örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Að vera rétt manneskja á réttum stað og tíma · Heim · Vitund þín, arfur og áframhald »

Andstaða við kristni og píslarvætti

Örn Bárður @ 19.48 26/12/12

stefangryttur

Andstaða
við kristni
og píslarvætti

Prédikun í Neskirkju
2. í jólum 2012

Þú getur lesið og
hlustað á ræðuna
hér fyrir neðan.

Stefánsdagur frumvotts
Í dag er haldinn heilagur í kirkjum víða um heim, Stefánsdagur frumvotts. Dagurinn er tileinkaður fyrsta píslarvotti kristninnar sem grýttur var í Jerúsalem á fyrstu árunum sem kirkjan starfaði.

Litur messuskrúðans er rauður, ekki til þess að hafa prestinn rauðklæddan eins og jólasveininn, heldur vísar rauði liturinn til blóðs og elds. Jólin eru jafnan haldin í skugga ofbeldis og sársauka. Jólabarnið var flóttamaður strax í frumbernsku og hraktist frá heimkynnum sínum til Egyptalands.

Kirkjan heldur þennan dag til þess að minna á að hin góðu gildi kristninnar mæta gjarnan andstöðu.

Hjálparstarf í frumkristni
Hver var Stefán? Hann var vel kynntur maður í frumkristni, einn af sjö mönnum sem valdir voru til þess að þjóna frumsöfnuðinum. Hann var safnaðarþjónn, diakonos á grísku, en þaðan er komið íslenska orðið djákni. Hann sá m.a. um að útdeila gjöfum til þurfandi. Hann var að breyttu breytanda fulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar.

Kristnum mönnum fjölgaði ört í Jerúsalem á þessum dögum og í Postulasögunni er okkur greint frá því að mikil samhjálp ríkti með hópnum sem hafði allt sameiginlegt. Fólk stóð saman og studdi hvert annað.

Stefán var þjónn þessa fólks og hann prédikaði líka og flutti fagnaðarerindið og gerði það á áhrifaríkan hátt. Sumum líkaði það vel en öðrum illa. Það hlýtur að hafa verið sérstakt að vera uppi á þessum dögum í Jerúsalem þegar gömlu gildunum var mörgum kastað á glæ og ný hugmyndafræði fór eins og eldur í sinu um borgina. Slíkt kallaði á átök og andstöðu. Almenningur reis upp eins og hér í Búsáhaldabyltingunni enda þótt ólíku sé saman að jafn.

Sigursveigur og barátta
Andstaðan við kirkjuna kristallaðist í lífláti Stefáns. Nafnið Stefán merkir sigursveigur, stefanos á grísku, en það var notað yfir lárviðarsveiginn sem íþróttakappar voru krýndir með á Ólympíuleikunum til forna. Sama tákn bera lárviðarskáld Breta. Orðið Stefán, sigursveigur, minnir mig á orðin sem presturinn hafði yfir mér og fermingarsystkinum mínum fyrir tæpum 50 árum:

„Vertu trúr allt til dauða og Guð mun gefa þér lífsins kórónu.“

Hvað kostar að trúa?
Stefán lét lífið fyrir trú sína. Hvað kostar það okkur að trúa? Við búum í góðu landi þar sem við fáum að iðka trú okkar óáareitt og stjórnarskráin tryggir öllum landsmönnum rétt til þess að iðka trú sína eftir eigin sannfæringu. Það eru forréttindi. En á hinn bóginn er trúnni hætta búin við slíkar aðstæður. Hún getur orðið dauf og bragðlaus.

Frumsöfnuðurinn upplifði mikla gleði og samstöðu en um leið andstöðu og illindi af hálfu þeirra sem fyrir utan stóðu. Það olli því m.a. að kristnir menn flúðu Jerúsalem og settust að í öðrum borgum fyrir botni Miðjarðarhafsins. Og þá eins og nú gerðist það að Guð snýr böli til blessunar. Flóttinn varð til þess að fagnaðarerindið breiddist út um allan hinn þekkta heim á þeim tíma. Því má svo skjóta hér inn í að sama á sér stað fyrir botni Miðjarðarhafsins í dag. Kristnir menn flýja ástandið. Þannig er það t.d. í Palestínu, Sýrlandi og mörgum öðrum löndum þar sem múslimar eru í meirihluta. Kristnir eru oft á tíðum ofsóttir en um leið standa þeim fleiri dyr opnar og eiga auðveldara með að komast til annarra landa og svæða sökum þess að þeir eru í mörgum tilfellum betur menntaðir en aðrir íbúar þessara landa.

Ofbeldismaður snýr við blaðinu
Þegar Stefán var grýttur til bana stóð þar hjá maður, Sál að nafni, sem gætti yfirhafna þeirra er grýttu fórnarlambið. Þessi maður hafði farið með offorsi gegn kristnum mönnum og hneppt marga í varðhald sökum trúar sinnar. En hann átti eftir að verða fyrir reynslu sem gjörbreytti lífi hans. Sál snerist frá villu síns vegar og varð kristinn og tók upp nafnið Páll. Hann átti eftir að verða einn öflugasti boðberi kristninnar fyrr og síðar.

Píslarvætti fyrr og nú
Okkur kann að þykja það framandi og heyra um að fólk hafi verið ofsótt vegna trúarskoðana sinna. Við þekkjum frásagnir af ofsóknum í Rómarveldi til forna. En er fólk ofsótt enn þann dag í dag? Já, því miður og því er meira að segja haldið fram að fleiri deyi árlega fyrir kristna trú sína en á verstu tímum ofsókna fyrr á öldum. Í fréttum fyrir nokkrum árum var talað um að u.þ.b. 70 þúsund manns hafi verið líflátnar í Darfur í Afríku vegna trúar sinnar. Þetta var kristið fólk og líflátið af múslimum. Fjöldi píslarvotta í Darfur er álíka mikill og allra íbúa Reykjavíkur vestan Elliðaáa. Ég skírði barn s.l. sunnudag sem er íslenskt í móðurætt en frá Nígeríu í föðurætt. Þar ganga um múslimar í svonefndri Boko Haram hreyfingu og myrða kristið fólk.

Að tala tæpitungulaust
Hvaða gildi erum við reiðubúin að verja jafnvel þótt það kosti okkur sjálf mikið?

Danski presturinn Kaj Munk sagði: „farðu þangað sem Hann [Kristur] vill að þú farir.“ Hvað átti hann við? Var hann ekki að vísa til þess að við getum ekki annað en fylgt sannfæringu okkar og köllun Guðs og að okkur ber siðferðileg skylda til þess? Hann prédikaði gegn hernámi nasista í Danmörku og var einn af þeim sem sáu í gegnum helför þjóðernisstefnunnar þýsku. Og nasistar tóku hann af lífi, skutu hann og skyldu lík hans eftir liggjandi í skurði við þjóðveginn í friðsælli sveitinni þar sem hann þjónaði söfnuði sínum af trúmennsku og heilindum. En það kostaði hann allt!

Hvað annað en landhelgin?
Hverju höfum við kostað til sem þjóð? Við erum svo heppin að landið okkar liggur langt úti í hafi og er fjarri öðrum þjóðum, „svo langt frá heimsins vígaslóð.“ Það hefur verndað okkur á margan hátt og við ekki þurft að standa í landamæradeilum við aðrar þjóðir nema þá um landhelgina okkar. Við höfum háð þorskastríð.

Friður og réttlæti heyra saman
Hvaða gildi skipta okkur máli? Við þráum öll réttlæti og frið en við skulum aldrei gleyma því að friður er ávöxtur réttlætis. Þar sem óréttlæti ríkir er ófriður í vændum. Friður er ávöxtur réttlætis. Og við skulum íhuga það vesturlandabúar að okkar líf og lífsafstaða, okkar framkoma í heiminum er ekki fullkomin. Múslimarnir sem gagnrýna okkur hafa stundum ýmislegt til síns máls. En þar með er ég alls ekki að verja hryðjuverk eða önnur ódæði af þeirra hálfu. Alls ekki! Kristin trú stendur í raun gegn öllu ofbeldi en viðurkennir rétt manna til sjálfsvarnar.

Jesús talaði líka um ófrið
Er það ekki mótsagnarkennt að Jesús skuli hafa mælt fram eftirfarandi orð?

„Ætlið þér, að ég sé kominn að færa frið á jörðu? Nei, segi ég yður, heldur sundurþykki.“ Lk 12.51

Undarlegt þetta með íhugunarefni annars dags jóla. Margir álíta að það passi alls ekki inn í samhengi jólanna. Jólin eru friðarhátíð. Jesús er Friðarhöfðinginn. Og svo er á miðjum jólum farið að tala um Stefán og píslarvottana!

Dauðinn – fæðing til nýs lífs
Í raun og veru er hefur það í sér fólgna djúpa merkingu að halda upp á heilagan Stefán einmitt í dag. Stefán var fyrsti píslarvottur kristninnar, frumvottur. Hinir fyrstu kristnu vissu hvað píslarvætti merkti. Þetta var fæðingardagur, ekki dagur dauðans. Maður fæðist til hins sanna lífs heima hjá Drottni. Þegar frumkirkjan stóð frammi fyrir því að velja dag til minningar um Stefán, þá valdi hún daginn sem næstur er fæðingardegi Jesú. Fyrsti píslarvotturinn hlaut heiðurssæti í kirkjuárinu. Næsta sæti hlaut Jóhannes, lærisveinninn sem Jesús elskaði, en messudagur hans er á morgun, 27. desember. Og næsta dag þar á eftir (28. des) er minnst barnanna í Betlehem, hverra lífi brjálaður maður lét taka vegna óttans sem hann bar vegna jólabarnsins, hins nýja konungs. Þá er Abels einnig minnst þann dag, hins fyrsta réttláta manns sem líflátinn var á jörðu. Og 29. desember er haldinn hjá sumum kirkjum í minningu um Thomas Becket, biskup og píslarvott. Og ekki er svo ýkja langt síðan Romero erkibiskup í San Salvador í Mið-Ameríku var skotinn til bana við altarið í messu 24. mars 1980. Romero sagði m.a.:

„Ég trúi ekki á dauða án upprisu. Ef þeir drepa mig þá mun ég rísa upp í þjóð minni.“

Sjá umfjöllun um Romero má skoða hér.

Fyrstu lærisveinarnir vissu af eigin reynslu að það gat kostað bæði ófrið, þjáningar og dauða að trúa á Krist. Vissulega er hann Friðarhöfðinginn. Oft höfðu þeir heyrt orðin: Farið í friði. Minn frið gef ég yður, hafði hann sagt við þá ellefu. En hann hafði líka bætt við: Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Heimurinn lítur á frið sem fjarveru áreitis, það að vera látinn í friði og vera laus við óþægindi. Kristinn friður merkir öðrum þræði samviskufriður, friður við Guð, að lifa í friði við náungann með því að lifa í fyrirgefningu í stað þess að stríða og æsa sig. En að hafa frið við Guð merkir að vera í ófriði við öll öfl sem stríða gegn Guði og hans góða vilja.

Jesús fæddist í þennan heim til að færa okkur aftur til Guðs. Í því felst barátta upp á líf og dauða við þau öfl sem leitast við að halda okkur frá Guði. Þau öfl geta haft ógnartak á lífi fólks. Og þessi öfl æsast þegar Guð nálgast. Og það var einmitt þetta sem gerðist þegar Jesús fæddist. Það voru ekki bara hirðar og vitringar sem vitjuðu barnsins. Heródes og hans nótar fóru einnig á stjá. Þannig hefur það ávallt verið.

Og nú er barist með meira offorsi gegn kristinni trú í landi okkar en oft áður. Raddir öfgamanna hrópa gegn kirkjunni og traðka niður í svaðið það sem í augum flestra er heilagt. Þeir hrópa og boða nýja hugsun, ný viðmið, trú á manninn sem uppsprettu og miðju alls, allra siðferðisgilda. Þeir boða nýja tíma og lausn undan hinum gömlu gildum. Mér finnst slíkt tal minna mig óþægilega á tal þeirra sem fyrir hrunið töluðu um ný viðmið, nýja tíma og vildu kasta gömlum gildum á glæ. Látum ekki falsspámenn villa okkur sýn og leiðar okkur í hafvillur heimskunnar. Höldum okkur við Krist sem einn megnar að frelsa þenna heim.
Fagnaðarerindinu er á móti mælt, það dregið niður í svaðið og skrumskælt á allan hátt. Og þannig verður það áfram – allt til þess dags þegar engin andstaða megnar meir – allt til þess dags þegar Konungurinn sest í dýrðarhásæti sitt og sagt verður í hinsta sinn:

Blessaður sé sá sem kemur í Drottins nafni.

- – -

Prédikunartextar annars dags jóla:

Lexía 2.Kron.24.17-21

En eftir andlát Jójada komu höfuðsmenn Júda og lutu konungi, og hlýddi þá konungur á þá.Og þeir yfirgáfu musteri Drottins, Guðs feðra sinna, og þjónuðu asérunum og líkneskjunum. Kom þá reiði yfir Júda og Jerúsalem fyrir þessa sök þeirra.Og hann sendi spámenn meðal þeirra, til þess að snúa þeim aftur til Drottins. Þeir áminntu þá, en þeir gáfu því engan gaum. En andi Guðs hreif Sakaría, son Jójada prests, svo að hann gekk fyrir lýðinn og mælti til þeirra: Svo segir Guð: Hvers vegna rjúfið þér boðorð Drottins og sviptið yður allri hamingju? Sakir þess að þér hafið yfirgefið Drottin, þá yfirgefur hann yður.Þá sórust þeir saman gegn honum og lömdu hann grjóti að boði konungs í forgarði musteris Drottins

Pistill Post.6.8-15 og 7.55-60

Stefán var fullur af náð og krafti og gjörði undur og tákn mikil meðal fólksins.Þá komu til nokkrir menn úr svonefndri Leysingjasamkundu. Þeir voru frá Kýrene og Alexandríu, en aðrir frá Kilikíu og Asíu, og tóku að þrátta við Stefán.En þeir gátu ekki staðið gegn visku þeirri og anda, sem hann talaði af.Þá fengu þeir menn nokkra til að segja: Vér höfum heyrt hann tala lastmæli gegn Móse og Guði.Þeir æstu upp fólkið, öldungana og fræðimennina, og þeir veittust að honum, gripu hann og færðu hann fyrir ráðið.Þá leiddu þeir fram ljúgvotta, er sögðu: Þessi maður er alltaf að tala gegn þessum heilaga stað og lögmálinu.Vér höfum heyrt hann segja, að þessi Jesús frá Nasaret muni brjóta niður musterið og breyta þeim siðum, sem Móse hefur sett oss.Allir sem í ráðinu sátu, störðu á hann og sáu, að ásjóna hans var sem engils ásjóna.

En hann horfði til himins, fullur af heilögum anda og leit dýrð Guðs og Jesú standa til hægri handar Guði og sagði: Ég sé himnana opna og Mannssoninn standa til hægri handar Guði.

Þá æptu þeir hástöfum, héldu fyrir eyrun og réðust að honum, allir sem einn maður.Þeir hröktu hann út úr borginni og tóku að grýta hann. En vottarnir lögðu yfirhafnir sínar að fótum ungum manni, er Sál hét.Þannig grýttu þeir Stefán. En hann ákallaði Drottin og sagði: Drottinn Jesús, meðtak þú anda minn.Síðan féll hann á kné og hrópaði hárri röddu: Drottinn, lát þá ekki gjalda þessarar syndar. Þegar hann hafði þetta mælt, sofnaði hann.

Guðspjall Mt.23.34-39

Þess vegna sendi ég til yðar spámenn, spekinga og fræðimenn. Suma þeirra munuð þér lífláta og krossfesta, aðra húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja borg úr borg.Þannig kemur yfir yður allt saklaust blóð, sem úthellt hefur verið á jörðinni, frá blóði Abels hins réttláta til blóðs Sakaría Barakíasonar, sem þér drápuð milli musterisins og altarisins.Sannlega segi ég yður: Allt mun þetta koma yfir þessa kynslóð.

Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi. Hús yðar verður í eyði látið. Ég segi yður: Héðan af munuð þér eigi sjá mig, fyrr en þér segið: Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins.

url: http://ornbardur.annall.is/2012-12-26/andstada-vid-kristni-og-pislarvaetti/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli