örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Unnur Guðbjörg Þorkelsdóttir 1937-2013 · Heim · Ingveldur Bjarnadóttir Thoroddsen 1924-2013 »

Elsa Einarsdóttir 1945-2013

Örn Bárður @ 21.38 12/2/13

elsaeinarsdottirMinningarorð
Elsa Einarsdóttir
1945-2013
Útför (bálför) frá Neskirkju
þriðjudaginn 12. febrúar 2013 kl. 13
Jarðsett í Fossvogi

Þú getur hlustað á ræðuna og lesið hana
hér fyrir neðan:

Ung sem gömul, öll erum við í lokaferðinn.“

Svo mælti skáld nokkurt á 19. öld.

Lífið er vegferð sem hefst við fæðingu.

Aðstæður voru nokkuð sérstakar þegar Elsa leit dagsins ljós. Hún var föðurlaus og líf hennar hafði hugsanlega kviknað síðustu nóttina sem faðir hennar lifði.

Foreldrar hennar sem áttu tvö börn á þeim tíma, dreng og stúlku, fóru vestur í Dýrafjörð til að láta skíra stúlkuna á Þingeyri en faðirinn var Dýrfirðingur. Þetta var ferð full eftirvæntingar. En skjótt skipast veður í lofti. Ungi faðirinn drukknaði í skemmtisiglingu á skektu í firðinum og barnið var skírt yfir kistu hans. Þá var ekki vitað að líf þriðja barnsins var hafið. En Elsa leit dagins ljós 9 mánuðum síðar. Ferð hennar var hafin, ferð sem var viðburðarrík á vegi sem varðaður var ótal hindrunum. En hún var áræðin og dugleg og komst sinna ferða þar til nýlega að líkaminn gat ekki meir.

Nú er hún horfin frá okkur á besta aldri og við þökkum fyrir líf hennar.

Elsa fæddist í Reykjavík 1. apríl 1945, á páskadag 1945 í Grjótagötunni heima hjá Hallgrími móðurafa sínum. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 1. febrúar síðastliðinn. Hún var þriðja og yngsta barn foreldra sinna, þeirra Guðfinnu Hallgrímsdóttur, f. á Vaðbrekku í Jökuldal 1919, d. 19. apríl 2002, og Einars Sigurðssonar, f. á Þingeyri 1917, d. 26. júní 1944. Eldri systkini eru Hallgrímur Hreiðar, f. 30. júní 1942, d. 10. maí 2009 og Einara Sigurbjörg, f. 1. október 1943. Yngri hálfsystir, sammæðra, var Bryndís Felixdóttir, f. 5. júlí 1951, d. 8. apríl 1977.

Guðfinnu móður Elsu var ekki fisjað saman. Í minningargrein um hana eftir nöfnu hennar og dótturdóttur segir m.a.:

„Hafði hún [. . . ] siglt í gegnum lífið og komið skipi sínu heilu til hafnar þrátt fyrir brotsjói sem mörkuðu hana ævilangt.“

Líf Guðfinnu var ótrúleg baráttusaga duglegrar konu sem mátti ítrekað upplifa sáran missi og vonbrigði.

Elsa ólst upp í Reykjavík og gekk hér í skóla en var við nám í Núpsskóla í Dýrafirði á unglingsárum. Hún var í sveit sem stelpa, ýmist hjá skyldfólki mömmu sinnar eða pabba, m.a. að Brekku sem er í nágrenni við Þingeyri.

Hún bjó sem barn að Skúlagötu 80 hér í borg og eignaðist þá vinkonur sem hún hélt sambandi við alla tíð.

Þann 15. október 1966 giftist Elsa Hreiðari Eyjólfssyni, f. í Reykjavík 1. apríl 1938. Þau áttu því sama afmælisdag.

Foreldrar hans voru Eyjólfur Júlíus Finnbogason, f. 8. júlí 1902, d. 4. nóvember 1979, og Guðmundína Margrét Sigurðardóttir, f. 18. júní 1900, d. 17. júlí 1963.
Börn Elsu og Hreiðars eru:

Guðfinna Margrét Hreiðarsdóttir, f. 3. apríl 1966, gift Halldóri Halldórssyni, f. 25. júlí 1964, þeirra börn: Hreiðar Ingi, f. 31. júlí 1990, María Sigríður, f. 23. febrúar 1992 og Hákon Ari, f. 12. ágúst 1996.

Sveinbarn, f. 19. september 1967, d. 19. september 1967.

Einar Sigurður Hreiðarsson, f. 2. maí 1969.

Hafdís Hreiðarsdóttir, f. 14. apríl 1972, hennar sambýlismaður Gísli Már Sigurjónsson, f. 26. apríl 1974, sonur þeirra: Kári, f. 26. júní 2006.

Elsa vann ýmis störf meðan hún hafði heilsu til en var lengstum heimavinnandi. Hún vann um tíma í kaffiteríunni í gömlu flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli og síðar í banka.

Ung fór hún til Danmerkur og Þýskalands í ævintýraleit. Hún efldist í tungumálakunnáttu og lærði margt á þessum ferðum.

Árið 1983 veiktist hún alvarlega eftir lítilsháttar skurðaðgerð og náði aldrei fullri heilsu eftir það.

Á fyrstu búskaparárum sínum bjuggu Elsa og Hreiðar í Reykjavík en fluttu síðan vestur á Snæfellsnes þar sem þau voru um nokkurra ára skeið.

Árið 1974 hóf Hreiðar hóf störf í álverinu í Straumsvík og vann þar um árabil. Var heimili þeirra þá um tíma á Vatnsleysuströnd en síðan í Höfnum á Reykjanesi. Hreiðar og Elsa skildu árið 1986. Þau voru þá flutt í Garðabæ þar sem Elsa bjó áfram til ársins 1991 en flutti þá í SEM-húsið við Sléttuveg í Reykjavík þar sem heimili hennar var til hinsta dags.

Elsa tókst á við veikindi sín og heiluleysi af hugrekki og æðruleysi. Hún var lengi að mestu bundin við hjólastól en hún eignaðist svo vel út búinn bíl sem hún ók út um allt og sendi meira segja með skipi til Evrópu þar sem hún tók við bílnum og ók langan veg sér til skemmtunar, uppbyggingar og fróðleiks.

Elsa bjó yfir seiglu og krafti. Hún var oft alvarlega veik en komst alltaf upp úr sínum erfiðleikum. Hún fór í margar aðgerðir hér heima og í Svíþjóð. Andinn var alla tíð óbugaður en hún varð þó að lokum að játa sig sigraða. Sjúkraskrár hennar voru miklar að vöxtum og ef ekki væru þær nú í tölvutæku formi hefði jafnvel þurft heilan gám til að rúma þær.

Hún hafði yndi af samskiptum við fólk og talaði alla tíð mikið, ekki hvað síst í síma og fylgdist þannig með fólkinu sínu af áhuga. Hún var stálminnug og mundi atvik í smáatriðum, dagsetningar og heilu samtölin frá orði til orðs.

Hún hafði mikin áhuga á mat og matargerð enda þótt hún borðaði nú ekki mikið sjálf.

Hún var greind og hafði næman skilning á mikilvægi menntunar. „Mennt er máttur“, segir í máltækinu. Hún lagði upp úr því að börnin hennar gengju menntaveginn og það gekk eftir. Þau eru öll með háskólapróf.

Hún fylgdist alla tíð vel með þjóðfélagsumærðunni og hlustaði gjarnan á Útvarp Sögu þar sem þjóðin fær tækifæri til að tjá sig um allt milli himins og jarðar.
Hún las mikið um ævina og sótti í fróðleik um menn og málefni.

Hún var trúuð kona og átti ríka von um framhaldslíf og því fer vel á því að við heyrum hér í dag, enska lagið We’ll Meet Again.

Svissneskir lækinirinn Elisabeth Kübler Ross sem varð fræg fyrir rannsóknir sínar á dauðanum og reynslu deyjandi fólks sagði m.a.:

„Dauðinn er einfaldlega lausn frá líkamanum, líkt því þegar fiðrildið kemur úr púpunni. . . . Það er eins og að leggja vetrarkápuna til hliðar, þegar vorið kemur.“

Úti er mildara veður en oft á þessum árstíma. Trén eru ólaufguð og grasið er visnað á vetrartíð, en allt mun það lifna að vori, laufgast og grænka, skipta litum og blómgast fyrir upprisumátt geislandi sólar.

Náttúran flytur okkur vísdóm í myndmáli sem haft hefur áhrif á trúartjáningu um aldir. Kristin trú boðar von. Hún lætur sig varða lífið meir en dauðann. Kristin trú snýst að mestu um líf fólks hér á jörðu, kjör þess og aðstæður, réttlæti, miskunn og sannleika. Hin kristna von beinir sjónum okkar að betra þjóðfélagi, fegurri heimi, en hún horfir lengra og hærra og boðar okkur líka trú á eilífðina, á himinn Guðs.

„Ung sem gömul, öll erum við í lokaferðinn.“

Lífið er vegeferð sem hefst við fæðingu og leiðir til dauða en þá er stærsta ævintýrið eftir!

Við felum Elsu þessari von og biðjum henni blessunar um eilífð alla. Guð blessi hana og okkur sem enn erum á lífsveginum og gefi að okkur takist að lifa fallega í þjónustu við lífið og þar með í þjónustu við Guð. Megi hann svo einnig kenna okkur í fyllingu tímans að deyja æðrulaus í trausti til hinnar kristnu vonar um upprisu og eilíft líf.

Dýrð sé Guði . . .

Amen.


Kveðja frá Önnu Vilhjálmsdóttur sem ekki komst til útfararinnar vegna lasleika.

Kistan verður borin fram í forkirkju þar sem signt verður yfir. Hefðbundin líkfyld í garð verður ekki þar sem um bálför er að ræða.

Erfidrykkja í Safnaðarheimili Neskirkju, skálað í freyðivíni að ósk hennar sjálfrar!

Postulleg blessun . . .

url: http://ornbardur.annall.is/2013-02-12/elsa-einarsdottir-1945-2013/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli