örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Tómas Tómasson 1934-2012 · Heim · Er sannleikurinn lygilegri en hið logna? »

Haukur Guðbjartsson 1930-2012

Örn Bárður @ 14.02 14/1/13

haukurgudbjartssonMinningarorð
Haukur Guðbjartsson
1930-2012
bifreiðastjóri
Nesvegi 66
Útför frá Neskirkju
mánudaginn 14. janúar 2013 kl. 13

Ræðuna er hægt að lesa og hlusta á
hér fyrir neðan.

Lífið er vegferð. „Tilvera okkar er undarlegt ferðalag“, kvað skáldið Tómas. Við erum „vegbúar“ eins og söngvaskáldið KK sagði og sálmaskáldið séra Hallgrímur sagði þessi fleygu orð:

Allrar veraldar vegur

víkur að sama punkt,

fetar þann fús sem tregur,

hvort fellur létt eða þungt.

Sama hvert leiðin liggur og hvaða vegir eru farnir á lífsleiðinni, sama hversu mörg hundruð kílómetrar eru eknir eða flognir, þá endar jarðlífið hjá okkur öllum með sama hætti. Við deyjum öll.

En mannfólkið vill ekki deyja. Við afneitum gjarnan dauðanum og viljum ekki um hann hugsa. Okkur finnst hann einungis varða aðra en ekki okkur sjálf. En dauðinn sleppir engum sem fara þennan lífsins veg, veg allrar veraldar. Og sama hvert við beygjum og hvort við bökkum eða tökum okkur hlé, vegur veraldar leiðir alla á sama áfangastað.

En svo er til annar vegur sem liggur samhliða umræddum vegi og hann er af öðrum heimi, hann er himneskur, en nær þó einnig til þessa jarðlífs. Þessi vegur er Jesús. Boðskapur jólanna er að Guð hafi gerst maður, að hið himneska orð og viska hafi orðið hold, að vegur himinsins hafi verið lagður á jörðu, samhliða vegi allrar veraldar. Þér býðst að fara þennan veg, vera vegbúi á hinum himneska vegi um leið og þú ferð hinn jarðneska. Þegar hinn jarðneski tekur enda heldur hinn áfram og leiðir þig heim, til himinsins heim.

[Innskot: Jesús sagði: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.]

Í skírninni erum við vígð þessum himneska vegi og hljótum það verkefni að halda okkur á veginum góða. En því miður missum við gjarnan af þessum vegi og verðum vegalaus og týnd. En með iðrun og afturhvarfi komumst við alltaf aftur upp á hinn himnska veg. Við getum sjálf tekið í stýrið og beygt inn á veg himinsins.

Við komu hér saman til að kveðja Hauk Guðbjartsson sem fór víða á sinni ævi, ók marga kílómetra vegna starfa sinna og kom á marga staði. Nú er vegferð hans á enda og Guð einn veit um hans vegferð á veraldarveginum og svo á himnaslóðinni. Við biðjum honum blessunar og felum hann miskunn Guðs og elsku.

Haukur fæddist 28. september 1930 að Hvítadal í Saurbæ í Dalasýslu. Hann andaðist á dvalarheimilinu Grund þann 4. janúar s.l.

Foreldrar Hauks voru Guðbjartur Jónas Jóhannsson (f. 9. nóvember 1909 d. 5. maí 1997) og Karítas Hannesdóttir (f. 16. október 1908 d. 19. janúar 1980), bændur í Miklagarði.

Haukur var elstur átta systkina sem eru Reynir (f. 1934), Halldóra (f. 1936), Hreinn (f. 1938), Hrafnhildur (f. 1941), Svanhildur (f. 1942), Margrét Indríður (f. 1948) og Jóhannes Smári (f. 1953).

Haukur ólst upp í Dölunum og þar átti hann góða daga. Alla ævi fann hann til róta sinna og naut þess að heimsækja æskuslóðirnar.

Þegar hann var 18 ára sá hann stúlku, Stefaníu Eiríku, á sundnámskeiði, sem þau sóttu og þeim leist vel á hvort annað. Þau hittust aftur síðar og árið 1952 lá fyrir að þau færu lífsveginn saman. Þau fluttu til Reykjavíkur 1953. Hugur hans stóð til þess að læra húsasmíði og hann hóf störf hjá frænda sínum suður í Njarðvík með það fyrir augum að komst á samning. Þá var lítið að gera í húsasmíði og verkefnin fá. Hann minntist þess oft síðar með bros á vör að hann hefði fátt annað gert í 2 ár en að smíða hrífusköft. Varð það síðan að orðtaki hjá honum ef úrræði voru fá að það mætti þá bara smíða hrífusköft.

Stefanía Eiríka lifir mann sinn. Hún fæddist að Tindum á Skarðströnd, 8.apríl 1933 og dvelur um þessar mundir í Silfurtúni í Dölunum.

Þau eignuðust fjögur börn.

Ásdís f.1955, eiginmaður Emil Haraldsson (f.1954). Börn Þeirra eru Benedikt (f. 1976), Haraldur (f.1980) og Eyrún (f. 1987).

Karítas Hrönn f.1957. Börn hennar eru Haukur Már (f. 1979), Magnús Valur (f. 1983), Benjamín Hrafn (f.1986) og Samúel Örn (f. 1992).

Kristján f. 1958. Börn hans eru Stefanía Eiríka (f. 1978), Eva Lind (f.1982).

Una f.1963 d. 2004. Dóttir hennar er Sunneva Ósk (f.1984) sem ólst upp að mestu hjá ömmu og afa.

Haukur vann meirihluta starfsævi sinnar sem bílstjóri bæði við akstur leigu- vöru- og langferðabíla, síðast hjá Veli. Hann naut þess að ferðast og þekkti landið eins og lófana á sér. Þegar hann ók um Dalina og börnin voru með rifjaði hann upp atriði úr Íslendingasögunum, einkum Laxdælu og naut þess að lifa sig inn í sögurnar. Þau hjónin fóru einnig til útlanda og nutu þess mjög að heimsækja Spán þar sem sólin skín fleiri daga og er heitari en hér á landi.

Um tíma ók hann hjá Vestfjarðarleiðum og fór margar ferðir með hópa í Þórsmörk. Hann lærði hvert orð sem leiðsögumenn fóru með og endurtók allt fyrir fjölskylduna þegar hann fór með henni í Mörkina. Hann var gamansamur maður og sagði skemmtilega frá.

Hann var einlægur framsóknarmaður alla tíð.

Hann hafði mikinn áhuga á stangveiði og fór í ár og vötn að veiða lax og silung. Staðarhólsá og Hvolsá þekkti hann vel og í Veiðivötn fór hann um árabil með börnum sínum og barnabörnum. Hann var farinn að undirbúa næstu veiðiferð þegar hann veiktist. Hann var gjarn á að hugsa fram í tímann og var alla tíð fremur bráðlátur. Því til sannindamerkis, þegar hann var nýkominn á Grund, hringdi hann í Edda, frænda Stefíanu sem býr í Breiholti og bað hann að koma strax vestur í bæ og fara strax út á Nesveg og sækja handa sér sundskýlu og koma með hana á Grund því hann hlakkaði til að fara í sund sem reyndar aldrei varð. Hann var alla tíð mikill hugmaður og alltaf að skipuleggja eitthvað í farmtíðinni.

Hann var lagður þar inn í hvíldarinnlögn eftir að hafa handleggsbrotnað í haust. Hann naut góðrar þjónustu þar og börnin og barnabörnin komu í heimsóknir. Hann fylgdist náið með vöktum Hrannar, dóttur sinnar og hringdi í hana í vaktafríum og bað hana um að skutlast með sig eitt og annað og oftast enduðu þau bíltúrinn með því að staldra við á Café Milano þar sem hann pantaði sér egg og síld og súkkulaðibolla. Og ekki spillti nú fyrir ef þjónustustúlkunar þar könnuðust við kallinn enda var hann reffilegur og myndarlegur.

Haukur var laghentur maður og börnin nutu þess að hann kunni vel á bíla og gat lagfært eitt og annað fyrir þau og sjálfan sig. Hann var fljótur að greina hvað að væri ef hann fékk að hlusta aðeins á ganginn og jafnvel dugði honum bara munnleg lýsinga til að geta sagt hvað væri að.

Hann hafði mikið yndi af barnabörnum sínum og þau hændust að honum. Hann lék við þau og gantaðist, sagði þeim sögur, spilaði við þau og ræddi um íþróttir og eitt og annað. Hann hafði alla tíð áhuga á íþróttum, stundaði frjálsar á sínum yngri árum og hlaut dómararéttindi. Ungur lék hann handbolta og knattspyrnu og fylgdist alla tíð með kappleikjum í sjónvarpi. Hann hafði gaman af að grilla heima og hafa fólkið sitt hjá sér. Hann setti saman margar vísur um ævina og orti eitthvað um öll börnin sín og barnabörn.

Hann spilaði bridge tvisvar sinnum í viku í mörg ár og naut þess að keppa við félaga sína.

Afkomendur Hauks eru orðnir 31 talsins.

Haukur og Stefanía bjuggu að Nesvegi 66 stóran hluta ævi sinnar en hún hefur dvalið í Silfurtúni í Dölununum frá því í júní í fyrra. Haukur vænti þess að fá þar inni líka en það gekk ekki eftir. Hann var lagður inn til hvíldar á Grund í haust og því komst hann ekki í Dalina.

Enginn ræður sínum næturstað, segir í máltækinu.

Vegurinn er á enda runninn og Haukur fer ekki lengra í þessu lífi.

Ég talað fyrr um vegina tvo, veginn sem við förum öll og allir sem lifa hvar í heimi sem er. Svo er það hinn vegurinn sem er Kristur. Sumir fara hann, aðrir ekki, sumir vita ekki af honum en aðrir þekkja hann en hirða lítt um hann. Svo eru það þau sem þekkja hann og fara hann, öðrum til góðs, Guði til dýrðar og sjálfum sér til blessunar.

Við felum Hauk Jesú Kristi, sem er vegurinn, sannleikurin og lífið. Guð geymi hann og blessi um eilífð alla og góður Guð blessi ykkur sem eftir lifið.

Guð gefi okkur öllum náð til þess að rata hinn góða veg sem liggur til lífsins, hins eilífa lífs.

Dýrð sé Guði . . .

url: http://ornbardur.annall.is/2013-01-14/haukur-gudbjartsson-1930-2012/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli