örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Mantran og viskan sanna · Heim · Gunnlaugur Finnsson 1928-2010 »

Stefán Sörensson 1926-2010

Örn Bárður @ 17.59 15/1/10

stefansorensson
Minningarorð

Stefán Sörensson
1926-2010
fv. háskólaritari
Útför frá Neskirkju 15. janúar 2010 kl. 15
Jarðsett í Gufuneskirkjugarði

Ræðuna er hægt að lesa hér fyrir neðan og ennfremur geturðu hlustað á hana með því að smella á þríhyrninginn sem birtist hér á eftir.

I.
Hann vaknaði að morgni andlátsdagsins, vaknaði af draumi. Hann var að syngja og stór hópur fólks hlýddi á fagran sönginn. Fáum stundum síðar var hann allur. Hann hafði sungið sinn svanasöng. Stefán Sörensson hafði alla tíð yndi af söng og við heyrðum hér fyrir athöfnina söng með Tónakvartettinum sem hann söng með um árabil. Söngur var honum hjarta nær og fátt gleður eins hjarta manns og söngur að ekki sé talað um tilbeiðslusöng til hins hæsta.

„Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi,
lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.“ (Slm 104.33)

Þannig kvað Davíð konungur sem á öðrum stað orti líka þetta.

„Syngið Drottni nýjan söng,
syngið Drottni, öll lönd,
syngið Drottni, lofið nafn hans,
kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.“ (Slm 96.1-2)

Söngur hefur einkennt trúarlega tilbeiðslu um aldir og árþúsund. Manninum er eðlislægt að tjá sig í tónum, lyfta hug og rómi í hæðir og tigna hið stóra samhengi hvort sem það er í formi mansöngva, gamanvísna eða sálma. Allur söngur er tjáning á einhverju, tjáning tilfinninga eða geðslags, gleði eða sorgar, gamans eða alvöru. Og þegar dýpst er skyggnst varðar það allt tilvist og trú eða lífsafstöðu.

II.
Með hvaða hætti skilgreinir maður sjálfan sig og hver eru kennileiti ævinnar? Eitt er víst að Tónakvartettinn var meðal stóru kennileitanna í lífi Stefáns. Hann hafði mikið yndi af að syngja með félögunum. Tónakvartettinn skipuðu þeir Ingvar Þórarinsson, sem söng fyrsta tenór, Stefán bróðir Ingvars annan tenór. Eysteinn Sigurjónsson söng fyrsta bassa og Stefán Sörensson annan bassa.

Stefán Sörensson var fæddur 24. október 1926 á Kvíslarhóli í Tjörneshreppi, S- Þingeyjarsýslu. Hann lést á heimili sínu Kirkjusandi 3, fimmtudaginn 7. janúar. Foreldrar hans voru Sigþrúður Stefánsdóttir húsmóðir, fædd á Reyðarfirði og Sören Árnason, bóndi, fæddur í Reykjahreppi í S – Þingeyjarsýslu. Stefán var næst elstur 5 systkina. Systurnar eru látnar, Una Björg og Lára Dagmar en bræðurnir Árni og Sigurbjörn lifa. Hálfbróðir þeirra sammæðra var Jóhannes Þorsteinn Jóhannesson sem er látinn.

Stefán var staðráðinn í að mennta sig og fór til náms í Menntaskólann á Akureyri, að mestu fyrir eigin dugnað og staðfestu og lauk þaðan stúdentsprófi en las síðan lögfræði við HÍ. Hann var góður námsmaður, skipulagður og samviskusamur. Á námsárunum var hann á kafi í íþróttum.

Ungur eignaðist hann sitt fyrsta barn, Auði, með Hólmfríði Hólmgeirsdóttur, en ekkert varð frekar úr þeirra sambandi. Auður var gift Sæmundi Guðvinssyni sem er látinn. Seinni maður hennar er Herbert B. Jónsson.

Svo kom að því að hann festi ráð sitt.

Fyrri  eiginkona Stefáns var Ásta Ásmundsdóttir sem er látin. Sonur þeirra er Bragi Þór, kvæntur Svölu Karlsdóttur. Stefán og Ásta skildu eftir ríflega tveggja áratuga hjónaband.

Þá fann hann hana Perlu Kolka og gengu þau í hjónaband 1974. Börn hennar af fyrra hjónabandi eru Björg, Margrét, Ása, Elín og Páll.

III.
Ég talaði áðan um kennileiti ævinnar. Þau voru mörg í lífi Stefáns. Makar og börn, barnabörn og barnabarnabörn, vinnustaðir og samferðafólk voru stórir þættir í því landslagi. En líklega má þó fullyrða að stærsta kennileitið í lífi hans hafi verið móðurmissirinn. Aldrei komst hann í rauninni yfir þann harm. Hver getur náð sér af því að missa móður í bernsku? Slíkt inngrip í tilvistina hlýtur að marka persónuna fyrir lífstíð. Úrvinnsla sorgar skiptir miklu og þau sem Stefáni standa næst telja að þessi atburður hafi mótað afstöðu hans til lífsins og tilverunnar á mjög afgerandi hátt. Sumir eiga til að mynda erfitt með að trú á Guð eftir að hafa orðið fyrir ótímabærum ástvinamissi. Við erum svo gjörn á að álykta um Guð út frá forlagatrú eða misskilinni afstöðu til almættis Guðs. Almætti Guðs og frjáls vilji mannsins eru megin þættir í skilningi okkar á tilverunni. Guð tekur ekki móður frá börnum en sum börn missa móður og föður. Grundvallar kenning kristninnar er um það að Guð hafi gerst maður í Jesú Kristi, sem þjáðist á krossi og dó friðþægingardauða. Sonur Guðs fór ekki varhluta af þjáningu og mótlæti. Við lifum í heimi slysa og sjúkdóma og að baki þeim er enginn leikbrúðustjórnandi sem stýrir þessum eða hinum til sjúkleika eða slyss. Samband Guðs við sköpun sína er með öðrum hætti. Hann hefur skapað okkur með frjálsan vilja til skoðana og athafna í heimi sem er fallinn og ófullkominn, heimi þar sem slys og sjúkdómar setja mark sitt á mannlífið en einnig fegurð og dásemd, gleði og gaman.

IV.
Stefán var fremur hlédrægur maður. Hann var nákvæmur og heiðarlegu enda var hann kallaður til ábyrgðarstarfa. Hann var lögfræðingur að mennt og starfaði norður á Húsavík sem bankastjóri Samvinnubankans þar í bæ í ein 5 ár en þar á undan hafði hann verið fulltrúi hjá sýslumanni í 13 ár. Hann var varfærinn í fjármálum og kunni vel að fara með ábyrgð og því kallaði þáverandi háskólarektor, Ármann Snævarr, hinn trausta norðanmann suður í starf háskólaritara. Þetta var á þeim tíma þegar fundargerðir voru ritaðar beint í bækur á stað og stund og ekki spillti að rithönd Stefáns var fögur og skýr og auðvelt að lesa það sem máli skipti í gerðabókum Háskólans og kom úr penna hans. En ritarastarfið var fólgið í öðru og meiru en að rita fundargerðir. Hann gegndi lykilhlutverki í starfi skólans og sá til að mynda um allar fjárreiður Háskólans. Um hendur hans fóru stórar fúlgur fjár á ári hverju.

Stefán var ekki bara söngvinn, frábær skrifari og traustur fjárgæslumaður, hann var einnig á sínum yngri árum íþróttamaður góður, átti til að mynda Íslandsmet í þrístökki í nokkur ár þar til Vilhjálmur Einarsson, tók það af honum og vann silfur á Ólympíuleikunum í Melbourne. Stefán var liðlega vaxinn, léttur í spori og fjaðurmagnaður, laglegur maður og myndarlegur. Hann fór á Ólympíuleikana í London 1948 til að keppa en meiddist á hásin á æfingu og gat því ekki keppt. Heimsmetið þá í þrístökki var 16 metrar en Stefán hafði stokkið 15.45.

Stefán naut sín jafnan vel heima við bóklestur og að hlusta á tónlist, hann var stálminnugur alla tíð og fróður um margt. Hann var ekkert sólginn í mannfagnaði en varð oft að mæta á margskonar samkomur vegna starfa sinna eins og til að mynda hvítvínsboðin á vegum rektors sem oft voru haldin á laugardögum fyrir hinar ýmsu deildir skólans en Stefáni þótti verst að þau voru haldin á sama tíma og enski boltinn var í sjónvarpinu! En hann hafið auðvitað líka gaman af samkomum á vegum skólans og naut þess til að mynda að syngja glunta með Valdimari Örnólfssyni á Háskólahátíðinni.

Hann kunni ógrynni vísna og mundi þulur, kvæði og ljóð. Nóg var að kveikja í honum með einni hendingu og þá rann verkið allt upp úr honum fyrirhafnarlaust. Margt sagði hann um ævina sem fólkið hans vildi nú gjarnan eiga á bandi.

Stefán var hlýr maður og notalegur í viðkynningu. Hann var smekkmaður og heimili hans bar þess jafnan vott að þar bjó fagurkeri og listunnandi.

Perla og hann eignuðust fagurt heimili og líka sumarbústað í Hvalfirði og þar var mikið rótað í mold og puðað við ræktun með góðum árangri. Þau nutu þess að dvelja þar og fjölskyldan kom þangað oft. Barnabörnin nutu þess að fara með afa í fjöru en hann var alla tíð mikill náttúruunnandi en fannst Perla vera helst til mikið borgarbarn og stríddi henni með því að hún þekkti vart muninn á söng lóu og krumma. Á heimilinu var Stefán fjármálastjóri en Perla framkvæmdastjóri, heyrði ég sagt í gamansemi þegar ég hitti fólk til að undirbúa þessa athöfn. Þau voru góðir gestgjafar og fólki leið jafnan vel á fögru heimili þeirra í góðum og gefandi samræðum. Þau ferðuðust víða og fóru í einar 34 ferðir til Kanarí, oft til Ameríku og margra landa Evrópu. Stefán var mikið fyrir tölfræði og hélt bókhald yfir allar ferðir, gönguleiðir og gönguferðir, og hvað hann fann á hverjum stað. Allt var fært til bókar eins og vandvirkum háskólaritara sæmdi.

Stefán fylgdist alla tíð vel með íþróttum og þegar hann var á Húsavík þá náði hann sendingum frá BBC með sérstöku loftneti sem hann strengdi milli húsa yfir götuna til að geta fylgst með Manchester City sem var hans uppáhalds lið frá barnæsku. Þá var hann einnig góður bridge-spilari.

Hér kveður hann margmenni og þakkar fyrir góð kynni á langri og farsælli vegferð. Hingað senda kveðjur sínar þær, Björg Kolka Melkun frá Houston í Texas og Sara Kolka Courageux í Kaupmannahöfn.

V.

„Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi,
lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.“ (Slm 104.33)

Stefán var söngmaður og söngurinn var honum efst í huga til hinstu stundar. Upplifun hans í svefnrofunum á dánardegi var ef til vill á mærum tveggja heima. Hann heyrði söng. Söngurinn fylgir trúnni og trúin geymir margar myndir og líkingar um söng í þessu lífi og hinu komanda. Þegar menn reyna að gera sér í hugarlund hvernig lífið handan grafar lítur út þá koma gjarnan fram í hugann fagurfræðilegar myndir, svo sem um gleði og grænar grundir, nóttlausa voraldarveröld – svo gripið sé til kveðskapar manns sem þráði heimkynni sín úr fjarska – söngur og birta, heil heilsa og óbjagað líf. Við eigum okkur öll von um líf án þjáningar og erfiðleika. Sú von býr í öllum mönnum og hefur búið með mönnum á öllum tímum, á öllum stöðum og innan allra trúarbragða. Það eitt og sér segir kannski meira en margt annað um að lífið sé stærra og meira, dýpra og leyndardómsfyllra, en það sem blasir við okkur hér og nú. Í eilífðinni verður Guð allt í öllu, hann sem þerra mun öll tár og ljúka upp leyndardómum lífsins. Þá munum við skilja allt eins og postulinn Páll orðar það í von sinni í hinum þekkta kærleiksóði:

„Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu,
en þá munum vér sjá augliti til auglitis.
Nú er þekking mín í molum
en þá mun ég gjörþekkja
eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn.
En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt,
en þeirra er kærleikurinn mestur.“
(1. Korintubréf 13.12-13)

Við kveðjum Stefán Sörensson með kærleika í hug og hjarta. Við felum hann hinu stóra samhengi, himni Guðs og eilífð hans. Guð blessi minningu Stefáns Sörenssonar og Guð blessi þig.

Amen.

url: http://ornbardur.annall.is/2010-01-15/2006/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli