örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Rúnar Geir Steindórsson 1925-2012 · Heim · Arnfríður Ingvarsdóttir 1938-2012 »

Þjóð á tímamótum! Prédikun á Rás 1 14. okt. 2012

Örn Bárður @ 12.50 14/10/12

KrossgöturÞjóð á tímamótum!
Prédikun í Neskirkju
sunnudaginn 14. október 2012
sem er 19. sd. e. trin,
útvarpað á Rás 1.

Textaröð A:
Esk 18.39-32 Snúið við
Ef 4.22-32 Leggið af lygina
Matt 9.1-8 Statt upp!
Sjá nánar neðanmáls.

Ræðuna er hægt að lesa og hlusta á hér fyrir neðan.

Inngangur

Við lifum spennandi tíma! Það er spenna í loftinu og spennu fylgir eftirvænting eins og þegar framherji nær boltanum í landsleik og kemst í gegnum allar varnir og upp að markmanninum og spyrnir knettinum af öryggi framhjá honum í netið.

Við lifum spennandi tíma!

Nú er nýhafið árið 5 eftir Hrun. Við getum annarsvegar litið á Hrunið sem slys og ófögnuð en á hinn bóginn sem nýtt tækifæri, áminningu og ráðningu, hvatningu og ákall um nýsköpun og bjartari framtíð.

Textar og stjórnarskrár

Íhugunartextar kirkjunnar í dag fjalla allir um umskipti, um að ganga í sig og taka boði um breytingar, um að standa upp og taka áskorun um nýja framtíð.

Textar kirkjunnar fyrir hvern sunnudag eru þrír. Fyrst er það lexían úr GT svo pistill eða orð postulans úr NT og loks guðspjallið, orð Jesú. Lexían í dag kemur úr spádómsbók Esekíels sem var uppi á 6. öld f. Krist.

Honum „var falið að boða vilja Drottins, jafnvel fyrir daufum eyrum. (2.5) Höfuðsyndin sem hann prédikaði gegn var guðleysi og afleiðing þess, þjóðfélagslegt ranglæti. [. . . ] Boð og bönn sáttmálans skilja líf frá dauða. Leiðin til lífs er leið laganna, hvort heldur er fyrir þjóðina (37. kafli) eða einstaklinginn (18. kafli).“

Svo segir í formála að ritinu í nýjustu þýðingu Biblíunnar. Hér er vísað til sáttmála, til laganna. Vísað er til Sínaí-sáttmálans. Við þekkjum öll söguna um flótta Ísraelsmanna úr Egyptalandi forðum undir forystu Móse um 1600 f. Kr. eða fyrir 3600 árum. Þjóðin yfirgaf þrælahúsið og hélt á vit hins fyrirheitna lands, draumalandsins. Sá atburður er nefndur Exódus sem merkir burtför eða útganga. Exódus-ritið er um fólk á ferð í leit að draumalandinu. Fólk á ferð þarfnast samnefnara. Allar þjóðir þurfa eitthvað sem heldur fólki saman, bindingu sem tryggir að innviðir samfélagsins falli ekki saman. Guð gaf þjóð sinni slíkt bindingsverk, sáttmála í gegnum Móse með Boðorðin 10 að kjarna. Ísraelsmenn höfðu eignast stjórnarskrá.

Nær okkur í tíma eru hinir evrópsku landnemar í Ameríku í kjölfar landafunda Kólumbusar. Það leið ekki á löngu uns sú þjóð sem þar var að fæðast úr mörgum þjóðarbrotum setti sér lög og reglur, fyrst sjálfstæðisyfirlýsingu 4. júlí 1776 og loks stjórnarskrá 17. september 1787 sem verið hefur fyrirmynd fjölda stjórnarskráa margra landa allt til okkar daga og tók 116 daga að semja. Stjórnlagaráð skilaði sínu frumvarpi eftir að hafa unnið einum degi skemur eða í 115 daga á liðnu ári.

Fólkið sem flúði Evrópu forðum vildi m.a. losna úr fjötrum óréttláts stjórnarfars, læðingi ójöfnuðar hins rangláta þjóðfélagsskipulags og dróma þröngsýnnar kirkju. Þetta var fólk á ferð, Exódus-ferð eins og forðum daga á Sínaískaga.

Sagan er sífellt að endurtaka sig.

Og nú erum við, Íslendingar, þjóð á ferð í gegnum lífið. Okkar Exódus stendur yfir. Við fengum danska stjórnarskrá 1874 sem breytt var 70 árum síðar, árið 1944. Árið 2014 verða liðin önnur 70 ár. Allt stefnir vonandi í að ný stjórnarskrá taki gildi það ár. Getur verið að við þurfum ný grundvallarlög á 70 ára fresti eða sem nemur á hverjum nýjum mannsaldri? Ef til vill er einhver slík tímasveifla í tilveru okkar þjóðar?

Það er tekist á um hagsmuni í íslensku samfélagi og hagsmunabaráttan er hörð. Öflin sem vilja ekki láta af sérhagsmunum sínum eru ákveðin og hörð í horn að taka og málflutningur þeirra er ófyrirleitinn á köflum og tekur stundum út yfir allan þjófabálk.

Afglöp, óréttur og reiði

Um þessar mundir höfum við áhyggjur af þróun mála hér á landi og ekki síst af vaxandi tíðni alvarlegra glæpa. Glæpaflokkar hafa hreiðrað um sig og því þarf að búa betur að lögreglu landsins og styðja við þau sem sinna erfiðum störfum við löggæslu og á lágum launum. Vissulega er ástæða til að hafa áhyggjur af bófalokkum sem hér skjóta rótum. Þá þarf að uppræta. Sagt er að hópur kenndur við Outlaws sé bófaflokkur en ég velti því fyrir mér – og spyr – hvort ekki sé líka til bófaflokkurinn Inlaws eða Tengdó á íslensku og vísa þar til þeirra sem hygla sínum og berjast fyrir hagsmunum hina fáu á kostnað hinna mörgu. Þeir birtast ekki í riðvöxnum mönnum í leðurjökkum á rymjandi mótorfákum heldur í sparifötum og undir merkjum flokka, bófaflokka, sem eru varðhundar sérhagsmuna fámennra hópa sem arðræna fólkið í landinu.

Við lifum spennandi tíma og þeir eru spennandi vegna þess að spenna ríkir í samfélaginu. Heilbrigð spenna er góð þegar hún skapar jafnvægi kraftanna, jafnvægi milli frelsis og ábyrgðar, jafnvægi milli frelsis og taumhalds, jafnvægi milli elsku og þess að mörk eru sett, jafnvægi milli valdþátta í stjórnsýslu landsins þegar allt er með felldu.

Í textum dagsins ber allt að sama brunni. Spámaðurinn Esekíel boðar mönnum að snúa við frá rangri breytni og fá nýtt hjarta og nýjan anda – og lýkur máli sínum á þessu orðum:

„Snúið við svo að þið lifið.“

Postulinn segir í pistli sínum að við eigum að leggja af lygina og tala sannleikann hvert við náunga sinn. Við höfum allt of lengi lifað í blekkingu sem þjóð. Við höfum látið stjórnmálamenn og valdsherra komast upp með það allt of lengi að ljúga til um svo ótal margt og blekkja okkur.

Postulinn talar mikið um reiði í pistli dagsins og við höfum verið reið þjóð frá Hruni. Reiði er mikilvægur þáttur í sálarlífi manna en

„Ef þið reiðist þá syndgið ekki,“

segir postulinn, m.ö.o. leyfið ykkur að reiðast en látið reiðina ekki hlaupa með ykkur í gönur.

Af hverju erum við reið og ósátt? Það er vegna óréttar og ójöfnuðar og þess blekkingarvefs sem spunnin var um áratuga skeið. Óréttur leiðir nefnilega alltaf af sér ófrið en réttlæti og friður eru og verða ætíð sem ástfangið par sem kyssist eins og segir í GT.

Á Íslandi verður ekki friður nema réttlæti ríki.

Í vinahöndum

Guðspjallið er okkur kunnugt en þar segir af manni sem borinn er af vinum sínum til Jesú. Hann átti góða vini og þeir höfðu trú á lausn og nýrri framtíð. Hann var lamaður og þegar Jesús sá trú vinanna sagði hann við lama manninn:

„Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“

Afturhaldsöflin sem urðu vitni af orðum Jesú risu þá upp og höfðu í frammi athugasemdir við orð meistarans frá Nasaret og sögðu hann guðlasta. Hvað áttu þeir við með því? Jú, þeir töldu hann ganga í berhögg við lögmálið, gömlu lögin, úreltu lögin, Gamla testamentið, gömlu stjórnarskrána. En meistarinn hafði kjark og þor og sýndi hvað í honum bjó. Hann mælti fram skapandi orð og maðurinn varð heill.

Jesús, sem sumir Íslendingar vilja nú ekki lengur kannast við, er merkast persóna mannkynssögunnar m.a. vegna hugrekkis síns og þess hvernig hann ögraði sérhyggju og spilltu valdi. Hann gekk á hólm við allt vald sem vann gegn Guðs góða vilja og það gat ekki endað nema með dauða, eins og sagan sannar. En Jesús, þessi mesti umbótasinni allra tíma, vissi ávallt hvað hann söng. Hann átti sér draum um betri heim og hann vissi hvað fjötraði fólk. Það var syndin eða það sem sundrar hinu góða jafnvægi, spillir hinu rétta, afbakar hið góða, hallar rétti, ver sérhagsmuni og hirðir ekki um hag heildarinnar.

Við erum syndug þjóð.

Við erum lömuð þjóð.

Í slíkum aðstæðum er gott að fá að heyra um hann sem hefur vald til að reisa við hið limlesta og binda um hið meidda, um hann sem segir:

„Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín.“

Og nú hljóma þessi orð enn yfir þér og mér, yfir íslenskri þjóð:

Statt upp, far heim til þín. Rístu upp og snúðu heim, heim til hins rétta og sanna og burt frá því sem bindur og fjötrar og sundrar.

Rísum upp og göngum út, höldum áfram brottförinni úr Egyptalandi, úr þrælahúsinu og á vit draumalandsins.

Draumalandið

I have a dream“ – ég á mér draum, sagði mannréttindafrömuðurinn og nafni siðbótarmannsins, Martin Luther King Jr. í Washington 1963. Ég á mér draum, sagði hann og draumur hans rættist að honum látnum en þó ekki að fullu. Þess vegna mega menn aldrei hætta að láta sig dreyma meðan óréttur ríkir.

Og Bítillinn John Lennon söng um sinn draum og sagði: „Imagine“, ímyndaðu þér, hugsaðu þér.

Þeir voru báðir, King og Lennon, í hlutverki áþekku því sem Móse gegndi og spámenn GT, þeir voru menn sem beindu huganum til draumalandsins. Allir menn sem eiga sér draum, vonir og þrár um betri heim, eru trúmenn á leið til draumalandsins.

Við erum þjóð á ferð, þjóð sem á sér draum um betri tíð, draum um réttlátt og sanngjarnt þjóðfélag.

Lýðræðisvakning hefur orðið að veruleika í landinu. Það ber að þakka. Hún er á sinni Exódus-ferð. Ætlar þú að slást í hópinn eða ætlarðu að sitja eftir og styðja þar með status quo, hið óbreytta, gamla, óréttláta þjóðfélag?

Þú átt valið.

Áttu þér draum um betra og réttlátara þjóðfélag? Viltu búa í sanngjörnu samfélagi? Viltu að allir hafi jafnan rétt? Viltu heyra draum um betra Ísland? Viltu heyra nýjan sáttmála sem kemur í stað hins gamla? Heyrum kjarna hins nýja samfélagssáttmála sem hljóðar svo:

Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.

Þessi texti er aðfaraorð frumvarps til nýrra stjórnskipunarlaga. Hann tjáir inntak frumvarpsins, kjarna þess og anda og í senn bæði staðreyndir og drauma um betra þjóðfélag.

Statt upp og skora!

Það eru spennandi tímar. Ísland er að brjótast út úr viðjum sínum eins og fiðrildið úr púpu. Ekki hefði ég viljað missa af þessum spennandi tímum. Það eru algjör forréttindi að fá að taka þátt í þeim fæðingarhríðum sem staðið hafa yfir s.l. 4 ár. Íslensk þjóð er að vakna. Það er vakning í landinu, réttlætis- og lýðræðisvakning.

Og nú segi ég við þig sem til mín heyrir:

Stattu upp og stattu með réttlæti og sannleika. Vertu með í Exódus-för íslenskrar þjóðar á leið hennar til draumalandsins. Misstu ekki af lestinni, brenndu ekki af sem leikmaður í landsleiknum. Sigraðu heldur með þeim sem vilja lifa og deyja fyrir drauminn um betri tíð og bjartari.

Statt upp, sagði Jesús.

Statt upp og veldu lífið!

Amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

* * *

Textar dagsins:

Textaröð:  A

Lexía:  Esk 18.29-32
En Ísraelsmenn segja: „Drottinn breytir ekki rétt.“ Er það breytni mín sem ekki er rétt, Ísraelsmenn, eruð það ekki öllu fremur þið sem breytið ekki rétt? Því mun ég dæma ykkur, Ísraelsmenn, sérhvern eftir sinni breytni, segir Drottinn Guð. Snúið við, hverfið frá öllum afbrotum ykkar svo að þau verði ykkur ekki að falli. Varpið frá ykkur öllum þeim afbrotum sem þið hafið framið. Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda. Hvers vegna viljið þið deyja, Ísraelsmenn? Því að mér þóknast ekki dauði nokkurs manns, segir Drottinn Guð. Snúið við svo að þið lifið.

Pistill:  Ef 4.22-32
Þið eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni sem er spilltur af tælandi girndum en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt.
Leggið því af lygina og talið sannleika hvert við sinn náunga því að við erum hvert annars limir. Ef þið reiðist þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði ykkar. Gefið djöflinum ekkert færi. Hinn stelvísi hætti að stela en leggi hart að sér og geri það sem gagnlegt er með höndum sínum svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim sem þurfandi er. Látið ekkert fúkyrði líða ykkur af munni heldur það eitt sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gerist, til þess að það verði til góðs þeim sem heyra. Hryggið ekki Guðs heilaga anda sem þið eruð innsigluð með til endurlausnardagsins. Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt ykkur og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið ykkur.

Guðspjall:  Matt 9.1-8
Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“
Nokkrir fræðimenn hugsuðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“
En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þið illt í hjörtum ykkar? Hvort er auðveldara að segja: Syndir þínar eru fyrirgefnar, eða: Statt upp og gakk? En til þess að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir þá segi ég þér,“ -; og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín!“
Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð óttaslegið og lofaði Guð sem gefið hafði mönnum slíkt vald.

url: http://ornbardur.annall.is/2012-10-14/thjod-a-timamotum-predikun-a-ras-1-14-okt-2012/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Elísabet Guðjohnsen @ 14/10/2012 20.03

Takk fyrir þessa predikun séra Örn Bárður. Orð í tíma töluð. Hryggilegt samt að til þess skuli koma, að kirkjunnar menn þurfi úr predikunarstóli að minna ráðamenn þessarar þjóðar á kenningar Biblíunnar. En því miður er svo komið, að það virðist nauðsynlegt. Ræðan er afar góð. Takk.


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli