örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Verður þjóðkirkjan inni eða úti í nýrri stjórnarskrá? · Heim · Hvar liggur valdið? »

Hjartalag Íslendinga

Örn Bárður @ 11.37 21/10/12

jaedaneiHjartalag Íslendinga

Greinarstúfur
að morgni nýs dags
eftir að niðurstaða
í þjóðaratkvæðagreiðslu
liggur fyrir í megindráttum.
Fyrstu viðbrögð.


Dagurinn í gær, 20. október, er orðinn sögulegur dagur. Íslenska þjóðin hefur sagt álit sitt á grundvallarlögum fyrir land og þjóð og þar sem sýnt hvað í henni býr. Niðurstöðurnar leyfi ég mér að túlka sem greiningu á góðu hjartalagi Íslendinga. Ég hef stundum efast um að þjóðin gæti sýnt viðlíka samstöðu en hún gerði það svo sannarlega í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin hefur hér með tjáð sig um grunngildi, um afstöðuna til gerðar þjóðfélagsins, sameignar og skiptingu gæða, um mannréttindi, réttlæti og sannleika.

66,4% eða 2/3 Íslendinga vilja að frumvarp stjórnlagaráðs veðri lagt til grundvallar að nýrri stjórnarskrá. Það er fagnaðarefni fyrir hinn stóra hóp sem kom að þessari vinnu, ég nefni þjóðfundinn, störf stjórnarskrárnefndar og loks stjórnlagaráðs sem kallaði þjóðina til samtals í sinni vinnu. Svon nefnd „crowd-source“ aðferð eða tenging við almenning hefur vakið athygli fólks víða um heim og virtir sérfræðingar á sviði stjórnarskrárfræða segja frumvarpið afar vel heppnað og róma aðkomu almennings að gerð þess.

Ein mikilvægasta spurningin í kosningunni var um náttúruauðlindir. 81.3% vilja að þær sem ekki eru í einkaeigu verði lýstar þjóðareign. Vilji almennings í þessu máli er skýr og það verður að teljast til tíðinda eftir allar þær deilur sem staðið hafa um kvótakerfið svo dæmi sé tekið. Nú liggur þjóðarviljinn fyrir bæði hvað varðar fiskveiðar, nýtingu vatnsfalla og annarra auðlinda í eigu þjóðarinnar.

Þá vilja 75.7% aukið persónukjör við Alþingiskosningar. Fólk vill fá að ráða meiru um þau sem valin verða til ábyrgðarstarfa. Flokkarnir hafa hingað til stillt upp listum og valið á þá með ýmsu móti. Með auknu persónukjöri munu draga úr vægi „pakkatilboða“ flokkanna og samestning á Alþingi taka meira mið af vilja fólksins í landinu.

Þá hlýtur að að vera fagnaðarefni fyrir þjóðkirkjuna að meiri hluti kjósenda eða 57% vilji að ákvæði um þjóðkirkju verði í stjórnarskrá. Það verður að teljast varnarsigur fyrir kirkjuna sem sætt hefur mikilli gagnrýni á liðnum árum og óvæginni aðför á köflum. Fjölmiðlar margir hverjir hafa t.a.m. fátt um kirkjuna að segja í sinni umfjöllun og þátt hennar í þjóðfélaginu nema þegar þeir eygja færi til að koma höggi á hana. Ég hef lengi verið talsmaður þess að kirkjan eigi að vera frjáls og öflug í og af sjálfri sér. Hún getur verið það að mínu áliti hvort sem hennar er getið í stjórnarskrá eða ekki. Nú liggur vilji þjóðarinnar fyrir og það hlýtur að styrkja stöðu kirkjunnar. Kirkjan gegnir mikilvægu hlutverki í lífi fólks á tímamótum mannsævinnar. Ég þekki það sem önnum kafinn prestur að sérhver þjóð verður að eiga sér einn megin sið því mannlífið lýtur lögmálum hefða og siða í meiri mæli en margan grunar við fyrstu sýn. Maðurinn lifir ekki sæll án ritúals sem heldur utan um hann frá vöggu til grafar. Kirkjan skapar þennan ramma um mannlífið og hefur gert það vel og fagmannlega um aldir. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

url: http://ornbardur.annall.is/2012-10-21/hjartalag-islendinga/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli