örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Auður Birna Hauksdóttir 1931-2013 · Heim · María Bender 1930-2013 »

Gísli Símonarson 1921-2013

Örn Bárður @ 19.33 25/2/13

gislisimonarsonMinningarorð
Gísli Símonarson
1921-2013
lögfræðingur
Útför í kyrrþey frá Fossvogskapellu
mánudaginn 25. febrúar 2013 kl. 15
Jarðsett í Gufunesi.

Ræðuna er hægt að hlusta á og lesa hér fyrir neðan.

Hvað skiptur okkur mestu í lífinu ef frá er talin nánasta fjölksylda og vinir? Hver eru áhugamál þín? Hvað veitir þér mesta gleði?

Líf og yndi Gísla Símonarsonar voru lög, lög sem eru grundvöllur farsæls lífs í landinu sbr. orðtakið: Með lögum skal land byggja en svo voru það hin lögin, sönglögin, sem ég ætla að hafi alltaf staðið hjarta hans nær. Söngur var honum ætíð mikill gleðigjafi. Í söngnum átti hann líka félagsskap góðra vina með sama áhugamál.

Í Síraksbók, einu af spekiritum Gamla testamentisins, segir m.a.:

„Vín og söngur gleðja hjartað en ást á speki tekur hvoru tveggja fram.“ (Sír 40.20)

Hér er vísað til lífsgleði og leiks en minnt á það sem nær dýpra, snertir hjartað enn meir, tekur öllu fram. Það er ástin, þetta undursamlega fyrirbrigði sem hefur áhrif á líf okkar allra með afgerandi hætti, gerir okkur hamingjusöm og heilbrigð, en líka á köflum vitstola og fjarstæðukennd í háttum og hegðun. Ástin er ekki aðeins huglæg tilfinning heldur býr hún í líkamanum og æsist þar upp af efnaferlum sem ég kann ekki að útskýra en hefur síðar áhrif á hugsun okkar, geðslag og hegðun.

Í hinni helgu bók segir postulinn: „Guð er kærleikur“. Hann er ekkert að flækja skilgreiningu sína á Guði. Þrjú orð duga honum til að lýsa því sem er flóknast af öllu flóknu, stærst af öllu stóru, leyndardómsfyllst af öllum leyndardómum, dúlúðugast af öllu duldu. Og með því að nota aðeins þessi þrjú orð í setningu með einu kjarnaorði staðhæfir hann innsta eðli Guðs og þar með allrar tilverunnar. Getur það verið að kærleikurinn, elskan, ástin sé innsti kjarni allrar tilverunnar? Og ef svo er þá er alheimurinn á braut elskunnar og lífið með einfaldan tilgang:

að elska – að elska Guð og samferðafólkið og leyfa sjálfum sér einnig að njóta þess sama – en án allrar eigingirni.

Sírak var reyndar ekki að tala um venjulega ást sem ég hef reynt að útlista heldur ást á spekinni, ást á hinni djúpu hugsun sem birtist í fræðum, í menningu og listum, í kveðskap, ljóðum og lofsöngvum og síðast en ekki síst í spekinni sjálfri í dýpsta skilningi sem opnar okkur leið inn í leyndardóma lífsins og þar með inn í innsta eðli tilverunnar, inn í hjarta Guðs.

Hamingjan er fólgin í því að kunna að njóta lífsins og leita þess sem er ekta. Lífið er stutt en samt er hægt á stuttri ævi að finna þráðinn helga sem tengir jarðlífið hinu æðsta og besta, hinu elskuríka og góða. Hefur þú fundið þennan þráð?

Við komum hér saman til að kveðja mann sem lokið hefur lífsgöngu sinni og náði háum aldri.

Gísli fæddist 12. febrúar 1921 á Stokkseyri í Árnessýslu. Foreldrar hans voru Símon Jónsson, verkamaður á Stokkseyri, síðar í Reykjavík (1888-1952) og Kirstgerður Eyrún Gísladóttir, húsfreyja á Stokkseyri, síðar í Reykjavík. Símon var fyrri maður Kristgerðar, þau skildu. Foreldrar Símonar voru Jón Jónsson, útvegsbóndi á Eystri-Móhúsum á Stokkseyri og seinni kona hans Ólöf Ingibjörg Símonardóttir, húsfreyja. Foreldrar Kristgerðar voru Gísli Guðmundsson, bóndi á Egilsstöðum og Urriðafossi í Villingaholtshreppi í Árnessýslu og Guðrún Einarsdóttir, húsfreyja. Gísli og Guðrun voru systkinabörn.

Systkini Gísla Símonarsonar voru: Ólafur Jón, lögregluþjónn í Rvk., Guðrún, kjólameistari og verslunarmaður og Ólöf Ingibjörg, lengst af framkv.stj. í Danmörku. Öll látin.

Gísli ólst upp á Stokkseyri í húsinu Bræðraborg og síðan í Hafnarfirði. Hann fékk að ganga menntaveginn. Eftir hefðbundna skólagöngu varð hann stúdent frá MR 1942 og loks tók hann cand. juris próf frá HÍ 1950 og hlaut réttindi héraðsdómslögmanns þrem árum síðar. Honun hentaði betur að starfa sem lögmaður hjá stofnun en að stunda almenn lögmannsstörf. Hann var lögtaksfulltrúi hjá tollstjóranum í Reykjavík, fulltrúi hjá yfirborgarfógetanum í Reykjavík þar sem hann hlaut löggildingu til að vinna á eigin ábyrgð að dómstörfum. Hann lét af störfum fyrir aldurs sakir í árslok 1989.

Gísli kvæntist aldrei. Einkasonur hans er Elías sem hann átti með Ragnhildi Elíasdóttur sem var fædd í Reykjavík en ættuð úr Mýrdalnum og Landbroti. Hún lést árið 2000. Foreldrar hennar voru Elías Högnason, verkstjóri í Reykjavík og kona hans Steinunn Auðunsdóttir, húsfreyja. Góð vinátta og samskipti voru alla tíð á milli Gísla og Ragnhildar og Elías hafði ávallt samband við föður sinn.

Elías er viðskiptafræðingur að mennt. Kona hans, sem er látin, var Guðrún Ólafsdóttir, endurskoðandi, 1949-2000. Foreldrar hennar voru Ólafur Pjetursson, enskurskoðandi og Lillý Pétursson sem var norsk að uppruna.

Börn þeirra eru: Ólafur Elíasson, píanóleikari og píanókennari, kvæntur Elsu Herjólfsdóttur Skogland, grunnskólakennara og þjóðfræðingi. Börn þeirra eru: Guðrún Ólafsdóttir og Steinunn Hildur Ólafsdóttir, grunnskólanemar og báðar með mikinn áhuga á tónlist.

Sambýliskona Elíasar er Kolbrún Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljóðsmóðir á Landspítlanum. Börn hennar eru: Hilmar Björn, Margrét Erla og Helgi Rafn. Kolbrún er Reykvíkingur að ætt og uppruna. Foreldrar hennar eru: Jón Sigurðsson, (f. 1927), trompetleikari og Björg Pétursdóttir, saumakona, sem er látin (1923-2000).

Gísli var afar nákvæmur embættismaður, stundvís og samviskusamur í öllum störfum. Hann fór sínar eigin leiðir í lífinu, naut sín vel einn og á eigin vegum en sótti félagsskap í sönginn eins og fyrr er komið fram. Hann söng árum saman í Karlakór Reykjavíkur, í Tígulkvartettinum og Þjóðleikhússkórnum. Elías minnist þess hve gaman var að koma á generalprufur í Þjóðleikhúsinu og sjá sýningar sem pabbi söng við. Hann fór í nokkrar utanlandsferðir með Karlakór Reykjavíkur, m.a. til Ameríku og svo söng hann fyrir sjálfan páfann í Róm.

Gísli var gjafmildur og veitull en elti nú ekki uppi mannfagnaði, ættar- eða fjölskylduboð, segir sonarfjölskyldan en sinnti ættingjum sínum og systkinum vel og af rausn. Hann var ekki félagslyndur í hefðbundnum skilningi og naut sín vel einn eða í fárra hópi. Hann átti góðar minningar frá skólaárunum og talaði oft um skólasystkin sín úr MR og HÍ. Hann bjó lengst af einn og vildi vera einn en þær voru nú ófáar sem vildu gjarnan að hann festi ráð sitt. Náin vinkona hans til margra ára var Sesselja Níelsdóttir, tannsmiður, sem lést 2009.

Líf Gísla var í föstum skorðum og hann hafði sínar ákveðnu skoðanir á mönnum og málefnum, var Sjálfstæðismaður alla tíð, en blandaði sér þó ekki mikið í pólitík. Hann fór reglulega í sundi og hafði ánægju af skák. Líf hans var í föstum skorðum.

Þeir feðgar höfðu alltaf samband og Ólafur sonarsonur einnig og svo komu langafastelpurnar oft í heimsókn og spiluðu á hljóðfæri fyrir afa og var það gagnkvæm ánægja.

Elías hefur sinnt föður sínum vel alla tíð og ekki síst þegar halla tók undan fæti hjá honum eftir að hann slasaðist fyrir þremur og hálfu ári en þá lærbrotnaði hann. Segja má að þar með hafi hafist þrautaganga hans og sjúkrasaga en Gísli var annars hraustur alla tíð. Hann flutti í Mörkina eftir að hann gat ekki verið lengur einn heima á Hjarðarhaganum. Fjölskyldan vill þakka nágrönnum hans, Guðrúnu Reynisdóttur og Halldóri Júlíussyni, fyrir hjálpsemi og umhyggju á liðnum árum og einnig fólkinu í Mörkinni og þeim sem starfa við heimahjúkrun og þjónustu og sinntu honum vel. Hann festi ekki rætur í Mörkinni og leit svo á að hann væri þar tímabundið og var alltaf á leiðinni heim. Hann lést þar 15. febrúar s.l. 92ja ára að aldri.

Líf hans snerist um lög og sönglög. Og nú er hann kvaddur með fögrum söng og hefðbundnum hætti.

Lífið snýst um lög og lífið lýtur lögmálum. Eitt sinn skal hver deyja. Það er lögmál sem varðar okkur öll. Við réðum engu um upphaf lífs okkar og ráðum litlu sem engu um lok þess. Séra Hallgrímur orðar þetta svo:

Allrar veraldar vegur

víkur að sama punkt,

fetar þann fús sem tregur,

hvort fellur létt eða þungt.

Og skáldið heldur áfram:

Dauðinn má svo með sanni

samlíkjast, þykir mér,

slyngum þeim sláttumanni,

er slær allt, hvað fyrir er:

Þetta er lögmál.

„Af jörðu ertu kominn, að jörðu skaltu aftur verða.“

Hringrás lífs og dauða er lögmál sem allt er lifir verður að lúta. En svo kemur vonin og segir:

„Af jörðu skaltu aftur upp rísa.“

Trén sem nú liggja í dvala án laufskrúðs og lita munu öll vakna að vori og gleðja okkur mannfólkið. Náttúran er prédikun um von og trú, um það undur sem ljósið kveikir, blessuð sólin sem „elskar allt“ og „allt með kossi vekur“ eins og segir í líkingamáli skáldsins. Allt líf nærist af ljósi og elsku.

Við felum Gísla þessari trú og von, þökkum fyrir líf hans og biðjum honum blessunar. Guð geymi hann, son hans og fjölskyldu, frændfólk og samferðamenn, okkur öll, í lífi og dauða og um eilífð alla.

Amen.

Dýrð sé Guði . . .

url: http://ornbardur.annall.is/2013-02-25/gisli-simonarson-1921-2013/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli