örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« ORÐIÐ – hugtök, rætur – prédikun á jóladag 2009 · Heim · Palestína »

Jóhannes – maður ljóss og lífs

Örn Bárður @ 14.20 27/12/09

johannes-orninn Hugvekja flutt í messu í Neskirkju 27. desember 2009 kl. 11.
Dagurinn er helgaður Jóhannesi guðspjallamanni.
Lesið var upphaf 1. Jóhannesarbréfs og úr guðspjalli Jóhannesar 20. kafla. Sjá hér fyrir neðan. Þú getur hlustað á ræðuna hér á eftir.

Jóhannes boðaði holdtekju Guðs á jörð á tímum þegar sumir héldu því fram að Sonur Guðs hefði einungis birst sem svipur, sem einskonar sýndarveruleiki. Þeir sem slíku héldu fram voru kallaði doketistar (af gríska orðinu dokeo sem merkir eitthvað sem sýnist, virðist vera). Svo var til annar flokkur manna sem nefndir voru gnostar eða gnostikerar (af gríska orðinu gnosis sem merkir þekking og héldu þeir því farm að einungis fyrir sérstaka þekkingu og innsæi gætu menn trúað). Jóhannes boðar að hann hafi heyrt og séð Krist og líka snert hann. Hann var enginn sýndarveruleiki, hann var Guð kominn til manna sem maður af holdi og blóði.

Hugvekjan var flutt blaðalaust og er upptaka af henni hér á bak við þríhyrninginn.

Textaröð:  A
Pistill:  1Jóh 1.1-10

Efni vort er það sem var frá upphafi, það sem við höfum heyrt, það sem við höfum séð með augunum, það sem við horfðum á og hendurnar þreifuðu á, það er orð lífsins. Og lífið var opinberað og við höfum séð það og vottum um það og boðum ykkur lífið eilífa sem var hjá föðurnum og var opinberað okkur. Já, það sem við höfum séð og heyrt það boðum við ykkur einnig, til þess að þið getið líka haft samfélag við okkur. Og samfélag vort er við föðurinn og við son hans Jesú Krist. Þetta skrifum við til þess að fögnuður vor verði fullkominn.
Og þetta er boðskapurinn sem við höfum heyrt af honum og boðum ykkur: „Guð er ljós og myrkur er alls ekki í honum.“ Ef við segjum: „Við höfum samfélag við hann,“ og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum við og iðkum ekki sannleikann. En ef við göngum í ljósinu, eins og hann sjálfur er í ljósinu, þá höfum við samfélag hvert við annað og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar okkur af allri synd.
Ef við segjum: „Við höfum ekki synd,“ þá blekkjum við sjálf okkur og sannleikurinn er ekki í okkur. Ef við játum syndir okkar, þá er hann trúr og réttlátur svo að hann fyrirgefur okkur syndirnar og hreinsar okkur af öllu ranglæti. Ef við segjum: „Við höfum ekki syndgað,“ þá gerum við hann að lygara og orð hans er ekki í okkur.

Guðspjall:  Jóh 21.20-24
Pétur sneri sér við og sá lærisveininn, sem Jesús elskaði, fylgja á eftir, þann hinn sama sem hallaðist að brjósti hans við kvöldmáltíðina og spurði: „Drottinn, hver er sá sem svíkur þig?“ Þegar Pétur sér hann segir hann við Jesú: „Drottinn, hvað um þennan?“
Jesús svarar: „Ef ég vil að hann lifi þangað til ég kem, hverju skiptir það þig? Fylg þú mér.“ Því barst sá orðrómur út í söfnuðunum að þessi lærisveinn mundi ekki deyja. En Jesús hafði ekki sagt Pétri að hann mundi ekki deyja. Hann sagði: „Ef ég vil að hann lifi þangað til ég kem, hverju skiptir það þig?“
Þessi er lærisveinninn sem vitnar um allt þetta og hefur skrifað þetta. Og við vitum að vitnisburður hans er sannur.

url: http://ornbardur.annall.is/2009-12-27/johannes-madur-ljoss-og-lifs/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli