örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Hver ert þú? · Heim · Andstaða við kristni og píslarvætti »

Að vera rétt manneskja á réttum stað og tíma

Örn Bárður @ 19.53 24/12/12

jolastarnanPrédikun við aftansöng
í Neskirkju
aðfangadag jóla 2012
Að vera rétt manneskja
á réttum stað og tíma

Ræðuna er hægt að lesa og hlusta á
hér fyrir neðan. Til að hlusta þarftu
að smella á þríhyrninginn.


Gleðileg jól!

Við eigum margt sameiginlegt, m.a. þá reynslu að hafa upplifað það einhverntímann og vonandi oft að vera rétt manneskja á rétum stað og tíma. Og nú er einmitt slíkur viðburður að gerast, þegar þú ert rétt manneskja á réttum stað og tíma. Hér er undur að gerast, hápunktur ævintýris sem jólaundirbúningurinn er í lífi okkar Íslendinga. Annríkið er að baki að mestu leyti og við tekur að njóta þess sem allt tilstandið stefndi að. Við erum lánsöm þjóð að eiga ríka jólahefð og fagra, hefð sem kallar alla til að leggja sitt af mörkum í þágu kærleikans og með það að markmiði að gleðja aðra. Og nú ríkir vonandi gleði í hjörtum okkar allra. Kannski eru ekki allir glaðir einmitt nú vegna einhverra vonbrigða eða árekstra í öllum asanum, eða vegna alvarlegri atburða s.s. ástvinamissis eða sárs aðskilnaðar, en skuggarnir munu hverfa og birtan ná að lýsa allt upp. Þannig er lífið. Það birtir alltaf upp um síður. Jólin eru tákn þess að ljósið kemur og því hafa þau fylgt mannkyni í einni eða annarri mynd um aldir og innan ólíkra trúarbragða og hefða. Við erum börn þessa heims og gangur himintungla hefur markað hátíðir mannkyns um aldir og árþúsund.

Við komum hér saman til að fagna Kristi sem er tákn og inntak hinna kristnu jóla, barnið sem fæddist og var lagt í jötu. Söguna þekkjum við úr riti Lúkasar guðspjallamanns. Jóhannes postuli tjáir þetta undur með öðrum hætti. Hann setur það ekki fram í hefðbundinni frásögn heldur með guðfræðilegri yfirlýsingu:

„Og Orðið varð hold, hann bjó með oss . . . “ (Jóh 1.14).

Í raun sagði Jóhannes: Hann tjaldaði hjá okkur. Guð er kominn í þennan heim og hann er á tjaldstæðinu okkar.

Holdtekja Guðs er leyndardómur sem guðfræðingar og heimspekingar hafa brotið heilann um öldum saman. Hvernig gat skaparinn sjálfur orði að skapaðri veru? Hvernig gat takmarkalaus, óendanlegur, eilífur og ódauðlegur Guð orðið að takmarkaðri, dauðlegri, skilgreindri veru á þann sama átt og við mennirnir erum takmarkaðir, endanlegir og dauðlegir? Hvernig gat hinn almáttugi sem skapaði hæstu fjöll og dýpstu ála, sólkerfi og súpernóvur, orðið að barni, bjargarlausu barni? Hvernig gat hann, sem er réttsýnin sjálf, orðið barn sem þurfti að láta foreldra aga sig og kenna rétta hegðun? Hvernig gat alvitur skapari upplifað venjulegan ótta og fáfræði bernskunnar eða tilfinningalega og líkamlega togstreitu táningsins eða fát og kvíða fullorðinna?

Hugmyndin um Guð á jörðu er einum hrösunarhella og öðrum hneyksli. Besta svarið sem kristinn maður getur gefið er að segja: Þetta er leyndardómur. Og þessi leyndardómur birtist okkur ekki bara sem guðfræðilegar kenningar heldur fyrst og síðast sem einföld og hugljúf saga sem sögð er ár eftir ár, sögð og sungin, leikin og lærð, þetta einstaka kvöld á hverju ári.

Auðvitað fór Guð þannig að. Hann vildi eiga eitthvað sameiginlegt með öllum mönnum. Hann valdi að koma sem barn, fætt af móður, alið upp af foreldrum innan um önnur börn og annað fólk.

Við eigum margt sameiginlegt og sérstaklega það að hafa fæðst í þennan heim og verið lögð að brjósti elskandi móður. Guð varð eins og við og þess vegna eigum við svo auðvelt með að tengja við Guð í Jesú Kristi.

Nær allur heimurinn þekkir þessa sögu, svo heillandi er hún. Kristur á fleiri fylgjendur en nokkur önnur trúarbrögð í heiminum. Yfir 2 milljarðar játa kristna trú. Við trúum því að fæðing Jesú hafi skipt sköpum fyrir þennan heim. Við trúum því að almáttugur Guð hafi orðið maður – en mjög sérstakur maður – fátækur, heimilislaus um tíma, og á flótta undan ofbeldisfullum valdsmönnum. Atburðinn, sem við teljum marka vatnaskil í sögu veraldar, upplifðu þó aðeins örfáar manneskjur, foreldrar barnsins og nokkrir fátækir fjárhirðar. Enginn annar varð vitni að eða tók eftir þessu undri.

Í þessari kunnuglegu sögu er Guð ekki ólýsanlega stórfenglegur, ónálganleg ofurbirta í órafjarlægð, ekki ónálganleg, fjarlæg alviska, heldur einn af okkur, sem bjargarlaust barn, sem varð algjörlega að treysta á fákunnandi foreldra eins og öll önnur börn þessa heims.

Guð er með okkur. Hann þekkir þennan heim og það að lifa sem manneskja í grimmum heimi. Guð er með þeim sem skortir allt, eru svangir, húsnæðislausir, án atvinnu, einmana, þjáðir af fíkn, veikir og deyjandi. Guð hefur ekki gleymt flóttamönnum, ofsóttum og þeim sem ekki njóta skilnings. Guð er með þeim og okkur. Guð er með þeim sem búa í stríðshrjáðum löndum eins og t.a.m. í Sýrlandi þar sem Kýreneus var landstjóri forðum daga, í löndum þar sem fólk er haldið í fjötrum ranghugmynda og skakkrar hugmyndafræði eins og í N-Kóreu og hann er með fólkinu í Betlehem sem býr að baki nýreistum múrum sem gera borgina að einu stóru fangelsi. Guð er með fanganum sem flúði og gaf sig fram vegna elsku til fjölskyldu sinnar og vegna jólanna! Tökum eftir því! Guð blessi hann og alla fanga og fjölskyldur þeirra.

Guð er með okkur þegar hriktir í hjónabandinu, þegar börnin okkar lenda í vandræðum. Guð er með okkur þegar heilsan bilar, þegar aldur og elli draga úr okkur þrótt og hamla getu. Guð er með okkur.

Jólasagan verður sögð þangað til veröldin þarfnast hennar ekki lengur og Guðs ríkið verður að altækum veruleika.

Börn hafa hlutina gjarnan á hreinu.

Börnin í Melaskóla voru með það á hreinu hver boðskapur jólanna er. Þau sýndu helgileik hér í Neskirkju fjórum sinnum á aðventunni. Hátt í þúsund manns sáu þessar sýningar, börn og fullorðnir.

Helgileiknum lauk með því að staðhæft var að Jesús væri stærsta gjöf Guðs til okkar og að við gætum gefið Guði gjöf til baka, gefið honum líf okkar. Börnin eru með þetta allt á hreinu. Já, við getum gefið Guði og þar með þessum heimi, gáfur okkar og krafta. Heimurinn þarfnast góðra handa og heillar hugsunar sem tekst á við lífið, eflir hið góða en heldur hinu illa í skefjum. Og í þeim efnum geta allir lagt hönd á plóg, allt góðviljað fólk, efahyggjumenn og trúleysingjar, auk fólks af öðrum trúarbrögðum, allir sem fylgja grunngildum lífsins, meðvitað eða ómeðvitað.

Guð hefur kallað alla menn, konur og karla, stúlkur og drengi, unga og gamla, til að vinna að þessu mikilvæga verki. Hann valdi forðum daga fátækt og einlægt fólk. Í einni af hinum mörgu skemmtilegu sögum af himnum segir af Jesú þegar hann kom frá jörðu og var spurður af herskara engla:

-Jesús, hverjum fólst þú að ljúka þínu verki á jörðu?

Hann svaraði:
-Aðeins örfáum körlum og konum sem elska mig.

-Er það allt og sumt? spurðu englarnir forviða og bættu svo við: -En hvað ef þeim mistekst verkið?

Jesús svaraði:
- Ég hef engin önnur plön.

Jesús vissi hvað hann söng og hans einfalda áætlun gekk upp.

Og nú syngjum við honum lof, sem í senn var Guð á himnum og barn í jötu, honum sem lifir og ríkir, sem elskar þennan heim og dó fyrir hann, reis upp á páskum og kallar okkur til fylgdar við sig í sigurför ljóssins í dimmum heimi undir sigurmerki krossins.

Í kvöld ert þú rétt manneskja á réttum stað og tíma og jólabarnið á erindi við þig, barnið sem talaði sem fullorðinn maður og sagði:

„Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.“ (Jóh 8.12)

Og taktu nú vel eftir, því hann hafði meira að segja um þetta ljós og um þig og mig:

„Þér eruð ljós heimsins. [. . . ] Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.“ (Matt 5.14 og 16)

Jólin eru vissulega ævintýri líkust en þau eru ekki ævintýri, þau eru miklu betri en fegursta og besta ævintýri. Ævintýri hefjast jafnan á orðunum: Einu sinni var. Jólasagan hefst ekki þannig, hún byggir á sögu í tíma og rúmi sem gerðist á tíma og stað. „En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara . . . “
Kristur var í tíma. Kristur er og var og kemur. Hann er hér í kvöld í orði sínu og anda. Taktu á móti honum, bjóddu honum að búa í hjarta þínu og eigðu þannig jól allt árið í brjóstkirkju þinni.

Gleðileg jól. Til hamingju með lífið og trúna, tímann og eilífðina, sem Guð geymir og varðveitir í sinni almáttugu hendi.

Þú ert rétt manneskja á réttum stað og tíma – þú ert í hendi Guðs nú og að eilífu.

Gleðileg jól! Gleðleg jól í Jesú nafni. Amen.

Dýrð sé Guði . . .

url: http://ornbardur.annall.is/2012-12-24/ad-vera-rett-manneskja-a-rettum-stad-og-tima/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli