örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Tætarar og LÍÚvitni · Heim · Afhjúpun heims og opinberun himins »

Jón Jónsson 1925-2013

Örn Bárður @ 16.11 1/2/13

JonJonssonMinningarorð

Jón Jónsson

1925-2013

fv. bóndi Melum í Hrútafirði

Útför frá Garfarvogskirkju

föstudaginn 1. febrúar 2013 kl. 13

Ræðuna geturðu lesið hér fyrir neðan

og einnig hlustað.

Störin á flánni

er fölnuð og nú

fer enginn um veginn

annar en þú.

Í dimmunni greinirðu

daufan nið

og veizt þú ert kominn

að vaðinu á ánni . . .

(Ljóðasafn s. 34)

Í þessari Haustvísu Hannesar Péturssonar er ónefndur maður einn á ferð og kemur að mærum sem skilja að tvo heima, hérna megin ár og handan ár.

Útför er kveðjustund við mæri. Hinn látni er farinn af þessu jarðlífi. Hann er nú handan árinnar, en þið, ástvinir hans, hérna megin á valdi minninganna, þakklát og hrærð yfir lífi hans sem skipti ykkur öll svo firna miklu máli.

Bóndi er tengdur jörð sinni, mold, gróðri og skepnum. Hann ætti að skynja það enn skýrar en fólkið á mölinni að maðurinn er af jörðu og hverfur aftur til jarðar. Við erum af þessari jörð. Náttúran er ekki einhversstaðar utan okkar, ekki handan fjallanna eða hafsins. Við erum náttúran, einnig heiðar og vötn, jöklar og eldfjöll, mosi og lyng, blóm og kjarr, himinn og haf. „Af jörðu ertu kominn, að jörðu skaltu aftur verða.“

Hann var bóndi af lífi og sál. Á Melum í Hrútafirði var hans heimur – alheimur. Er ekki miðja alheimsins þar sem hver og einn stendur og starfar?

Jón var fæddur á Melum í Hrútafirði 15. júní 1925. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Grund 23. janúar 2013.

Foreldrar Jóns voru hjónin Jón Jósefsson, bóndi á Melum, og kona hans Elísabet Jónasdóttir. Jón var elstur þriggja sona þeirra hjóna sem allir ólust upp á Melum og urðu síðar bændur á jörðinni. Næstelstur var Jónas Reynir, f. 1926, d. 2008, en yngstur Sigurður, f. 1933.

Jón var tvo vetur við nám í Reykjaskóla og þar kynntist hann eiginkonu sinni sem síðar varð, Þóru Ágústsdóttur frá Gröf á Vatnsnesi, f. 14. október 1927, en hún kom til hans að Melum árið 1947. Börn þeirra eru:

  1. Jón Hilmar, f. 2. janúar 1947, maki Sigríður Karvelsdóttir. Börn þeirra eru Ágúst Þór, f. 1985, og Jóhanna Hildur, f. 1985;
  2. Ágúst Frímann, f. 14. júlí 1950, maki Kristín Björnsdóttir. Börn þeirra eru: Þóra, f. 1978, og Birna, f. 1981;
  3. Helga, f. 30. maí 1955, maki Ólafur Þorsteinsson. Dætur þeirra eru: Kristín f. 1993, og Steinunn, f. 1994;
  4. Ingunn, f. 8. maí 1957. Fyrri maður hennar: Magnús H.Traustason. Börn þeirra eru: Þóra Huld, f. 1978, Jón Bjarki, f. 1984 og Trausti Breiðfjörð, f. 1996. Sambýlismaður Ingunnar er Ísar Guðni Arnarson;
  5. Elísabet, f. 2. apríl 1959. Fyrri maður hennar: Guðmundur Thorsteinsson, d. 1988. Dóttir þeirra er Hallveig, f. 1984. Síðari maður hennar: Sigurgeir Ólafsson. Börn þeirra eru: Brynjar, f. 1990, d. 1991, Brynja, f. 1992 og Freyja, f. 1993. Fyrir átti Sigurgeir soninn Andra Þór, f. 1976;
  6. Guðlaug, f. 7. maí 1966. Maki: Karl Kristján Ásgeirsson. Synir þeirra eru: Þórir, f. 1995, og Ásgeir Kristján, f. 1997.

Jón hóf búskap á Melum árið 1946 og þar bjuggu þau hjónin allt til ársins 1994 er þau fluttu til Reykjavíkur. Þau bjuggu fyrst hér í nágrenni Grafarvogskirkju, í Logafold en lengst af bjuggu þau í Bólstaðarhlíð 45. Þar naut hann sín í félagsskap við gott fólk í 14 ár. Síðustu tvö árin dvöldu þau hjónin bæði á hjúkrunarheimilinu Grund, þar sem þau hafa notið góðrar umönnunar og hann til hinstu stundar.

Jón var virkur í félagsstarfi í sinni heimabyggð og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum, sat m.a. um árabil í hreppsnefnd Bæjarhrepps. Hann var einlægur samvinnumaður og sat lengi í stjórn Kaupfélags Hrútfirðinga. Hann var um langt skeið formaður stjórnar Sparisjóðs Hrútfirðinga og formaður Veiðifélags Hrútafjarðarár og Síkár. Þá var hann lengi formaður stjórnar Ræktunarsambands Bæjar- og Óspakseyrarhrepps. Heimahagarnir voru honum alla tíð kærir og hin síðari ár naut hann þess að koma að Melum með börnum og barnabörnum meðan þrek og kraftar leyfðu.

Hann var alla tíð bóndi af lífi og sál. Ættmenn hans höfðu búið á Melum um aldir og Jónar margir, allt frá 17. öld. Áhugi hans á búskap var samofinn félagsstörfum hans heima í héraði, þar sem kaupfélagið, sparisjóðurinn, ræktunarsambandið og veiðifélagið mótaði umgjörðina um samfélagið.

Hann var félagslyndur en kunni líka þá list að vera einn með sjálfum sér. Hann hafði áhuga á leiklist, var góð eftirherma og tók þátt í fjölda sýninga í sveitinni. Fengnir voru lærðir leikstjórar norður og sett upp leikrit sem sýnd voru víða við góðar undirtektir. Hann skrifaði marga annála sem fluttir voru á þorrablótum og þar naut gamansemi hans og kímni sín til hins ítrasta. Hann hlustaði mikið á útvarp og lifði sig t.a.m. inn í útvarpsleikritin sem flutt voru fyrr á árum og átti sína uppáhalds leikara. Meðan stóru leikhúsin fóru leikferðir um landið á sumrin var reynt að sækja allar sýningar sem í boði voru, jafnvel þótt erfitt væri að slíta sig frá heyskap eða öðrum bústörfum.

Jón var hreinn og beinn til orðs og æðis, blátt áfram í allri framgöngu, kom fram af sama hikleysi og einurð við alla og var fundvís á góð og viðeigandi umræðuefni við hvern sem var rætt. Hann var meistari samræðunnar og kunni að kveikja samtal og fá fólk með sér í spjall um heima og geima. Hann leiddi umræðuna gjarnan í ýmsar áttir, var áhugasamur um fólk án þess að vera hnýsinn en markmið hans var jafnan að örva og e.t.v. ögra eilítið til að hleypa fjöri í samræðuna. Hann gat þótt svartsýnn, en oft var það einungis stílbragð í samræðunni og til þess eins að vekja viðbrögð viðmælenda og krydda samræðuna. Þaðan gat verið stutt í gamansemina og glettnina sem var honum svo eðlislæg.

Jón fór aldrei til útlanda en naut þess að skoða landið sitt en afstaða hans til landsins mótaðist mjög af því að meta hvern skika út frá möguleikum til ræktunar eða beitar. Hann vissi að það var ekki heiglum hent að búa í Hrútafirði og lét menn heyra það ef þeir spurðu um rokið og innlögnina í þeim langa firði. „Það er ekki fyrir aumingja að búa í Hrútafirði.“

Hann hugsaði gjarnan um möguleika búskaparins, var framfarasinnaður allt fram á síðustu ár og velti gjarnan fyrir sér möguleikum til að virkja í sínu landi og víðar. Hins vegar var hann gætinn í ýmsum efnum, vildi ekki rasa um ráð fram. Það var byggt á raunsæi.

Hann fann jafnan til gleði í gömlum handtökum og vildi halda í gamalt verklag. Hann var góður sauðfjárbóndi, fjárglöggur og áhugasamur, elskur að skepnum, átti gott fé og fékk jafnan væna dilka af heiðum á haustin. Á Melum er víðlent og jörðin hentar vel til sauðfjárbúskapar.

Börnin tóku virkan þátt í búskapnum á sínum uppvaxtarárum. Barnabörnin sóttu í að vera hjá afa og ömmu og þau minnast gefandi samverustunda í fjárhúsunum og samtöl yfir ýmsu dundi og snuddi í sveitinni. Þau minnast hans m.a. með þessum orðum: „Ferð í fjárhúsin með afa var yfirleitt fyrst á dagskrá; úlpa, ullarhúfa, gúmmístígvél og hlý afahönd.“

Barnabörn Jóns og Þóru eru 15 og lifa öll utan eitt, langömmu- og langafabörnin eru 9 og 1 á leiðinni eftir því sem best er vitað. Lífið heldur áfram!

Hann var framsóknarmaður fram í fingurgóma og hans menn voru Hermann Jónasson, formaður flokksins, forsætisráðherra og glímukóngur, sem hann glímdi við á bæjarhellunni forðum, Eysteinn Jónsson og Ólafur Jóhannesson, svo nokkrir séu nefndir.

Jón var vakinn og sofinn yfir búskapnum og fór gjarnan akandi í rólegheitum eftir þjóðveginum til að fylgjast með fé sínu og lét það ekki  raska ró sinni þótt bílalest væri flautandi á eftir honum.

Síðustu árin lét hann sér mjög annt um að hlúa sem best að aðstöðu á Melum fyrir börn sín og fjölskyldur þeirra og fór gjarna með norður þegar tækifæri gafst og fylgdist af áhuga með framkvæmdum. Hugurinn var áfram fyrir norðan, hann var vanur að hringja strax og einhver barnanna voru komin að Melum og spurði tíðinda úr sveitinni þegar þau komu aftur að norðan.

Nú hringir hann ekki meir. Röddin hans spyr ekki lengur um nám eða starf, sveit eða borg. Hún er þögnuð en samt lifir hún í minningum ykkar. Hann var stoltur af börnum sínum og fjölskyldu allri, ástfanginn af Þóru alla tíð og lét sér einkar annt um hana. Og allt kemur það til baka sem gefið er. Fólkið hans var hjá honum til hinstu stundar og kveður hann hér í dag í djúpri þökk og elsku.

„Hold er mold sama hverju það klæðist“, sagðir séra Hallgrímur. Hann var fundvís á tengingar trúar og mannlífs og orti um drykkjarílát sitt í Leirkarlsvísum og sagið:

Skyldir erum við skeggkarl tveir,

skammt mun ætt að velja.

Okkar beggja er efni leir,

ei þarf lengra að telja.

Við höfum það af okkar ætt,

efnið slíkt ég þekki,

báðum er við broti hætt,

byltur þolum ekki.

[. . . ]

Í lokaerindinu boðar hann svo hina kristnu upprisutrú og segir:

Einn ég mismun okkar fann,

ef áföll nokkur skerða:

Eg á von, en aldrei hann,

aftur heill að verða.

Við erum breyskar og brothættar manneskjur en eigum okkur von um betra líf og fegurra í himni Guðs.

Skáldin byggja brýr milli heima, milli hérveru og handanveru og birta okkur að lífið er stærra og hærra, dýpra og breiðara en margan grunar.

Hannes Pétursson segir í ljóðinu Framtíð:

Ferð þín er hafin.

Fjarlægjast heimatún.

Nú fylgir þú vötnum

sem falla til nýrra staða

og sjónhringar nýir

syndra þér fyrir augum.

(Ljóðasafn s. 171)

Lífið er vegferð sem á sér sín takmörk og endastöð – í þessu lífi – en það heldur áfram og er eilíft í huga hins hæsta sem geymir allt og verndar, hans sem er í mér og þér og fyllir heima alla. Ég held mikið upp á þessa skilgreiningu á Guði:

Guð er hringur hvers miðja er allstaðar og ystu mörk hvergi.

„Í honum lifum, hrærumst og erum vér“, sagði Páll postuli við spekingana í Aþenu forðum daga.

Við komumst ekki út úr hinum altumlykjandi hring. Jón er þar og þú ert þar. Allt er þar.

Guð blessi minningu Jóns Jónssonar og varðveiti hann að eilífu. Guð blessi Þóru, börnin þeirra, tengdabörn og afkomendur alla og frændgarð. Guð blessi okkur öll. Amen.

Um jarðsetninguna . . .

Erfidrykkjuna . . .

P.S.

Ég var beðinn að flytja kveðjur til Þóru og fjölskyldunnar frá Agnesi Ásgeirsdóttur og manni hennar Snorra Bogasyni á Ísafirði sem eiga ekki heimangengt.


url: http://ornbardur.annall.is/2013-02-01/jon-jonsson-1925-2013/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli