örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Ríki og vald · Heim · Gísli Símonarson 1921-2013 »

Auður Birna Hauksdóttir 1931-2013

Örn Bárður @ 17.09 19/2/13

audurbirnahajksdottirMinningarorð
Auður Birna Hauksdóttir
1931-2013
verslunarkona

Útför frá Fossvogskapellu
þriðjudaginn 19. febrúar 2013 kl. 15
Jarðsett í Fossvogskirkjugarði í reiti Þ-0841

Ræðuna er hægt að lesa og hlusta á hér fyrir neðan.

Í hinum fagra jólasálmi, Fögur er foldin, er fegurð jarðar dásömuð og horfst í augu við gang lífsins þar sem kynslóðir koma og fara. Við erum öll á sömu leið og allar kynslóðir fyrr og síðar, við erum pílagrímar á vegi lífsins og stefnum á tilveru vonar. Vonin um nýjan heim og stærri en þessi jarðneska tilvera býður uppá byggir á honum sem um er ort í 3. versi sálmsins:

Fjárhirðum fluttu

fyrst þann söng Guðs englar,

unaðssöng, er aldrei þver:

Friður á foldu,

fagna þú, maður,

frelsari heimsins fæddur er.

Við erum lánsöm þjóð að eiga þessa von sem byggist á Kristi. Minningarnar um bernskujólin er sterk í hugum okkar flestra. Ég man jólin og jólaundirbúninginn á Ísafirði forðum undir fannbreiðum. Myndir af fegurð himins og jarðar búa enn í minni mér, björtu norðurljósin, sem ég hef aldrei séð með jafn skýrum hætti hér syðra, dönsuðu á festignunni. Skaflarnir í bænum og troðningarnir á gagnstéttum lyftu okkur börnunum svo hátt að við sáum inn um gluggana á Bókabúð Matthíasar Bjarnasonar án þess að þurfa að teygja álkuna. Sjálfur man ég eftir því að hafa dregið varning sem var sendur heim úr verslun föður míns á sleða og skilað þeim inn á heimili fólks þegar bílar komust ekki um bæinn á Þorláksmessu. Allt var lagt í að jólin gætu orðið gleðistund í skammdeginu. Jólatréskemmtanir voru haldnar í Alþýðuhúsinu og víðar á aðventu og við börnin dönsuðum og glöddumst yfir því undri sem boðskapurinn um jólabarnið kveikti í hjörtum okkar. Og enn lifir þessi boðskapur og birtist m.a. í sálminum fagra sem hér er gerður að umræðuefni.

Jólahald Íslendinga og allt sem í þau er lagt minnir á þörfina sem við höfum til hátíðarbrigða og einnig þá þörf að prýða og skreyta lífið.

Auður Birna var kona sem naut sín vel í því sem geri lífið fagurt og skrautlegt. Hún var fín kona og flott og starfaði við það áratugum saman að þjóna kynsystrum sínum sem vildu vera fínar og flottar. Hún vann lengi vel í snyrtivöruverslun á Laugavegi 35 hjá henni Sveinu, konu Ólafs Loftsonar, sem var skólabróðir föður míns og fyrrnefnds frænda Auðar, Matthíasar, í Verslunarskóla Íslands á árunum 1937-39. Auður vann síðar hjá frænku sinni og nöfnu, Auði Þórisdóttur, í versluninni Viktoríu á horni Bergstaðastrætis og Laugavegs.

Hún fæddist á Ísafirði 17. júlí 1931. Foreldrar hennar voru hjónin Haukur Davíðsson, bifreiðastjóri og Kristín Bjarnadóttir. Haukur fæddist á bænum Grýtu í Öngulsstaðarhreppi 15. apríl 1903 en hann lést 4. maí 1989. Hann var bifreiðastjóri á Akureyri og þar kynntust þau Kristín sem var fædd á Ísafirði 23. júní 1910 en hún lést 1. febrúar 1992. Bílaöldin var gengin í garð á Íslandi en áður voru hestvagnar einu farartækin á hjólum sem til voru hér á landi og faðir Kristínar tengdi gamla og nýja tímann með því að þróa sína atvinnu af hestvagni yfir á bíl.

Í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga segir Sigurður Sveinsson svo frá:

„Ekki veit ég hvenær Jóhann Eyfirðingur hóf fiskverkunina á Skeiðinu [ . . . ] Eftir að hætt var að flytja fiskinn inneftir á bátum var tekið að aka honum á bílum, sem Bjarni Bjarnason keyrari kom með í bæinn.“

Bílstjórar voru einnig synir hans Þórir, Björgvin og Charles.

Bílstjórum fór fjölgandi og þeir börðust fyrir kaupum sínum og kjörum og mér sýnist af heimildum að vestan að Bjarni keyrari og Hálfdán í Búð, sem nefndur var Gromsari, forfaðir Sigurbjargar Gröndal, konu Ólafs H. Ólafssonar sem sjá um þessa útför, hafi verið bandamenn í þeirri baráttu.

Kristín, móðir Auðar Birnu, var eina systir bræðranna: Björgvins, Charlesar, Þóris, Bjarna, Karls og Matthíasar.

Auja, eins og hún var kölluð, er sögð hafa verið skemmileg kona, gestrisin og félagslynd. Hún var fyrstu árin sín á Ísafirði en flutti suður 7 eða 8 ára. Hún kynntist manni sínum, Birni Kristjánssyni meðan þau voru sama í gagnfræðaskóla 15 ára en áður hafði hún verið í Ingimarsskóla. Þau voru alla tíð samrýmd og elsk að hvort öðru. Þau eignuðust engin börn en áttu því einungis hvort annað að og svo frændgarð hvors um sig sem naut þess að koma í heimsókn og njóta getsrisni þeirra. Þau gengu í hjónaband á 22. afmælisdegi Auðar 17. júlí 1953. Björn var fæddur 6. október 1931. Hann var búfræðingur að mennt en vann lengi vel við verslunarstörf. Hann var fæddur í Austubænum en flutti ungur að Bústaðabletti 3 hér í borg í hús sem Ásbyrgi var kallað. Þar bjuggu þau fyrstu árin sín, Auður og hann, fluttu svo að Völlum á Kjalarnesi og lokst aftur í Bústaðahverfið og bjuggu síðan í Austurgerði 1 en það hús stendur á lóð sem fjölskyldan fékk ásamt fleiri lóðum úr erfðafestulandi er Reykjavíkurborg tók svæðið eignarnámi á sínum tíma og skipulagði þar nýtt íbúðarhverfi. Þau ráku býli um tíma á Völlum og á Bústaðabletti en Auður vann þó alltaf við verslunarstörf.

Auður var góð húsmóðir og eldaði góðan mat. Ólafur H Ólafsson, frændi Björns minnist þess þegar hann var að alast upp hjá stórfjölskyldunni á Bústaðabletti að hann gat farið á milli eldhúsa hjá ömmu sinni og Auju og þefað úr pottunum fyrir matmálstíma og oftar en ekki átti ilmurinn úr eldhúsinu hjá Auju vinninginn.

Auður var lagleg kona, glæsileg og ætíð vel til höfð með sinn bleika varalit sem var hennar vörumerki.

Hún var félagslynd og hélt t.a.m. alla tíð sambandi við vinkonur sínar sem kynntust 7 ára. Þau Björn voru ástfangin hjón og því var það henni erfitt þegar hann féll frá. Björn lést 21. september 2012. Engin voru börnin en vinir reyndust henni vel og ættingjar líka. Sorgin var henni erfið og hún saknaði Björns mjög og átti það til að drekkja sorgum sínum með þeim hætti sem lítt byggir upp en dregur fremur úr fólki kraft og gleði.

[Innskot: Sjá hljóðupptöku]

Svo greindist hún með krabbamein vorið 2011 og það dró smátt og smátt úr henni allan kraft. Óli og Systa hafa reynst henni vel og heimsóttu hana reglulega og sama gerði Auðunn Björn frændi hennar. Systa var hjá henni á spítalanum til hinstu stundar, sat löngum við rúmið hennar og gisti jafnvel í sjúkrastofunni til að veita henni sem besta og hlýjast nærveru til dauðastundar ein einnig var þar viðstödd Stefanía Lára Magnúsdóttir, frænka Björns.

Auður var alla tíð mikill fagurkeri, unni fögrum hlutum og fatnaði, skartgripum og skrauti en svo var hún líka mikil blómakona. Rósir voru hennar uppáhald og því fer vel á að ljóðið Rósin verði sungið yfir henni hér á efti. Hún var einnig mikill dýravinur, átti hunda og einnig ketti sem voru henni miklir gleðigjafar fram undir það síðasta.

Hún var alla tíð hrein og bein eins og hún á ætt til að rekja – eða það er alla vega mín skynjun á hennar fólki.

[Innskot: Sjá hljóðupptöku]

Hún dvaldi síðustu vikurnar á deild 11E á Landsspítlanum og naut þar einstakrar hjúkrunar og umönnunar sem hér er þakkað fyrir. Hún var alltaf hún sjálf, dálítið erfið á köflum en á skemmtilegan hátt, heyrði ég um hana sagt. Hún hafði húmor fyrir sjálfri sér og öðrum.

Starfsfólki á 11E er hér með þakkað fyrir frábær störf svo og starfsmönnum Heimahlynningar krabbameinssjúkra sem voru henni afar góðir með sinni faglegu elsku og frábæra viðmóti.

Komið er að leiðarlokum. Auður Birna verður lögð til hinstu hvíldar við hlið Björns sem hvílir við hjá foreldrum Auðar hér Fossvogi.

Kynslóðir koma, kynslóðir fara. Við erum fólk á ferð. Lífið er ævintýri þar sem fegurðin ríkir. Mótlæti og sorgir setja skugga sinn einnig í þá mynd. Hvernig væri líf okkar ef engin væru verkefnin að glíma við og mótlætið ekkert? Ætli við gætum þroskast við slík skilyrði? Ég efa það. Við reynum að forðast hið neikvæða og erfiða en verðum samt að takast á við það og sigrast á því. Í þeirri glímu skiptir trú miklu máli, trú og ekki síst von. Sic transit gloria mundi, segir í latnesku máltæki, Svo hverfur dýrð heimsins. Foldin er vissulega fögur en hún hverfur okkur sjónum við dauðann.

Við erum af þessari jörð og hverfum þangað aftur. Sú hringrás er okkur augljós. Kristin trú lætur þó ekki þar við sitja heldur boðar lausn úr viðjum hringrásararinnar frá mold til moldar og boðar upprisu og eilíft líf með orðunum: „af jörðu skaltu aftur upp rísa.“

Við skulum beina sjónum okkar að þessum orðum vonarinnar þegar við kveðjum góða konu, Auði Birnu Hauksdóttur sem lokið hefur dagsverki sínu og felum hana himni Guðs og því ríki sem við biðjum um í Faðir vor bæninni að verði hér á jörðu.

Við þráum öll fegurðina og þann frið sem Guð einn getur gefið. Megi okkur auðnast að lifa og starfa í þeirri fegurð og friði og fá að hverfa inn í þann vonarheim sem býr innra með öllum sem skynja hið stóra samhengi alls sem er.

Við erum á leiðinni heim.

Kynslóðir koma,
kynslóðir fara,
allar sömu ævigöng.

Blessuð sé minning Auðar Birnu Hauksdóttur og Guð blessi þig.

Amen.

Dýrðs sé Guði . . .

url: http://ornbardur.annall.is/2013-02-19/audur-birna-hauksdottir-1931-2013/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli