örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Gísli Símonarson 1921-2013 · Heim · Ásgerður Jónsdóttir 1919-2013 »

María Bender 1930-2013

Örn Bárður @ 14.46 26/2/13

mariabenderMinningarorð
María Bender
1930-2013
húsmóðir
Nesvegi 44, R

Útför frá Neskirkju
þriðjudaginn 26. febrúar 2013 kl. 13

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan.

Það kom glampi í augun hans Rósinbergs þegar hann rifjaði upp í mín eyru er hann ók framhjá London í Austurstræti til að líta á ungu stelpuna sem þar vann. Hann fór margar aukaferðir á þeim rúnti til að sjá hana. „Þú hefur fallið fyrir henni? spurði ég. Hún féll fyrir mér, svaraði hann kíminn. Lífið er ævintýri. Ástin kviknar og lífið dafnar. En svo kemur að því að það lætur í minni pokann fyrir þeirri ógn sem steðjar að öllu lífi, dauðanum, sem sækir okkur öll í fyllingu tímans. Það er svo ótrúlega óraunverulegt að hugsa um dauðann meðan maður er sperlllifandi. Og ég sem prestur sem stend yfir moldum fólks oftar en margur annar á erfitt með að gera mér í hugarlund að dauðinn muni sækja mig þegar kallið kemur. Þetta eina sem við vitum með algjörri vissu er svo óraunverulegt. En hér erum við og kveðjum konu sem lokið hefur dagsverki sínu og hlotið hvíld.

María fæddist á Djúpavogi 27. júlí 1930. Hún lést 19 . febrúar 2013 á 83. aldursári. Foreldrar hennar voru Guðleif Gunnarsdóttir Bender, (fædd 17. júní 1899, dáin 17. desember 1974) og Carl Christian Bender, (fæddur 26. apríl 1880, dáinn 22. janúar 1960). Carl var danskur en kom hingað ungur með dönskum kaupmönnum til Seyðisfjarðar og kynntist konu að nafni Sesselja. Hann fór aftur til Danmerkur en frétti þá að hún væri með barni og sneri aftur til Íslands í óþökk foreldra sinna sem vildu ekki að hann settist að á Íslandi og giftist íslenskri konu. Hann og Sesselja urðu hjón þrátt fyrir þessa andstöðu og eignuðust 7 stráka sem allir eru látnir. Þeir voru: Carl Christian, f. 1904, d.1986, Róbert Milan, f. 1909, d. 1940, Sófus Ingvar, f. 1910, d. 1981, Axel Volkimarus, f. 1911, d. 1929, Óskar Björgvin, f. 1913, d. 1943, Kristján Sófus, f. 1915, d. 1975, Ingólfur Hugó, f. 1917, d. 1996.

Guðleif kom til Carls sem ráðskona eftir að Sesselja féll frá og þau urðu hjón og eignuðust 3 börn og var María yngst þeirra. Albræður hennar eru Cecil Hinrik, f. 1923, d. 1990, sem er látinn og Gunnþór, f. 1926 sem einn lifir þennan stóra systkinahóp.

Eiginmaður Maríu er Rósinberg Gíslason, f. 28. apríl 1923. Beggi ólst upp hér í Vesturbænum og bjó sem barn að Sveinsstöðum gegnt því húsi sem nú er Nesvegur 44 og varð síðar heimili þeirra hjóna. María bjó í Sörlaskjóli. Þau voru því nágrannar á sínum ygri árum eða um eða upp úr tvítugu. Carl faðir hennar undi hag sínum aldrei eins vel í Reykjavík og úti á landi en Guðleif vildi hvergi annarsstaðar vera.

Fyrst eftir að þau felldu saman hugi var Beggi á sjó sem farmaður og fór víða. Hvar sem hann kom í höfn biðu hans jafnan bréf frá Maríu sem skrifaði heima og sendi með flugpósti. Bréfin enduðu flest með 5 krossum sem líklega voru tákn um kossana en fjölskyldan segir að hún hafi fljótt talað um að hún vildi eignast 5 stráka. Henni varð að ósk sinni hvað varðar fjöldann en skaparinn blandaði hópinn úr báðum kynjum.
Börn þeirra eru:

Karl Rósinbergsson, f. 16. apríl 1952, d. 29 mars 2004. Eftirlifandi eiginkona hans er Steinunn Steinþórsdóttir.

Leifur Rósinbergsson, f. 4. maí 1953. Eiginkona hans var Árelía Þórdís Andrésdóttir, f. 4. desember 1956, dáin 8. ágúst 2010, sem er látin. Sambýliskona hans er Kristín Pálsdóttir.

Kristín Rósinbergsdóttir, f. 1955.

Guðrún Rósinbergsdóttir, f. 10. desember 1959, maki Páll Hólm, f. 1954.

Hrefna Rósinbergsdóttir, f. 25. apríl 1964, sambýlismaður hennar er Guðjón Elí Sturluson.

Nánari upplýsingar um barnabörn og afkomendur Maríu eru í Morgunblaðinu í dag og verða ennfremur birtar á vefsíðu minni ásamt ræðunni.
Börnin muna góða daga hér í Vesturbænum. Þau voru öll skírð af forvera mínum í embætti, séra Jóni Thorarensen og hann gaf þau einnig saman, Rósinberg og Maríu.

Þau áttu saman góða daga. María var dugleg kona sem hugsaði vel um börnin sín og heimili. Þar vann hún sín verk eins og húsmæður gerðu forðum, saumaði á heimilisfólkið, bakaði og eldaði. Heimilið var opið gestum og gangandi og Beggi minnist þess að hún tók vel á móti honum og félögum hans á Þrótti þegar þeir kíktu í heimsókn.

María studdi börnin sín og var þeim hollur ráðgjafi. Það var henni mikið áfall að missa Kalla sem dó langt um aldur fram, tæplega 52ja ára. Þegar Hrefna, ung að aldri, eignasti Fríði var hún þeim mikil stoð og gætti Fríðar löngum stundum og mynduðust sterk bönd á milli þeirra. Hún var dugleg og seig, hafði Bender-þrjóskuna og hlédrægnina, segir fjölskyldan. Hún var fær í höndum og gerði margt fagurt um ævina.

Hvað skiptir mestu í þessu lífi? Eru það stórir sigrar, áberandi líf, myndir í blöðum og glanstímaritum, glæsiheimili og tískufatnaður, skart og skraut? Hvað skiptir mestu? Hvað segir hin helga bók um hið mikilvægasta í lífinu? Heyrum orð Jesaja spámanns:

„að leysa fjötra rangsleitninnar,
láta rakna bönd oksins,
gefa frjálsa hina hrjáðu
og sundurbrjóta sérhvert ok,
það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
hýsir bágstadda, hælislausa menn
og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann
og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.“ (Jes 58.6b-7)

Hér er talað um náungakærleikann sem skiptir ætíð mestu.
Og hver verða launin í slíkri þjónustu? Heyrum framhald orða Jesaja spámanns:

„Þá brýst ljós þitt fram sem morgunroði
og sár þín gróa skjótt,
réttlæti þitt fer fyrir þér
en dýrð Drottins fylgir eftir.“ (Jes 58.8)

Blikið í augum ungu stúlkunnar sem afgreiddi í London forðum daga lifði í sálu hennar alla tíð, gleðin og góðmennskan einkenndu hana alla ævi.
Ljósið í sálu okkar dauðlegra manna er ljós af sönnu ljósi, himneskt ljós. Við getum viðhaldið þeirri himnesku birtu í sálu okkar með því að ganga á vegi kærleika og réttlætis og stuðla að sátt og friði í fjölskyldunni, í þjóðfélaginu og heimi öllum. Við byrjum heima og látum þannig gott af okkur leiða. Þá brýst ljós okkar fram og lýsir öðrum til góðs, réttlætið fer á undan okkur og dýrð Guðs fylgir okkur eftir.

Við felum Maríu ríki Guðs og himni hans. María er kvödd með virðingu og þökk. Hún er horfin á vit þess ljóss sem er ljós allra ljósa. Blessuð sé minning Maríu Bender og Guð blessi þig á lífsleið þinni og gefir þér náð til að lifa vel og deyja í sátt.

Amen.

Jarðsett verður í Fossvogskirkjugarði.

Við bíðum með jarðsetninguna þar til erfidrykkju verður lokið

Kveðja frá Þorláki Bender og fjölskyldu.

Takið postullegri blessun:

Guð vonarinnar
fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni
svo að þér séuð auðug að voninni
í krafti heilags anda.

Amen.

Ræðuna yfir Rósinberg manni hennar sem lést 16 dögun á eftir henni er hægt að nálgast hér.

Æviágripin eins og þau birtust í Morgunblaðinu útfarardaginn 26. febrúar 2013:

María Bender fæddist á Djúpavogi 27. júlí 1930. Hún lést 19 . febrúar 2013 á 83. aldursári. Foreldrar hennar voru Guðleif Gunnarsdóttir Bender, fædd 17. júní 1899, dáin 17. desember 1974 og Carl Christian Bender, fæddur 26. apríl 1880, dáinn 22. janúar 1960. Systkini, albræður: Cecil Hinrik, f. 1923, d. 1990, og Gunnþór, f. 1926. Hálfbræður: Carl Christian, f. 1904, d.1986, Róbert Milan, f. 1909, d. 1940, Sófus Ingvar, f. 1910, d. 1981, Axel Volkimarus, f. 1911, d. 1929, Óskar Björgvin, f. 1913, d. 1943, Kristján Sófus, f. 1915, d. 1975, Ingólfur Hugó, f. 1917, d. 1996.

Eiginmaður Maríu er Rósinberg Gíslason, f. 28. apríl 1923. Börn :1. Karl Rósinbergsson, f. 16. apríl 1952, d. 29 mars 2004. Eftirlifandi eiginkona hans er Steinunn Steinþórsdóttir, f. 1952. Börn þeirra eru: María Rós, f. 1973, eiginmaður hennar er Hreinn Mikael , börn hennar eru Karl Aron, f. 1982 og Ástrós Anna, f. 1998; Steinþór Carl, f. 1976, eiginkona hans er Bergljót Kvaran, f. 1983, börn þeirra eru Hrafnhildur Lóa, f. 2007 og Lilja Steinunn, f. 2012. Gunnar Dór, f. 1980, sambýliskona hans er Elfa Björk, f. 1978, börn þeirra eru Kjartan Karl, f. 2005 og Svandís María, f. 2012. Karen Peta, f. 1982, 2. Leifur Rósinbergsson, f. 4. maí 1953. Eiginkona hans, dáin, var Árelía Þórdís Andrésdóttir, f. 4. desember 1956, dáin 8. ágúst 2010, sambýliskona hans er Kristín Pálsdóttir. Börn Leifs og Dísu eru Leifur Þór, f. 1975, maki Sigrún, f. 1978, börn þeirra eru Eyrún Alda, f. 2001, Kolbrún Ósk, f. 2003 og Bergrós María, f. 2009. Róbert, f. 1978, maki Kristín, barn hans er Þórdís María, f. 2007. Anna María, f. 1979, aki Róbert Ragnar, f. 1979, börn þeirra eru Guðrún Emma, f. 2009 og Benedikt, f. 2012, Karl Kristján, f. 1983, sambýliskona hans er Angeline Theresa, f. 1976. 3. Kristín Rósinbergsdóttir, f. 21. apríl 1955, hennar börn eru Theodór, f. 1974, Heiða, f. 1977, hennar börn eru Kristín Lilja, f. 2003 og Sunneva Rós, f. 2009.

Kristín Jóna, f. 1984, maki Guðjón Ólafur, f. 1979, þeirra börn eru Eygló Hulda, f. 2005, og Andri Hrafn, f. 2008,

Berglind, f. 1991, sambýlismaður Hlynur Þór. 4. Guðrún Rósinbergsdóttir, f. 10. desember 1959, maki Páll Hólm, f. 1954, þeirra börn eru Elín, f. 1983, maki Marteinn Svanbjörnsson, f. 1982, þeirra barn er Axel Leví, f. 2009. Rúnar Páll, f. 1986, Ómar f. 1991. 5. Hrefna Rósinbergsdóttir, f. 25. apríl 1964, sambýlismaður hennar er Guðjón Elí Sturluson, f. 1959. Börn: Elísa, f. 2004 og Fríður, f. 1984, maki hennar er Ríkarður Ríkarðsson, þeirra barn er Gabríel Blær, f. 2012.

Útför Maríu fer fram í Neskirkju í dag, 26. febrúar 2013, klukkan 13.

url: http://ornbardur.annall.is/2013-02-26/maria-bender-1930-2013/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

örnbárður.annáll.is - » Rósinberg Gíslason 1923-2013 @ 18/3/2013 14.04

[...] Hér er hægt að nálgast ræðu Maríu. [...]


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli