örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Elsa Einarsdóttir 1945-2013 · Heim · Ríki og vald »

Ingveldur Bjarnadóttir Thoroddsen 1924-2013

Örn Bárður @ 21.45 12/2/13

ingveldurbthoroddsenMinningarorð
Ingveldur Bjarnadóttir Thoroddsen
1924-2013
fv. húsmóðir og fótaaðgerðarfræðingur
Hátúni 6b áður Hjarðarhaga 27

Útför (bálför) frá Neskirkju
þriðjudaginn 12. febrúar 2013 kl. 15

Þú getur hlustað á ræðuna og lesið hana
hér fyrir neðan:

Góðverk dagsins stuðlar að hamingju morgundagsins.“

Svo segir í spakmæli eftir ókunnan höfund. Hann hefur án efa þekkt þau sannindi trúarinnar að lífið sé í raun fólgið því því að þjóna öðrum. Um þau mál sagði Jesús:

„Þið vitið að þeir sem ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá sem vill fremstur vera meðal ykkar sé þræll ykkar. Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“ (Matt 20.25-28)

Þegar ég ræddi við börnin hennar Ingveldar um það sem einkennt hefði líf hennar var þeim ofarlega í huga þjónustulund hennar og fórnfýsi. Hún lifði fyrir manninn sinn, börnin sín og barnabörn. Hún var ætíð boðin og búin til að þjóna og aðstoða og oftar en ekki hafði hún frumkvæðið og kom óumbeðin til að leggja góðum málum lið.

Ingveldur f. 31. október 1924 á Patreksfirði.

Foreldrar hennar voru Bjarni Bjarnason, söðlasmiður (1874–1958) og Guðfinna Guðnadóttir (1888–1973). Systkini Ingveldar voru,
Guðmundur Ingi (1921-1999),
Kjartan (1927-),
Laufey (1929-2009) og
Ragna (1931-).

Einnig átti hún tvö hálfsystkin,
Svöfu Loftsdóttur Jensen (1914-1993) og
Bjarna Bjarnason (1911-1985).

Ingveldur lést hinn 4. febrúar s.l. á Hrafnistu í Reykjavík á afmælisegi Gígju dóttur sinnar.

Fyrir utan skyldunám stundaði Ingveldur nám í Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði veturinn 1942-43. Hún giftist Einari Thoroddsen, skipstjóra, frá Vatnsdal við Patreksfjörð, 16. október 1943 en hann var f. 23. maí 1913, d. 13. maí 1991.

Ingveldur starfaði lengi sem fótaaðgerðarfræðingur samhliða heimilisstörfum.

Börn Einars og Inveldar eru:

Ólafur, lögfræðingur, hrl. f. 1945. Dætur hans, Ólöf Jónína f. 1969 og Hrafnhildur f. 1973. Sambýliskona Ólafs er Sigurbjörg Sverrisdóttir, f. 1954.

Ásta Steinunn, dósent við Hjúkrunarfræðideild HÍ, f. 1953. Gift Bolla Héðinssyni, hagfræðingi, f. 1954. Börn þeirra Sverrir f. 1980, Atli f. 1985 og Brynhildur f. 1989. Sonur Ástu og fóstursonur Bolla, Einar Gunnar Guðmundsson, f. 1972.

Gígja Guðfinna f. 1957.

Barnabarnabörnin eru sjö.

Ninna var ung þegar hún kynntist Einari, aðeins 18 ára, en hann 29 ára og kom úr 14 systkina hópi. Á heimili Einars stjórnaði móðir hans, Ólína Andrésdóttir, sem bjó seinna hjá Einari og Ninnu á Brávallagötu.

Ingveldur fæddist á Björgunum á Patreksfirði en þar var á sínum tíma blómleg útgerð og athafnalíf. Hún fór til Ísafjarðar á unglinsárum og fannst hún vera komin til stórborgar því þar var allt með svo flottum brag að hennar sögn.

Hún naut góðrar bernsku og ólst upp í glaðværum systkinahópi.

Einar átti sína bernsku handan fjarðarins í Vatnsdal. Rætur þeirra voru úr sama jarðvegi. Fjöllin fyrir vestan eru tignarleg og fögur og firðirnir margir langir og oft kyrrir og tærir. Suðurfirðirnir á Vestfjarðarkjálkanum eru bjartari en þeir nyrðri því meiri skel er í sjónum sem gefur annan blæ og endurskin, túrkisblátt og fagurt.

Hún var sjómannskona á fyrstu búskaparárum þeirra Einars enda hann löngum fjarri eins og togarasjómanna er háttur. Hún sá um heimilið og rak það af myndarskap enda menntuð til þess í einum besta húsmæðraskóla landsins.

Þegar foreldrar Einars fluttu suður bjuggu þau fyrst hjá ungu hjónunum. Áður höfðu Ninna og Einar leigt á Fjölnisveginum og síðan keypt á Brávallagötunni þar til þau byggðu tvíbýlishúsið að Hjarðarhaga 27. Það reyndi á ungu húsmóðurina að fá tengdamóður sína og stjórnsama 14 barna móður inn á heimilið en hún tók því af æðruleysi og sinni alkunnu þjónustulund.

Svo var það líka mikil breyting fyrir sjálfstæða húsmóður og sjómannskonu að fá skipstjórann í land á besta aldri. Einar hætti til sjós 1955 og varð yfirhafnsögumaður í Reykjavík, gegndi ýmsum trúnaðar- og félagsstörfum og sat tvö kjörtímabil í borgarstjórn fyrir Sjáflstæðisflokkinn.

Einar var einlægur trúmaður og fór í kirkju á hátíðum. Hann starfaði um árabil í Oddfellowreglunni. Ninna var líka trúuð en á annan hátt. Hún hafði löngum áhuga á andlegum málefnum í víðum skilningi og las bækur og greinar um slíkt. Hún hélt uppá Grétar og Svövu Fells og Sigvalda Hjálmarsson sem voru félagar hennar í Guðspekifélaginu og sótti hún starfið þar sér til andlegrar uppbyggingar.

Samband hennar og elsta barnabarnsins, Einars, var náið og sterkt og svo má ekki gleyma sambandi Ninnu og Gígju. Ninna fórnaði sér fyrir hana og var henni stoð og stytta í veikindum hennar og lífsglímu. Það gladdi hana að sjá Gígju komast í örugga höfn með sjálfstæðri búsetu í fallegri íbúð í Starengi þar sem vel er búið að geðfötluðum og til fyrirmyndar fyrir okkur sem þjóð og samfélag. Það var gaman að koma á heimili Gígju. Hún bauð mér uppá gott kaffi, gaf mér tvær myndir sem hún hafði málað sérstaklega handa prestinum og var kát yfir því að hann var ekki eldri en raun ber vitni en hún hermdi fyrir mig eftir ímynduðum gömlum presti sem hún hafði beðið eftir, enda gamansöm og glettin. Hún talaði margt um mömmu og sagði m.a.:

„Hún var góð mamma, sú besta í heimi!“

Gígja sagði að mamma hefði gjarnan notaða málshætti í þeirra samskiptum og gefið henni gott veganesti á margan hátt. Mér kemur til hugar spakmæli ensks guðfræðings og skálds:

„Ein góð móðir er á við hundrað kennara.“ (George Herbert 1593-1633)

Ninna var alla tíð vakin og sofin yfir velferð barna sinna og þau minnast margra góðverka sem hún gerði eins og t.a.m. þegar hún hengdi soðningu oftar en einu sinni á hurðarhúninn og án þess að láta mikið á því bera.

Hún var góð manneskja. Árið 1961 fór hún í uppskurð vegna brjóskloss og fékk sýkingu í kjölfarið sem hún átti lengi í.

Móðir hennar flutti inn á heimilið í sinni elli og bjó hjá þeim um árabil.

Ninna lærði fótaaðgerðarfræði hjá Emmu Cortes. Hún rak stofu í ein 30 ár, fyrst í Bankastræti 11, svo heima á Hjarðarhaganum og loks í Hátúninu. Hún naut þess að þjóna fólki, tala við það um heima og geima. Hún átti einkar auðvelt með að tala við fólk og var ekki síðri í að hlusta. Fólk kom til hennar út af tánum en fékk ekki síður snyrtingu á sálinni. Henni þótti vænt um fólkið sem hún þjónaði og hafði gjarnan orð á því hve yndislegt fólkið væri. Hún hafði sömu viðskiptavini árum saman og segir það margt um hennar góðu verk.

Hún var fús til að aka barnabörnunum hvert sem var í allskonar félagsstarf en þeim fannst hún nú vera farin að fara full frjálslega með umferðarreglurnar undir það síðasta svo þeirri þjónustu lauk fyrr en ætlað var og slysalaust.

Seinustu árin fór heilsunni hrakandi en hún fór meðan hún gat að heimsækja Stellu systur í Sóltúni og fylgdist allaf með börnunum, ekki síst Gígju.

Nú hefur hún lokið sínu dagsveki og fengið hvíld. Ástvinir hennar þakka fyrir að hafa fengið að njóta elsku hennar og umhyggju og fela hana Guði og himin hans.
Guð blessi minningur Ingveldar Bjarnadóttur Thoroddsen og Guð leiði okkur öll og blessi á lífsveginu.

Amen.

Dýrð sé Guði . . .

Segja frá fyrirkomulagi, ekki líkfylgd í hefðbundnum skilningi etc.

Erfidrykkja í Sunnusal, Hótel Sögu

Postulleg kveðja.

url: http://ornbardur.annall.is/2013-02-12/ingveldur-bjarnadottir-thoroddsen-19/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli