örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Valdís Guðrún Þorkelsdóttir 1918-2012 · Heim · Svör við spurningum um jafnrétti innan kirkjunnar »

Eigi mannsins megin – Grein í Morgunblaðin 10. mars 2012

Örn Bárður @ 18.15 10/3/12

i hondum gudsEigi mannsins megin

Nú er mikið rætt um kirkjuna
og framtíð hennar um þessar mundir.
Við áttmenningarnir
sem höfum boðið okkur fram
til kjörs í embætti
biskups Íslands höfum verið
á 6 kynningarfundum vítt og breitt um landið.
Á fólki brennur m.a. staða kirkjunnar
meðal almennings.
Um þá stöðu er m.a. rætt í þessum pistli sem birtist
í Morgunblaðinu í dag, 10. mars 2012.

Í þúsund ár hefur kristin kirkja þjónað fólki á helstu krossgötum mannsævinni.

Í fjölmiðlum heyrum við um þessar mundir um dvínandi traust á Þjóðkirkjunni. Skoðanakannanir eru gerðar og hringt er í fólk sem ýmist treystir kirkjunni eða ekki. Fyrrgreindi hópurinn er undir þriðjungi. Það er alvarlegt mál fyrir Þjóðkirkjuna. Skilgreina þarf betur hvað felst í svörum fólks og kirkjan verður að gaumgæfa þessi mál, ganga í sig og taka til í sínum ranni og hefja sókn á forsendum vandaðrar greiningar. Sumir svarenda eru hugsanlega að lýsa vantrausti á kirkjuvaldið en síður á starfið í sóknarkirkjunum. Þetta þarf að rannsaka. Kirkjan þarf að breytast. Sumir tala um að breyta þurfi skipulagi kirkjunnar en ætli hugarfarsbreyting okkar sem þar þjónum sé ekki vænlegri til árangurs?

Grunneining kirkjunnar er sóknin, fólkið sem myndar staðbundinn söfnuð og leitar til sóknarkirkju sinnar í gleði og sorg. Skoðanakannanir sem mæla fótatak fólks segja að stærstur hluti þjóðarinnar á samleið með kirkjunni á krossgötum ævinnar, skírn, fermingu, hjónavígslu og ekki síst þegar ástvinur er kvaddur. Sálgæslusamtöl eru einnig veigamikill þáttur í starfi kirkjunnar sem stendur fólki til boða án endurgjalds. Traust eða vantraust er ekki aðeins tjáð með svari við símtali. Fólk kýs með fótum sínum og þau eru mörg sem taka skrefið til kirkjunnar á krossgötum ævinnar. Flest fólk finnur að hin gamla útfararhefð, þrautreynd og fáguð, gagnast best þegar harmur slær og horfst er í augu við hinstu örlög allra manna. Þá rista dægurlausnir ekki djúpt. Sálmar, fögur tónlist og minningarorð um látinn ástvin og tenging við hið stóra samhengi alls sem er skiptir höfuðmáli í þessu sambandi.

Kirkjan hefur lifað tímana tvenna og sögusagnir um slæma heilsu hennar eru stórlega ýktar að ég tel. Fólkið sem ann kirkju sinni er fjölmargt og þau sem vinna þar sjálfboðin eða launuð störf bera því mörg vitni að hún er gott samfélag og frábær vinnustaður. Við sem þar störfum megum þó ekki grafa höfuð okkar í sandinn að hætti strútfugla og láta sem allt sé í himna lagi innan kirkjunnar. Okkur tekur það öll sárt á sama tíma og prestar og aðrir starfsmenn þjóna þúsundum ef ekki tugum þúsunda einstaklinga í hverjum mánuði og fá oftar en ekki miklar þakkir fyrir að fólk skuli á sama tíma snúa baki við kirkjunni. Það hefur reyndar áður átt sér stað í sögunni. Það gerðist á fyrri hluta liðinnar aldar á umbrotatímum í pólitík, vísindum og fræðum og einnig á tímum hinnar svonefndu 68-kynslóðar. Hvað gerði kirkjan þá? Hún stórefldi starf sitt, byggði nýja helgidóma og hagnýt hús fyrir fjölbreytt safnaðarstarf og leitaði ráða í hagnýtri og faglegri safnaðaruppbyggingu. Kirkjan heldur áfram að sá sínum góðu fræjum um frelsarann Krist sem er besta fyrirmynd sem mannkyn hefur eignast enda á enginn persóna sögunnar jafn marga fylgjendur og hann nú á dögum.

Kirkjan mun áfram lifa og starfa hér á landi og víða um heim. Hún hefur í sér fólgin kraft sem er eigi mannsins megin heldur himinsins.

url: http://ornbardur.annall.is/2012-03-10/eigi-mannsins-megin-grein-i-morgunbladin-10-mars-2012/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli