örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Gildahlöður og menningarbylting · Heim · Svar við opnu bréfi um trú og skóla »

Oddur Geirsson 1921-2010

Örn Bárður @ 17.21 26/10/10

oddurgeirssonMinningarorð
Oddur Geirsson
pípulagningarmeistari
1921-2010

Ræðuna er hægt að lesa hér fyrir neðan.
Einnig geturðu hlustað á hana
með því að smella á
þríhyrninginn
sem birtist eftir næstu smellu:

Sálmasafnið í Biblíunni sem kennt er við Davíð konung hefst á sálmi um lífsspeki og hamingju. Þar er góðum manni líkt við fallegt tré:

Sæll er sá sem eigi fer að ráðum óguðlegra,
eigi gengur götur syndara
og eigi situr meðal háðgjarnra
heldur hefur yndi af leiðsögn Drottins
og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
Hann er sem tré gróðursett hjá lindum,
það ber ávöxt sinn á réttum tíma
og blöð þess visna ekki.
Allt, sem hann gerir, lánast honum.

Oddur Geirsson var maður sem líkja má við tré við vatnslind. Hann var vænn maður, myndarlegur á velli, heill og trúr í verkum sínum og frábær eiginmaður, tengdafaðir, faðir og afi. Hann var maður með rótakerfi eins og tré þurfa að hafa til að bera lauf og ávöxt. Vestur á Mýrum voru bernskuslóðir hans og þanga leitaði hann oft og þegar hann kom þangað á gamalsaldri sleppti hann stafnum og hljóp við fót niður í fjöru. Hann þekkti rætur sínar og skildi hið stóra samhengi alls sem er.

Land og haf mætast. Gamall maður stendur í fjöruborðinu. Hann þekkir landið, hefur lifað af því og af hafinu og nú veit hann að framundan er hin hinsta ferð yfir annað mikið haf. Á öðrum stað í fyrrnefndu sálmasafni horfir höfundurinn upp og leitar Guðs. Hann horfir til fjallanna og segir:

Ég hef augu mín til fjallanna,
hvaðan kemur mér hjálp?
Hjálp mín kemur frá Drottni,
skapara himins og jarðar.

Skáldið veit að öll hjálp er frá Guði, hinum hæsta. Oddur var frímúrari og sótti það starf af áhuga í áratugi. Hann gekk í Regluna 1959 og starfaði þar meðan hann gat. Frímúrarareglan er mannræktarfélag sem starfar á kristnum grundvelli og hjálpar mönnum að efla sig í þroska og góðum verkum. Oddur valdi sér einkunnarorð innan Reglunnar og þau eru svona: „Horfðu hærra“.

„Ég hef augu mín til fjallanna“ kvað Davíð konungur og hann sagði jafnframt:

Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu,
hann mun vernda sál þína.
Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu
héðan í frá og að eilífu.

Síðustu orðin um vernd í útgöngu og inngöngu eru lesin yfir hverju skírnarbarni, bænin um að Guð verndi okkur frá vöggu til grafar.

Oddur Geirsson fæddist á Litla-Kálfalæk, Hraunhreppi, Mýrasýslu 10. maí 1921 og lést á hjartadeild Landspítalans 15. október 2010.

Foreldrar hans voru Geir B. E. Benediktsson verkamaður (f. 16.5. 1897, d. 12.4. 1983) og Sigríður G. Gottskálksdóttir saumakona (f. 29.10. 1897, d. 30.11. 1947). Bræður Odds voru Benedikt J. Geirsson pípulagningameistari (f. 1924, d. 1998) og Gunnar Geirsson tæknifræðingur (f. 1934, d. 2010), báðir látnir. Oddur ólst upp á Litla-Kálfalæk, í Hólmakoti og Skutulsey. Foreldrar hans skyldu þegar Oddur var barn að árum og fluttist hann með móður sinni til Reykjavíkur 5 ára. Þau tóku reyndar aftur saman síðar. Hann gleymdi því aldrei þegar hann kom af Mýrunum í fyrsta sinn til Reykjavíkur og sá einhvern stóran kassa á bryggjunni, kassa á hjólum, sem hann var látinn setjast inn í. Svo fór kassinn af stað. Þetta var fyrsti bíllinn sem hann sá. En um leið og kassinn fór að hreyfast heyrðist mikið hljóð og hann spurði: Er þetta Þorgeirsboli? Nei, barnið mitt, þetta var hljóð úr skipsflautu.

Mamma vann við saumaskap í Reykjavík og fjölskyldan bjó á saumastofunni, í einu herbergi. Snemma hvern morgun þurftu þau að taka saman allt sitt hafurtask áður en starfsfólk mætti á saumastofuna því herbergið var jafnframt vinnustaður. Hann gekk í skóla hér í Reykjavík og tók snemma virkan þátt í skátahreyfingunni og var árum saman virkur í hjálparsveit skáta. Samband hans og móður hans var einkar sterkt. Hún lést ung og yngri bræður Odds áttu þá vísan stuðning hjá þeim ungu hjónunum, Margréti og honum.

Hann lauk fullnaðarprófi frá Miðbæjarskólanum 1935 og vann meðal annars við verslunarstörf, blikksmíði o.fl. Hann lauk námi í pípulögn frá Iðnskólanum 1951 og fékk meistararéttindi 1955. Hann starfaði að iðn sinni eftir það í 45 ár. Hann var meðlimur í Sveinafélagi pípulagningamanna og m.a. formaður í tvö ár. Félagi í Félagi pípulagningameistara frá 1955, ritari í tvö ár. Oddur átti farsæla starfsævi.

Oddur var myndarlegur maður og jafnan snyrtilegur til fara. Hann fór sem ungur maður til vinnu frakkaklæddur með hatt. Hann var gæfumaður og gæfa hans var ekki hvað minnst fólgin í því að hafa eignast góða konu.

Hinn 21. ágúst 1943 kvæntist Oddur eftirlifandi eiginkonu sinni Margréti Einarsdóttur húsmóðir f. 6. ágúst 1925. Þau gengu í hjónaband he´r í Fríkirkjunni og þegar þau áttu 50 ára hjúskaparafmæli komu þau hingað go hittu prestinn til þess að rifja upp heitin sín og þakka fyrir það sem á undan var gengið. Foreldrar hennar voru Einar Einarsson blikksmíðameistari (f. 18.5. 1880, d. 23.6. 1938) og Sigríður Jónsdóttir húsmóðir (f. 11.5. 1896, d. 28. 12. 1963). Margrét fæddist í Reykjavík en á ættir að rekja undan Eyjafjöllum.

Oddur og Margrét bjuggu fyrstu hjúskaparár sín í Reykjavík en fluttu árið 1965 í Holtagerði 64 í Kópavogi, þar sem þau bjuggu í 42 ár, en síðustu 3 árin á Sléttuvegi 19.

Börn Odds og Margrétar eru: 1) Einar, læknir f. 1943. Eiginkona hans er Eva Østerby hjúkrunarfræðingur. Börn þeirra eru: Margrét og Snorri. 2) Sigríður Sesselja meinatæknir f. 1945. Eiginmaður Sigurður Jónsson skrifstofumaður sem er látinn. Dóttir þeirra er Lára Björk. 3) Erna sjúkraliði f. 1951, gift Sæmundi Sæmundssyni bifreiðastjóra sem er látinn. Þau skildu. Synir þeirra eru Oddur, Jón Trausti. 4) Sigrún íslenskufræðingur f. 1956, gift Vilmundi Gíslasyni framkvæmdastjóra. Dætur þeirra eru Sigríður Elsa og Margrét Lilja. 5) Geir auðlindafræðingur f. 1962, kvæntur Rögnu Björgu Guðbrandsdóttur félagsráðgjafa. Synir þeirra eru Oddur, Einar Hugi og Heiðar Ingi. Barnabörnin eru 10 og langafabörnin 11 og 2 á leiðinni – eftir því sem næst verður komist!

Oddur var gæfumaður og gæflyndur. Hann þurfti ekki að æsa sig í samskiptum við fjölskylduna. Börnin muna gæsku pabba og yfirvegun. Auðvitað þurfti hann að halda fast utan um hópinn og setja þeim lífsreglurnar en það var allt gert í miklu hófi og af stillingu. Dóttirin ein minnist þess að hann hafi einu sinni tekið hana á loft og haldið henni þannig að hann þóttist hella úr henni óþægðinni í klósettið. Það var nú allt og sumt. Þegar ég heyrði þessa skemmtilegu sögu varð mér á orði: Það var ekta hirting að hætti pípulagningameistara!

Börnin minnast hans sem góðs föður sem vann af trúmennsku og heilindum, var reglusamur og traustur maður. Hann þráði að börnin hans fengju tækifæri til að mennta sig og gerði allt sem í hans valdi stóð til að styðja við bakið á þeim í þeim efnum. Hann hafði sjálfan langað til frekara náms, einkum hefði hann viljað læra læknisfræði. Öll störf í þjóðfélaginu eru mikilvæg. Oddur lagði pípur af sinni vandvirkni og snilld en hann varð að leita til annars þegar pípurnar í honum sjálfum þurftu viðhalds við. Hann fór í svonefnda hjáveituaðgerð í London árið 1984 og tóks hún vel. Hann hætti þá að reykja pípu, tók með sér tvær pípur til London en skildi þær eftir þar.

Hann var ljúfur maður og geðgóður. Börnin minnast sunnudagsmorgnanna þegar pabbi lagaði skátakakó og bar fyrir þau með brauði, hlustað var á útvaprsmessuna meðan mamma eldaði. Lífið var í föstum skorðum. Á virkum dögum kom pabbi gjarnan heim í hádeginu til að borða en alltaf gaf hann sér tíma til að leika við börnin meðan þau voru ung. Hann tók virkan þátt í heimilisstörfum og var langt á undan mörgum af sinni samtíð hvað það varðar.
Hann var Sjálfstæðismaður í gegn og vissi glöggt hvar hann stóð á kaldastríðsárunum þegar línur voru mjög skýrar í pólitík og harka í umræðum. En þegar dóttir hans bauð sig fram í sveitastjórnarkosningum úti á landi og fyrir allt annan flokk sagði hann þegar dóttirin færði honum tíðindin með kvíða: „Jæja, elskan mín, það er sama hvaðan gott kemur.“

Oddur og Margrét voru gestrisin og hann sérstaklega gefinn fyrir góðan mat og ef gestir sóttu þau hjónin heim hafði hann gjarnan gott vín með og bauð svo upp á líkjör á eftir. Hann naut þess að vera upp á klæddur og þegar hann undirbjó sig fyrir frímúrarafundi gaf hann sér góðan tíma, fór í bað, klæddi sig í kjólfötin, kyrrði hug og sál með íhugun í stofunni áður en hann lagði af stað niður á Skúlagötu.

Oddur og Margrét ferðuðust oft saman hér innanlands og til útlanda. Þau fóru í eftirminnilega ferð til Egyptalands í hópi frímúrara og hann hélt erindi í Reglunni um ferðina eftir að heim kom. Þau fóru oftar en einu sinni til Rhodos og þar sótt hann frímúrarafundi og einnig í Bandaríkjunum. Hann vann mikið í sjálfboðavinnu við byggingu Regluheimilisins við Skúlagötu á sínum tíma og hafði mikla gleði af því að vera Frímúrari. Þau nut þess að fara á systrakvöld á hverju ári sem er síðkjólaball og börnin sem voru löngu farin að heiman komu í heimsókn til að sjá hvað þau voru fín.

Hann var trúaður maður og þau hjón kenndu börnum sínum bænir og vers í bernsku og börnin voru þátttakendur í starfi KFUM&K í Kópavogi. Oddur var alla tíð fróðleiksfús, las mikið og safnaði góðum bókum. Hann las einnig erlendar bækur á þýsku og ensku. Á sínum yngri árum vann hann m.a. sem túlkur á stríðsárunum.

Oddur og Margrét ræktuðu vel sinn garð og studdu börnin. Þegar hjónaband dóttur þeirra leystist upp var hún boðin velkomin með drengina sína til þeirra. Fyrir það allt þakkar dóttirin nú af heilu hjarta. Margrét vann úti um tíma eftir að börnin voru farin að heiman en þegar barnabörnin komu eitt af öðru tók hún sér frí frá vinnu aftur og aftur og var börnum sínum til stuðnings. Þau hjónin bjuggu til að mynda í 6 mánuði í Seattle þar sem Geri var við nám, gættu barna og nutu þess að vera í ömmu og afahlutverki í annarri heimsálfu.

Ég flyt ykkur kveðjur frá fjarstöddum ástvinum, frá syni Ernu, Jóni Trausta Sæmundssyni, og konu hans Grace Fu sem eru í Kína; frá dóttur Sigríðar, Láru Björk og Sigursteini manni hennar, sem eru í Frakklandi og frá tengdadóttur Ernu, Eydísi, sem er í Danmörku.

Margrét sér nú á eftir lífsförunaut sínum og þakkar gott hjónaband. Hann var að hennar sögn góður maður, samband þeirra var gott, hjónabandið fallegt, þau voru samstiga og hjálpuðust að, efnin voru ekki mikil framan af en kærleikurinn alltaf nógur. Í hjónabandinu ríkti gleði og virðing og þau fundu góðar lausnir á öllum málum. Börnin segja að pabbi hafi litið á mömmu sem drottninguna sína.

„Horfðu hærra“, voru einkunnarorð hans í frímúrarastarfinu og Davíð konungur sagði: „Ég hef augu mín til fjallanna“.

Við ævilok horfum við saman til fortíðar og þökkum ævi góðs manns en sjónum okkar er um leið beint hærra, upp til hans sem allt hefur í hendi sinni, allt elskar og allt geymir í náðarfaðmi sínum.

Við kveðjum mætan mann, Odd Geirsson, og þökkum það að hann þekkti alla ævi rætur sínar og tengsl við hið stóra samhengi. Rætur og æðar, leiðslur og pípur, allt eru þetta skyld fyrirbrigði. Mestu skiptir að allt sé rétt lagt og rétt tengt. Þá farnast manni vel eins og segir í 1. Sálmi Davíðs.

Guð gefi okkur náð til þess að tengja rétt og hafa ræturnar þannig nærri lífsins vatni að þær vökvi stofninn og gefi lauf og ávöxt í lífi okkar.

Blessuð sé minning Odds Geirssonar og Guð blessi þig.

Amen.

- – -

Ritningarlestrar við athöfnina:

Síraksbók 1.1-13

1Öll speki er frá Drottni,
hjá honum er hún að eilífu.
2 Hver fær talið sandkorn á sjávarströnd,
dropa regns eða daga eilífðar?
3 Hver fær kannað hæð himins, víðáttu jarðar,
undirdjúpin eða spekina?
4 Fyrri öllu var spekin sköpuð,
frá eilífð voru skilningur og hyggindi.
5 Orð Guðs í upphæðum er lind spekinnar,
eilíf boð hans vegir hennar.[1]
Vantar í sum grísk handrit.
 
6 Hverjum opinberaðist upphaf spekinnar?
Hver komst fyrir hulin rök hennar?
7 Hverjum opinberaðist þekking á spekinni
og hver hlaut skilning á allri reynslu hennar?[2]
Vantar í sum grísk handrit.
 
8 Drottinn einn er spakur, ógurlegur mjög,
situr í hásæti sínu.
9 Hann er sá sem spekina skóp,
leit á hana og virti vel
og veitti henni yfir öll sín verk.
10 Allt sem lifir fékk hlutdeild í þeirri gjöf hans,
hann veitir þeim sem elska hann ríkulega af henni.
11 Að óttast Drottin er heiður og vegsemd,
gleði og fagnaðarsveigur.
12 Að óttast Drottin fyllir hjartað fögnuði,
veitir ánægju, gleði og langlífi.
13 Sá sem óttast Drottin mun hljóta sælan endi,
njóta blessunar á banadægri.

Jóhannes 21.1-14

Jesús birtist við Tíberíasvatn

1Eftir þetta birtist Jesús lærisveinunum aftur og þá við Tíberíasvatn. Hann birtist þannig: 2Þeir voru saman: Símon Pétur, Tómas, kallaður tvíburi, Natanael frá Kana í Galíleu, Sebedeussynirnir og tveir enn af lærisveinum hans. 3Símon Pétur segir við þá: „Ég fer að fiska.“
Þeir segja við hann: „Við komum líka með þér.“ Þeir fóru og stigu í bátinn. En þá nótt fengu þeir ekkert.
4Þegar dagur rann stóð Jesús á ströndinni. Lærisveinarnir vissu samt ekki að það var Jesús. 5Jesús segir við þá: „Drengir, hafið þið nokkurn fisk?“
Þeir svöruðu: „Nei.“
6Hann sagði: „Kastið netinu hægra megin við bátinn og þið munuð verða varir.“ Þeir köstuðu og nú gátu þeir ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn. 7Lærisveinninn, sem Jesús elskaði, segir við Pétur: „Þetta er Drottinn.“ Þegar Símon Pétur heyrði að það væri Drottinn brá hann yfir sig flík – hann var fáklæddur – og stökk út í vatnið. 8En hinir lærisveinarnir komu á bátnum, enda voru þeir ekki lengra frá landi en svo sem tvö hundruð álnir, og drógu netið með fiskinum.
9Þegar þeir stigu á land sáu þeir fisk lagðan á glóðir og brauð.
10Jesús segir við þá: „Komið með nokkuð af fiskinum sem þið voruð að veiða.“
11Símon Pétur fór í bátinn og dró netið á land, fullt af stórum fiskum, eitt hundrað fimmtíu og þremur. Og netið rifnaði ekki þótt þeir væru svo margir.
12Jesús segir við þá: „Komið og matist.“ En enginn lærisveinanna dirfðist að spyrja hann: „Hver ert þú?“ Enda vissu þeir að það var Drottinn. 13Jesús kemur og tekur brauðið og gefur þeim, svo og fiskinn. 14Þetta var í þriðja sinn sem Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum.

url: http://ornbardur.annall.is/2010-10-26/oddur-geirsson-1921-2010/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli