örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Hildiþór Kr Ólafsson 1927-2012 · Heim · Glóbalvisjón »

Skuggaleg staða

Örn Bárður @ 16.01 19/5/12

skuggar
Málþóf og ómerkilegur málflutningur andstæðinga stjórnarskrárfrumvarpsins gefur til kynna að stjórnmálin á Íslandi eru komin að ystu þolmörkum hjá fleiri og fleiri landsmönnum. Í umræðunni í Silfri Egils fyrir nokkrum vikum fór formaður stærsta stjórnmálaflokksins t.a.m. með hrein ósannindi um hugmyndir stjórnlagaráðs um auðlindir og talaði um meinta eignaupptöku í anda Sovétríkjanna sálugu. Svona málflutningur og lygar í beinni útsendingu fyrir alþjóð eru auðvitað ekki líðandi. Í frumvarpinu er sagt beinum orðum í 34. gr.:

„Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu [leturbr. mín], eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.“

Þar hafa menn það. Vonandi hefur formaðurinn lesið texta frumvarpsins sem þingið hefur haft til meðferðar í marga mánuði.

Þá hafa þingmenn Framsóknar og Sjálfstæðismanna haldið uppi málþófi síðustu dagana og afhjúpað þar fáfræði sína eins og fram kemur í máli varaformanns Sjálfstæðisflokksins og 4. þingmanns Norðurlands vestra úr Framsókn á Alþingi fyrr í dag, 18. maí 2012. Sjá hér.

Lái mér hver sem er, en hegðun flokksforystu Sjálfstæðisflokksins vekur með mér hugrenningatengsl við kvikmyndina Gaukshreiðrið, þar sem hjúkkan á vaktinni var ekki síður sjúk en vistmennirnir. Kannski væri gaukurinn betur viðeigandi í skjaldarmerki flokksins en fálkinn og fífill í merki Framsóknar í stað grænu grasblaðanna? Þá væri hægt að vísa til Gaukshreiðursins og Fíflaflokksins.

Umræðan á Alþingi síðustu misserin og skemmdarfýsnin sem þar hefur verið opinberuð af hörðustu vörslumönnum sérhagsmuna lénsherranna ber vott um dómgreindarleysi og skort á tengslum við fólkið í landinu. Svo er það annað og ekki síður alvarlegt. Auglýsingar útgerðaraðalsins í sjónvarpi þar sem þýfinu, þegnu og/eða keyptu, er beitt gegn eigendum auðlindarinnar, þjóðinni sjálfri, ber vott um sömu firringu. Þá er og nöturlegt að sjá fólk úr röðum verkalýðshreyfingarinnar í hlutverki málpípa kvótagreifanna.

Ég get ekki ímyndað mér að fólk almennt talað sé ánægt með þessi vinnubrögð Alþingis. Hreinsa þarf ærlega til í næstu alþingiskosningum, sópa gólf, tæma og lofta út. Skipta þarf algjörlega um fólkið á vaktinni í þessari fíflabreiðu og gaukshreiðri fáránleikans, sem stjórnmálin eru orðin að.

Svo þarf þjóðaratkvæði um stjórnarskrárfrumvarpið og líka um kvótann. Þjóðin þarf að fá að tala og segja álit sitt. Síðan þurfa nýkjörnir alþingismenn að virða vilja fólksins í landinu og koma á réttlæti.

Lesið að lokum texta spámannsins Hósea sem áminnti Ísrael á 8. öld f. Krist um að lifa réttlátu lífi. Takið sérstaklega eftir samhengi á milli náttúru og mannlífs, réttlætis og afkomu:

Heyrið orð Drottins, þér Ísraelsmenn! Því að Drottinn hefir mál að kæra gegn íbúum landsins, því að í landinu er engin trúfesti, né kærleikur, né þekking á Guði.
Þeir sverja og ljúga, myrða og stela og hafa fram hjá. Þeir brjótast inn í hús, og hvert mannvígið tekur við af öðru.
Fyrir því drúpir landið, og allt visnar sem í því er, jafnvel dýr merkurinnar og fuglar himinsins, og enda fiskarnir í sjónum eru hrifnir burt. (Hósea 4.1-3)

url: http://ornbardur.annall.is/2012-05-19/skuggaleg-stada/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli