti leið um völlinn: „Svei þér, sveiattan!“

Nú er líklega við hæfi að ég geri hlé á máli mínu og við hlýðum á tónlist. „Tónlist er englamál.“ (Thomas Carlyle, rithöfundur)

(Systurnar Sólveig Anna og Herdís Anna flytja Ó, blessuð vertur sumarsól. Ekki kynna þær að þeirra beiðni!)

Þetta var himneskt, enda englamál!

Hún var harður módernisti alla tíð, sagði frændi hennar, þrátt fyrir djúpar rætur í sveit og ungmennafélagshugsun. Í því sambandi vitna ég aftur til upphafsorðanna og segi: Hún gat verði það af því að hún þekkti sínar rætur. Hún drakk í sig nýjar stefnur og strauma í listum, las verk róttækra höfunda og sótti tónleika hjá Musica Nova. Hún var kona andartaksins og kunni að grípa tækifærið. Hún sagði oft: „Í dag er eins og allt sé að gerast í fyrsta skipti.“ Þetta þykir mér vera flott lífsafstaða!

Hún átti að kunningjum menn eins og Sigurð Nordal og Halldór Laxness og skrifaðist á við Erlend í Unuhúsi forðum daga en var ekkert að flíka því við frændfólkið.

Hún var barn sumars og sólar alla tíð. Sumardagurinn fyrsti var hennar uppáhaldsdagur og hún hringdi í frændfólk sitt og færði þeim sólargeisla í formi góðrar kveðju. Þeim sem hún gat heimsótt færði hún blóm og ók með vendina um alla borg til að fagna sumri.

Sumardagurinn fyrsti er ekki kirkjulegur dagur sem slíkur en ég tel hann þó vera eitt sterkasta tákn um trú í íslenskri menningu. Á sumardaginn fyrsta segjum við: Gleðilegt sumar! hvernig sem viðrar. Skátar ganga um í stuttbuxum í hríðarhraglanda með fána, lúðræblæstri og söng og allir gleðjast yfir því að sumarið sé komið eða það glitti í sumarið í gegnum kófið. Kveðjan góða þann dag er trúarjátning, vonarbæn.

Fyrirbrigðið trú er aðeins á einum stað skilgreint í Biblíunni með þessum orðum:

„Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ (Heb 11.1)

Hún hafði alla tíð mikinn áhuga á menningu, tónlist, myndlist, sviðslistum og var dugleg við að sækja menningaratburði alla sína tíð.

Hún ritaði fjölda greina í blöð og tímarit. Hún hafði sterkar skoðanir, var aktífisti og var tilbúin til að sýna borgaralega óhlýðni ef þörf krafðist. Hún þorði og hafði alltaf eitthvað til málanna að leggja. Hún lét til sín taka á ritvellinum til varnar náttúrunni og Palestínumönnum svo dæmi séu nefnd. Réttlætiskenndin var rík í brjósti hennar.

Hún var trúuð á sinn hátt enda þótt hún hefði mótast af mönnum eins og Brandesi forðum daga en hann var nú víst ekki vanur að slíta mikið þröskuldum kirkna. En hún var staðföst í þeirri trú að kirkjan væri þjóðarinnar og stæði öllum opin. Nýlega var þetta mælt af prédikunarstóli þessarar kirkju:

„Trú og stjórnmál, trú og efnahagsmál verða ekki slitin í sundur v.þ.a. það að trúa er að framkvæma réttlætið.“

Ég tel, eftir að hafa hlustað á fólkið hennar Ásgerðar tala um hana, að hún hafi einmitt lifað í anda þessarar skilgreiningar á kristinni trú.

Hún var afar frændrækin og mjög stolt af systkinabörnum sínum og fjölskyldum þeirra. Hún kunni ógrynni af sögum og þulum og hefur glatt margt barnið með því að ausa af fræðasjóði sínum.

Hún var barnlaus, og fastnaðist aldrei neinum karlmanni enda mjög sjálfstæð, en systkinabörnum sínum sem komu til náms í Reykjavík var hún sem fóstra og uppfræðari, og eftir að þau stofnuðum heimili og fjölskyldur var hún samnefnari stórfjölskyldunnar í einu og öllu.

Svo var hún einkar gjafmild og keypti margt handa fólkinu sínu og var útsjónarsöm í þeim efnum og oft á skondinn hátt. Ef hún sá t.a.m. marmelaði, klósettpappír eða kornflex á kjarapöllum þá var hún mætt á tröppurnar hjá þeim með nánast heilt vörubretti.

Hún var hafsjór af fróðleik, kunni sögur og þulur og fór oft með Gilsbakkaþulu alla utan bókar. Hún hjálpaði systkinabörnum sínum við heimanám og studdi þau á alla lund.

Frændfólk og vinir kveðja hana hér í dag og fjarstaddir ástvinir senda kveðjur sínar.

Tvær frænkur hennar, Herdís Anna dóttir Jónasar og Siggu sem er í Zürich í Sviss og Nína Sigríður, dóttir Hjálmars og Ásu, sem er á ferðalagi um Suður Ameríku, núna í Bólivíu, biðja fyrir innilegustu kveðjur og þakka Ásgerði fyrir vinskapinn og fyrir að vera alltaf til staðar þegar á þurfti að halda.

Halldóra, vinkona Hildar Guðnýjar, sendir innilegar samúðarkveðjur og þakkar fyrir allar kennslustundirnar sem hún býr enn að.

Geirþrúður Charlesdóttir eða Geigei vinkona, sendir hlýjar kveðjur frá Ísafirði. Hún er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast mannkostum Ásgerðar og þakkar allar samveru- og gleðistundir sem hún átti með henni, sem voru í senn skemmtilegar og lærdómsríkar. Fyrir gleðinni lyftu þær stundum purtvínsstaupi sem undirstrikaði vináttuna. Hún biður Guð að blessa minningu Ásgerðar.

Frænkur hennar sem komu í heimsókn á Grund í vetur með kaldar hendur fengu hjá henni hlýju og hún lét þær jafnvel leggjast hjá sér til að veita þeim í senn líkamsyl og hjartahlýju. Hún gaf fólkinu sínu mikið en krafðist í raun einskis nema heiðarleika.

Þið eruð mörg sem kveðjið hana í dag með söknuði og trega. Okkur verður það ljóst að hún var dýrmæt manneskja, sem staðið hafði í blóma alla ævi vegna þess að hún lagði rækt við sinn innri mann með svo afgerandi hætti. Á sama tíma vitum við að jarðlífið er ekki eilíft og verður að lúta afli dauðans sem krenkir alla. Lífið er stutt í samanburði við svo margt í heimi hér. Hún náði góðum aldri og hélt sínu atgervi ótrúlega vel og lengi en var farinn að gleyma undir það síðasta. En þegar hún hugsaði um hópinn sinn og varð það ljóst hve mörg af þeim leggja stund á tónlist, sagði hún: „Það gleður mig að þið skulið stunda fegurð.“ Og þau voru hjá henni síðustu dagana og sungu hana í svefn, hinsta svefn. Og fegurðin ein ríkti. Hún hvarf á vængjum söngsins með Fjalladrottning, móðir mín, í næmum hlustum.

Hún fer ekki lengur um bæinn í litríkum klæðum með barðastóran hatt og áberandi varalit. Nú er hún horfin til þeirrar moldar sem nærði rætur hennar alla tíð. Hún hafði sterka vitund um landið og þau sannindi að við erum öll af þessari jörð og hverfum aftur til hennar.

Í ljósi lífshlaups Ásgerðar er vert að spyrja: Liggja rætur okkar í frjórri mold? Eigum við rætur í íslenskri menningu og getum á grunni þeirra verið heimsborgarar? Erum við rótföst eða rótslitin? Og hvað verður um íslenska þjóð í því ölduróti sem ríkt hefur nú um skeið?

Rætur.

Trú og menning.

Trúmennska og rækt við fólk, fegurð og frið, rækt við það sem lifir af öldurót og uppblástur eyðandi afla rótleysis og öfga.

Við þurfum skjól í eyðandi veðrum og vindum, við þurfum gerði um líf okkar, gerði trúar og menningar, gerði mennta og vísinda, gerði óspilltrar náttúru og víðerna, gerði og skjól góðs samferðafólks, gerði vina og frændfólks. Saman getum við varðveitt arfinn og byggt upp nýtt samfélag á grunni hins gamla og góða, með því að leita rótanna.

Verum róttæk í besta skilningi þess orðs og endursköpum Ísland á grunni réttlætis og sannleika þar sem allir fá að sitja við sama borð, sáttir í leik og starfi, rótfastir sem „tré er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki.“

Guð blessi minningu Ásgerðar Jónsdóttur og Guð blessi þig.

Amen.

- – -

Bæn við upphaf athafnar:

Guð, þú hefur gefið okkur jörðina,
heimili okkar í alheimi. Með
viðkvæmum þráðum hefurðu
ofið fagran vef frjósemi moldar,
fersks vatns, dansandi vinda,
dýra, manna. Gef okkur skyn á
það allt og vilja til að hlú að því.
Gef okkur kraft til að virða lífið
og verja það. Gef okkur kærleika,
að við elskum það.
(Per Harling, Bænabókin e. Karl Sigurbjörnsson, biskup)

url: http://ornbardur.annall.is/2013-02-28/asgerdur-jonsdottir-1919-2013/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli