örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Er sannleikurinn lygilegri en hið logna? · Heim · Tætarar og LÍÚvitni »

Sigrún Björgvinsdóttir 1927-2013

Örn Bárður @ 16.00 26/1/13

adalbjorgsigrunMinningarorð
Aðalbjörg Sigrún Björgvinsdóttir
1927-2013
Minningarathöfn í Fossvogskapellu
Jarðsestt í Heydölum

Ræðuna er hægt að lesa
og hlusta á
hér fyrir neðan:

Eitt af því sem við höfum hvað mesta vissu um í lífinu er óvissan. Við vitum aldrei hvað morgundagurinn mun bera í skauti sér. Lífið er óvissa. Og þess vegna eru trúin og vonin svo mikilvægir þættir í mannlífinu. Við verðum að trúa og vona, á morgundaginn, framtíðina, á að allt fari á endanum vel, að allt sé í einhverju samhengi og viti, að allt sé í einum alheimshuga og teflt fram af honum, að allt sé í hendi Guðs.

Aðalbjörg Sigrún Björgvinsdóttir eða Lilla eins og hún var kölluð af sínum nánustu þekkti þetta. Hún þekkti þessi sannindi eins og við reyndar gerum öll, sama hversu oft við annars leiðum hugann að því í erli daganna. Óvissan er lífsförunautur okkar en svo kemur hitt að dagarnir geta fært okkur hvort sem er gleðiefni eða sorgir. Hún reyndi það snemma að missa, enda þótt hún myndi ekki eftir fyrsta og sárasta missinum þegar hún 2ja ára missti móður sína. En barnssálin hefur fundið fyrir því að mamma var ekki lengur og enda þótt margar hendur hafi umvafið hana elsku og umhyggu þá kom ekkert í staðinn fyrir mömmu.

En Lilla eignaðist nýja móður sem reyndist henni vel og hún kallaði mömmu en það samband varði stutt því nýja mamma dó þegar Lilla var 12 ára. En lifið heldur alltaf áfram þrátt fyrir sorg og missi og við höfum fáa valkosti aðra en að halda áfram að lifa og takast á við verkefni daganna.
Ég nefni þetta hér í upphafi minningarorðann vegna þess að óvissan og missirinn settu mark sitt á líf hennar alla tíð og mótuðu persónu hennar og lífsafstöðu.

Aðalbjörg Sigrún Björgvinsdóttir var fædd þann 13. júní 1927 og lést þann 17. janúar s.l. á hjúkrunarheimilinu Mörk í Reykjavík. Foreldrar Sigrúnar voru, Stefanía Sigurborg Hannesdóttir, frá Árnagerði í Fáskrúðsfirði, (f. 27. 9. 1901, d. 5.12.1929) sem lést rúmlega 28 ára og Björgvin Magnússon frá Skriðu í Breiðdal, (f. 18.4.1903, d. 31.12.1984) sem var 81 árs er hann lést . Sigrún var næst elst sinna systkina. Elstur var Hannes, (f. 12.11.1925, d. 5.10.2005) sem er látinn. Eftirlifandi maki, Kristín S. Skúladóttir, (f. 2.5.1934).

Af öðru hjónabandi Björgvins og Mareyjar Bjargar Jónsdóttir, (f. 23.3.1906, d. 6.2.1940), eru hálfsystkyni hennar; Bragi Björgvinsson, (f.17.6.1934), maki Edda Björg Björgmundsdóttir (f. 22.9.1941) og Marey Stefanía, (f. 19.6.1939), maki, Þórður Þorgrímsson, (f. 16.3.1930). Marey Björg lést tæplega 34 ára og skildi þá eftir sig stjúpbörnin tvö og sín ungu börn tvö, tæplega sex ára og á fyrsta ári.

Af þriðja hjónabandi Björgvins og Ragnheiðar Hóseasdóttur frá Höskuldsstaðaseli, (f. 3.6.1921), eru hálfsystkyni hennar; Ingibjörg, (f. 28.2.1949), maki, Kristbjörn Hans Eiríksson, (f. 22.4.1945), Björn, (f. 24.9.1950), Baldur, f(. 29.12.1951), maki, Nanna Stefanía Svansdóttir og (f. 13.10.1956), Unnur, (f. 17.7.1956), maki, Guðmundur Björgólfsson, (f. 9.3.1950).

Sigrún fæddist og ólst upp að Skriðu í Breiðdal. Hún var komin á unglingsár þegar þriðja konan kom inn í líf föður hennar og fór að heiman skömmu eftir að þau fóru að búa saman. Átján ára kynntist hún lífsförunauti sínum Helga Þorgrímssyni og þau gengu í hjónaband. Hann var f. 22.11.1918, d. 17.10.1983 á besta aldri og var það enn eitt áfallið hennar á lífsleiðinni. Helgi var sonur hjónanna Þorgríms Guðmundssonar (f. 1.8.1883, d. 11.1.1956) og Oddnýar Þórunnar Erlendsdóttur (f. 16.12.1897, d. 27.3.1987). Þau bjuggu að Selnesi á Breiðdalsvík. Sigrún og Helgi hófu búskap á Sólvöllum í Breiðdalsvík 1947 sem þau byggðu.

Þeirra börn eru:

Stefanía Björk Helgadóttir, f. 2.6.1951. Barn Stefaníu og Einars Ingólfssonar af fyrra hjónabandi er 1a) Helga Rut Einarsdóttir (f. 2.2.1976), sambýlismaður hennar, Valur Björn Baldursson (f. 2.9.1976), börn þeirra; Einar Ýmir (f. 18.12.1998), María Björk (f. 19.4.2000), Ólíver Orri (f. 22.7.2005) og Friðrik Darri (f. 27.11.2006). Barn Stefaníu og Claes Andersen er 1b) Kristófer Andersen (f. 29.7.1986).

Þorgeir Helgason, f. 20.9.1952, maki Ragnheiður Sigríður Hjartardóttir (f. 7.5.1957). Börn þeirra eru; 2a) Sigrún Erna (f. 20.8.1976), maki hennar, Jón Gestur Ólafsson (f. 4.3.1972), börn þeirra, Ragnheiður Margrét, (f. 25.9.2002), Ólafur Þór (f. 26.11.2004), Þorgeir Daði (f. 12.6.2008). 2b) Hjörtur Helgi (f. 19.9.1986), sambýliskona Íris Arnardóttir (f. 7.8.1988), barn þeirra, Birkir Máni (f. 9.10.2009). 2c) Valdís Björk, (f. 18.10.1989), sambýlismaður Ingolf Davíð Petersen, (f. 1.6.1988).

Gerður, f. 5.8.1962, sambýlismaður, Páll Rúnar Pálsson, (f. 15.10.1956). Börn Gerðar og Hákonar Jónasar Hákonarsonar af fyrra sambandi eru; 3a) Dana Rún Hákonardóttir, (f. 26.3.1986). 3b) Helgi Hákonarson, (f. 16.9.1989,) sambýliskona Ágústa Dóra Þórðardóttir, (f. 21.8.1988).
Sigrún átti 7 barnabörn og 8 langömmubörn og skv. heimildum eru tvö börn á leiðinni! Ástin dafnar hjá fólkinu hennar og lífið heldur áfram! Það er nú líklega stærsta gleðiefnið.

Sigrún var heimavinnandi fyrstu búskaparárin en starfði síðar lengst af við fiskvinnslu ásamt því að taka að sér saumaskap að ýmsu tagi. Síðustu ár vann hún sem talsímakona á símstöðinni á Breiðdalsvík. Helgi var laghentur maður og vann ýmis tilfallandi störf um ævina, smíðaði hús og vann að viðhaldi húsa og báta, starfaði við bryggjusmíð og hafnargerð svo dæmi séu tekin.

Skólaganga var á þeim tíma hefðbundinn farskóli og Sigrún naut sín vel í skóla og var námið henni auðvelt. Hún hefði vel geta hugsað sér að halda áfram að læra, en aðstæður á þessum tíma buðu ekki uppá það.

Snemma var hún farin að sauma og allar hannyrðir léku í höndum hennar. Hún saumaði mikið, allt á börnin sín og prjónaði líka, einnig saumaði hún mikið fyrir fólkið í sveitinni og þorpinu og þá sérstaklega þegar einhver hátíð var í nánd. Börn hennar minnast þess að hafa oft sofnað út frá suðinu í saumavélinni, þá sérstaklega þegar jólin nálguðust. Í næsta húsi við Sólvelli var rekin saumastofa og þar lærði hún ýmislegt í saumaskap.

Í litla þorpinu, Breiðdalsvík, var mikill samgangur á milli bæja og lifði fólkið nánast sem ein fjölskylda. Sigrún var vinsæl og ljúf manneskja og átti auðvelt með að umgangast fólk. Hún var umtalsgóð, gestrisin og viljug til allra verka. Margir komu í heimsókn í áranna rás og fjöldi frændfólks og vina gisti á Sólvöllum en þar var alltaf nóg pláss.

Hjónaband þeirra Sigrúnar og Helga var elskuríkt og gott og börnin muna ekki eftir því að hækkaður hafi verið rómurinn á milli þeirra. Þau voru ólík hjóna en náðu vel saman. Ætli það sé ekki einmitt þannig að ólík hjón eigi oft best saman?

Sigrún var frekar dul um sín innri mál og flíkaði ekki tilfinningum sínum. Hún hafði orðið fyrir missi eins og fyrr var getið og á þessum árum var fólk hvatt til þess að bera harm sinn í hljóði, bíta á jaxlinn og halda áfram að lifa eins og ekkert hefði í skorist.

Sigrún var ávallt tilbúin að vera til staðar fyrir alla og henni var mikið umhugað um afkomendur sína.

Hún naut þess að ferðast, bæði innanlands og utan. Hún hafði mjög gaman af því að ferðast innanlands og hún og Helgi ferðuðust mikið saman um landið og þá gjarnan með vinafólki. Í seinni tíð fór hún oft til útlanda. Síðasta ferðin hennar til útlanda var farin þegar hún varð áttræð en þá fóru börnin með henni til Króatíu. Þau nutu ferðarinnar og var jafnan í minni haft og mikið helgið að því atviki þegar hún týndist í ferðinni. Nokkrum vikum fyrir andlát sitt var hún enn að hlæja að því að börnin skyldu týna áttræðri móður sinni.

Hún var félagslynd og tók þátt í lífi fólksins á Breiðdalsvík og dansleikir voru vinsælir í þorpinu. Hún tók þátt í stofnun kvenfélags á staðnum, hafði gaman af því að spila og fór oft heim með vinninga af spilavistarkvöldum. Hún tók í spil með barnabörnunum og eiga þau góðar minningar af samskiptum við ömmu í þeim efnum. Þá pússlaði hún margar myndir með þeim og var það hennar dægradvöl fram undir síðasta dag þrátt fyrir krepptar hendur.

Handavinna hennar ber vandvirkni hennar fagurt vitni. Hún var glettin og gamansöm enda þótt djúp alvara væri undir niðri.

Hún flutti suður ári 2008 eftir að hafa orðið fyrir slysi og gat af þeim sökum ekki lengur búið ein heima en hafði þá verið einn vetur að Helgafelli í Djúpavogi en eftir að hún kom suður var hún fyrst á Vífisstöðum í eitt ár og upp frá því og til dauðadags í Mörkinni við Suðurlandsbraut. Hún var þakklát fyrir fólkið á þessum stöðum sem tók henni vel og var henni gott. Þá var hún einnig í þakkarskuld við ættingja og vini sem studdu hana hin síðari ár.

Heimilið hennar á Breiðdalsvík var henni mikilvægur griðarstaður eftir að hún hafði lagt að baki bernsku- og unglinágsárin með sárri reynslu af missi. Nú átti hún sitt eigið heimili og mann og síðar börn. Hún fann hversu mikilvægt það var að hafa rætur og fastan grunn. Hugurinn var jafnan fyrir austan. Þar var húsið hennar, garðurinn og gróðurinn sem hafði gefið henni svo mikið alla tíð. Hún annaðist börnin sín alltaf mjög vel og fylgdist grannt með ferðum þeirra. Líklega bjó þó í henni kvíði og ótti alla tíð yfir að geta misst þau. Hún varð óróleg ef þau komu seint heim og sama átti við um Helga og til að mynda gat hún ekki hugsað sér að sonurinn yrði sjómaður.

Lífið er óvissa. Sigrún vissi það. Hún átti sína trú, hlustaði jafnan á útvarpsmessur og sótti kirkju þegar messað var heima. Hún fór með sínar bænir í dagsins önn en hún hafði ekki hátt um sín innri mál en vissi að lífið var þrátt fyrir allt í hendi Guðs.

„Í honum lifum, hrærumst og erum vér“, sagði postulinn. Við komumst ekki út úr altumlykjandi verund Guðs, við lifum í honum og erum í honum eins og fiskurinn er í vatninu sem rennur um varir og tálkn, er bæði hið ytra og innra. „Í honum lifum, hrærumst og erum vér.“

Komið er að leiðarlokum. Sigrún er horfin en hún lifir í minningum ykkar. Trúin og vonina ganga út frá því að hún lifi í himni Guðs, í því ríki sem hún var vígð til með tákni upprisunnar, hinum heilaga krossi á enni og brjóst þegar hún var borin til skírnar af móður og föður sem reifabarn. Mamma bar hana til skírnar, mamma hverra arma og elsku hún naut svo stutta stund. Nú er hún horfin á vit þeirrar tilveru þar sem þær eru báðar og fólkið þeirra allt sem horfið er af þessu jarðlífi.

En við lifum og höldum áfram að lifa í þeirri óvissu sem alltaf mun fylgja dögum mannsins. Við lifum í óvissu en samt í trú og von, trú og von um að allt sé í hendi Guðs. Í nýárssálmi séra Matthíasar Jochumssonar segir m.a.:

Í almáttugri hendi hans

er hagur þessa kalda lands,

vor vagga, braut, vor byggð og gröf,

þótt búum við hin ystu höf.

Vor sól og dagur, Herra hár,

sé heilög ásján þín í ár.

Ó, Drottinn, heyr vort hjartans mál,

í hendi þér er líf og sál.

Guð blessi minningu Aðalbjargar Sigrúnar Björgvinsdóttur og Guð blessi þig. Amen.

Dýrð sé Guði . . .

url: http://ornbardur.annall.is/2013-01-26/adalbjorg-sigrun-bjorgvinsdottir-1927-2013/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli