örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Gyða Ólafsdóttir 1926-2013 · Heim · Elsa Einarsdóttir 1945-2013 »

Unnur Guðbjörg Þorkelsdóttir 1937-2013

Örn Bárður @ 17.53 11/2/13

unnurbthorkelsdottirMinningarorð
Unnur Guðbjörg Þorkelsdóttir
1937-2013
hárgreiðslumeistari
Útför (bálför) frá Garðakirkju mánudaginn 11. febrúar 2013 kl. 15
Jarðsett í Sóllandi að lokinni bálför

Þú getur hlustað á ræðuna og lesið hana hér fyrir neðan:

Þegar ég spurði börnin hennar Unnar um yfirskrift yfir líf móður þeirra þá stóð ekki á svarinu:

Hún var klettur.

Þau hafa misst mikið því hún var þeim skjöldur og skjól í stormum lífs og gleðigjafi á góðum dögum sem dimmum. Hún var létt og kát í skapi og átti auðvelt með að sjá bjartari hliðar lífsins. Hún var klettur.

Mig langar að rifja upp sögu af manni sem var sannkallaður klettur. Sagan er úr Matteusarguðspjalli (kafla16.13-19):

„Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí spurði hann lærisveina sína: „Hvern segja menn Mannssoninn vera?“
Þeir svöruðu: „Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.“
Hann spyr: „En þið, hvern segið þið mig vera?“
Símon Pétur svarar: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“
Þá segir Jesús við hann: „Sæll ert þú, Símon Jónasson! Enginn maður hefur opinberað þér þetta heldur faðir minn í himninum. Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis og hvað sem þú bindur á jörðu mun bundið á himnum og hvað sem þú leysir á jörðu mun leyst á himnum.“

Kirkjan í árdaga byggðist á starfi fámenns hóps fylgjenda Jesú sem treystu orðum hans og voru fastir fyrir og áreiðanlegir. Þeir voru í raun allir sem klettur þó Símon einn fengi viðurnefnið klettur, á grísku Petros eða Pétur.

Ein mikilvægasta stoð heilbrigðs þjóðfélags er traustið sem fólk ber til hvers annars. Án trausts hrinur þjóðfélagið. Við getum ekki komist áfram án trausts. Í umferðinni verðum við að treysta því að flestir fari eftir settum reglum, aki t.a.m. ekki á vinstri kanti í hægri umferð, fari yfir á grænu ljósi en ekki rauðu, að fólk standi við gerða samninga, að handtak og yfirlýsing standi sem skrifaður samningur. Þetta er sagt vera að riðlast á ýmsum sviðum og það er miður. Ef einstaklingar bregðast trausti í vaxandi mæli hrynur þjóðfélagið.

Orðið traust er að merkingu til náskylt orðinu trú. Að trúa er að treysta. Að trúa á upprisu og eilíft líf byggist á upprisu Krists og trausti til vitnisburðar þeirra sem sáu hann upprisinn. Að trú á Guð er að treysta orði hans og loforðum, speki og visku, elsku og umhyggju, sem aldrei bregst. Guð er hinn hinsti klettur sem aldrei bregst. Aldrei!

Unnur Guðbjörg Þorkelsdóttir, hárgreiðslumeistari, fæddist í Reykjavík hinn 20. ágúst 1937. Hún lést á Líknardeild Landspítalans 4. febrúar síðastliðinn.

Foreldrar Unnar voru Margrét Einarsdóttir, f. 1913 d.1998, í Hafnarfirði, og Þorkell Ingibergsson byggingameistari, f. 1908 d. 1995, í Reykjavík. Foreldrar Margrétar voru Ingveldur Þórðardóttir og Einar Einarsson sjómaður. Foreldrar Þorkels voru Sigurdís Jónsdóttir og Ingibergur Þorkelsson trésmíðameistari. Systkini Unnar eru Inga f. 1943 d. 2011 og Ingibergur f. 1947.

Unnur giftist Gylfa Gíslasyni, teiknara og myndlistarmanni, f. 1940 d. 2006, þau skildu. Börn þeirra eru Margrét Þóra fornleifafræðingur og bólstrari, búsett í Svíþjóð, f. 1959, Kristín Edda grafískur hönnuður, f. 1962, Unnur Kristbjörg doktor í næringarfræði, búsett í Bandaríkjunum, f. 1964, Freyja ljósmyndari, f. 1967, og Þorkell Snorri tölvumaður, búsettur í Svíþjóð, f. 1970. Barnabörn Unnar og Gylfa eru níu og barnabarnabarn eitt.

Unnur ólst upp í Reykjavík, en bjó einnig í Garðabæ og á Álftanesi. Hún lærði hárgreiðslu við Iðnskólann í Reykjavík og stofnaði fljótlega eigin hárgreiðslustofu. Seinna starfaði hún á hárgreiðslustofunum Hárhúsi Leó, Permu og Verónu. Einnig rak hún hárgreiðslustofuna Vatnsberann í Hólmgarði með góðvinkonu sinni Guðrúnu Hauksdóttur.

Unnur var mikil garðyrkjukona. Hennar yndi var að vinna í garði sínum og gróðurhúsi á Álftanesi. Hún var tónlistarunnandi og spilaði á píanó og harmoniku sem hún lærði á hjá Karli Jónatanssyni. Hún spilaði með Harmonikufélagi Reykjavíkur, í hljómsveitinni Stormur og í kvartettinum Ömmurnar í mörg ár.

Unnur bjó við ást og öryggi sem barn og unglingur. Hún var myndarleg kona og þegar hún var að byrja að slá sér upp með Gylfa mætti hún á stefnumót á glæsilegri bifreið föður síns eins og skvísa úr Hollywoodmynd. Þá var stæll á unga parinu á rúntinum í Reykjavík.

Unnur hafði alla tíð nóg að gera í sínu fagi. Hún var vandvirkur fagmaður og gerði marga ánægða á sinni starfsævi sem gengu út frá henni með nýja klippingu, flott permanent, túperingu, strípur eða styttur.

Helga Snæbjörnsdóttir, skólasystir Unnar og Birgir Guðmundsson, maður hennar, Álftanesi, biðja fyrir góðar kveðjur en þau eru stödd erlendis. Strax á unglingsárunum fékk Unnur að spreyta sig á hári vinkonu sinnar samkvæmt nýjustu tísku.

Hún vann alla tíð mikið enda þurfi hún þess með 5 börn á framfæri eftir að þau Gylfi skildu. Hún átti góðan bakhjarl í foreldrum sínum og eftir að þau féllu frá vænkaðist hagur hennar og hún gat leyft sér ýmislegt sem áður kom ekki til greina.

Eftir að hún flutti að heiman bjó hún fyrst í Mávahlíðinni, svo í Miðtúni í Garðabæ, þá aftur í Reykjavík og loks á Álftanesi þar sem hún átti fallegt heimili. Hún var listræn og næm fyrir hönnun og fegurð. Garðurinn og gróðurinn gaf henni mikið. Hún ferðaðist víða hin síðari árin og naut þess að skoða heiminn. Tónlistin var stór þáttur í lífi hennar og hún lærði sjálf að spila á píanó og harmonikku og naut þess alla tíð að læra eitthvað nýtt og spennandi.

Lífið er spennandi áskorun og þrátt fyrir mótlæti og erfiðleika er lífið og verður áskorun. Við Íslendingar göngum nú í gengum efnahagslega erfiðleika. Lífið nú er eins og ég man það á vissum tímabilum á mínum yngri árum. Fólk lifði góðu lífi á þeim tíma enda þótt tækifærin væru færri og efnisgæði minni. Hamingjan er nefnilega hið innra með okkur og hefur fátt að gera með peninga, prjál eða glingur. Hamingjan er hugarafstaða. Sá mæti maður, Abraham Lincoln, sagði:

„Flestir eru um það bil eins hamingjusamir og þeir hafa ákveðið með sjálfum sér að þeir skuli vera.“

Unnur leitaðist við að lifa hamingjuríku lífi þrátt fyrir erfiðleika og mótbyr. Hún lifði fyrir börnin sín og vildi að þau kæmust til mennta og nytu öryggis og gleði í sínum störfum. Hún lagði sig alla tíð fram um að draumar þeirra gætu ræst. Unnur var barnabörnum sínum góð amma og passaði þau löngum stundum, þær voru ófáar næturnar sem þau gistu hjá henni.

Börnin kveðja hana með söknuði, djúpri virðingu og einlægri þökk fyrir allt sem hún var þeim og fjölskyldum þeirra. Tengdadóttir hennar, Kristina Nordh (frb.: Núrd), og tengdasonur, Farid AitSahlia (frb.: Æt-salia) sem eru erlendis biðja fyrir góðar kveðjur. Ömmubörnin Alvin, Malte, Sunna, Anya og Lilia, og langömmubarnið, Jana, sem hafa átt dýrmætar stundir með Unni senda hingað kveðjur sínar.

Hér kveður hana stór hópur ættingja, vina og samferðafólks og þakkar henni samfylgdina.

Hún greindist með krabbamein í byrjun desember sem leiddi hana til dauða á skömmum tíma. Líklega hafði það búið um sig um nokkurn tíma án þess að hún bæri það á torg eða talaði við lækna um það.

Unnur lifði góðu lífi og kom börnum sínum vel til manns. Þau eru með margvíslega og ólíka hæfileika en öll með hið listræna innsæi sem þau sækja til beggja foreldra sinna.

Börnin hennar voru öll hjá henni þegar hún skildi við og það var henni án efa mikils virði og þeim að eiga dýrmætar og gefandi stundir með mömmu til hinstu stundar.

Nú er hún farin, hún sem var ykkur klettur, skjöldur og skjól. Og þá tekur nýtt tímabil við þar sem þið, systkinin, hvert og eitt, standið frammi fyrir þeirri áskorun að vera ykkar nánasta fólki sem klettur.

Við eigum vonandi öll einhverja að sem eru sem klettur. Mannlífið er að vísu brothætt og mennirnir breyskir en einn er sá sem aldrei bregst og það er Guð í Jesú Kristi. Guð kom til okkar í Jesú og það var Pétur sem fyrstur skynjaði, skildi og játaði að þessi maður, Jesús, væri í raun Guð á jörðu. Rökhugsun dugar ekki til að skapa trú. Til þess að við skiljum þennan leyndardóm þurfum við að verða fyrir opinberun Guðs. Heilagur andi Guðs getur opnað okkur skilning á hinum dýpri sannindum tilverunnar. Leitum þess skilnings. Biðjum Guð að gefa okkur þetta innsæi sem Pétur hafði er hann sagði:

„Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“

[Innskot á hljóðupptöku]

Við felum Unni lifandi Guði og himni hans. Guð geymi hana og blessi að eilífu. Guð leiði ykkur, börnin hennar og ástvini, samferðafólk hennar og okkur öll. Blessuð sé minning Unnar Þorkelsdóttur og Guð blessi þig.
Amen.

Dýrð sé Guði . . .

Ekki líkfylgd í garð, kistan borin út etc – segja frá fyrirkomulagi.
Greftrun í Sóllandi að lokinni bálför.
Erfi í Garðaholti.

Postulleg blessun.

url: http://ornbardur.annall.is/2013-02-11/unnur-gudbjorg-thorkelsdottir-1937-2013/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli