örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Kristjón Þorkelsson 1955-2013 · Heim · Unnur Guðbjörg Þorkelsdóttir 1937-2013 »

Gyða Ólafsdóttir 1926-2013

Örn Bárður @ 17.47 11/2/13

gydaolafsdottirMinningarorð
Gyða Ólafsdóttir
1926-2013
fv. húsmóðir og starfsmaður
Háskólabíós og Happdrættis Háskólans

Útför (bálför) frá Neskirkju
mánudaginn 11. febrúar 2013 kl. 13

Þú getur hlustað á ræðuna og lesið hana hér fyrir neðan:

Getum við verið glöð á sorgarstund? Já, þegar við kveðjum góða manneskju og þökkum fyrir líf hennar. Þannig er Gyða kvödd í dag af þakkátum börnum, tengdadóttur og afkomendum, vinum og vandamönnum. Hún bjó yfir bjartsýni og gleði. Á henni sannaðist spakmælið sem hljóðar svo:

„Bros: ljós í andlitsglugganum sem sýnir að hjartað er heima.“

Hún var glaðlynd og lifði lífinu lifandi.

Það er list að lifa fallega og kunna að njóta andartaksins. Lífið er stutt og eitt af því fáa sem við vitum með vissu er óvissan. Þess vegna er svo mikilvægt að njóta dagsins.

„Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum,
áður en vondu dagarnir koma
og þau árin nálgast er þú segir um: „Mér líka þau ekki,“
áður en sólin myrkvast og ljósið
og tunglið og stjörnurnar,
áður en skýin koma aftur eftir regnið, . . . “ (Préd 12.1-2)

Lífið er gjöf, stærsta gjöfin og mestu skiptir að njóta hennar í gleði og þökk.

Gyða fæddist í Reykjavík 24. desember 1926. Hún lést á Landspítalanum Fossvogi að kvöldi 3. febrúar síðastliðinn. Gyða var dóttir hjónanna Ólafs Sigurðssonar f. á Núpi í Dýrafirði 20. ágúst 1884, d. 9. febrúar 1969 og Unu Þorsteinsdóttur f. í Kvöldroðanum á Grímsstaðaholti 7. október 1896, d. 19. mars 1965.

Gyða ólst upp á Grettisgötu 36B og þar fæddist hún og systkini hennar en hún var 3ja í röð 5 syskina sem voru:

Ásta f. 15. nóvember 1921, d. 21. júní 2010,
Sigurður f. 16. mars 1923, d. 20. apríl 1994,
Gunnar Helgi f. 16. apríl 1928, d. 11. október 2009 og
Ólafur f. 7. maí 1937 d. 25. ágúst 1994. Öll látin.

Hún gekk í Austubæjarskóla en var áður í skóla á Lindargötunni. Það var spennandi að vera ung í Reykjavík fyrir stríð og á stríðsárunum. Hún var sjómannsdóttir og allir bræður hennar urðu sjómenn og systir hennar giftist sjómanni. Seltan var í blóðinu og lífið snerist um að fylgjast með veðri og vita hvar skipin voru á hverjum tíma. Og auðvitað varð hún sjómannskona.

Þann 8. júní 1946 giftist Gyða eiginmanni sínum Stefáni Lúther Stefánssyni, vélstjóra, sem var fæddur á Hallgerðarstaðakoti í Hörgárdal 18. janúar 1923. Þau áttu saman góða daga en Stefán féll frá á besta aldri 3. desember 1984 tæplega 62ja ára. Gyða og Stefán hófu búskap í fjölskylduhúsinu á Grettisgötu og bjuggu þar allt til ársins 1956 er þau fluttu að Hjarðarhaga 58.

Börn Gyðu og Stefáns eru Stefán Gunnar f. 1946, Ella f. 1951 og drengur sem sem dó á fyrsta degi 8. febrúar 1961 á 15 ára afmælisdegi Stefáns Gunnars. Var það henni erfið reynsla sem setti mark sitt á hana upp frá því.

Stefán Gunnar er kvæntur Hafdísi Hannesdóttur f. 19. október 1953 og eiga þau þrjú börn a)Gunnar Hauk f. 15. október 1972 kvæntur Arnþrúði Jónsdóttur f. 2. október 1973 eiga þau tvær dætur Þórunni Snjólaugu f. 19. júlí 1998 og Gyðu f. 13. júlí 2007 b) Bertu Ósk f. 4. apríl 1975 í sambúð með Markúsi Þ. Þórhallssyni f. 17. nóvember 1964. Dóttir Bertu og Þorbjörns Inga Ólasonar er Rebekka Rut f. 14. nóvember 1999 c) Stefán Örn f. 3. ágúst 1980 kvæntur Línu Björg Tryggvadóttur f. 17. júní 1971 dóttir þeirra er Þórunn Hafdís f. 5. ágúst 2008.

Gyða minntist þess gjarnan þegar hún sá Stefán fyrst á göngu í hverfinu en hann bjó þá á Bergþórugötunni. Hún hélt í fyrstu að hann væri lofaður en svo var ekki og felldu þau hugi saman. Hann var að norðan og þau fóru oft þangað síðar á ævinni og Gyðu þótti einkar gaman að koma til Akureyrar. Þau fóru gjarnan með rútu norður og börnin rifja upp að það tók allan daginn að aka norður með viðkomu í Fornahvammi þar sem snæddur var hádegisverður, Blöndósi þar sem fólk fékk sér kaffi og loks var áð í Varmahlíð síðdegis og komið til Akureyrar um kvöldið. Nú er hægt að skutlast þetta á malbikuðum vegi á hraðskeiðum bílum á nokkrum tímum. Gyða lærði á bíl og ók um allt fram á þennan vetur. Áður en þau eignuðust bíl fóru þau oft í ferðalögin innanlands með Baldri sem var giftur systur Stefáns og hafði góða bíla til umráða. Þau eignuðust sumarbúðstað á Þingvöllum og fóru oft þangað og nutu náttúrufegurðar og kyrrðar á þeim helga stað. Foreldrar hennar höfuð byggt bústaðinn og hún og Stefán höfðu yndi af að halda honum við og bæta á allan hátt.

Gyða var alla tíð hraust en glímdi við brjósklos og fór í aðgerð við því fyrir mörgum árum, en hún tókst ekki sem skyldi en hún kvartaði aldrei. Hún veiktist svo fyrr í vetur, fékk kransæðastíflu sem leiddi hana til dauða. Sjúkrahúsvist hennar var stutt og hún kvaddi fólkið sitt sátt við Guð og menn.

Lengst af var Gyða heimavinnandi farmannskona en fór síðan að vinna í Háskólabíói og starfaði þar í 19 ár og eftir það hjá Happdrætti Háskólans, allt til starfsloka.
Börnin muna góða bernsku á glaðværu heimili, fyrst á Greittisgötunni þar sem innkaupin fóru fram í KRON á horninu á Vitastíg og Grettisgötu. Stefán Gunnar man enn að hægt var að fá kók og prins fyrri 2 krónur og 50 aura. Amma bjó þá líka í húsinu og fleiri ættmenn og alltaf var ys og þys heima, glaðværð og gáski. Þá var það rifjað upp í mín eyru þegar afi kom heim frá Brasilíu með forláta borð með mynd sem gerð var úr fiðrildavængjum og gler yfir. Svo kom afi líka með kúrekagalla frá Ameríku sem var svo flottur að hverfið komst í uppnám og því varð að nota búninginn í skömmtum en aldrei allan í einu!

Pabbi var löngum að heiman en mamma stjórnaði öllu af festu og styrk. Svo kom pabbi í land og þá var veisla með Jolly Cola og allskonar nammi á borðum. Gyða fór oft í siglingu með Stefáni til Evrópu og naut þess að koma til útlanda. Stefán Gunnar var sendur í sveit á sumrin og var m.a. í Borgarfirði, Eyjafirði og vestur í Dýrafirði á heimaslóðum móðurafa síns. Ella fór gjarnan til Huldu frænku á Akureyri meðan mamma sigldi.

Gyða hafði góða kímnigáfu en var ögn kaldhæðin á köflum. Hún var gestrisin, útsjónarsöm og kláraði úrlausnarefni daganna á sinn glaðværa hátt. Hún var minnug og skemmtileg í frásögnum sínum um menn og málefni. Alltaf var líf í kringum hana. Hún hafði t.d. gaman af fótbolta og það var rifjað upp þegar Stefán fór með henni á völllinn að horfa á knattspyrnuleik og sagðist aldrei mundu gera það aftur því hún varð svo æst og hrópaði hástöfum allan tímann!

Hún hafði áhuga á góðri myndlist og keypti verk til að hafa heima og einnig til gjafa. Þegar Erró var að hefja sinn feril, en hann var ætttengdur nágrönnum og vinum fjölskyldunnar, þá mætti öll fjölskyldan hennar í Listamannaskálann og keypti verk til að styrkja unga manninn og hvetja til dáða.

Hún var flink í höndum og vann margar hannyrðir, saumaði og prjónaði og svo var hún afar dugleg við matseld og bakstur og hafði sjaldan minna en 5 sortir með kaffinu til hinsta dags. Hún hélt jafnan upp á afmælið sitt á aðfangadag með veilsuborði frá morgni og fram eftir degi, svo fór steikin í ofninn seinni partinn og loks var jólaboð stórfjölskyldunnar haldið á jóladag og á 2. í jólum var hún mætt í bíóið að selja miða. Hún var þrælskipulögð í sínum vinnubrögðum og komst yfir mikið með því að hafa allt klárt í tíma.

Gyða var jákvæð manneskja, lífsglöð og sterk kona. Hún var vinsæl og kom sér vel í vinnu. Hún átti einkar gott með að tengjast fólki, var opin og ræðin.

Hún fylgdist grannt með börnum sínum og barnabörnum og vissi alltaf hvar þau voru og hvað um var að vera. Hún var ættrækin og hélt góðu sambandi við vinkonur sínar sem héldu hópinn allt frá bernskjuárum. Hún var dálítil drottning í sér og naut þess að vera vel til höfð og með góðan varalit. Börnin segja að hún hafi varla farið út með ruslið án þess að varalita sig fyrst. Hún var fagurkeri og átti fallegt heimili, fín föt og lagði upp úr því að hafa eitthvað fallegt skart.

Löngu eftir að Gyða varð ekkja kynntis hún góðum vini, Guðmundi Guðmundarsyni, sem hafði svipuð áhugamál og hún og áttu þau góðar stundir saman þar til hann lést.

Hún vissi vel að hverju stefndi og var af sínu hispursleysi og hugrekki búin að undirbúa þessa athöfn í smáatriðum. Hún hefur lokið sínu dagsverki. Lífinu lifði hún hér í Reykjavík og aðeins á þrem stöðum: á Grettisgötu, Hjarðarhaga og á Lindargötu.

Gyða er sögðu hafa verið yndisleg manneskja, glaðvær og ættrækin. Hún var góð manneskja sem kunni að lifa lífinu og naut þess jafnan að vera til.
Og hér kemur spakmæli um ellina:

„Við hættum ekki að leika okkur vegna þess að við eldumst. Við eldumst vegna þess að við hættum að leika okkur.“

Lífið er gjöf. Við njótum þess best ef okkur tekst að lifa því í gleði og af áhuga. Hamingjuna finnum við í því að gefa og þjóna öðrum því elskan, þessi auðlind lífsins, eykst við það að af henni sé veitt.

Gyða var veitul kona og átti góða ævi. Hún trúði á hið góða og var ávallt undirbúin fyrir stóru stundir lífsins.

Og nú er stærsta stundin runnin upp, sú stærsta á eftir fæðingunni. Samkvæmt hinni kristnu von ríkir eilífðin ein þegar þessu jarðlífi er lokið. Eilífðin er þó ekki þannig að hún taki við af jarðlífinu, hún er til samhliða því v.þ.a í skírninni erum við vígð eilífðinni og hún er því okkar meðan við lifum hér á jörðu. Leitumst við að skilja þessi trúarsannindi og njóta þeirra samhliða jarðlífinu. Við erum börn tveggja heima, himins og jarðar, og lifun í báðum heimum samtímis en svo ríkir eilífiðin ein.

Við felum Gyðu Ólafsdóttur himni Guð og eilífð hans og biðjum henni blessunar. Blessuð sé minning hennar og Guð blessi okkur sem enn erum á lífsveginum og gefi okkur náð til þess að lifa fallega og deyja æðrulaus í fyllingu tímans, í trú á Guð og eilífa elsku hans.

Dýrð sé Guði . . . .

Amen.

Tilkynningar:
Kveðjur
Frá Noregi eru sendar hugheilar samúðarkveðjur frá: Guðlaugu Maggý, Láru, Sigmundi og fjölskyldum þeirra, en þau eru systkini Hafdísar tengdadóttur Gyðu.

Bálför, engin líkfylgd, signt yfir í lok athafnar.

Jarðsett verður í Fossvogi.

url: http://ornbardur.annall.is/2013-02-11/gyda-olafsdottir-1926-2013/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli