örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Vitund þín, arfur og áframhald · Heim · Óttaleysi »

Hulda Pálsdóttir 1926-2012

Örn Bárður @ 14.19 3/1/13

huldapalsdottirMinningarorð
Hulda Pálsdóttir
1926-2012
Útför (bálför) frá Neskirkju
fimmtudag 3. janúar 2013 kl. 13.00.

Ræðuna er hægt að lesa og hlusta á
hér fyrir neðan.

Friður Guðs sé með ykkur – og gleðilegt nýtt ár!

Já, ég leyfi mér að nefna gleði á sorgarstund. Þegar við kveðjum konu sem náð hafði góðum aldri er kveðjustundin í senn sorgarathöfn og þakkarhátíð fyrir það líf sem hún lifði, störfin hennar og framlag til samfélagsins, ekki hvað síst í 5 börnum sem hún bar í þennan heim og kom til manns. Lífið heldur áfram og við áramót er gott að heyra góðar kveðjur og óskir um gleði og gæfu á nýju ári.

Í Jesú nafni áfram enn

með ári nýju, kristnir menn,

það nafn um árs- og ævispor

sé æðsta gleði’ og blessun vor.

Hver er sinnar gæfu smiður, segir í máltækinu. En er það svo? Hvað ræður gæfu okkar og afdrifum í lífinu? Máltækið færir okkur viss sannindi en segir þó ekki allt sem segja þarf um margslungið orsakasamhengi í lífi einstaklinga og hópa. Víst er að við höfum margt um það að segja hvernig líf okkar verður en áhrifavaldarnir eru fleiri. Í bók sem ég las segir höfundur að enginn skapi sjálfan sig eða sé sinn eigin gæfu smiður að öllu leyti. Hann bendir á að í lífi allra eru tilviljanir svo sem þær að við hittum mann og annan á lífsleiðinni og það hefur allt áhrif á ákvarðanir okkar og stefnu. Flest þekkjum við það hvernig ástin kviknaði og lífið tók nýja stefnu. Og svo bætast við ótal aðrir þættir sem við ráðum ekki við svo sem veikindi, slys og dauðsföll sem marka grynnri eða dýpri spor í lífi margra.

Hulda Pálsdóttir fæddist í Reykjavík 14. nóvember 1926. Hún lést á Dvalarheimilinu Grund aðfararnótt aðfangadags, 24. desember 2012.

Foreldrar Huldu voru Páll Trausti Pálsson, skipasmiður, frá Borgargerði í Höfðahverfi, (f. 8. 1.1895, d. 9.8.1963) og Sigríður Jónsdóttir frá Skarði í Dalsmynni, (f. 5.5.1891, d. 25.12.1968).

Bróðir Huldu var Einar Pálsson, (f. 5.11.1927, d. 18.11.1936) sem lést 9 ára úr heilahimnubólgu.

Hulda giftist Guðmundi J. Helgasyni (f. 1927, d. 1951) sem lést í blóma lífsins um 24 ára aldur.

Sonur þeirra er Einar Þór Guðmundsson f. 26.9.1950.

Seinni maður Huldu var Sveinn Einarsson frá Raufarhöfn, f. 1929. Þau skildu.

Börn þeirra eru:

Sigríður Hellen, f. 26.3.1955, maki Allan Møller, sonur þeirra er Magnús f. 1993.

Hjördís Erla, f. 13.3.1957, maki Alexander Eyjólfsson, þeirra dætur eru Elsa f. 1980, Ingunn f. 1987 og Sif f. 1993.

Páll Baldvin, f. 2.10.1961, maki Anna Lísa Þorbergsdóttir, börn þeirra eru Hilmar f. 1990, Hulda f. 1994 og Baldvin f. 1999.

Geir Grétar, f. 4.4.1966, börn hans eru Auður Ýr f. 1990, móðir hennar er Elísabet Linda Þórðardóttir; Telma f. 1991 og Andri f. 1994, móðir þeirra er Ragnheiður Skúladóttir og Oliver f. 2004, móðir hans er Josefine Meinhardt.

Langömmubör Huldu eru þrjú.

Hulda átti á margan hátt góða ævi en þó varð hún fyrir sárum missi oftar en einu sinni og setti það mark sitt á líf hennar. Hún missti bróður sinn 9 ára sem lést úr heilahimnubólgu og var ári yngir en hún. Hún missti fyrri manna sinn er sonur þeirra var á fyrsta ári og loks slitnaði upp úr síðara hjónabandi hennar. Líf hennar var markað af þessum atburðum sem ristu djúpt í sálarlíf hennar.

En reynslan sýnir að fólk heldur áfram að lifa þrátt fyrir áföll. Manneskjan hefur ótrúlga aðlögunarhæfni í kjölfar erfiðrar reynslu. Það þekki ég sem prestur af kynnum mínum af syrgjendum. Lífið heldur áfram og við eigum engra annarra kosta völ en að slást í för með lífinu.

Hulda átti góða bernsku og ólst upp við öryggi og ágæt efni. Faðir hennar var iðnmenntaður sem skapaði góða undirstöðu fyrir efnahag fjölskyldunnar. Iðnaðarmönnum óx fiskur um hrygg í byrjun liðinnar aldar og urðu sterkir stólpar í þjóðfélaginu víða um land og eru enn. Móðir hennar var lærð sem starfsmaður í rjómabúi. Huldu skorti ekkert í bernsku en auðvitað mótaði það persónu hennar að vera elsta barn foreldra sinna og verða síðar eina barn þeirra sem komst á legg. Hún fæddist í húsi við Stýrimannastíg í Veturbænum og bjó um tíma við Hringbraut og þar lauk hún lífsgöngu sinni. Hringnum var lokað þar. Hún bjó við Háaleitisbraut og í Safamýri um árabil en Vesturbærinn togaði alltaf í hana. En hún átti rætur að rekja lengra því foreldrar hennar voru báðir úr Suður-Þingeyjarsýslu. Þangað fór hún oft um ævina og fann til róta sinna og börnin voru gjarnan með í för. Hún hélt góðu sambandi við fólkið sitt en móðir hennar var langyngst í stórum systkinahópi og Hulda því í sama ættlið sér eldra frændfólks.

Hulda var fagurkeri og naut þess að hafa fallegt í kringum sig og hugsaði gjarnan um útlit sitt og klæðaburð af natni og smekkvísi. Hún hafði yndi af fagurri tónlist og naut þess að fara á tónleika og í leikhús. Hún hafði einnig auga fyrir myndlist og átti góð málverk sem hún keypti eða erfði eftir foreldra sína. Hún ferðaðist víða og fór oft til útlanda og þá helst í svonefndar borgarferðir þar sem hún gat kynnt sér menningu Evrópuþjóða. Hún var heimavinnandi meðan börnin voru að komast á legg og kunni vel til verka í þeim efnun enda hafði hún verið í Húsmæðraskóla Reykjavíkur á sínum tíma. Hún starfaði í nokkur ár við símavörslu hjá Sveini Egilssyni h.f. í Skeifunni. Hún tók virkan þátt í starfi Kvenfélagsins Hringsins um árabil og fékkst þar einkum við kortagerð og fleira föndur sem er eins og við vitum mikilvægur þáttur í tekjuöflun félagsins.

Börnin þakka mömmu fyrir gott atlæti. Hún var þeim góð mamma sem skapaði þeim öruggt heimili þar alltaf var nóg að bíta og brenna. Hún las fyrir þau og bjó þau undir lífið eins og hún kunni best. Þau hafa öll komist vel af og bera virðingu hvert fyrir öðru, hafa lært að vinna fyrir sér og standa sig í lífinu. Hún lagði alla tíð upp úr því að börnin hennar stæðu saman og það gekk eftir. Þau voru henni mikils virði ásamt tengdabörnum og afko,mendur þeirra.

Hún átti góðar vinkonur og frænkur sem héldu hópinn í áratugi og þeim eru hér færðar þakkir barna hennar fyrir ræktarsemi og vináttu í áranna rás.

Borist hafa kveðjur frá Sigurbirni Skírnissyni, frænda Huldu og Kristínu Tryggvadóttur konu hans, eða Bjössa og Stínu á Akureyri og frá Hjördísi Sigurbjörnsdóttur, sem jafnan er kölluð Dísa á Skarði.

Að eiga góða að skiptir miklu máli í lífinu, börn og vinir eru mikilvægir. Enginn er eyland. Við erum félagsverur og líf okkar er tengt og fléttast saman við líf marga einstaklinga, skyldra og óskyldra. Lífið er vefur sem við erum hluti af. Við erum vegbúar í leit að öryggi og hamingju. Við erum pílagrímar á leiðinni heim.
Ágústínus kirkjufaðir sem var uppi á 4. öld glímdi við hamingjuleitina. Honum voru allir vegir færir enda vel menntaður lögfræðingur á sínum tíma sem stóð í efri stigum þjóðfélagsins. Samt fann hann ekki ró í hjarta sínu fyrr en hann mætti Kristi. Rit hans höfðu mikil áhrif á sínum tíma, einkum Játningar hans, og hafa reyndar enn eftir sextán hundruð ár. Hann segir m.a. í því riti og talar þar um Guð:

„Þú hefur skapað oss þér til handa, ó, Drottinn, og hjarta vort er órótt uns það hvílir í þér.“

Við erum og verðum aldrei fullnægð í lífinu fyrr en við finnum tengsl við okkar dýpstu rætur. Þær eru ekki í Suður-Þingeyjarsýslu, í Reykjavík eða á öðrum stöðum landsins eða heimsins heldur í hinni handanverandi tilveru, í Guði skapara himins og jarðar. Við verðum aldrei fyllilega hamingjusöm fyrr en við finnum þessar rætur og nærum þær. Það gerum við með því að rækja trú okkar, með bæn og íhugun á Orði Guðs.

Okkur var nánast eins og varpað inn í þennan heim þegar við fæddumst og fengum að líta ljósið í fyrsta sinn. Þar með hófs vegferð sem er með ótal hindrunum. Við urðum að læra að rísa upp og ganga, sækja okkur menntun og þroska, læra að takast á við lífið í samskiptum okkar við annað fólk, glíma við tilvistarspurningar um hinstu rök og spyrja: Hver er ég? Hvaðan kem ég? Hvert fer ég?

Við verðum að leita svara við þessum spurningum og : „ . . . hjarta vort er órótt uns það hvílir í þér.“

Við kveðjum Huldu Pálsdóttur með virðingu og þökk og felum hana himni Guðs og því alheimshjarta sem allt elskar.

Í nafni hans vér hljótum ró,

er hulin jörð er vetrarsnjó,

í nafni hans fær sofnað sætt

með silfurhárum ellin grætt.

Í Jesú nafni endar ár,

er oss er fæddur Drottinn hár,

í Jesú nafni lykti líf,

hans lausnarnafn þá sé vor hlíf.

Guð blessi minningu Huldu og Guð blessi þig. Amen.

url: http://ornbardur.annall.is/2013-01-03/hulda-palsdottir-1926-2012/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli