örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Páskamessur og páskahlátur í Neskirkju · Heim · Föstudaginn þunga í vorblíðu – ljóð »

Stefnuyfirlýsing: Frelsunarflokkur æra bónda

Örn Bárður @ 19.50 8/4/07

Elskaðu skjótfenginn gróða, árlega launahækkun,
sumarfrí á launum. Þráðu meir
af öllu tilbúnu. Óttastu
að þekkja nágranna þína og að deyja.

Úr ljóði eftir Wendell Berry sem lesa má í heild hér að neðan. ÖBJ snaraði á íslensku:

Elskaðu skjótfenginn gróða, árlega launahækkun,
sumarfrí á launum. Þráðu meir
af öllu tilbúnu. Óttastu
að þekkja nágranna þína og að deyja.

Og þú munt öðlast ljóra í eigin höfði.
Framtíð þín verður alls ekki dularfull,
ekki lengur. Hugur þinn verður gataður á kort
og læstur niðri í lítilli skúffu.

Þegar þeir vilja að þú kaupir eitthvað
munu þeir hringja. Þegar þeir vilja að þú
látir lífið fyrir hagnaðinn, munu þeir láta þig vita.
Já, kæru vinir, gerið eitthvað á hverjum degi,
eitthvað óútreiknanlegt. Elskið Drottinn.
Elskið veröldina. Vinnið fyrir ekki neitt.
Takið allt sem þið eigið og verið fátæk.
Elskið einhvern sem á það alls ekki skilið.

Fordæmið ríkisstjórnina og umfaðmið
þjóðfánann. Vonist eftir að lifa í hinu frjálsa
lýðveldi á forsendum þess.
Samsinnið öllu sem þið getið ekki
skilið. Lofið fáfræðina, því það sem maðurinn
hefur ekki séð, eyðileggur hann ekki.

Spyrjið þeirra spurninga, sem engin svör fást við.
Fjárfestið í þúsöldinni. Gróðursetjið rauðvið.
Segið að skógurinn sé aðal búgrein ykkar,
þessi sem þið ræktuðuð ekki,
sem þið munuð ekki lifa að uppskera.

Segið að laufunum verði safnað saman
þegar þau hafa rotnað í sverðinum.
Kallið það arðsemi. Spáið fyrir um slíkan hagnað.
Setjið traust ykkar á þá tvo þumlunga af moltu
sem safnast mun undir trjánum
hver þúsund ár.

Hlýðið á rotnunina – leggið við
hlustir og heyrið lágværan klið
söngvanna sem óma.
Væntið endaloka veraldar. Hlægið.
Hláturinn er óendanlegur. Fyllist gleði
þrátt fyrir að hafa vegið allar staðreyndir.
Svo lengi sem konur selja sig ekki ódýrt
valdinu, já, konur meir en karlar.

Spyrjið ykkur sjálf: Mun kona,
sem gleðst yfir því að ala barn, láta sér þetta nægja?
Mun þetta trufla svefn
konu sem er komin að því að fæða?

Farðu með elskunni þinni út á akrana.
Leggist niður í skugganum. Hvíldu höfuð þitt
í kjöltu hennar. Vinn heit að því
sem er þér efst í huga.

Um leið og generálar og pólitíkusar
geta spáð fyrir um það sem þér býr í huga,
láttu það laust. Skildu það eftir sem tákn
er markar falska slóð, leiðina
sem þú fórst ekki.

Vertu eins og refurinn,
sem gerir fleiri slóðir en nauðsyn krefur,
sumar í ranga átt.
Æfðu upprisu.

- – -

Manifesto:
 The Mad Farmer Liberation Front

Stefnuyfirlýsing: Frelsunarflokkur æra bónda
(Úr ljóðaflokknum Hjónabandslandið)

eftir
Wendell Berry

Þýðing ÖBJ

url: http://ornbardur.annall.is/2007-04-08/stefnuyfirlysing-frelsunarflokkur-aera-bondans/


© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli