örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Hjartalag Íslendinga · Heim · Rætur Angelu Merkel kanslara »

Hvar liggur valdið?

Örn Bárður @ 16.35 29/10/12

korona valdHvar liggur valdið?
Prédikun í Neskirkju
sunnudaginn 28. október 2012
eða 21. sd. e. þrenningarhátíð.
Textaröð A.

Ræðuna er hægt að lesa
og hlusta á her fyrir neðan.
Nokkur innskot urðu til í flutningi
sem ekki eru í textanum.

Hver ræður? Hvar liggur valdið? Þessar spurningar er áleitnar í umræðu daganna. Það er tekist á um vald.

Textar dagsins fjalla allir þrír með einum eða öðrum hætti um vald, um vald Guðs og áhrif hins illa. Í pistli dagsins segir:

Ef 6.10-17
Að lokum: Styrkist í Drottni og krafti máttar hans. Klæðist alvæpni Guðs til þess að þið getið staðist vélabrögð djöfulsins. Því að baráttan sem við eigum í er ekki við menn af holdi og blóði heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.

Þetta er fyrri hluti pistilsins og í honum talar Páll postuli eins og hann sé að auglýsa nýjan og spennandi tölvuleik. Menn á hans tíð höfðu sterkar skoðanir um að tilveran væri vígvöllur góðs og ills. Baráttan var hörð og hún var á hinu andlega sviði. En hún var ekki bara leikur og er ekki heldur í dag leikur á skjáborði.

Á ritunartíma NT höfðu menn einskonar hamborgara-sýn á veruleikann. Heimurinn var þrískiptur. Efst var himinninn og neðst skuggatilveran eða ríki dauða og myrkurs og loks jarðlífið þar á milli eins og kjötið í hamborgaranum. Nú vitum við að þetta er ekki svo en líkingamálið lifir samt góðu lífi um himinn og hel og jarðlífið þar á milli. Himinninn er ekki þarna uppi en hann er til. Hel er ekki í djúpum jarðar en hel er til. Um jarðlífið þurfum við ekki að efast.

En hvaðan kemur hið illa?

Í ritningum allra trúarbragða er að finna umfjöllun um hið illa og ill öfl. Innan sumra trúarbragða er litið á hið illa sem raunverulegt frumafl og keppinaut Guðs. Þetta er kallað dúalismi eða tvíhyggja góðs og ills.

Í öðrum textum er talað um hið illa sem birtingarmynd fáfræði og að hið illa sé þ.a.l. ekki raunverulegt þegar öllu er á botninn hvolft. Þetta er kallað einhyggja mónismi. Þar er því haldið fram að hið illa eigi sér höfðingja sem ber ýmis nöfn: Satan, Beelzebul, Lúsifer, Iblis, Mara, Gngra Mainyu og fleiri.

Kristin guðfræði hafnar tvíhyggju þar sem Guð og hið illa eru sögð veru tvö frumöfl. Kristin trú gengur út frá því að veröldin sé góð í grunninn, af hendi Guðs. Sköpunin er harla góð, sagði Guð í árdaga, hún er frábær.

En hið illa er til og finnst í ýmsum myndum. Hin illu öfl eru víða að verki í tilverunni og tæla hjörtu manna til illrar breytni og oft til hreinna illvirkja. Margir rökhyggjumenn eiga erfitt með að viðurkenna tilvist hins illa en örstutt yfirlit yfir sögu 20. aldarinnar sýnir okkur svo ekki verður um villst að hið illa var þar svo sannarlega að verki. Svo ljót voru illvirki nasista og kommúnista, hin mannmiðlægu hugmyndakerfi sem gerðu manninn að guði, að það nær engu tali, tekur út yfir allan þjófabálk og mannlega skynsemi yfirhöfuð.

En er hið illa einungis skortur á skynsemi?

Sum trúarbrögð leggja áherslu á mátt hins illa, önnur á fjandskap og önnur á rangar hugmyndir og kenningar hins illa. Sum tengja hann dauða og sjúkdómum, önnur girndum og sjálfhverfum löngunum.

Hvað sem líður skilgreiningum á hinu illa þá vitum við að það er staðreynd og við horfum upp á það daglega. Hin illu öfl ólmast í þjóðfélaginu. Það er barist um framtíð Íslands. Á hinu pólitíska sviði á sér stað hatrömm barátta um hagsmuni, annars vegar um hag heildarinnar og hins vegar um hag hinna fáu sem njóta forréttinda.

Biblían varar okkur við freistingum og segir að þegar einhver þráir að gera eitthvað rangt eða illt í litlum mæli, hafi djöfullinn náð taki á viðkomandi og geti fengið hann til að gera eitthvað enn verra. Þekkt er að margir verða fyrir freistingum hins illa einmitt þegar þeir eru að ná árangri á sinni góðu vegferð. Við sjáum reglulega fréttir í fjölmiðlum um fólk sem nýtur velgengni en hefur svo orðið fyrir því að allt hrundi eins og hendi væri veifað og það oftar en ekki vegna einhverrar hrösunar.

Hið illa er víða að verki. Látum skilgreiningar á hinu illa eða hinum illa liggja á milli hluta en skoðum með hvaða hætti við getum varist þessu afli sem teygir anga sína út um allt.

Heyrum nú framhald pistils dagsins:

Takið því alvæpni Guðs til þess að þið getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli þegar þið hafið sigrað allt.
 Standið því gyrt sannleika um lendar ykkar og klædd réttlætinu sem brynju og skóuð á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðin um frið. Takið umfram allt skjöld trúarinnar sem þið getið slökkt með öll logandi skeyti hins vonda. Setjið upp hjálm hjálpræðisins og grípið sverð andans, Guðs orð.

Verið gyrt sannleika. Haldið ykkur við það sem er satt og rétt.

Klæðist réttlætinu. Réttlætið er rödd hins góða og rétta í brjóti þér sem slær í takt við þau sem þrá hamingju öllum til handa.

Verum skóuð fúsleik til að flytja frið. Leitumst við að halda frið.

„Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi“

sagði Pál við trúsystkin sín í Rómaborg forðum daga.

Takið skjöld trúarinnar. Trúin veitir vörn fyrir skeytum hins illa. Trúin á Guð gefur okkur vernd og kraft til að berjast gegn hinu illa og verjast árásum þess.

Svo eigum við eins og allir góðir hjólreiðamenn að setja upp hjálm og í trúarlegu tilliti er það hjálmur hjálpræðisins sem ver hugsanir okkar og heila. Beinum huga okkar að fyrirheitum trúarinnar og til eilífðarinnar. Það ver okkur fyrir tælandi áhrifum hins illa.

Loks er það sverðið, sverð andans, sem er Guðs orð. Við getum ekki lifað kristnu trúarlífi án þess að heyra Guðs orð. Þess vegna starfar kirkjan og stuðlar þannig að því að við getum þjálfað okkur til að vinna í þágu hins góða og gegn hinu illa. Jesús notaði Orðið gegn freistaranum í óbyggðum. Hann vitnaði í orð Guðs og svaraði þannig djöflinum sem reyndar vitnaði líka í Guðs orð. Staðgóð þekking á Guð orði og kenningum kristninnar leggur grundvöll að góðu lífi og færir okkur rök í baráttunni gegn hinu illa.

Þegar við minnumst siðbótardagsins 31. október skulum við hugsa um ávöxt þeirra breytinga sem urðu í Evrópu og hinum vestræna heimi við það að orð Guðs varð aðgengilegt almenningi. Við þurfum að efla þátt hins heilaga orðs í lífi þjóðar okkar. Það gerum við með því að lesa það sjálf, tala um það og breiða það út, öðrum til blessunar, okkur til góðs og Guði til dýrðar.

Baráttan sem við eigum í er ekki við menn af holdi og blóði heldur við andleg öfl, ill öfl sem geta starfað í mönnum og fengið þá til illrar breytni og andófs við hið góða, rétta og fagra.

Sagt hefur verið að allt sem þarf til að hið illa sigri er að góðir menn hafist ekkert að.

Við erum kölluð til þátttöku í baráttu fyrir hinu góða í heiminum og þar með gegn hinu illa.

Þú getur lagt lóð á vogarskál hins góða, með bænum þínum, með góðri breytni, með góðverkum og góðvild og með því að stuðla að réttlátu samfélagi í víðum skilningi.

Hefurðu leitt hugann að því hversu mörg nöfn Íslendinga eru tengd baráttu, hetjudýrkun, eðlisháttum dýra og verndarhugsun?

Eitt sinn skírði ég dreng sem hlaut nafnið Úlfur. Ég sá að sumum varð brugðið í kirkjunni við að heyra nafnið í fyrsta sinn. Úlfur! Ég brá á það ráð undir lok athafnarinnar að taka Úlf í fangið, lyfta honum upp og sýna hann söfnuðinum. Ég rædd nafnið og eiginleika úlfsins sem lifir í hörðum heimi og kemst af vegna visku sinnar og eðlisávísunar. Svo bætti ég við: Hér eru tveir menn sem bera nafn rándýra: Barnið Úlfur og presturinn Örn! Ég fann að fólkið róaðist við að heyra þetta!

Látum það sem hingað til hefur verið sagt um hið illa nægja og snúum okkur að honum sem hefur ALLT vald.
Í lexíu dagsins segir:

Hinir endurkeyptu Drottins snúa aftur
og koma fagnandi til Síonar.
Eilíf gleði fer fyrir þeim,
fögnuður og gleði fylgir þeim,
en sorg og sút leggja á flótta.
Ég hugga yður, ég sjálfur.
Hver ert þú þá sem óttast dauðlega menn
og mannanna börn sem falla sem grasið
en gleymir Drottni, skapara þínum,
sem þandi út himininn og lagði grunn að jörðinni?
Þú óttast heift kúgarans sérhvern dag,
að hann ákveði að eyða þér.
En hvar er þá heift kúgarans?
Brátt verður bandinginn leystur,
hann mun ekki deyja í dýflissu
og ekki skorta brauð.
Ég er Drottinn, Guð þinn,
sá sem æsir hafið svo að brimið gnýr.
Drottinn allsherjar er nafn hans.
Ég lagði þér orð mín í munn,
skýldi þér í skugga handar minnar,
þegar ég þandi út himininn,
grundvallaði jörðina
og sagði við Síon: Þú ert lýður minn.

Hér talar hinn alvaldi Guð, hann sem öllu ræður og allt hefur skapað. Og það er hann sem starfaði í Jesú. Konungsmaðurinn sem kom til Jesú hafði vald en hann réð ekki yfir öllu enda sagði hann í angist sinn:

„Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.“ 


Og þá svaraði hann sem allt vald er gefið á himni og jörðu:

„Far þú, sonur þinn lifir.“

Og valdamaðurinn fór og hann hlýddi og honum varð af trú sinni.

Hið illa æðir og hræðir en við höfum ekkert að óttast því hann sem öllu ræður er með okkur í baráttunni. Hans málstaður mun sigra. Verum á bandi hans, með alvæpni trúar, vonar og kærleika og við munum sigra. Við eigum fyrirheit þar um. Æðrumst eigi, verum hugrökk. Guðs ríki kemur. Tökum á móti því í hug og hjarta og leyfum því að vaxa og dafna í lífi okkar.

Konungsmaðurinn fór heim í trausti til orða Jesú. Hann trúði orðum hans og honum varð af trú sinni eða eins og segir í guðspjallinu:

„Og hann tók trú og allt hans heimafólk.“

Lífið breyttist til hins betra fyrir mátt orða Jesú.

Með hvaða hætti talar Jesús til þín í dag? Taktu orð hans með þér heim og leyfðu því að vinna sitt verk í hjarta þínu. Hann sigrar allt sem vinnur gegn Guðs góða vilja með orði sínu og kærleika.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

url: http://ornbardur.annall.is/2012-10-29/hvar-liggur-valdid/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli