örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Kristján Tryggvi Jóhannsson 1929-2013 · Heim · Gyða Ólafsdóttir 1926-2013 »

Kristjón Þorkelsson 1955-2013

Örn Bárður @ 20.40 6/2/13

kristjonthorkelssonMinningarorð
Kristjón Þorkelsson
1955-2013
sendifulltrúi RKÍ
Útför frá Fossvogskirkju
miðvikudaginn 6. febrúar 2013 kl. 15
Jarðsett verður
í Reynivallakirkjugarði í Kjós
að lokinni bálför.

Pistill:
1. Kor 5.17-21 Ný sköpun í Kristi
Guðspjall:
Jóh 4.5-15 Jesús og samverska konan

Les og hlusta hér fyrir neðan:

Lifandi vatn! Á Íslandi streymir vatnið fram í ám og lækjum og fossar fram í stórfljótum sem jöklar gefa af sér þegar sólin vermir þá og bræðir. Ísland er baðað vatni árið um kring. Hér rignir og snjóar. Við erum rík þjóð. Fullyrða má að við séum ofdekruð hér á landi, ofdrekruð af gnægð vatns. Víða í heimi er vatn af skornum skammti og vinnan við að afla vatns er erfiðisvinna sem í mörgum tilfellum er unnin af stúlkum og konum. Í Neskirkju, þar sem ég þjóna, höfum við í nokkur ár birt fermingarbörnum myndasýningu um öflun vatns í Afríku, byggingu brunna og það hvernig unnt er að gjörbreyta högum fólks með því að gefa þorpum og sveitum nýjan, varanlegan brunn. Dælan við brunninn leysir stúlkur undan þrældómi og gerir þeim kleift að sækja skóla og mennta sig. Hið hreina brunnvatn í stað hins grugguga og mengaða, sem áður var, bætir heilsufar og bjargar lífi þúsunda, einkum barna. Íslensk fermingarbörn hafa heillast af þessu verkefni og safnað álitlegri upphæð á hverjum vetri í áratug eða svo með því að ganga í hús og hvetja sóknarbörn til þess að taka þátt í þessu lífgefandi verkefni. Þau þjóna þannig lífinu sjálfu og þjóna Kristi.

Kristjón var í senn vonarberi og vatnsveitandi í fjarlægum löndum. Hann starfaði um árabil sem sendifulltrúi RKÍ og lagði fólki lið á hamfarasvæðum og þar sem neyð ríkir.

Hann hafði einstaka hæfileika til þessara starfa. Hann var góður verkmaður, vel greindur, með ríka skipulagsgáfu og hæfileika til að leysa erfið verkefni. Svo var hann pípulagningameistari að mennt og á þann hátt sérfræðingur í að veita vatni til fólks og frá með tæknikunnáttu sinni og verkviti. Hann var réttur maður á réttum stað hvar sem hann drap niður fæti á vegum Rauða krossins. Á Haiti kom verkkunnátt hans sér vel og í Eþíópíu hannaði hann vatnsbrunna út frá hefð heimamanna og bætti vatnssöfnun verulega meðal fólksins. Hann var virtur starfsmaður enda hafði hann þann hæfileika að geta umgengist alla sem jafningja. Sem utanaðkomandi einstaklingur í framandi umhverfi og menningu varð hann að vinna sér inn traust og það tólkst honum undantekningarlaust. Hans er saknað víða og þau eru mörg sem syrgja góðan dreng, einkadóttir hans, fv. eiginkona, bræður, frændfólk, samstarfsfólk og vinir á Íslandi og víða um heim. Hans verður lengi saknað.

Fjölmenni kveður hann hér í dag og fleiri hefðu gjarnan viljað vera viðstaddir en eru bundnir við störf sín hér heima eða ytra eða komast ekki af öðrum orsökum. Ég flyt ykkur sérstaka kveðju frá starfsfélögum hans, Þóri Guðmundssyni og Jóni Brynjari Birgissyni, sem eru við störf á vegum Rauða krossins í útlöndum. Kveðja hefur borist frá Jóhönnu Guðjónsdóttur, móður hans og Halldóru Stephensen, fv. tengdamóður og Einari Guðmundssyni sem er í útlöndum.

Kristjón er farinn frá okkur allt of fljótt. Hann varð 57 ára í desember s.l. og átti svo margt eftir ógert. Framkvæmdastjóri RKÍ, Kristján Sturluson, sagðist hafa haft það á tilfinningunni þegar hann hitti hann í janúar á þessu ári að hann væri upp á sitt besta. En eigi má sköpum renna. Enginn veit nær ævinni lýkur. Hann varð bráðkvaddur 20. janúar s.l. af völdum hjartaáfalls í landinu Sierra Leone, sem er á vesturströnd Afríku, í höfuðborg þess, Freetown.

Kristjón fæddist í Reykjavík 20. desember 1955. Foreldrar hans eru Jóhanna S. Guðjónsdóttir f. 5. september 1924 og Þorkell Þorkelsson, framkvæmdastjóri Bifreiðarstöðvar Bæjarleiða, f. 28. júlí 1919, d. 23. maí 2003. Bræður Kristjóns eru Hallkell f. 30. apríl 1945, kvæntur Vigdísi Ársælsdóttur, Kristbjörn f. 28. október 1950, kvæntur Guðríði Pálsdóttur og Þorkell f. 6. september 1958. Kristjón var kvæntur Ásdísi Leifsdóttur f. 18. janúar 1958. Dóttir þeirra er Halldóra Stepehensen Kristjónsdóttir f. 8. apríl 1979. Unnusti hennar er Ingimar Helgason f. 1. september 1984.

Kristjón ólst upp á Grettisgötu 31 í faðmi stórrar móðurfjölskyldu fram til ársins 1969, en þá flutti hann með fjölskyldu sinni í Breiðholtið að Staðarbakka 18.
Árið 1991 gerðist hann sendifulltrúi fyrir Rauða krossinn í Írak eftir lok stríðsins og vann að hreinlætis og vatnsmálum og uppbyggingu sjúkra húss í Kúrdistan. Hann starfaði sjálfstætt við sína iðngrein á milli ferða fyrir Rauða krossinn en ferðirnar urðu alls 8 til Íraks, Súdan, Eþíópíu, Sýrlands, Haítí og Síerra Leóne. Einnig fór hann á vegum utanríkisráðuneytisins til Kosovo árin 2001 og 2002 og starfaði við friðargæslu.

Nafnið Kristjón hlaut hann frá móðurforeldrum sínum, Kristínu og Jóni, en nöfnin eiga sér djúpar rætur í íslenskri nafnahefð. Forliðinn í nafni hans þarf ekki að útskýra en nafnið Jón kemur úr hebresku og vísar til miskunnar og náðar Guðs. En svo bar hann líka gælunafnið Kiddjón.

Hann lærði að vinna sem ungur maður og hafði áræðni og þor til að trúa því að hann gæti nánast allt. Íslenskir starfsmenn eru virtir innan Rauða krossins eftir því sem mér er sagt m.a. vegna þess að þeir ganga í verkin en hegða sér ekki sem þröngsýnir sérfræðingar sem kunna bara sum handtök en snerta ekki neitt utan sinnar iðnar eða þjálfunar. Kristjón var þúsundþjalasmiður. Hann hafði gott verkvit og var fljótur að sjá fyrir sér lausnir mála. Hann hafði glímt við lesblindu sem strákur í skóla sem hrjáir marga en segir ekkert til um greind því hún er svo margvísleg og fjölbreytt eins og dæmin sanna. Hann tók jafnan áskorunum og hafði gaman af að spreyta sig. Við undirbúning athafnarinnar sagði einn úr fjölskyldunni við mig: -Veistu hvernig maður fékk Kristjón til að vinna? Og svo kom svarið: -Með því að segja: – Þetta er ekki hægt! -Þá fór Kiddjón í málið og leysti það. Og ekki spillti þá fyrir honum að búa yfir Valdastaða-þrjóskunni.

Kjósin var honum kær og hann var í sveit á Grjóteyri frá 6 ára aldri og böndin við þann stað og fólkið slitnuðu aldrei. Fjölskylda hans vill færa sérstakar þakkir til Kristjáns Finnssonar og Hildar Axelsdóttur á Grjóteyri fyrir hvað þau reyndust honum vel alla tíð.

Hann hafði alla tíð gaman af hestum og ferðalögum.

Kiddjón var rólegur að eðlisfari, ekki margmáll. Hann lét fremur verkin tala. Hann var listrænn og úrræðagóður og svo er hann sagður hafa verið lunkinn kokkur. Hann gat verið stríðinn en líka viðkvæmur og fundið til með fólki við ýmsar aðstæður. Hann var góð sál, segir fólkið hans og hann sýndi það í störfum sínum að honum var ekki fisjað saman. Hann kom ítrekað að erfiðum aðstæðum. Hann koma eitt sinn að starfsfélaga sínum sem hafði verið skotinn til bana. Hann sá fólk í margvíslegum og erfiðum aðstæðum á Haiti eftir jarðskjálftana miklu. Það var honum nánast ástríða að taka þátt í verkefnum á vegum Rauða krossins hvar í heimi sem var og þegar hann var beðinn um að fara til Sierra Leone var hann mættur daginn eftir út á flugvöll. Hann kom víðar við í þjónustu sinni og var t.d. í Kosovo á vegum Utanríkisráðuneytisins á sínum tíma og naut þess þá og minntist þess oft hve stoltur hann var yfir að fá að taka þátt í hátíðlegri athöfn þegar þjóðþing var þar stofnað sem fulltrúi elsta, lýðræðislega þjóðþings veraldar.

Hann var góður drengur. Það hef ég fengið að heyra frá ástvinum hans og samstarfsfólki. Á milli ferða á vegum Rauða krossins vann hann sjálfstætt sem pípari hér heima. Hann starfaði mikið um tíma á tæknideild Borgarspítalans og lærði á þeim árum viðgerð svæfingatækja og sá um gaslagnir þar og víðar. Hann var virkur félagi í Rauða krossinum sem sjálfboðaliði í skyndihjálparhópi og svo fór hann víða til að kynna starfið í skólum og hélt fyrirlestra í Háskóla Íslands svo dæmi sé tekið. Allsstaðar stóð hann sig með prýði.

En ferðalögin tóku sinn toll. Hann veiktist illa í Súdan fyrir nokkrum árum, fékk taugaveiki og kom heim tágrannur og tálgaður. Hann reykti alla tíð mikið og svo þekkti hann til Bakkusar en sneri hann niður með snöggum glímutökum í apríl í fyrra. Hann var ósérhlífinn og fór ekki alltaf vel með sig. Hann hefur lokið sínu dagsverki. Útköllin verða ekki fleiri. Sjálfur var hann tilbúinn til að halda áfram en hjartað sagði stopp. Hann var úti að borða með samstarfsfólki sínu og í hópnum var hjúkrunarfræðingur og fólk sem kunni fyrstu hjálp en allt kom fyrir ekki. Hann hné fram á borðið og lauk þannig viðburðaríku lífi sínu. Útköllin verða ekki fleiri enda þótt hann hafi gert ráð fyrir því. Þegar ég sat í gær á skrifstofu framkvæmdastjóra RKÍ og við ræddum um Kristjón og útförina hringdu símar okkar beggja. Þannig er nútíminn. En svo hringdi annar sími og við litum báðir í kringum okkur og fálmuðum eftir símum okkar en hljóðið kom ekki þaðan. Á borðinu var stórt hvítt umslag með ýmsu innihaldi og þar var sími sem hringdi, sími Kristjóns, sem hann hafði stillt til að minna sig á eitthvað.

Og nú erum við minnt á að tími okkar hér í þessu lífi er takmarkaður. Við lifum hér og störfum og svo sækir dauðinn okkur, þessi óvinur lífsins, sem fjötrar alla menn fyrr eða síðar. Við erum þjónar tímans og verkefna lífsins en þráum öll frelsi innst inni og svo þráum við líka að verða leyst frá gröf og dauða.

Kristjón dó í borginni Freetown sem ber nafn sitt af því að þar settust að frelsingjar frá Bandaríkjunum og Bretlandi á 18. öld, fólk af afrískum uppruna, sem hafði fengið frelsi úr ánauð. Þegar Kristur hóf sitt starf sagðist hann vera kominn til

„að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.“ (Lk 18-19)

Jesús talaði við marga. Hann ræddi við konuna við brunnin sem var að sækja vatn. Hann boðaði henni nýtt líf með nýju vatni, andlegu vatni.

Við höfum flest verið vatni ausin í heilagri skírn og þar með vígð himni Guðs og eilífð hans. Vatnið í skírninni er táknmynd vatnsins í sögunni um Nóa og flóðið. Vatnið bjargaði þeim sem í örkinni voru. Kirkjan er táknmynd arkarinnar og hugtakið kirkjuskip vísar einnig til hlutverks kirkjunnar sem er að boða fólki blessun og björgun Guðs í Kristi, náð Guðs og miskunn. Nafnið Kristjón felur þetta hlutverk kirkjunnar í sér, að boða Krist, náð Guðs og miskunn. Nafnið minnir okkur á að lifa sem kristnar manneskjur og breiða út sama boðskap. Kristjón var trúaður maður og fór með sínar bænir. Halldóra minnist þess úr bernsku þegar hann fór með bænirnar með henni fyrir svefninn. Nú biðjum við fyrir Kristjóni og felum hann himni Guðs og eilífðinni. Blessuð sé minnig Kristjóns Þorkelssonar og Guð blessi ykkur, ástvini hans og okkur öll á lífsveginum. Amen.

Dýrð sé Guði . . .

Amen.

- -
Bálför. Duftker Kritjóns verður jarðsett í Reynivallakirkjugarði í Kjós við hlið föður hans, ömmu og afa.

Sálmaskráin er hér: Sálmaskrá Kristjón Þorkelsson-1

url: http://ornbardur.annall.is/2013-02-06/kristjon-thorkelsson-1955-2013/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli