örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Andstaða við kristni og píslarvætti · Heim · Hulda Pálsdóttir 1926-2012 »

Vitund þín, arfur og áframhald

Örn Bárður @ 16.43 1/1/13

nyvitundVitund þín, arfur og áframhald
Prédikun
í Neskirkju
nýársdag 2013 kl. 14

Ræðuna
geturðu lesið
og hlustað á
hér fyrir neðan.

Náð sé með yður . . . Gleðilegt nýtt ár!

Hann guðaði á glugga sveitabæjar á aðfangadag, strokufanginn, lagði frá sér vopn og bað heimafólk að hringja í lögregluna. Hann vildi gefast upp. Hann gat ekki hugsað sér að halda fólkinu sínu í óvissu um jólin og eyðileggja fyrir þeim hátíðina, spilla anda jólanna.

Jólin hafa sterka stöðu í vitund okkar. Þau eru helgur arfur sem borist hefur til okkar frá gengnum kynslóðum. Andi jólanna býr innra með okkur og það bera að þakka. Jólin eru fjársjóður friðar og gleði, góðra minninga og tengsla við himinn Guðs.

Hvort jólin eru eldri en kristni skal ósagt látið en heimildir eru um að norrænir menn hafi haldið hátíð við vetrarsólhvörf. Við komu norrænna manna til Íslands hafði kristni verið við lýði í tæpar 9 aldir og fjöldi landnema var þegar kristinnar trúar. Ekki leið á löngu uns kristni varð ofan á í hugum Íslendinga og jólahaldið fékk við það kristið inntak enda þótt enn eimi af heiðnum minnum í menningu okkar og ber það umburðarlyndi þjóðarinnar glöggan vott.

Kristni hefur mótað menningu okkar í þúsund ár en heiðnin aldrei horfið með öllu. Segja má kristnum mönnum það til hróss að þeir skráðu ekki aðeins sögu Norðurlanda og björguðu þannig dýrmætum arfi heldur skrifuðu þeir einnig upp hina norrænu goðafræði sem ásatrúarmenn samtímans byggja allar hugmyndir sínar á.

Við erum mótuð af ýmsum straumum og stefnum í aldanna rás og svo bætis ofan á, nú hin síðari árin, flóðbylgjur upplýsinga og allskonar hugmynda í gegnum netið og fjölmiðla, bæði trúar- og veraldlegar hugmyndir, sem móta munu hugarfar okkar á komandi árum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Í öllu þessu ölduróti leita á huga manns spurningar, annarsvegar um menningararfinn og hins vegar um nýja hugsun, ný viðmið, nýja vitund, sem vissulega getur byggt á gömlum grunni menningar og trúarhugmynda, því besta sem arfur okkar geymir.

Allt þetta hefur áhrif á vitund okkar.

Í Íslensku alfræðiorðabókinn segir um vitundina:


„grunnþáttur huglægrar tilveru; einn sjalfsagðasti en jafnframt torskildasti eiginleiki mannshugans. Um vitund er ýmist fjallað sem hugarástand er gerir manni kleift að upplifa og vita af sjálfum sér og umhverfi sínu (meðvitund) eða í víðari skilningi sem óljóst fyrirbæri samofið tilveru einstaklingsins þar sem gert er ráð fyrir ýmsum vitundarstigum. Sbr. dulvitund.“

Ég hef verið að glugga í bók eftir Eckhart Tolle sem er Þjóðverji, búsettur í Kanada. Hann hefur ritað bækur um andleg málefni sem seljast í bílförmum, eins og sagt er, einkum vestan hafs.

Tolle, sem er 64 árar, segist hafa glímt við þunglyndi fyrri hluta ævi sinnar en þegar hann var 29 ára varð hann fyrir „innri umbreytingu“ (inner transformation). Hann stundaði háskólanám í Englandi og lagði stund á heimspeki, sálarfræði og bókmenntir. Hann var atvinnulaus um tíma og varði lífi sínu í flakk og pælingar í einhverskonar djúpu alsæluástandi áður en hann varð að þeim andlega kennara sem hann er nú. Í bók sinni Ný jörð (A New Earth) kallar hann eftir vitundarvakningu í heiminum og segir m.a. í lauslegri þýðingu minni:

Ef innviðir mannshugans haldast óbreyttir, munum við sífellt halda áfram að endurskapa heim á sama grunni, með sömu illsku og gangtruflunum og hingað til.

Hann kallar eftir nýrri jörð og nýjum himni og bendir á að væntingar um hvort tveggja megi rekja til spádóma Biblíunnar, bæði í Gamla- og Nýjatestamentinu, þar sem talað er um að veröldin muni líða undir lok og upp rísa „nýr himinn og ný jörð“. Í þessu sambandi bendir hann á að himinninn er ekki staður heldur vísar hann til innra sviðs og vitundar. Þetta er hin dulspekilega merking orðins sem kemur fram í kenningum Jesú. Jörðin, aftur á móti, er hið ytra birtingarform sem endurspeglar ávallt hinn innri veruleika. Sameiginleg vitund mannsandans og lífið á þessari plánetu eru tengd á eðlislægan hátt. „Nýr himinn“ vísar til verðandi eða tilkomu umbreyttrar vitundar mannkyns og „ný jörð“ endurspeglar hið andlega í hinu ytra eða efnislega. Þar sem mannlegt líf og vitund fléttast saman við allt líf á þessari jörð þá mun, þegar hin gamla vitund leysist upp, verða miklar breytingar í heiminum.

Nú er ég enginn sérfræðingur í skrifum þessa manns en mér finnst margt í hugsun hans áhugavert. Hugmyndir hans eru augljóslega blanda af kristnum hugmyndum og búddískum með ívafi frá fleiri trúarbrögðum.

Í framhaldi af þessu vil ég vitna í orð manns að nafni Sacks, sem er lávarður og yfir-rabbíni í Bretlandi. Hann segir frá gleði Gyðinga þar í landi á svonefndir Hanukah-hátíð, Ljósahátíðinni, sem haldin er árlega á mismundandi dagsetningum á sama tíma og aðventan ríkir í hinum kristna heimi. Fólk kom saman á Trafalgar torgi nýlega og gladdist ásamt þúsundum öðrum með kórsöng, rokktónlist og sælgætisgjöfum til barna. Slík uppákoma hefði verið óhugsandi fyrir nokkrum áratugum því Gyðingar hafa verið skotspónn fordóma svo lengi að ekki sé minnst á hrylling helfarar nazista á stríðsárunum. Hann segir frá því að um svipað leyti hafi þau tendrað ljós með Gyðingum og fólki með aðra trú innan lögreglunnar, Scotland Yard. Hann minnist þess að kona nokkur, sem var í haldi í fangabúðum nazista á stríðsárunum, sagði frá reynslu sinni fyrir nokkrum árum eftir að hún hafði skotið rótum á breskri grund og lýsti því hvernig hún fann til frelsis þegar hún uppgötvaði að lögreglan þar í landi var ekki óvinur heldur vinur.

Hann ræddi einnig trúarstrauma á Bretlandseyjum og vitnaði í nýja skoðanakönnum um að þeim hafi fækkað um sex milljónir á tíu árum sem telja sig trúaða. Á sama tíma skipta minnihlutahópar trúaðra meira máli en áður. Hann spyr hvort himnarnir séu að leiða okkur fyrir sjónir að öll trúarbrögð séu í raun í kjöraðstæðum þegar þau eru rödd minnihlutans, þegar þau hafa áhrif en ekki völd, þegar fólk gefur öðrum rými til að hafa ólíkar skoðanir, þegar aðrar sögur og aðrir söngvar fá að hljóma, gestrisni er sýnd og góðgerðir veittar öðrum af gjafmildi án þess að vænta nokkurs í staðinn.

Trúarbrögðin snúast ekki um völd heldur valdaleysi, segir hann. Það sem skiptir mestu er að þau sem hafa meira en þau þurfa, deili velgengni sinni og blessunum með þeim sem hafa minna og eru þurfandi. Hann segir kertin á Ljósahátíðinni vera ljós sem Gyðingar deila með heiminum og væntir þess, að því fleiri trúarbrögð sem fái að njóta sín á Bretlandseyjum og í þeim mun ríkara mæli sem þau deili gæðum sínum með öðrum, verði ljósmagnið stærra og meira.
Þetta er fögur hugsun og víðsýn.

Við þurfum vitundarvakningu á Íslandi.

Tolle segir flest hinna fornu trúarbragða og hugmyndakerfa eiga sameiginlegt innsæi um að hið viðvarandi hugarástand manna sé þjakað af grundvallar veilu. Í okkur öllur er brotalöm. Þrátt fyrir þessa neikvæðu hlið, sem kristnin kallar synd, getur maðurinn orðið fyrir róttækri vitundarvakningu. Í hindúisma og stundum í búddisma heitir þetta uppljómun. Kristur talaði um frelsun og Búddha um að losna undan þjáningunni. Mestu skiptir að losna úr viðjum og vakna til nýrrar vitundar. Vitundarvakning verðu ekki við það að fljóta áfram með straumnum, láta sér nægja þá afstöðu að vilja öðrum vel, fara svo með bænir og vers þegar vel stendur á eða þá helst þegar eitthvað á bjátar. Vitundarvakning hefur djúp, innri áhrif sem kemur af upplifun sem breytir allri sýn á veruleikann þar sem hið andlega er sett í algjöran forgang.

Getur Þjóðkirkjan lagt sitt af mörkum í þessu sambandi eða er hún of stór og of tengd valdinu á liðnum áratugum og of fyrirferðarmikil í sögu landsins til þess að geta orðið vettvangur slíkrar vitundarvakningar? Ég veit ekki svarið en ég vænti þess þó að hún geti með því að þróa með sér meiri auðmýkt og umbyrðarlyndi í grunneiningum sínum, söfnuðunum, náð að vera sem Kristur á meðal manna, „Immanúel, Guð með oss.“ Hugsjónir hans eru vissulega fagrar og enn á heimurinn langt í land með að skilja þær að ekki sé nú talað um að framkvæma hugmyndir hans um líf og hamingju heimsins. Ég vænti þess að hér á landi geti orðið í senn nýr himinn og ný jörð, ný vitund með nýrri sýn á veruleikann, bæði innan Þjóðkirkjunnar og meðal alls almennings með ólík trúarleg viðhorf og lífsskoðanir.

Og svo ég færi þessa þanka inn á svið þjóðmála þá liggur það væntanlega í augum uppi hjá okkur flestum að vitundarvakningar er þörf á sviði stjórnmála og opinberrar stjónrsýslu. Við getum ekki haldið áfram lengur í sömu hjólförunum sem virðast bara hafa dýpkað með árunum og leiðin fram á við orðið að torfærum vegaslóða. Við verðum að fá að sjá ný vinnubrögð, ný viðbrögð, nýja framkomu, ný viðhorf alþingismanna til hvers annars og ólíkra skoðana og hefða, nýjar aðferðir sem leiða til nýrra og betri lausna en hingað til.

Andi jólanna sem minnst var á í upphafi gerir kraftaverk í sálum margra, afvopnar og ryður burt illsku og hatri. Andi jólanna þarf að fylgja okkur inn í nýja árið og endast árið út.

Á nýju ári þrái ég að sjá að við varðveitum hið góða úr arfi okkar menningar og trúar og leitum stöðugt meiri þroska og dýpri skilnings á lífinu og tilverunni og á möguleikum okkar mannfólksins til að lifa saman í sátt og samlyndi.

Biðjum um vitundarvakningu og gleymum ekki varnaðarorðum hins andlega kennara sem talaði um að ef innviðir mannshugans haldast óbreyttir, munum við sífellt halda áfram að endurskapa heiminn á sama grunni, með sömu illsku og gangtruflunum og hingað til.

Við, sem öll erum á einn eða annan hátt fangar allskonar hugmynda og takmarkaðs skilnings á veruleikanum, skulum nú leggja niður vopnin sem við höfum hingað til treyst á í baráttu daganna og guða á glugga hins nýja árs með frið í hug og hjarta, von og trú.

Göngum á vit nýs árs með þá von í brjósti að okkur muni takast sem þjóð að vakna til nýrrar vitundar um allt okkar líf, land og sögu, menningu og trú, stjórnmál og stjórnsýslu, samfélag og samskipti í nútíð og framtíð og í anda orðanna í Davíðssálmum sem fyrr voru lesin:

„Kenn oss að telja daga vora, 
að vér megum öðlast viturt hjarta.“

Gleðilegt nýtt ár, í Jesú nafni, gleðilegt nýtt ár!

Takið postullegri kveðju:

Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda. Amen.

- – -

Ritningarlestrar dagsins eru hér.

Bæn í lok almennrar kirkjubænar:

Guð,

um aldir hefur ljósið þitt ljómað

af ásjónu nýfædds barns í Betlehem

sem tákn elsku þinnar og návistar

mitt í ógn og illsku heimsins.

Við biðjum þig:

Látttu ljósið þitt lýsa okkur enn.

Leið okkur frá dauða til lífs,

frá lygi til sannleika,

frá vanmætti til vonar,

frá ótta til trausts,

frá hatri til kærleika,

frá stríði til friðar.

Hjálpa okkur að tendra ljós

fremur en að formæla myrkrinu

og lát frið þinn fylla hjörtu okkar,

allra manna, alheims.

Í Jesú nafni. Amen.

(Mitt i församlingen)

url: http://ornbardur.annall.is/2013-01-01/vitund-thin-arfur-og-aframhald/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli