örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Ingveldur Bjarnadóttir Thoroddsen 1924-2013 · Heim · Auður Birna Hauksdóttir 1931-2013 »

Ríki og vald

Örn Bárður @ 14.09 17/2/13

truogpolitikRíki og vald
Prédikun við messu í Neskirkju
sunnudaginn 17. febrúar 2013 kl. 11
Fyrsta sunnudag í föstu.
Textaröð: B
Lexía: 1Mós 4.3-7
Pistill: Jak 1.12-16
Guðspjall: Lúk 22.24-32 (sjá neðanáls)

Þú getur hlustað á og lesið ræðuna hér fyrir neðan.

Horfðu á hendur þínar. Hvað hefur þú í höndum?

„Og yður fæ ég ríki í hendur“,

sagði Jesús við lærisveina sína. Hann tók mikla áhættu með hópinn sem hann valdi til starfa með sér, en hann treysti þeim, jafnvel þótt hann vissi að þá skorti margt og væru í raun gallagripir eins og aðrir dauðlegir menn.

Kristin trú og guðfræði er skynsöm þegar kemur að skilgreiningu á manninum. Hann er kóróna sköpunarverksins en á sama tíma er hann meinakind. Þessi jafnvægislist í mati á manninum er svo ótrúlega mikilvæg fyrir okkur í daglegu lífi. Mannkyninu hefur alltaf hætt til að fara út í mannadýrkun. Hetjur riðu um héruð í Íslendingasögunum en oftar en ekki hljóp drambið með þá í gönur. Hetjur íþróttanna í dag eru flottar á skjánum og á veggspjöldum í herbergjum barna- og unglinga en hetjurnar eru allar gallagripir, syndugar og breyskar manneskjur og fæstar til að hafa að fyrirmynd. Og stjórnmálamenn eru það líka enda þótt það sé rík tilhneiging hjá mörgum að bukka sig og beygja fyrir valdamönnum.

Ráðamenn eru oft snjallir í að leika á fólk og það þekkti Jesús. Hann ræðir um valdamenn í guðspjalli dagsins er hann segir:

„Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn.“

Ekkert er nýtt undir sólinni, segir í máltækinu. Valdið þá og valdið nú er samt við sig.

En hvers vegna er Jesús að tala um valdið við lærisveina sína? Hann gerir það vegna þess að hann vill að þeir taki mið af því, fjarlægi sig háttum þess en forðist það samt ekki. Hann talar við þá um afstöðuna til valdsins sem á að vera ímynd þjónsins. Þeir eiga að sinna öllum sínum verkum sem þjónar.

„Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn.“

„Og yður fæ ég ríki í hendur“. Þeir eru m.ö.o. kallaðir til að ráða og ríkja en gera það sem þjónar.

Jesús fékk þeim ríki og hann gaf Pétri lykla til að leysa og binda er hann sagði við hann:

„Ég mun fá þér lykla himnaríkis og hvað sem þú bindur á jörðu mun bundið á himnum og hvað sem þú leysir á jörðu mun leyst á himnum.“

Þetta sagði Jesús eftir að Pétur hafði orðið fyrstur til að skynja og játa að Jesús væri Kristur, að þessi maður frá Nazaret væri í raun Guð á jörðu.
Hvað gerði Pétur við þessa andlegu lykla? Hann batt og leysti. Hann beitti þeim til að bæta heiminn, hann Lykla-Pétur.

Kristin trú er ekki bara eitthvert himnahjal, koddabænir, signingar og krossmörk. Hún er afl til að breyta þessum heimi. Hún snýst um ríki Guðs og það að bæn Drottins rætist:

„til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“

Og svo er líka talað um lífsviðurværi í hinni drottinlegu bæn:

„Gef oss í dag vort daglegt brauð.“

Ekki er þetta nú illhöndlanlegt eins og ský á himni eða þokuslæða. Nei, þetta er áþreifanlegur veruleiki sem varðar réttlæti, mat og drykk, kaup og kjör, húsnæðismál og verðtryggingu lána, landbúnað og sjávarútveg, skóla og heimili, umönnun og hjúkrun, uppeldi barna og ást hjóna, líf og kjör einstaklinga á öllum aldri.

Þegar María guðsmóðir hafði skynjað að barnið sem hún bar undir belti var sjálfur Messías, konungurinn sem menn væntu til að koma á réttlæti, sagði hún í lofsöng sínum sem kallast Magnificat:

Önd mín miklar Drottin
og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar,

[takið eftir ambáttarhugtakinu, þjónshlutverkinu]

héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja. Því að mikla hluti hefur Hinn voldugi við mig gert og heilagt er nafn hans.
Miskunn hans við þá er óttast hann varir frá kyni til kyns

.
[Takið eftir: Drottinn hefur ekki gleymt sínum lýð. Miskunn hans varir að eilífu.]

Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum
og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.

[Takið eftir: Hann tvístrar þeim sem hrokast upp. Og tökum nú eftir orðum Maríu:]

Valdhöfum hefur hann steypt af stóli
og upp hafið smælingja, hungraða hefur hann fyllt gæðum en látið ríka tómhenta frá sér fara.
Hann hefur minnst miskunnar sinnar
og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,
eins og hann hét feðrum vorum,
Abraham og niðjum hans, eilíflega.

Hér er spáð fyrir um byltingu í ríki heimsins sem verður að víkja fyrir ríki Guðs.

Kristin trú snýst um mannlífið hér á jörðu. Hún hverfist um hugtök eins og réttlæti og sannleika, sanngirni og jöfnuð. Þetta eru pólitíks hugtök í þeim skilningi að þau varða fólk, borgara, en orðið pólitík er af sama stofni og gríska orðið polis sem merkir borg og politikoi sem merkir borgarar.

Prestur nokkur í Bandaríkjunum, Walter Taylor að nafni, sem fæddist í Mississippi og ólst upp í 14 systkina hópi og varð fyrsti svarti borgarstjórinn í Englewood í New Jersey, sagði:

„Stjórnmálin ákvarða inn í hvers konar heim þú fæðist, hvaða menntun þú hlýtur, heilsugæslu og vinnu, hvernig þú munt verja ellinni og jafnvel hvernig þú deyrð. Kirkjan verður líka að láta sig þetta varða og láta til sín taka á öllum þeim sviðum sem hafa áhrif á lífið á svona afgerandi hátt.“

Desmond Tutu, biskup ensku kirkjunnar, hin brosmilda hetja svartra í S-Afríku sagði:

„Ef þú sérð fíl með hala músar undir hæl sér og þú segist vera hlutlaus þá mun músin örugglega ekki kunna að meta hlutleysi þitt.“

Hér vísar hann til kverkataks hina sterku á hinum veiku.

Guð lætur sig varða líf fólks. Hann lætur sig varða aðstæður fólks, kjör þess og aðbúnað, hann lætur sig varða stjórnmál sbr. þessi orð úr 2. Mósebók:

„Ég hef séð eymd þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt kvein hennar undan þeim sem þrælka hana. Já, ég þekki þjáningu hennar. Ég er kominn niður til að bjarga henni úr greipum Egypta og leiða hana úr þessu landi og upp til lands sem er gott og víðlent, til lands sem flýtur í mjólk og hunangi, . . .“

Heyra trú og stjórnmál saman? Svarið er já því þannig er Guð. Hann sér þetta alltaf sem óaðskiljanlega hluti. Trú og stórnmál heyra saman, einnig trú og efnahgasmál.

Guð tekur sér ætíð stöðum með þeim sem eiga undir högg að sækja, hann stendur ætíð með hinum veika, kúgaða, þjakaða og þjáða. Hvernig má annað vera? Ef Guð stæði með harðstjórum og einræðisherrum væri hann sjálfur illgjarn. Ef Guð stæði með engum væri hann afskiptalaus sem um leið mundi merkja að hann væri illur því þar með styddi hann harðstjórann með því að mótmæla honum ekki. Guð stendur með hinum kúguðu og vegna þess að hann gerir það getum við treyst á gæsku hans og miskunn og sagt: Guð minn er miskunnsamur og kærleiksríkur.

Trú og stjórnmál, trú og efnahagsmál verða ekki slitin í sundur v.þ.a það að trúa er að framkvæma réttlætið.

Þegar fv. forsætisráðherra Breta, Gordon Brown, setti Ísland á lista með hryðjuverkasamtökum og illþýði heimsins, þá var hann í hlutverki fílsins sem stóð á hala músarinnar. En músin á Guð að bandamanni. Hún mun rétta úr kútnum. Réttlætið mun sigra.

Í spádómsbók Jeremía er talað um réttlæti og rétta trú og þar er vísað til valdhafa nokkurs með þessum orðum:

„En hann lagði stund á rétt og réttlæti
og honum vegnaði því vel.
Hann rak réttar hinna umkomulausu og snauðu
og allt gekk vel.
Er það ekki að játa mig?
spyr Drottinn.“

Af þessum orðum getum við dregið þá ályktun að það að reka réttar umkomulausra og snauðra sé einmitt leiðin til að játa Guð. Trúin er því fólgi í því að gera hið rétta og stuðla að réttlæti meðal manna.

Við erum kölluð til að þjóna þessu lífi, þjóna Guði og náunga okkar. Við erum kölluð til að elska Guð og náunga okkar eins og okkur sjálf. Boðið um að elska er boð um að taka til hendi í þessum heimi, heimi Guðs og samborgara okkar, hér á landi og úti um allan heim. Við erum eitt mannkyn og verðum að læra að lifa í sátt og samlyndi, skipta gæðum rétt og varðveita þessa dýrmætu jörð sem er einstök perla í alheiminum. Jörðin og lífið á henni er kraftaverk. Jörðin þeytist á ógnarhraða í kringum sólin á hverju ári og snýst um sjálfa sig dag hvern. Hún svífur innan um ótal hluti sem þjóta um geiminn á miklum hraða, hluti sem ógna þessari jörð eins og dæmin sanna. Í fyrradag ollu loftsteinar miklu tjóni í Rússlandi og stór loftsteinn flaug framhjá jörðu á ógnarhraða sama dag.
Við erum lukkunnar fólk sem býr á lukkunnar hnetti.

Messan í dag eins og allar messur um allan heim er fundarstaður Guðs og manns. Hér talar Guð til okkar í orði sínu og útleggingu. Hann varar okkur við freistingum og minnir á vald syndarinnar. Syndin er harðstjóri.

Guð mætir okkur í helgum sálmum og lofsöngvum messunnar. Hann tengist okkur í bæninni og í máltíðinni sem staðfestir að við erum öll við sama borð í ríki Guðs.

„Og yður fæ ég ríki í hendur“,

sagði Jesús við lærisveina sína. Átti það bara við um ungu mennina sem voru með honum forðum, postulana tólf? Hverjir hafa ríki hans í höndum? Höfum við þetta ríki í höndum? Hefur þú ríki Guðs í höndum þér?

Horfðu á hendur þínar. Hvað hefur þú í höndum?

Já, Jesús hefur fengið þér ríki sitt í hendur og þetta ríki dafnar og grær með bænum þínum og góðum verkum.

Þú og ég – við – erum þjónar þessa ríkis Guðs. Merkilegra hlutverk fyrirfinnst ekki á jörðu. Við gegnum mikilvægasta hlutverki sem til er. Við erum þjónar Guðs og eigum ríkið, fegurst allra ríkja, ríkið sem sigrar allt með elsku sinni, réttlæti og miskunn.

Dýrð sé Guði . . .

- – -
Guðspjall: Lúk 22.24-32
Og þeir fóru að metast um hver þeirra væri talinn mestur. En Jesús sagði við þá: „Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri sem situr til borðs eða hinn sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.
En það eruð þér sem hafið staðið með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.
Símon, Símon, Satan krafðist að fá að sælda yður eins og hveiti svo að hismið kæmi í ljós. En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú trúsystkin þín þegar þú ert snúinn við.“

- – -

Texta dagsins og aðrar upplýsingar um messudaginn er hægt að nálgast hér.

Innblástur gaf William Sloan Coffin heitinn.

url: http://ornbardur.annall.is/2013-02-17/riki-og-vald/

Athugasemdir

Fjöldi 2, nýjasta neðst

Kjartan Eggertsson @ 18/2/2013 09.10

Er það satt og er það rétt, – er það siður fagur?

Sannleikurinn er það sem við vitum, – en bara það og ekkert annað.
Réttlætið byggist á því sem við vitum.
Þekkingin er þad sem við höfum reynt og þannig verður fegurðin til og kemur innan frá.

Takk fyrir góðan pistil.

Kristjana Jóhannsdóttir @ 18/2/2013 20.01

Ég kann svo vel að meta þínar ræður, í þessari hefur þú einnig komið inná það hlutverk sem gerir það að verkum að allt gengur upp, með því að þjóna….vonandi á sá gjörningur og það orð eftir að eflast í ræðum og ritum.
Vertu blessaður.


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli