örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Svör við spurningum um jafnrétti innan kirkjunnar · Heim · Brjóstkirkjur – grein mín í Frbl. 12. mars 2012 »

Svör við spurningum séra Flóka Kristinssonar sem hann bar fram fyrir hönd presta

Örn Bárður @ 13.44 11/3/12

bagallTillaga að spurningum
til frambjóðenda í kjöri
til embættis biskups Íslands 2012

Hér fyrir neðan eru svör mín
við spurningunum.

Gott var að fara í gegnum þetta
þó seint væri og þakka ég fyrir
að hafa fengið tækifæri til þess
að gera grein fyrir skoðunum mínum.

Tillaga að spurningum til frambjóðenda í kjöri til embættis biskups Íslands 2012

I. Persónulegir hagir

a. Hvaða nám og starfsreynslu hefurðu að baki?

Svar: Vísa til ferilskrár á vefsíðu minni.

b. Hvernig eru fjölskylduhagir þínir?

Svar: Sjá sama.

c. Er eitthvað sem ógnar fjárhag þínum?

Svar: Nei, nema þá íslenskt efnahagsástand og veik króna.

II. Kirkjuskipanin

a. Núgildandi skipan gerir ráð fyrir að Kirkjuþing sé æðsta stofnun kirkjunnar og setji henni starfsreglur en Kirkjuráð fari með framkvæmdavaldið og geri jafnframt tillögur að málum sem lögð eru fyrir Kirkjuþing.
Hver er afstaða þín til þessarar skipunar? Villtu fá henni breytt — og þá hvernig?

Svar: Kirkjuþing á að vera æðsta stofnun kirkjunnar. Huga þarf að því hvort sú kvöð skuli lögð á þau sem veljast í kirkjuráð að þau víki af kirkjuþingi og varamenn komi í þeirra stað. Kirkjuráðsmenn gætu samt setið þingið með málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt. Þetta er hugsað til þess að draga úr þeirri samþjöppun valds sem kann að verða ef kirkjuráðsmenn sitja beggja megin borðs og geti ráðskast með þingið.

b. Kosningar til Kirkjuþings voru áður í tveimur kjördeildum, leikra manna og lærðra sem höfðu jafn marga fulltrúa. Nú eiga leikmenn fleiri fulltrúa á Kirkjuþingi auk þess sem starfsreglur takmarka kjörgengi presta meir en leikmanna til trúnaðarstarfa sem þingið kýs til. Hver er skoðun þín á þessu fyrirkomulagi?

Svar: Í frumvarpi að nýjum þjóðkirkjulögum er sagt að leikmenn skuli vera fleiri en vígðir. Þegar ég segi fólki frá skipulagi kirkjunnar og kem að kirkjuþingi og nefni það að leikmenn séu í meirihluta þá finn ég að það virkar mjög jákvætt. Vígðir þjónar hafa vald í vígslu sinni og menntun. Biskup er í þeirra hópi og vígslubiskupar einnig og skapar það augljóslega mikið vægi í þinginu. Bíðum og sjáum hvernig umræðan um þjóðkirkjulög þróast. Kirkjuþingsmenn eru með þetta mál í sínum höndum og við getum hvert og eitt komið sjónarmiðum okkar til þeirra sem þar sitja. Ég vil efla lýðræði í kirkjunni og minni á að lýðræðisumræðan og þróun lýðræðis í landinu byggði á hugmyndum um hinn almenna prestsdóm sem komu frá lútherskum fríkirkjum Íslendinga í Vesturheimi.

c. Vildir þú jafna á ný hlutfall leikra og lærðra á Kirkjuþingi eða afnema kjördeildirnar og kjósa í einu lagi til þingsins?

Svar: Ég vil kjósa í einu lagi.

d. Nú eru uppi hugmyndir um að biskup víki úr forsæti Kirkjuráðs. Hver er þín skoðun á því og hvaða fyrirkomulag viltu sjá á skipan Kirkjuráðs?

Svar: Umræðan um að biskup verði leystur undan veraldlegri umsýslu er ekki raunhæf að mínu mati. Guð gerðist maður í Kristi og helgaði þar með veröldina, hið efnis- og veraldlega. Með tillögu minni hér að framan um að kirkjuráðsmenn missi atkvæðisrétt á kirkjuþingi geri ég ráð fyrir að vald kirkjuráðs breytist. Biskup þarf að hafa sterka stöðu í stórnkerfi kirkjunnar. Hann getur framselt vald sitt á fjölmörgum öðrum sviðum en ég tel rétt að hann hafi forystu í kirkjuráði. Um starf biskups segir: „Biskup Íslands er æðsti embættismaður kirkjunnar. Hann hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og starfi hennar í landinu.“ Hann þarf því að mínu áliti að hafa forsæti í kirkjuráði.

e. Hvernig telur þú að eigi að tryggja fjárhagslegan rekstur sóknanna og Þjóðkirkjunnar í framtíðinni?

Svar: Ganga þarf eftir því af einurð að ríkið standi við samninga sína um innheimtu sóknargjalda. Öll skráð trúfélög eiga hér hagsmuna að gæta. Samningar eru við ríkið um innheimtu sóknargjalda 1987 og á grundvelli laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar 1997. Ég hafði áhyggjur af því meðan samningar stóðu yfir fyrir lagasetninguna 1997 að afhenda ætti jarðir til eignar. Ég hef alltaf talið að þetta hafi verið hættuspil því eitt er að eiga fasteignir og jarðir og annað að eiga samning á pappír í landi þar sem hentistefna ríkir gjarnan af hálfu stjórnvalda og hins opinbera. Við höfum engan gullfót, engar jarðir til að tryggja samninginn. Ákvæðið um að fjölga eða fækka embættum eftir meðlimafjölda kirkjunnar hefur mér ætíð þótt álíka gáfulegt og að sett væri í leigusamning milli tveggja einstaklinga að leigjandi borgaði verð sem reiknað væri út frá vinsældum leigusalans.

f. Minnkandi tekjur hafa dregið mátt úr kirkjunni. Samdráttur er víða kominn að sársaukamörkum og hefur áhrif á þjónustuna sem kirkjan veitir. Hefur þú hugmyndir um hvernig mætti bæta fjárhagslega stöðu kirkjunnar?

Svar: Kirkjan hefur lifað góðæri frá 1987. Í ritinu Kirkjan í upphæðum, könnun á fjárreiðum sókna sem ég vann 1994 og gefið var út af Biskupsstofu (Safnaðaruppbyggingu) kom fram að stærstur hluti tekna fór í fasteignir, byggingu þeirra, viðhald o.s.frv. en minnihluti í safnaðarstarf. Um 10 af hundraði fóru í tónlist en um 2,5% í barna- og æskulýðsstarf. Með því að bera saman kostnað vegna fasteigna safnaðanna í Reykjavík kom í ljós að viðhald var kostnaðarsamt í vestra prófastsdæminu en byggingarkostnaður mjög hár í því eystra. Með tíð og tíma eykst viðhald allra þessara fasteigna og ljóst er að sumstaðar hafa söfnuðir reist sér hurðarás um öxl.
Ég hef stungið upp á því að safnaðarheimili verði nýtt til að hýsa leikskóla fyrir yngstu börnin þar sem því verður við komið. Ég hóf frumkönnun á því hvort hægt væri að reka leikskóla í kjallara Neskirkju og komst að því að slíkur rekstur gætu skapað brúttó tekjur upp á ca. 7-10 milljónir á ári.
Ég tel jafnframt að við þurfum að huga að blönduðu hagkerfi í kirkjunni og taka upp samskot eins og tíðkast um allan heim. Þá fær fólk meir á tilfinninguna að það eigi hlut í starfi kirkjunnar og um leið ætti áhugi og kostnaðarvitund að aukast. Almennt safnaðarfólk færi þá að láta sig það meiru varða í hvað peningum er varið.
Að öðru leyti vísa ég til svars hér að framan um einarða varðstöðu um sóknargjöldin gagnvart ríkinu.

III. Biskupsþjónustan

a. Hvert er fagnaðarerindi kirkjunnar og hvernig á að boða það í samtíðinni? Hvert er hlutverk biskups gagnvart því?

Svar: „Biskup Íslands er æðsti embættismaður kirkjunnar. Hann hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og starfi hennar í landinu.“ Kirkjan verður að vera trú grundvelli sínum í boðun fagnaðarerindisins en finna stöðugt nýjar leiðir og farvegi fyrir það. Ég vil að biskup prédiki oftar og haldi biskupsmessur í Dómkirkjunni í Reykjavík og efli stöðu þeirrar kirkju í miðborginni og í nálægð við Alþingi og stjórnsýslu. Ég vil einnig að biskup messi og hitti fólk árlega í öllum fjórðungum landsins. Biskup þarf að sjá til þess að prédikunin verði efld í kirkjunni og boðmiðlun almennt talað.
Þegar ég var fræðslustjóri kirkjunnar lét ég framleiða 3 x 30 sjónvarpsþætti fyrir börn sem sýndir voru í Sjónvarpinu þrjú ár í röð og síðan endursýndir.
Dönsku guðfræðingarnir Eberhard Harbsmeier og Hans Raun Iversen segja í bók sinni Praktisk teologi sem kom út undir lok liðinnar aldar að prestar verði að tjá sig víðar en í prédikunarstólnum. Ég tek heilshugar undir hvatningu þeirra. Um árabil hef ég skrifað mánaðarlega pistla í Vesturbæjarblaðið og af og til sent greinar í dagblöð, komið fram í fjölda viðtala í útvarpi og sjónvarpi. Biskup þarf að vera sýnilegur sem víðast með boðskap og erindi kirkjunnar á vörum.

b. Nú hafa margir sagt sig úr þjóðkirkjunni á undanförnum árum af ýmsum ástæðum. Á hún að nálgast þá sem hafa sagt sig úr kirkjunni — og hvernig?

Svar: Ég tel afar viðkvæmt að nálgast þau beint sem sagt hafa sig úr þjóðkirkjunni. Við höfum rætt þetta á sóknarnefndarfundum í Neskirkju því við viljum auðvitað gjarnan vita ástæður úrsagna. Ég tel að kirkjan eigi að efla starf sitt og tala til allra og gera það á þann hátt að hún öðlist traust á ný og þá kemur fólkið aftur trúi ég. Sjálfur fylgist ég með því í gegnum forritið Kapellán hvort fólk sem leitar þjónustu minnar, einkum vegna skírna, sé skráð í þjóðkirkjuna eða annað kristið trúfélag. Þetta á við um foreldrar (í það minnsta annað þeirra) og skírnarvotta. Á hverju ári leiðir þessi vöktun til þess að fólk skráir sig í þjóðkirkjuna.

c. Hver er afstaða þín til hlutverkaskiptingar Biskups Íslands og vígslubiskupanna?

Svar: Efla þarf starf og ábyrgð vígslubiskupanna og auka tilsjónarhlutverk þeirra. Biskup Íslands þarf almennt talað að framselja meira af valdi sínu og minnka eigin umsýslu til þess að geta sinnt hinu andlega hlutverki betur.

d. Hvert á að vera hlutverk prestastefnunnar? Á að efla hana — og þá hvernig?

Svar: Í lögum um prestastefnu segir: „Á prestastefnu skal fjalla um málefni prestastéttarinnar, svo og önnur kirkjuleg málefni. Prestastefna hefur tillögu- og umsagnarrétt um mál er varða kenningu kirkjunnar og helgisiði og annars heyra undir biskup og kirkjuþing, sbr. 10., 11. og 20. gr.“
Prestastefna er mikilvægur vettvangur þar sem fram fer samtal hinna vígðu um þjónustuna innan kirkjunnar, guðfræði, kenningu, helgisiði o.fl. Prestastefna á að vera eflandi samvera hinna vígðu sem þeir hlakka til að sækja og finna sig fara endurnærða aftur heim til þjónustunnar. Efla má hana á marga vegu t.d. með því að fá erlenda fyrirlesara og veita þannig inn nýjum straumum og stefnum frá systurkirkjum í stað þess að við séum stöðugt að tala yfir hvert öðru. Við erum svo lítið samfélag að við verðum að leita út fyrir hópinn. En það verður að vanda val slíkra heimsókna og undirbúa vel.

e. Hvert á að vera hlutverk biskupafundar? Á að efla hann — og þá hvernig?

Svar: Biskup Íslands þarf náinn samstarfsvettvang. Um biskupafund segir í lögum: Biskup Íslands skal kalla vígslubiskupa til fundar svo oft sem þurfa þykir og nánar skal kveðið á um í starfsreglum, sbr. 59. gr. Biskupafundur skal m.a. búa þau mál er varða kenninguna, helgisiði og helgihald í hendur prestastefnu og gera tillögur um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma til kirkjuþings, sbr. 50. gr.
Ég hef hér að framan sagt að biskup Íslands eigi að framselja meira af valdi sínu og virkja vígslubiskupana meir í tilsjónarhlutverki biskups/biskupa.

f. Kenningin og helgisiðirnir eru á ábyrgð biskups og prestastefnu. Að núverandi skipan er Kirkjuþing þó óbundið af samþykktum biskupafundar og prestastefnu samkvæmt starfsreglum. Þykir þér þetta eðlileg skipan?

Svar: Um prestastefnu segir í lögum: „Prestastefna hefur tillögu- og umsagnarrétt um mál er varða kenningu kirkjunnar og helgisiði og annars heyra undir biskup og kirkjuþing, sbr. 10., 11. og 20. gr.“
Í 13. gr. frumvarps að nýjum þjóðkirkjulögum segir: „Til þess að samþykktir um kenningarleg málefni öðlist gildi þarf samstöðu biskups Íslands og kirkjuþings.“
Spurningin kann að fela það í sér að kalla fram þá afstöðu að einungis vígðir þjónar eigi að taka ákvarðanir um helgisiði og kenningu en guðfræði hins almenna prestsdóms segir alla færa um að taka þátt í þeirri umræðu.
Á kirkjuþingi sitja leikmenn og vígðir og samstaða þarf að nást milli þeirra og biskups. Biskup hefur því að mínu áliti mjög mikið vald og hefur auk þess prestastefnu sér til fulltingis í kenningarlegum efnum og það er varðar helgisiði.

g. Ætti prestastefna að skipa fastanefndir um kenningu og helgisiði sem starfa í hennar umboði?

Svar: Ég tel að það gæti verið til bóta. Löngu er komið er að endurskoðun Helgisiðabókarinnar frá 1981 og brýnt að þoka því máli í farveg sem skilar niðurstöðu og eðlilegri þróun.

h. Á Kirkjuþing að geta breytt samþykktum prestastefnu um kenninguna og helgisiðina?

Svar: Nei, en biskup og kirkjuþing þurfa að ná samstöðu um slík mál verði ný þjóðkirkjulög að veruleika sbr. svar við spurningu III. e.

i. Er Kirkjuþingið bundið af niðurstöðu prestastefnu eða getur það breytt henni eða jafnvel hafnað henni?

Svar: Sjá svar hér að framan (III.h)

j. Hvernig hyggst þú rækta og rækja samband og samfélag við presta Þjóðkirkjunnar um allt land?

Svar: Með hringingum, bréfaskriftum og heimsóknum. Með því að efla með þeim þá tilfinningu að þeir njóti jákvæðrar tilsjónar og umhyggju, fái örvun til símenntunar og eflingar í starfi. Uppörvun (uppörvun/áminning – gr.: parakaleo sem minnir á hlutverk andans) er ein af náðargáfum kirkjunnar

k. Hvernig ætlar þú að haga vísitasíum og eiga vígslubiskupar að sinna þeim einnig?

Svar: Ég tel að endurskoða þurfi allt starf biskups Íslands og vígslubiskupa og að þeir skipti með sér verkum þannig að starf hinna síðarnefndu eflist og aukist. Formlegar vísitasíur eru mikilvægar en einnig óformlegri heimsóknir eins og lagðar eru til í svari III. a.

IV. Ríki og kirkja – sambandið við þjóðina

a. Hvernig sérð þú fyrir þér æskilegt samband — eða sambandsleysi — ríkis og kirkju?

Svar: Með lögunum frá 1997 var að mínu áliti skilið á milli ríkis og kirkju. Kirkjan varð þar með sjálfstæður lögaðili og samband hennar og ríkis byggir nú á samningum tveggja lögaðila. Þjóðkirkja er kirkja sem er trú fagnaðarerindinu og þjónar öllum. Þjóðkirkja og ríki eru tveir ólíkir aðilar. Kirkjan þarf að vera sjálfstæð og sterka af sjálfri sér.

b. Telur þú að það eigi að standa í stjórnarskrá að kristin trú og siður séu eitt af grunngildum íslensks samfélags eða á íslenska ríkið að vera grundvallað á veraldlegum, húmanískum eða öðrum gildum?

Svar: Ég vil gjarnan hafa gildagein um kristinn sið og menningu í stjórnarskrá en um það náðist ekki samstaða í stjórnlagaráði sem kom saman árið 2011 og átti sæti í.

c. Finnst þér að það eigi að binda í stjórnarskrá að Hin evangelíska-Lútherska kirkja skuli vera þjóðkirkja landsins?

Svar: Eins og forseti kirkjuþings og fv. hæstaréttardómari hefur bent á í bréfi sínu til alþingismanna og fulltrúa í stjórnlagaráði á núverandi 62. grein um stuðning og vernd ríkisvaldsins við um ríkiskirkju en ekki þjóðkirkju. Ég geri ekki ráð fyrir að við viljum snúa aftur til fyrra horfs, aftur fyrir lagasetninguna 1997. Þó vil ég athuga hvort hægt er að tryggja betur samninginn með tengingu við jarðeignir sem ríkið fékk á sínum tíma og gera samning ríkis og kirkju þar með traustari.
Ég tel að til lengri tíma litið muni kirkjan tapa á því að vera sérstaklega tiltekin í stjórnarskrá.

d. Telur þú að Þjóðkirkjan eigi að njóta forréttinda umfram önnur trúfélög í landinu?

Svar: Ekki að öðru leyti en því að hún ber meiri skyldur en önnur trúfélög. Hún þjónar öllum og hefur sterkar rætur í sögu og menningu þjóðarinnar. Hún ber auk þess ábyrgð á menningarverðmætum sem varða ekki bara kirkjuna eina heldur allt þjóðfélagið. Hún verður aldrei meðhöndluð eins og hvert annað félag sem stofnað var á síðari tímum.

e. Kirkjan hefur af ýmsum ástæðum hlotið harða gagnrýni í fjölmiðlum og oftar birst þjóðinni í vörn fremur en í sókn. Hvernig hyggst þú bæta ímynd kirkjunnar og umræðu um hana á opinberum vettvangi ef þú verður kjörinn biskup Íslands?

Svar: Með því að hefja sókn og hafa frumkvæði að sambandi við fjölmiðla, vinna að tengslamyndun við fjölmiðlafólk eins og enska kirkjan gerir til að mynda. Kirkjan þarf að verða proaktíf í þessum efnun en ekki einungis reaktíf, vera frumkvæð í stað þess að vera viðkvæð. Hún þarf að framleiða efni fyrir fjölmiðla. Ég sagði eitt sinn á fundi í stjórnmálasamtökum þar sem ég var beðinn um að fjalla um kirkju og ríki og menn gagnrýndu samning ríkis og kirkju frá 1997 að ég vildi fá jarðeignirnar til baka og að kirkjan stæði á eigin fótum. Svo bætti ég við. Um leið og það gerist mun ég berjast fyrir því að kirkjan opni útvarps- og sjónvarpsstöð og gefi út dagblað. Þá brá hinum róttæku gagnrýnendum. Þetta var auðvitað sett fram sem högg-meðferð til að hrista upp í fundarmönnum. Kirkjan verður að taka kynningarmál sín fastari tökum og biskup verður að ráða vel við að koma fram í fjölmiðlurm, ekki síst sjónvarpi.
 
f. Iðulega heyrist sú fullyrðing að kirkjan skilji ekki samtímann og stígi ekki í takt við samfélagið. Hvað finnst þér um slíka staðhæfingu?

Svar: Kirkjan hefur þegið arf og við sem trúað fólk höfum tekið trúna í arf frá þeim sem voru á undan okkur. Trúin fær merkingu í því að henni sé miðlað. Við þurfum að finna leiðir til að miðla með nýjum hætti og aðferðum en við megum ekki giftast tíðarandanum og útþynna fagnaðarerindið í eitthvert snakk um dægurmál. Á liðnum árum hef ég hins vegar í ljósi þjóðfélagslegrar ábyrgðar sem birtist í fagnaðarerindinu tjáð mig ítrekað um þjóðfélagsmál. Það verðum við að gera en gera það á vandaðan hátt og yfirvegaðan. Ég vil ekki við verðum kennd við einhverskonar krútt-guðfræði eða vellíðunar-vellu.
Holdtekning Guðs í Kristi er okkur stöðug áminning/hvatning um að tengjast fólki og vera á meðal þess. Prestar í smærri prestaköllum eiga auðveldara með þetta en þau sem þjóna í fjölmenni. Baráttan um sálirnar er hörðust í fjölmenninu þar sem lengra er á milli kirkju og fjöldans, prests og sóknarbarna en á landsbyggðinni þar sem kirkjan stendur fólki nær. Við megum ekki tapa orrustunni um fólkið á höfuðborginni. Þar þarfnast kirkjan öflugra boðenda og kennimanna í orði og verki þar sem prédikun orðsins og kærleiksþjónustan vinna náið saman.

V. Embætti presta og prófasta

a. Hver er skoðun þín á „hinu heilaga prests- og predikunarembætti“? Ertu sáttur við núverandi umbúnað embættisins?

Svar: Ég tel að við þurfum að fara yfir allt okkar starf í landinu, starf sókna og prestakalla, starf presta, prófasta og biksupa og huga vel að „hinu heilaga prests- og predikunarembætti“. Kirkjan lifir ekki nema orðið sé virkt. Sr. Hallgrímur orti: Jesús vill, að þín kenning klár /kröftug sé, hrein og opinskár, / lík hvellum lúðurs hljómi.
Við þurfum siðbót, þurfum að ganga í okkur sjálf og vinna að því að þjónar kirkjunnar njóti frítíma og uppbyggingar, símenntunar og umhyggju – og að prédikunin fái aukið vægi með meiri umfjöllun og fræðslu. Þjálfa þarf presta í boðmiðlun og veita þeim stuðning í framkvæmd helgisiða og prédikunar með faglegum hætti.

b. Er atvinnuöryggi presta nógu tryggt samkvæmt núverandi starfsreglum?

Svar: Áður fyrr nutu prestar meiri réttinda í æviráðningu en nú tíðkast. Presturinn þarf að njóta ríkrar verndar í starfi en hann má ekki vera hafinn yfir alla gagnrýni ef hann sinnir ekki sínu embætti sem skyldi. Þarna þarf tilsjónin að eflast. Við verðum að fara rækilega yfir allan okkar auð, bæði í aurum og auði mannfólks. Við þurfum að skipuleggja okkur upp á nýtt og raða þjónum þannig að álagi sé jafnað og kröftunum dreift með skynsömum hætti um landið allt. Gott er að búa við algjört öryggi en vegna breyskleika mannsins er gott að hæfileg spenna sé jafnan á milli þess að hafa algjört öryggi og þurfa jafnfram að búa við visst óöryggi.

c. Á að skylda presta til búsetu í prestaköllum sínum?

Svar: Fólk flytur og skiptir um störf og embætti oftar en áður tíðkaðist. Ágallar hafa komið í ljós í löggjöf t.d. um búsetuskyldur alþingismanna og annarra opinberra starfsmanna. Æskilegt er að prestur búi í prestakallinu en þær aðstæður kunna að vera fyrir hendi að annað fyrirkomulega henti viðkomandi presti betur. Hefð okkar byggir á jafnvægi milli fagnaðarerindis og lögmáls. Lögmálið eitt og sér í boðum og bönnum er ekki vænlegt til að tryggja hamingju og gott líf og því legg ég til sveigjanleika en ekki sjálfdæmishyggju á hvorugan bóginn.

d. Á prestum að vera skylt að búa á prestssetrum?

Svar: Sjá svarið hér að framan.

e. Finnst þér ástæða til þess að halda í prófastsembættin? Viltu breyta þeim eða leggja þau niður?

Svar: Ég vil endurskoða allt tilsjónarstarf kirkjunnar og störf prófasta. Ég tel að stækkun prófastsdæma hafi ekki gefist sem skyldi. Væri ekki rétt að minnka þau aftur og endurskilgreina starfsskyldur prófasta en auka skyldur vígslubiskupa í tilsjónarstarfinu? Prófastur sem er kollega í næsta eða nálægu prestakalli hefur ekki sama vægi og vígslubiskup þegar taka þarf á erfiðum málum t.d. í samskiptum prests og safnaðar.

f. Munt þú beita þér fyrir breytingum á fyrirkomulagi varðandi greiðslur fyrir aukaverk presta?

Svar: Ég hef áður rætt það í mínu prófastsdæmi að leggja ætti aukverkagreiðslur niður og reikna þær inn í launin. Sjálfur hef ég töluverðar tekjur af slíkum verkum ej hef ekki heyrt aðra sem eru í sömu sporum tala á sömu nótum. Aflagning núverandi kerfis gæti leitt til jöfnunar álags. Hins vegar verður erfitt í litlu samfélagi þar sem flestir þekkjast að koma algjörlega í veg fyrir huglægar (subjetkívar) óskir þegar að prestsverkum kemur. Í slíkum tilfellum getur prestur sagt nei og vísað á sóknarprest/a þess sem æskir þjónustunnar, þjónað sjálfur ókeypis eða þegið fyrir það einhverja málamyndagreiðslu sé hún boðin en slíkt gæti leitt til þess að kerfið haldist bara við og þeir fái greitt sem ekki framkvæma verkin og hinir líka sem taka það að sér. Best er að fólk sæki þjónustuna í sinni sókn en hér gildir ekki einhliða lögmál heldur hið fagra hugtakapar fagnaðarerindi/lögmál.

g. Munt þú beita þér fyrir breytingum á fyrirkomulagi varðandi hlunnindatekjur af prestssetrum?

Svar: Ég hef ekki setið prestakall með veruleg hlunnindi og hef því takmarkaða reynslu af þessu og svar mitt mun einkennast af því. Þetta eru því einungis almennar hugleiðingar mínar um þessa spurningu.
Hlunnindin eru hluti af gömlum arfi og öðru þjóðfélagi en nú er við lýði. Hér áður fyrr þegar gjaldmiðill var ekki til nema varningur sem menn versluðu með hverjir við aðra og launasjóður kirkjunnar var enginn þá lifði hver prestur af sínu brauði. Nú er öldin önnur. En kirkjan þarf varðveita þau hlunnindi sem fylgja prestssetrum og hafa tekjur af þeim og sá sem tekur að sér fyrirhöfnina við öflun teknanna verður að njóta einhvers fyrir sína vinnu. Kirkjan getur auðvitað boðið út þessi hlunnindi og þar með er presturinn ekki bundinn við þá vinnu nema hann kjósi svo. Hann getur þá betur sinnt þjónustu orðins, iðkað guðfræði og jafnvel tekið að sér verkefni fyrir kirkjuna í heild t.d. þýðingar, samningu fræðsluefnis etc. allt efrir hæfileikum og áhugasviði. Dæmi eru um að hlunnindatekjur hafi bundið presta sem ekki hafa viljað færa sig vegna þess að brauðið er svo gjöfult. Slík binding kemur í veg fyrir að menn færi sig til en ég tel það hollt fyrir kirkjuna og þjóna hennar að menn færi sig milli embætta með einhverju millibili.

h. Vilt þú að prestar Þjóðkirkjunnar séu áfram embættismenn í skilningi laga um opinbera starfsmenn? Ef ekki, hver á þá staða presta að vera?

Svar: Ég tel að núverandi fyrirkomulag sé að mörgu leyti gott en óttast að almenningur haldi áfram að misskilja samband ríkis og kirkju sem byggist á samningum en ekki forréttindum. Það hefur verið kirkjunni dýrt að vera í tengslum við ríkið og okkur hefur ekki tekist nægjanlega vel að útskýra fyrir almenning og ekki einu sinni fyrir alþingismönnum hvernig sambandi ríkis og kirkju er háttað. Ég tel koma til greian að við verðum starfsmenn þjóðkirkjunnar en missum þá einkis í réttindum okkar. Þetta er spurning um samninga við ríkið.

i. Hvaða skoðun hefur þú á sókna- og prestakallaskipaninni?

Svar: Ég hef ítrekað sagt hér að framan að nú sé kominn tími til að endurskoða allt starf kirkjunnar um allt land. Þar undir heyrir sókna- og prestakallaskipanin. Við verðum að ná sem mestum árangri í starfi kirkjunnar um allt land með sem allra minnstum tilkostnaði, vera góðir ráðsmenn yfir auðlegð kirkunnar – fasteignum og fjármunum, hlunnindum og mannafla.

VI. Spurningar varðandi öldrunarmál

a. Ljóst er að öldruðum mun fjölga á komandi árum. Aldraðir búa yfir mikilli reynslu á ýmsum sviðum. Hefur þú hugmyndir um að nýta megi þekkingu þessa hóps í þágu kirkjunnar?

Svar: Auka þarf veg aldraðra í kirkjunni og vinna að því sem einkennir siðuðu þjóðfélög að þau bera virðingu fyrir ellinni. Ég minni á boðorðið um að heiðra föður og móður. Það á við um aldraða. Ég hef sagt að kirkjan eigi að verða miðstöð kærleiksþjónustu í landinu og hefja starfsemi áþekka því sem Rauði krossinn heldur úti. Við þurfum að efla þá vitund með fólki að gott sé að þjóna náunga okkar í kærleika. Hlutverk djákna ætti að vera að halda utan um slíka sjálfboðna þjónustu þannig að verk séu skilgreind, fólk hljóti þjálfun og geti síðan eftir efnum og aðstæðum boðið fram krafta sína í klukkustund eða fleiri í viku hverri. Þannig getum við fengið fleirum hlutverk í boðun kirkjunnar og læknað þetta samfélag af mörgum meinum.

b. Í sumum söfnuðum á höfuðborgarsvæðinu er öflug starfsemi fyrir aldraða en í öðrum er ekkert öldrunarstarf í boði. Hvernig sérð þú fyrir þér að kirkjan geti samræmt þjónustu sína við aldraða, þannig að allir geti vænst sömu þjónustu?

Svar: Við þurfum að huga betur að samstarfssvæðum og hamla gegn einangrun presta og einyrkjahætti. Teymisvinna er góð og hún jafnar álag og eykur í flestum tilfellum starfsgleði. Skáldið Einar Benediktsson sagði: Maðurinn einn er ei nema hálfur, með öðrum er hann meiri en hann sjálfur.

c. Öldruðum fjölgar á Íslandi og þeim sem búa einir heima við félagslega einangrun. Margir þeirra þurfa aðstoð við að komast til kirkju til þess að að rækta trú sína og taka þátt í kirkjulegu starfi.
Hvað sérð þú fyrir þér að kirkjan geti gert fyrir þenna stóra hóp trúaðra Íslendinga sem eru félagslega einangraðir heima?

Svar: Já, með aukinni kærleiksþjónustu sbr. svar mitt hér að frama við VI. a.

VII. Annað

a. Ertu hlyntur hjúskap fólks af sama kyni? Ef svo er, á að þvinga presta til þess að framkvæma hjónavígslur af því tagi eða á að virða samviskufrelsi þeirra?

Svar: Ég virði fólk af sama kyni sem elskar hvort annað. Kirkjan hefur samþykkt að vígja slíka sambúð. En ég er á móti þvingunum og því að krafist verði pólitísks rétttrúnaðar af prestum og þeim gert að ganga gegn samvisku sinni. Hér hjálpar okkur játningin um hina almennu kirkju. Hún veitir þjónustuna með því að sumir prestar eru reiðubúnir til að taka að sér slíka vígslu en þvingar ekki aðra. Mér líkar við slíka kirkju.

b. Eiga prestar að vera vígslumenn hjúskapar eða á hjónavígsla að fara fram hjá veraldlegum embættismanni?

Svar: Ég vil halda í það fyrirkomulag sem nú er en geri mér grein fyrir að víða um heim er þetta aðskilið þannig að dómari gengur frá hinni lögfræðilegu hlið hjúskapar en svo geta þau sem vilja farið til kirkju og fengið þar blessun prests. Stundum hef ég séð um slíka blessun í kjölfar löggjörnings hjóna hjá sýslumanna eða erlendu yfirvaldi.

c. Hver er afstaða þín til þess að múslimum verði leyft að reisa moskur á Íslandi?

Svar: Múslimar koma saman til helgihalds í landinu en eiga ekki sérstaka byggingu til tilbeiðslu. Ég tel ekki að okkur sé stætt á því að meina þeim að byggja mosku fremur en við meinum öðrum trúarbrögðum að gera slíkt hið sama. Við viljum ekki láta meina kristnum mönnum að byggja kirkjur í öðrum löndum. Við vitum hins vegar að slíkt bann ríkir víða. En ef við viljum halda hina Gullnu reglu þá leyfum við byggingu mosku. Gullna reglan er nefnilega póaktíf en ekki reaktíf – allt sem við vilum skulum við gera. En ekki allt sem við viljum ekki skulum við ekki gera.
 

url: http://ornbardur.annall.is/2012-03-11/svor-vid-spurningum-sera-floka-kristinssonar-sem-hann-bar-fram-fyrir-hond-presta/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli