örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Óttaleysi · Heim · Haukur Guðbjartsson 1930-2012 »

Tómas Tómasson 1934-2012

Örn Bárður @ 13.16 10/1/13

Minningarorð
Tómas Tómasson
teiknari
1934-2012

Bálför frá Fossvogskapellu
fimmtudaginn 10. janúar 2013 kl. 11

Ræðuna er hægt að lesa og hlust á
hér fyrir neiðan.

Náð sé með yður og friður . . .

Við göngum ungir um sólbjört, syngjandi stræti.
Úr seiðblárri fjarlægð hið gullna ævintýr lokkar.
Og hjörtun ungu grípur konungleg kæti:
Við komum frá Guði og þetta er jörðin okkar!

Og höndum er fórnað og ástfangin augu vor teyga
unað hins jarðneska dags og himnesku nætur.
Við öfundum sjálfir jörðina af að eiga
okkur, syni jarðarinnar og dætur.

Og djúp er sú trú, sem oss er í blóðið borin:
Við byggjum skrautlegar hallir á fallegum sandi.
Og vegir liggja frá hafi til hafs á vorin,
og hlaðin gulli koma skip vor að landi.

En þó er eins og við grunum lífið um græsku.
Við göngum hikandi á fund hinnar ókomnu tíðar.
Þá syngjum við tvítugir harmljóð um horfna æsku,
og hjörtu vor trega þær vonir, sem bregðast oss síðar.

Þá hlustum við eftir grátstaf í gígjunnar kliði.
Á gröf hins liðna rís bernskunnar Edenlundur.
Við ásökum lífið, sem rænir oss ró og friði
og rekur glitvefnað horfinna drauma í sundur.

Svo fylgir oss eftir á lestaferð ævilangri
hið ljúfa vor, þegar allstaðar sást til vega.
Því skín á hamingju undir daganna angri
og undir fögnuði daganna glitrar á trega.

Og ef til vill verður oss ljóst þegar líður á daginn,
að ljómi vors draums er fólginn í öðru en að rætast.
Þótt gæfunnar blikandi steinn sé í lófa laginn,
þá leita vor glataðir dagar, sem aldrei bætast.

Þeir elta oss í svefninn sem ómur gamallar stöku.
Ókunn hönd eina spurningu á vegginn málar:
Æ, hvers vegna er ekkert, sem heldur fyrir oss vöku?
Og hvers vegna kemur enginn að draga oss á tálar?

Þetta ljóð Tómasar Guðmundssonar ber yfirskriftina Eftirmáli og í því má greina gleði æskunnar og trega ellinnar þegar ekkert heldur lengur fyrir manni vöku eða dregur á tálar. Þannig er lífið. Það er ferli sem hefst í vanmætti barns sem er algjörlega háð örmum móður, leiðir síðan til æskuskeiðsins og loks manndómsára með sínum verkefnum og loks ævikvölds þegar kraftar dvína og æskuljóminn fölnar, þegar þroskinn kemur og bernskan vitjar manns á ný „því tvisvar verður gamall maður barn“, segir í máltækinu. Líklegar hefur Tómas ekki grunað að ljóð hans Eftirmáli yrði flutt yfir syni hans og nafna látnum. En svona er lífið nú óútreiknanlegt og kannski birtist í þessu forsjón almættisins eða bara gamansemi þess og glettni?

Hvað sem því líður þá er vegferð okkar manna áþekk hvað varðar fæðingu, þroska, lífsverkefni og loks dauða. Við föllum að munstri lífsins en innan þess ramma höfum við þó mikla möguleika til áhrifa, frjáls vilji okkar ræður miklu um daglegt líf, örlög okkar sjálfra og samferðafólksins.

Tómas var fæddur í Reykjavík að sumri, 26. júlí 1934 á dögum kreppunnar þegar Ísland var fátækt af veraldra gæðum en ríkt af draumum um bjarta framtíð enda hafði þjóðin hlotið fullveldi sextán árum áður og tíu ár voru í stofnun lýðveldisins.

Foreldrar Tómasar voru Berta María Guðmundsson, fædd Jensen, í Reykavík og Tómas Guðmundsson, skáld og lögfræðingur, fæddur að Efri-Brú í Grímsnesi.

Þau eignuðust annan son, Guðmund, sem fæddist 1954.

Tómas ólst upp í Reykjavík, við Grettisgötu en lengst af að Bergstaðastræti 48. Hann gekk í Austurbæjarskólann og síðan í Miðbæjarskólann og átti góða bernsku.

Hann var alla tíð fremur dulur og fárra. Listrænir hæfileikar hans komu snemma í ljós og hann naut sín best við að teikna og skapa með hug og hönd.

Ungur kynntist hann lífsförunauti sínum, Helgu Jónsdóttur. Foreldrar hennar voru Jón B. Jónsson, f. á Eyrarbakka og Solveig Daníelsdóttir frá Reykjavík. þau byggðu húsið að Efri-Hlíð við Öskjuhlíð. Þar fæddist Helga og ólst upp í jaðri borgarinnar sem stöðugt færði út sín mörk og óx upp um hæðir og ása í austurátt.

Tómas og Helga gengu í hjónaband 1960 en leiðir þeirra lágu fyrst saman árið 1958/9. Árið 1961 fæddist þeim sonur, Jón Bertel, í sama húsi og móðir hans hafði fæðst í. Tengslin við þetta svæði hér í kring um Fossvogskirkju og kransinn umhverfis Öskjuhlíðina eru fjölskyldunni dýrmæt og því verður duftker Tómasar jarðsett síðar í Sóllandi sem er hér steinsnar frá í svonefndri Leynimýri milli Perlunnar og Fossvogskirkju en þar hefur verið skipulagður og hannaður fagur grafreitur fyrir duftker sem séður úr lofti er eins og fruma sem hefur skipt sér í tvær og svo fleiri. Vatn skilur að frumusvæðin og hólana og skapar fagran ramma um hið horfna líf sem þó lifir í minningum ástvina og að eilífu í huga Guðs.

Þau Tómas og Helga fóru til útlanda á sínum fyrstu hjónabandsárum. Tómas stundaði nám við listaskóla í Glasgow um skeið. Þaðan fóru þau til Þýskalands þar sem hann vann sem teiknari.

Þau fluttu heim eftir dvöl ytra og settust að í Reykjavík. Tómas starfaði alla sína starfsævi við teiknum og hönnum umbúða, lengst af hjá Kassagerð Reykjavíkur. Hann hannað margar bókakápur og allskonar umbúðir og var snjall og vandvirkur handverks- og listamaður. Tómas faðir hans og Sverrir Kristjánsson, sagnfræðingur, gáfu út bækur um tíma og Tómas yngri hannaði útlit og kápur.

Helga lærði síðar á ævi sinni bókasafnsfræði og starfaði sem slík við Menntaskólann í Kópavogi um árabil.

Þau hófu sinn búskap í Reykjavík en bjuggu síðustu áratugi að Stigahlíð 77.

Sonur þeirra, Jón Bertel er kvæntur Martinu Tómasson frá Þýskalandi og reka þau gistiheimili í Mýrdalnum en Jón er menntaður í hótelfræðum. Börn þeirra eru, Solveig Helga f. 2003 og Magnús Karl f. 2008.

Tómas var hagleiksmaður og það lék í raun allt í höndum hans en hann var minna fyrir skálskapinn sem faðir hans lifði og hrærðist í alla sína daga.

Tómas yngri var hlédrægur og vildi aldrei berast mikið á eða hafa umstang í kringum sjálfan sig eða sína. Hann var fremur dulur og fáskiptinn og naut sín best einn við listræna iðju og svo átti hann jafnan sína bestu daga austur við Sogið í sumarbústað fjölskyldunnar þar sem fuglinn söng í laufi og fljótið lék undir. Hann var elskur að dýrum og næmur gagnvart öllu sem lífsandann dregur.

Hann var hrifinn af föður sínum og stoltur af verkum hans.

Tómas yngri var dagfarsprúður maður en glímdi lengi vel við þann sjúkdóm sem leggst gjarnan á þá sem verja helst til mörgum stundum í vinfengi við Bakkus. Sá sjúkdómur er lúmskur, hægvirkur og hættulegur og hann tekur ekki bara til þeirra sem neita veiganna heldur og þeirra sem með þeim búa og þá elska. Ég vík að þessum vanda með leyfi ástvina Tómasar. Gott er að orða hlutina því sannleikurinn gerir okkur frjáls, eins og Jesús sagði. Engin leið hefði verið að bregða upp mynd af lífi Tómasar án þess að þessir litir fengju líka að vera með því mynd verður ekki máluð án skugga.

Við felum Tómas elsku Guðs og þökkum fyrir allt hið góða sem prýddi sálu hans en á sama tíma leggjum við einnig það sem var sárt og erfitt í hendur Guðs sem tekur á öllum málum af elsku og miskunn í allri dýpt og af fyllstum skilningi.

Við kveðjum hér látinn ástvin sem er farinn veg allrar veraldar eins og séra Hallgrímur orðaði það. Við erum öll á sömu leið en við skulum reyna að njóta lífsins meðan dagur er og fagna yfir því undri að vera til. Tómas eldri orti margt fagurt sem vitna hefði mátt í en eitt er það kvæði hans sem ég hef líklega oftast vitnað til og það heitir Anadymomene en í því talar hann um gleðina yfir því að tilheyra kynslóð sinni. Við skulum heyra snjalla hugsun og húmoríska úr þessu ljóði:

Og það er á slíkum stundum, að maður getur gert sér
eins grein fyrir því og vert ert,
að kynslóð vor hin eina kynslóð er,
sem nýtur þeirra hamingju að hafa ekki dáið.
Svo hjartanlega náið
er lífið okkur enn, sem betur fer.

Já, við erum eina kynslóð veraldarsögunnar sem hefur ekki dáið. Allar hinar eru horfnar af þessu jarðlífi. Þess vegna skulum við fagna og gleðjast yfir því að eiga lífið.

Við þökkum Guði fyrir Tómas Tómasson og allt það góða sem í sálu hans bjó, fyrir hæfileika hans og elskusemi alla, fyrir gáfur hans og getu og felum Guði allar minningarnar í öllum sínum litbrigðum og biðjum Tómasi blessunar um eilífð alla.

Guð blessi einnig ykkur sem hér kveðjið og gefi ykkur gleðilegt og gæfuríkt nýtt ár.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda.

Amen.

url: http://ornbardur.annall.is/2013-01-10/tomas-tomasson-1934-2012/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli