örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Passíusálmarnir á Rás 1 · Heim · Stærsti skuldavandinn leystur »

Fréttatilkynning vegna framboðs

Örn Bárður @ 21.24 18/2/12

biskup2

Eftir langa umhugsun og hvatningu,
bæði leikra og lærðra,
hef ég ákveðið
að gefa kost á mér
til kjörs í embætti biskups Íslands.

Ég hef fjölþætta starfsreynslu innan kirkjunnar.
Ég hef verið leikmaður í kirkjunni,
djákni, aðstoðarprestur,
prestur og sóknarprestur,
verkefnisstjóri og fræðslustjóri.
Í félagsstarfi þar sem ég hef verið þátttakandi hef ég oft verið valinn til forystu.

Ég þekki því flest af því sem snýr að hinu innra starfi kirkjunnar og var starfsmaður á Biskupsstofu í níu ár. Þá þekki ég vel til starfa biskups og þeirra sem með honum vinna að mikilvægum verkefnum í þágu kirkju og kristni í landinu. Þá hef starfað við endurskoðun og rekið fyrirtæki,

Ég er fæddur og uppalinn á Ísafirði og bjó þar fram á 18. aldursár. Þó ég hafi búið á höfuðborgarsvæðinu í áratugi hef ég ætíð litið á mig sem Vestfirðing og tel mig ekki síður hafa skilning á aðstæðum kirkjunnar á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu., Ég hef heimsótt söfnuði um land allt og haldið námskeið og fundi með safnaðarfólki árum saman.

Kirkjan er til þess kölluð að þjóna. Hún er samfélag trúaðra þar sem allir eru jafnir og sitja við sama borð. Altarisgangan er tákn um þennan jöfnuð á sama tíma og hún tjáir djúpa elsku Guðs. Vígðir þjónar eru ekki öðrum æðri. Embætti kirkjunnar eru hlutverk, en ekki eign eða upphefð þeirra sem þeim gegna. Biskup er fremstur meðal jafningja. Hann er ekki framkvæmdastjóri í fyrirtæki heldur gegnir hann andlegri þjónustu við alla kirkjuna. Hann er prestur prestanna og þar með safnaðanna allra. Biskup má ekki ganga í skrifstofubjörg og fjarlægjast almenning. Biskup gegnir margþættu starfi og þarf að vera vel að sér í mörgu. Hann þarf að verja kenningu kirkjunnar og vera til leiðbeiningar um hana. Hann þarf að kunna skil á rekstri og stjórnun, vera læs á ársreikninga og rekstur. Hann þarf að vera góður í mannlegum samskiptum og hann þarf að vera áheyrilegur prédikari og kennimaður. Starfið er vissulega krefjandi en í því sambandi er gott að minnast orða postulans: „Náð mín nægir þér því að mátturinn fullkomnast í veikleika.“ (2. Korintubréfi 12.9). Enginn gegnir biskupsþjónustu einn og óstuddur.

Kirkjan gengur nú í gegnum erfiða tíma og því þarf að leggja áherslu á að þétta raðirnar, sætta fólk og beina sjónum þess að sameiginlegu markmiði kirkjunnar, sem er að boða þjóðinni trú á Krist, kærleika hans og miskunn. Upprisutrúin gefur okkur fyrirheit um að líta á erfiðleikana sem blessun en ekki böl. Prófraun þessi getur hert og eflt kirkjuna ef við beinum huga okkar að því að sjá í erfiðleikunum tækifæri til að bæta þjónustuna, efla samstöðuna, trúna, vonina og kærleikann. Undanfari alls þessa er iðrun og yfirbót. Kirkjan þarf að líta í eigin barn í auðmýkt og í trú á Guð sem elskar og fyrirgefur. Þjóðkirkjan þarf að snúa vörn í sókn, verða „sóknarkirkja“ sem horfir vondjörf fram á veginn í öruggri vissu um góðan árangur undir leiðsögn Drottins sem sagði:

„Óttast eigi því að ég er með þér, vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með sigrandi hendi minni.“ (Jes 41.10)

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á þessari slóð:

http://ornbardur.annall.is/2012-02-16/eg-gef-kost-a-mer-i-embaetti-biskups-islands/

Örn Bárður Jónsson
s. 893 2311

url: http://ornbardur.annall.is/2012-02-18/frettatilkynning-vegna-frambods/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli