örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Ég gef kost á mér í embætti biskups Íslands · Heim · Valdís Guðrún Þorkelsdóttir 1918-2012 »

Svör við spurningum 5 sérþjónustupresta

Örn Bárður @ 11.16 1/3/12

kross i hjartaHér fyrir neðan eru fyrstu viðbrögð mín við mikilvægum spurningum 5 sérþjónustupresta sem eru:

Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir, sjúkrahúsprestur
Guðný Hallgrímsdóttir, prestur fatlaðra
Hreinn S. Hákonarson, fangaprestur
Miyako Þórðarson, prestur heyrnarlausra
Toshiki Toma, prestur innflytjenda

(Grafíska myndin var fengin að láni af vefnum og þakka ég höfundi hér með fyrir afnotin)

a) Hvert er álit þitt á sérþjónustu kirkjunnar?

Hún skiptir mjög miklu máli og ég tel að sérþjónustan hafi skapað
tengsl við fólk sem sóknarprestar ná ekki með sama hætti. Sérþjónustan
breikkar ásýnd kirkjunnar og sýnir hana í nýju ljósi. Hún er mjög
mikilvæg og hana þarf að efla.

b) Hvað finnst þér um fyrirkomulag sérþjónustu kirkjunnar eins og
því er nú háttað?

Hún er í senn starfrækt á vegum Þjóðkirkjunnar sjálfrar og einnig af
stofnunum þjóðfélagsins svo sem sjúkrahúsum. Mér finnst sérþjónustan
hafa sannað sig á liðnum árum og vitnisburður starfsfólks hjá
stofnunum þar sem þeir eru við störf er að sérþjónustan sé mikilvæg og
í raun ómissandi þáttur í starfi og þjónustu viðkomandi stofnunar.
Mestu skiptir að hún verði efld sama hver borgar launin en tryggja
þarf jöfn réttindi etc.

c) Telur þú þörf á því að breyta núverandi fyrirkomulagi sérþjónustunnar?

Ég hef ekki mótað mér sérstakar skoðanir á þessari spurningu en vil
almennt talað stuðla að eflingu sérþjónustunnar og kirkjulegri nærveru
sem víðast í þjóðfélaginu. Komi það í minn hlut að taka ákvarðanir um
sérþjónustu kirkjunnar mun ég vilja hafa sem mest samráð við þau sem
þegar hafa þjónað og þekkja bæði þarfir og möguleika sérþjónustunnar
betur en aðrir.

d) Telur þú þörf á því að efla sérþjónustu kirkjunnar og ef svo er
með hvaða hætti?

Sjá svar við spurningu a, b og c.

- – -

Læt fylgja með drög að grein sem ég skrifaði til stuðnings
sjúkrahússprestum fyrir nokkrum árum en hún var aldrei birt þar sem
búið var að afstýra yfirvofandi uppsögnum þegar ég sendi hana til
yfirlestrar til Sigfinns að mig minnir. Greinin sýnir glöggt hugarþel
mitt til sérþjónustunnar og þá sérstaklega sjúkrahússpresta í þessu tilviki.

Greinin sem rituðu var 2007 var auðvitað rituð af vissu tilefni og inn í ákveðið ástand og lesist í því ljósi:

Að segja upp öllum íslenskukennurum
(Líklega skrifuð í september 2007)

Undanfarnar vikur og mánuði hefur mikil umræða átt sér stað um hagræðingu á sjúkrahúsum. Heilbrigðiskerfið virðist vera að sprengja utan af sér allar fjárlagaflíkur og engin leið önnur fær en að skera niður útgjöld. Sagt er að einstaklingar innan allra stétta heilbrigðisþjónustunnar eigi uppsagnir yfir höfði sér. Ein tillagan um niðurskurð gengur út á það að segja upp öllum sjúkrahússprestum.

Hin tiltölulega unga stétt sjúkrahússpresta hefur unnið frábært starf á þeim stutta tíma sem hún hefur verið við lýði. Læknum og hjúkrunarfólki ber saman um að þar fari frábærir einstaklingar og samstarfsmenn, karlar og konur, sem sinnt hafi ómissandi þjónustu innan spítalanna. Læknar hafa sagt í mín eyru að þeir skilji ekki í raun hvernig þeir komust af hér áður þegar ekki voru prestar starfandi á sjúkrahúsunum. Þannig er það nú með manneskjuna að hún er meira en kjöt og bein, blóð og sinar. Í henni býr sál og tilfinning, andi og æðri vitund. Þess vegna er svo mikilvægt að þjóna manneskjunni allri. Og til þess þarf breiðan hóp hæfra starfsmanna.

Mér er sagt að í Svíþjóð hafi verið gerði könnun á því hvernig ekkjum og ekklum látinna krabbameinssjúklinga reiðir af eftir missinn. Í stuttu máli munu niðurstöður sýna að þar sé næstum öll þjónusta fullnægjandi, en að stuðning skorti á hinu andlega sviði. Með öðrum orðum: Ekki er nóg að gert á sviði anda, sálar og trúar. Prestsþjónustan er of lítil.
Nú þykist ég vita að þau sem rýna í tölur og áætlanir og ráða þessum niðurskurði sjái sér leik á borði með því að færa þessa þjónustu á herðar sóknarprestum eða láta þjóðkirkjuna taka að sér launagreiðslur til sjúkrahússpresta. Því er fljótsvarað að sóknarprestar á höfuðborgarsvæðinu hafa nú þegar allt of mikið að gera. Heilbrigðisþjónustan sýndi mikið og gott frumkvæði með því að ráða í stöður sjúkrahússpresta. Þar þekktu sjúkrahúsin sinn vitjunartíma. En ábyrgð á launum starfsmanna sjúkrahúsa verður ekki velt yfir á aðra. Niðurskurður hlýtur að þurfa að taka til allra starfsstétta. Og svo hvarflar það að manni að spyrja hvort vandinn leynist ekki að nokkru leyti, ef ekki miklu, í launagreiðslum til lækna? Möguleikar þeirra til tekjuöflunar eru margvíslegir og margslungnir. Hvernig væri að stuðla að meiri jöfnuði innan sjúkrahúsa? Sjúkraliðar eru til dæmis stétt sem innir af hendi mikilvæga þjónustu á skammarlegum launum. Í þessu sambandi má minna á réttlætiskenningu hins heimsþekkta heimspekings, John Rawls, sem lést á liðnu ári. Ef fara ætti eftir kenningu hans að breyttu breytanda skal loka fulltrúa heilbrigðisstétta inni á fundi þar sem ákveða skal kaup og kjör þannig að hver og einn einstaklingur viti ekki hvort hann verður skurðlæknir eða sjúkraliði, hjúkka eða ræstir, þegar út er komið. Hver mundi taka sjéns á að ætla öðrum lág laun og þurfa svo hugsanlega að búa við þau sjálf/ur? En þetta var nú út úr dúr.

Stundum fennir yfir staðreyndir í lífi þjóðar. Í því sambandi er gott að rifja upp að öll heilbrigðisþjónustan, eins og hún leggur sig, er sprottin úr starfi kirkjunnar til forna. Kristin kirkja stofnaði fyrstu sjúkrahúsin hér á landi og fyrstu
elliheimilin. Klaustrin tóku að sér þjónustu við sjúka og deyjandi fyrir mörg hundruð árum. Skólakerfið er líka allt sprottið upp úr starfi kirkjunnar. Og heilbrigðiskerfið byggir alla sína hugmyndafræði á grunni kristinnar siðfræði. Hvað er verið að tjá með því að segja upp öllum sjúkrahússprestum eða jafnvel bara fækka þeim? Er verið að segja að hin andlega hlið sjúklinga skipti minna máli en skrokkurinn? Að andleg líðan sjúklinga og aðstandenda þeirra sé aukaatriði?

Með því að vísa til uppruna sjúkrahúsþjónustu í umræðunni um sjúkrahússpresta er ég að halda á lofti þeirri skoðun að þeir séu í raun fulltrúar hjartans sem slær taktföstum slögum umhyggju á viðkomandi stofnunum. Þar með er ég ekki að segja að aðrar starfsstéttir séu ekki líka að vinna í trú og af köllun.

Heilbrigðiskerfið hvílir á gildagrunni kristinnar trúar og um það má aldrei taka ákvarðanir með ísköldum huga einum heldur spyrja á hverjum tíma hjartað hlýtt um leið. Sú hætta vofir yfir í umræðunni um heilbrigðiskerfið almennt talað að hagkvæmnisjónarmið ein verði látin ráða ferð, hagtölur og reglustikur verði megin verkfærin.

Skerum ekki hjartað úr þessum stofnunum. Að fórna sjúkrahússprestum í fjárhagsvanda sjúkrahúsa er álíka gæfulegt og að skera niður í skólum með því að segja upp öllum íslenskukennurum.

url: http://ornbardur.annall.is/2012-03-01/svor-vid-spurningum-5-serthjonustupresta/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli