örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Afhjúpun heims og opinberun himins · Heim · Kristjón Þorkelsson 1955-2013 »

Kristján Tryggvi Jóhannsson 1929-2013

Örn Bárður @ 16.55 4/2/13

kristjantryggvijohannssonMinningarorð
Kristján Tryggvi Jóhannsson
1929-2013
kennari, íþróttamaður, skáld, útgefandi
Útför frá Fossvogskapellu
4. febrúar 2013 kl. 13:00.

Þú getur lesið og hlustað hér fyrir neðan.

Ég hef augu mín til fjallanna“, orti Davíð Ísrealskonungur. Sálmarnir 150 sem kenndir eru við hann eru lofgjörðartextar að stofni til, bænir og jafnvel bölbænir. Þeir fjalla um margvíslega lífsreynslu og glímu þar sem allt litróf mannsálarinnar birtist í ljóðmyndum. Náttúran fær þar sinn skerf og sú vitund er sterk að maðurinn lifi í einu stóru samhengi, moldar og alheims, hérveru og handaveru.

Fjöllin og náttúran kveikir með mönnum ýmsar kenndir. Náttúrufegurð virkar á marga sem helgimynd, íkon, sem vísar út fyrir sjálfan sig og bendir á veruleika sem er handan við allt, stærri en allt. Ég hef orðið var við það í starfi mínu sem prestur að algengt er að fólk næri trúarhólfið sitt, brjóstkirkjuna eins og það er kallað í fornum, íslenskum textum, með því að leita á vit náttúrunnar og í heim menningar, tónlistar og bókmennta. Og svo eru það þau sem fást við kveðskap og yrkja um líf sitt og reynslu eins og Davíð konungur sem einnig kunni að syngja og leika á hörpu. Að yrkja og syngja er í innsta grunni trúarleg iðja, leiklistin er það líka og hvað eina sem maðurinn tekur sér fyrir hendur og tjáir sig um. Allt er það með einum eða öðrum hætti samtal um og við lífið og svo við hið hinsta og æðsta sem til er, Guð í alheimsgeimi.

Kristján var maður fjalla og náttúru. Hann stundaði alla tíð íþróttir enda mótaður af þeim anda sem ríkti í byrjun liðinnar aldar í hugsjónum ungmennafélaganna undir yfirskriftinni: heilbrigð sál í hraustum líkama.

Hann unni sínum heimahögum. Svarfaðardalurinn var honum eins og alheimur fegurðar og visku því þar var lagður grunnur að lífi hans og iðju.

Hann er töfrandi höll,
hann á tignarleg fjöll
þar í laufbrekkum lækirnir hjala.
Mér er kliður sá kær,
eg vil koma honum nær.
Hann er öndvegi íslenskra dala.

Svo orti skáldkonan Hugrún, Filippía Kristjánsdóttir frá Brautarhóli í Svarfaðardal, frænka Kristjáns.

Kristján Tryggvi fæddist 10. desember 1929. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Grund að kvöldi 24. janúar 2013. Foreldrar Kristjáns voru hjónin Ingibjörg Árnadóttir (1888-1954) og Jóhann Sigurjónsson (1888-1949), búendur í Hlíð í Skíðadal sem er einn af Svarfaðardal. Þau eignuðust sex börn en eitt þeirra lést í bernsku. Þau sem upp komust voru, auk Kristjáns, Alexander (1918-1983), Friðbjörn Hólmfreð (1920-1981), Þórey (f. 1922) og Sigurjón Kristinn (1925-1998).

Bræðurnir eru látnir en ég flyt ykkur kveðju Þóreyjar, sem dvelur á Dalbæ. Einnig er hér kveðja frá Ellu, Ingva og fjölskyldu.

Kristján varð gagnfræðingur 1948. Hann lauk íþróttakennaraprófi 1952 og kennaraprófi 1958. Hann stundaði enn fremur nám við Kennaraháskóla Íslands 1980-81. Kristján hóf kennsluferil sinn veturinn 1948-49 og kenndi á nokkrum stöðum á landsbyggðinni uns hann réðst til starfa við Laugalækjarskóla 1958. Þar kenndi Kristján í rúman áratug en frá 1969 í Breiðholtsskóla þar sem hann kenndi til starfsloka.

Kristján hóf keppnisferil sinn í frjálsum íþróttum um 1950 og keppti lengst af undir merkjum Íþróttafélags Reykjavíkur. Hann keppti mest í langhlaupum og setti Íslandsmet í ýmsum hlaupagreinum á sjötta áratugnum, þ. á m. í 5 km og 10 km hlaupum. Kristján tók þátt í fjölda alþjóðlegra móta og keppti fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í Helsinki 1952. Kristján var tvívegis sæmdur heiðursmerki frá Frjálsíþróttasambandi Íslands. Hann átti 16 íslandsmet í hlaupagreinum.

Kristján hóf ungur að yrkja og fyrsta ljóð hans birtist 1944 þegar hann var fjórtán ára. Fyrsta ljóðabók hans, Svíf þú sunnanblær, kom út 1955 en alls gaf hann út sautján bækur á rithöfundarferli sínum, þ.á m. sjö barnabækur, sex ljóðabækur og tvær gönguleiðabækur. Á meðal þekktra bóka Kristjáns má nefna Grýla gamla og jólasveinarnir (1969) og Fimmtán gönguleiðir í nágrenni Reykjavíkur (1987), auk bókaflokksins um Steina og Danna (1965-1974).

Kristján kvæntist 11. júní 1960 Önnu Örnólfsdóttur, bankafulltrúa, f. 30. desember 1928 d. 16. desember 1999. Foreldrar Önnu voru hjónin Ragnhildur K. Þorvarðsdóttir (1905-1986) og Örnólfur Valdimarsson (1893-1970) kaupmaður og útgerðarmaður á Suðureyri við Súgandafjörð.

Kristján og Anna bjuggu lengst af á Langholtsvegi 20 í Reykjavík en síðustu æviár sín dvaldi Kristján á hjúkrunarheimilinu Grund. Kristján og Anna voru barnlaus en ólu að miklu leyti upp börn Þórunnar, systur Önnu, þau Þorvarð Árnason, náttúrufræðing, f. 15. maí 1960, og Christine Carr, leikkonu, f. 9. maí 1965. Þorvarður er kvæntur Soffíu Auði Birgisdóttur bókmenntafræðingi, f. 25. september 1959. Börn þeirra eru Sigríður Þórunn (f. 1995) og Árni Birgir (f. 1998) en eldri synir Soffíu og fóstursynir Þorvarðar eru Jökull (f. 1981) og Kolbeinn (f. 1985). Christine er í sambúð með Níels Hermannssyni, lögreglumanni, f. 20. september 1968. Börn Christine og Glenns Roberts Hodge, lögfræðings eru Kumasi Máni (f. 1996) og Þóranna Kika (f. 1999). Dóttir Níelsar er Herdís Hrönn (f. 1987) og sonur hennar Daníel Rafn (f. 2007).

Áður en Kristján fór á Grund bjó hann í ein 5 ár á heimili Þorvarðar og Soffíu Auðar í Austurgerði 7.

Margt skyldmenna kom við sögu þeirra hjóna, Kristjáns og Önnu enda ættin stór og barnmög. Ég nefni sérstaklega Örnólf Þór Hreiðarsson, sem var í sérstöku uppáhaldi hjá þeim. Hann er sonur Sigríðar Ástu, yngstu systur Önnu. Þau mæðginin bjuggu um skeið á Langholtsvegi en voru mikið í heimsókn hjá ættmóðurinni Ragnhildi, Önnu og Kika. Örnólfur Þór átti skjól hjá þeim ásamt mörgum öðrum og naut elsku þeirra og umhyggju.

Ég hef undir höndum nokkur ljóða Kristjáns og þau bera vott um sterk tengsl við náttúruna og gleði yfir lífinu en í þeim má einnig greina alvöru og dapran tón. Hér er eitt sem lýsir þrautseigju og marksækni. Leikið er á dapran streng:

Tindurinn e. Kristjan Tryggva Johannsson

Hvar er heimkynni hamingjunnar? Til eru mörg spakmæli um hamingjuna eins og t.d. þetta eftir Albert Sweitzer:

„Eitt veit ég með vissu: sá einn verður hamingjusamur sem hefur lært að þjóna öðrum.“

Hann sagði líka þetta:

„Hamingja byggist á góðir heilsu og lélegu minni.“

Ég gef mér að þarna sé hinn vitri læknir og mannvinur að vísa til gleymskunnar sem er kærust systra fyrirgefningarinnar.

Krisján átti góða ævi og hann og Anna fundu hamingjuna ekki hvað síst í því að þjóna öðrum og gefa af elsku sinni. Hagfræði himinsins er einföld og öndverð hinni jarðnesku eða heimsku, því hún kennir að sá græði mest sem gefur stærst.

Kiki undi hag sínum oft best einn með sjálfum sér og sínu dundi. Hann var ekki mikið fyrir að sækja mannamót. Hann er sagður hafa verið góður húmoristi en stundum dálítið stríðinn. Hann vildi fá að stunda sína iðju óáreittur. Hann orti ljóð, skrifaði lýsingar á gönguleiðum og gaf út sjálfur, tók margar myndir ásamt Önnu og þær prýða sumar bóka hans.

Þau fóru víða saman og oft voru Krilla og Þorri með í för. Gengið var um dali og fjöll, sagðar sögur og örnefni rifjuð upp. Að þekkja landið og náttúruna var honum hugsjón og köllun. Jónas Hallgrímsson var sem hann átti ættir til að rekja var e.t.v. sterkasta fyrirmynd Kristjáns: Jónsa, skáldið, náttúrufræðingurinn og ferðagarpurinn.

Langholtsvegurinn, heimili Ragnhildar og Örnólfs, var miðja ættarinnar. Þar voru jólaboðin haldin. Systkini Önnu og börn þeirra komu gjarnan í heimsókn og svo var þeim boðið, ættmóðurinni Ragnhildi, Kika og Önnu, Krillu og Þorra til ættingjanna í kjölfar jólaboðsins og stóðu veisluhöld því í marga daga!

Kristján var vænn maður. Hann var fjölhæfur og kom víða við. Hann var ósérhlífinn og fórnfús og fyrir það þakkar fólkið hans og ekki síst systkinin, Krilla og Þorri, sem nutu elsku þeirra hjóna í ríkum mæli og skilyrðislaust. Móðir þeirra, Þórunn, sendir kveðju og djúpa þökk til Kristjáns fyrir hjálp og stuðning hans og Önnu.

Mörg ljóða Kristjáns fjalla um stríð. Hann var einlægur friðarsinni og átti sínar hugsjónir um betri heim. Lífið er glíma og Kristján þekkti þau glímutök enda kemur fram í ljóðum hans tregi og blámi. Hann spyr ögrandi spurningar í einu ljóða sinna og minnir á mikilvægi þess að njóta lífsins meðan dagur er:

Of seint e Kristjan Tryggva Johannsson

Eigum við ekki að taka þetta með okkur héðan af þessari minningarstund og láta það vera áskorun um að njóta lífsins og samskipta við samferðafólkið áður en það verður of seint? Maður iðrast ekki eftir dauðann. Lífið er tækifæri til góðra verka og hamingjusóknar.

„Leitið Drottins meðan hann er að finna, ákallið hann meðan hann er nálægur.“

Svo mælti Jesaja spámaður fyrir meir en 2.500 árum og enn eru orð hans í gildi.

Missum ekki af tækifærinu til að vakna til vitundar um hið stóra samhengi alls sem er. Lífið er stór og mikil gjöf. Það er undur að fá að vera til. Njótum lífsins meðan dagur er og klífum fjöll og tinda æðrulaus því allt er í almáttugri hendi hins hæsta:

Ég hef augu mín til fjallanna,
hvaðan kemur mér hjálp?
Hjálp mín kemur frá Drottni,
skapara himins og jarðar.
(Sl 121)

Við kveðjum Kristján Tryggva Jóhannsson með virðingu og þökk. Blessuð sé minning hans og Guð blessi okkur sem enn erum á lífsveginum. Amen.

Dýrð sé Guði . . .

url: http://ornbardur.annall.is/2013-02-04/kristjantryggvijohannsson/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli