örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Í sama sigurliði og Sigurliði · Heim · Leit stendur yfir »

Björn Guðbrandsson fv. barnalæknir 1917-2006 – Lifði fyrir örn og börn

Örn Bárður @ 16.40 15/6/06

Spóinn hefur fundið sér hreiður, hann á sér stað. Eigum við okkur stað? Hvað segir þessi staður okkur sem við erum nú stödd á? Höfum við fundið hreiðrið? Er það hér á Melum sem lífsins egg eru lögð? Og hvers vegna eru þau í felulitum? . . .

Úr minningarorðunum sem lesa má í heild hér að neðan:

- – -

Minngarorð

„Ég var sjaldan einmana, þekkti hverja þúfu og hvern hól og fuglana sem þar urpu. Sömu spóahjónin verptu í sama hreiðrið ofarlega í landinu ár eftir ár, en önnur hjón neðarlega og egg þeirra voru alltaf eins. Það þótti mér stórmerkilegt. Á þessum árum blés ég út egg og safnaði grösum, greindi þau . . . Þessar athuganir gáfu vorinu innihald þegar tími bauðst frá vinnu.“ (s. 10)

Drengur í paradís með opinn huga sem skoðar lífið, greinir það og flokkar, nefnir það nöfnum. Eins og Adam gerði forðum og fyrstur allra manna nefndi náttúruna á nafn, gaf hverri tegund heiti og var fyrsti vísindamaður mannkyns, erkitýpa hins hugsandi manns.

Alla ævi hreifst hann af fuglum himinsins sem flugu frjálsir um heiðloftin blá og rötuðu heimsskauta í millum og fundu hreiðrið sitt norður í Viðvík. Seinna fékk hann sjálfur vængi á öld tækniframfara og ferðaðist um heiminn til að mennta sig og lækna sjúka. Jarðbundinn maður með augun á fuglum himinsins, sem átti eftir að hugsa mest um börn og örn, sveitamaður og heimsborgari í senn.

Ætt og uppruni

Björn fæddist í Viðvík í Skagafirði 9. febrúar 1917. Faðir hans var, séra Guðbrandur Björnsson, sem Björn segir hafa verið ákafalausan mann. Velvild hafi einkennt hann og alla hans framgöngu. Hann fæddist 15. júlí 1884, sonur séra Björns Jónssonar sem lauk þjónustu sinni að Miklabæ í Skagafirði og var prófastur Skagfirðinga. Gefum Birni sjálfum orðið um afa sinn: „Björn átti ellefu börn og af þeim náðu öll háum aldri nema ein systirin sem fékk blóðspýting og dó úr berklum tuttugu og sex ára gömul. Hún hét Ragnheiður og gaf mér fyrsta eplið sem ég borðaði á ævinni. Það var gómsætt.“

Og hann heldur áfram og segir:

„Ég sá afa minn aðeins einu sinni. Þá var ég sex ára og hann orðinn nær blindur. Mér var sagt að leiða hann um túnið í Viðvík og þótt það skrýtið. Nokkrum mánuðum síðar kom sendiboði með frétt um dauða hans. Afi var alla tíð jafnlyndur maður, guðrækinn og elskulegur. Hann kenndi fólkinu að bera virðingu fyrir hinu góða í lífinu og Guði almáttugum. “

Það sama lærði Björn af ástríkum foreldrum sínum og systrum.

Faðir Björns hóf skólanám 12 ára og vildi eftir þá reynslu ekki senda börnin sín ung að heiman. Af þeim sökum fór Björn ekki í skóla fyrr en á sautjánda ári. En hann lærði heima og var námfús frá fyrstu tíð.

Skömmu eftir að Guðbrandur tók við Viðvík kvæntist hann, Önnu Sigurðardóttur, sem var þremur árum eldri en hann, fædd 10. janúar 1881 að Pálsbæ á Seltjarnarnesi en hún ólst upp að Seli sem nú er við Seljaveg hér í borg, en þar var faðir hennar formaður á bát. Foreldrar hennar voru Sigríður Jafetsdóttir og Sigurður Einarsson. Langafi Björns, Jafet Einarsson, var gullsmiður í Reykjavík og bjó lengi í Aðalstræti, þar sem Morgunblaðshúsið, sem svo var nefnt, stendur enn. Faðir hans var Einar Jónsson, föðurbróðir Jóns Sigurðssonar forseta. Systir hans var hins vegar Ingibjörg, kona Jóns.

Móðir Björns fór snemma að heiman til að leita sér mennta. Hún tók gagnfræðapróf á Akureyri og var síðan heimiliskennari á Seyðisfirði í nokkur ár. Hún varð síðar kaupakona að Miklabæ og á þann hátt kynntust þau Guðbrandur og hún. Björn minnist þess að hún hafði mikinn áhuga á garðrækt og gróðursetti tvö grenitré þegar hún kom til Viðvíkur, annað þeirra féll fyrir minni Björns en hitt stóð enn þegar hann gekk frá bók sinni Minningar barnalæknis fyrir nítján árum. (s. 20n) Marteinn Lúther var eitt sinn spurður hvað hann mundi taka til bragðs ef hann vissi að heimurinn mundi farast daginn eftir. Ég mundi gróðursetja eplatré, svaraði karlinn í óbilandi trú á Guð og framtíðina.

Björn var yngstur barna foreldra sinna, átti fjórar eldri systur og má nærri geta að hann hafi verið í miklu uppáhaldi hjá þeim Sigríði, Elínborgu, Sigrúnu og Guðfinnu sem allar eru látnar. Sem barn var hann í heimaskóla og fékk þar góðan grunn og talaði gjarnan um að besti kennari sem hann hafði á lífsleiðinni hafi einmitt verið barnaskólakennari nokkur sem kom á bæinn.

Manndómsár og menntun

Ungur fór hann til Akureyrar til menntaskólanáms. Hann gerði sér fljótlega grein fyrir að í alvöru skólanámi dugði ekki annað en einbeiting og sjálfsagi. Hann vissi að hann varð að leggja sig allan fram beita sig sjálfsaga og byggja upp andlegt þrek. Gefum honum orðið:

„Það voru gerðar miklar kröfur sem margir ágætisdrengir stóðust ekki. Þeir byggðu ekki hús sitt frá grunni og fannst sér vera ofaukið í þjóðfélaginu, lögðu árar í bát og sáu myrkrið eitt framundan. Gátu þó skammsýni sinni einni um kennt. Hafi menn áhuga á að komast lífs af, bjarga sér, geta þeir það. Allt er undir manneskjunni sjálfri komið sé heilsan góð.“ (s. 44)

Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1938. Um haustið hélt hann til Danmerkur með styrk til framhaldsnáms. Lagði hann stund á norræn fræði og germönsk mál við Kaupmannahafnarháskóla og við háskólann í Kiel 1939. Kom hann heim um þá sumarið. Honum varð fljótlega ljóst að norrænan gaf fáa möguleika til lífsviðurværis aðra en kennslu og taldi hann sig síður til kennslu fallinn. Hóf hann þá nám í læknisfræði við HÍ og lauk kandidatsprófi 1945. Hann sérhæfði sig síðar í barnalækningum í Bandaríkjunum. Frá 1949-1952 starfaði hann sem barnalæknir í Tokyo. Eftir að hann kom heim vann hann á barnadeild Landakotsspítala og rak læknastofu.

Eiginkona og börn

Björn kvæntist 11. janúar 1948, Sigríði Guðbrandsdóttur, (f. 9. ágúst 1925) forstjóra í Reykjavík, Magnússonar og konu hans Matthildar Kjartansdóttur. Dætur þeirra eru:

1. Matthildur (1947), gift Malcolm Sheard, búsett í Ástralíu. Áður gift Róberti Jónssyni. Börn Matthildar og Róberts eru tvö.
2. Anna Sigríður (1950) gift Einari Gústafssyni. Þau eiga 2 syni.
3. Inga Dóra (1952), gift Birni Birnir, búsett í Kaliforníu og eiga þau 2 börn.
4. Helga Birna (1957) gift Kristni Hallgrímssyni og eiga þau 3 börn.
5. Sigrún (1959), gift Magnúsi Stephensen, og eiga þau einn son. Áður var Sigrún gift Jóni Ólafssyni, og eiga þau 2 dætur.
6. Björn átti son, Skúla Jóhann (1953) með Rósu Jóhannsdóttur. Hann er kvæntur Önnu Sigríði Garðarsdóttur. Börn þeirra eru fjögur.

Barnabarnabörnin Björns eru 5.

Karakter og kómík

Björn var skemmtilegur maður, mikill húmoristi, duglegur og jafnlyndur. Hann var ekki fyrir dægurþras og fjasaði ekki yfir smámunum. Hann var nýtinn og ráðdeildarsamur, laus við viðjar efnishyggju, vildi síður berast á. Enda þótt hann hafi lengst af haft góðar tekjur ók hann oftast um á bílum sem voru við alþýðuskap. Hann var enginn græjukarl en sá þó til þess að stofan hans væri búin bestu fáanlegum tækjum. Hann átti bara sína VW bjöllu og eignaðist nokkrar slíkar. Þær duguð vel og hann komst allra sinna ferða, til og frá vinnu, í útköll sem hann sinnti ávallt af stakri elskusemi og yfirvegun. Ótaldar ferðir fór hann suður á Álftanes og Garðskagavita, að skoða fugla en þeir voru hans aðaláhugamál alla tíð. Oft voru þeir með honum í för, læknarnir, Úlfar Þórðarson og Þórður Þórðarson. Þeir voru spaugsamir og glettnir. Höfðu yngri læknar gaman af að hlusta á þá þegar þeir sprelluðu hvað mest. Að skoða fugla var í senn skemmtun, dægrastytting, vísindastarf og mikið alvörumál og hann jafnan klæddur í jakkaföt við þá iðju, með bindi og brá í mesta lagi yfir sig frakka ef svo bar undir. Á þeim tíma þurftu men ekki sérhönnuð goretexföt til að stíga út úr bíl í íslenska veðráttu. Og því síður jeppa á blöðrudekkjum sem helst þarf stiga til að komast upp í. Björn var mikill húmoristi, gerði gjarnan grín að því sem honum þótti fígúrulegt og gat jafnframt gert góðlátlegt grín að sjálfum sér. Einu sinni keypti hann til dæmis mikla og fína stresstösku þegar þær voru hvað mest í tísku og spígsporaði með hana eins og hann væri stórgrósser eða ráðherra. Svo var taskan opnuð með viðhöfn og í henni voru bara lök af læknastofunni sem voru að koma úr þvotti. Stunum var ekkert í henni nema stretóskópið. Hann átti marga góða vini frá námsárum sínum en hann valdi sér og til vina óbreytta alþýðumenn. Hann var laus við allt snobb. Björn vildi aldrei skulda neinum neitt og fór til að mynda bæinn á enda einu sinni til að borga 25 aura skuld.

Örninn, æðarbændur og óperur

Hann var meðal stofnenda Fuglaverndarfélagsins en hafði enga löngun til að vera formaður. Mestu máli skipti að auka þekkingu og rannsóknir. Verndun arnarins var honum mikið kappsmál og fór hann margar ferðirnar út á land, einkum á Barðaströndina til að fá bændur til að hlífa konungi fuglanna. „Habbði“ hann gjarnan meðferðis í skottinu, eða öllu heldur í húddi Bjöllunnar, vínflöskur til að gefa bændum. Seinna kom í ljós að stofnandi Greenpeace notaði sömu aðferð til að vinna menn á sitt band. Sjálfur fór hann vel með vín en naut þess að gleðjast með vinum yfir glasi á góðum stundum. Þó var það ekki brennivínið sem dugði honum best í baráttu við bændur varðandi örninn, heldur það að hann læknaði börnin þeirra.

Björn var jarðbundinn maður. Seint verður hann talinn til trúmanna en hann bar virðingu fyrir hinu stóra samhengi tilverunnar, hafði yndi af skáldskap, las mikið og tónlist lyfti honum í hæðir. Hafði hann mest dálæti á Mozart, hlustaði mikið á verkin hans og einnig á verk eftir Beethoven og Bach sem Björn sagði boða sigur hins góða á jörðunni. Ekki að ófyrirsynju að sá síðastnefndi hafi hlotið viðurnefnið Fimmti guðspjallamaðurinn. Björn hafði mikið dálæti á óperum, var algjör óperufan og sá Töfraflautuna fimm sinnum í einni uppfærslunni.

Þar sem ræða mín er í lengra lagi leyfi ég mér að brjóta hana upp með tónlist.

(Jón Bjarnason leikur á flygilinn, lag úr Töfraflautunni, Der Vogelfänger bin ich, ja)

Tungumál og tilvistarpælingar

Hann var málamaður. Dönsku sagðist hann ekki hafa skilið þegar hann kom til Danmerkur þrátt fyrir margra ára nám hér heima. En hún vandist og lærðist. Hann talaði þýsku og auðvitað ensku. En svo lærði hann rússnesku og var stundum talinn hallur undir kommúnisma sökum þess. Féll það vel að kímni hans og húmor. Henti hann gaman af því en var aldrei upptekinn af pólitík. Hann lærði og ítölsku. Oft kom málakunnáttan sér vel í læknisstörfunum eins og þegar hann gat talað við rússneskan sjómann sem þarfnaðist lækningar.

Dæturnar minnast þess að þær unnu allar á barnadeildinni hjá pabba á Landakoti. Björn var góður barnalæknir, hafði gott lag á börnum, elskaði börn, en kunni síður á unglinga, segja stelpurnar og hlæja. Á stofunni hans sem var lengst af á Bræðraborgarstíg 26, hafði hann nóg af inniskóm handa þeim sem komu. Hann hafði séð það í Japan og lært ýmislegt af þeirra siðum og venjum.

Þau hjónin, Sigríður og Björn, ferðuðust víða. Björn vann til að mynda um tíma sem læknir í Vietnam á dögum stríðsins og þangað fór Sigríður og heimsótti hann og hafði mikið fyrir að fá vegabréfsáritun. Þau áttu góða ævi saman. Auðvitað hrikti í þegar sonurinn fæddist. En svo var það búið mál að svo miklu leyti sem hægt er að afgreiða slíkt. Lífið heldur áfram og við lærum að taka því sem að höndum ber.

Fremst í minningabók sinni segir Björn meðal annarra orða:

„Lífið er hart og miskunnarlaust, yfirleitt. Eitt sinn fékk ég bréf frá Þýskalandi. Tveir höfðu fallið og tveir hækkað í tign. Í bréfinu stóð: Hlutskiptið er ójafnt í stríði; einn hagnast á meðan annar tapar. Sjálfsagt gildir þetta einnig um lífið. Eitt sinn vorum við Finnur Guðmundsson staddir úti við Garðskagavita og horfðum á náttúruna. Þá sagði hann: Þetta miskunnarlausa lif. Einn étur annan og sá lifir sem er sterkastur. Kannski þetta sé rétt. Það veit hins vegar enginn hver tilgangur lífsins er. Maður gerir skyldu sína og reynir að nota þekkingu sína og reynslu. Lifa samkvæmt ákveðnu kerfi. Gera sitt besta. Kannski Stephan G. Stephansson hafi komið orðum að því sem mestu skiptir:

Að hugsa ekki í árum né öldum,
að alheimta ei daglaun að kvöldum,
svo lengist mannsævin mest.

Reynslan hefur kennt mér að dauðinn er afstætt hugtak. Það er staðreynd að lífið líður undir lok og ekki hægt að brynja sig gegn því. Í mörgum tilvikum er hins vegar unnt að fresta eða koma í veg fyrir dauðann um tíma. Það á sérstaklega við um sjúkdóma meðal barna. Þar skiptir höfuðmáli að menn séu vel menntaðir, hafi mikla reynslu og geti séð framvinduna fyrir. Örlítil ógætni getur valdið óbætanlegum skaða.

Dauðann ber sérkennilega að. Ég sá það á berklahælinu. Fólkið sem var að deyja gerði sér ekki grein fyrir hvert stefndi. Eins og það sofnaði. Hvað tók þá við? Mennirnir eru gæddir þeim hæfileika að geta hugsað um guð og framhaldslíf. Það er ágætt því þá hafa þeir eitthvað til að hugsa um. Og hugsun skapar þekkingu. Skapar manninn. Gerir hann að öðru og meira en dýri.

Það verður að gera allt til að halda lífinu í fólki. Jafnvel þótt það sé vonlaust. Menn mega ekki setjast í dómarasæti og ákveða hverjir eigi að lifa og hverjir ekki. Líknarmorð eru því með öllu óréttlætanleg. Hvar eru mörkin? Þetta ver mér kennt. Þetta hef ég kennt öðrum. Það er ekkert til sem heitir tilfinningaleysi eða hlutleysi í þessum efnum. Lífið verður að virða.“ (s. 10)

Hér slær Björn á strengi sem gerðu líf hans sjálfs að einskonar tónverki sem var með létta laglínu, djúpan undirtón, góðan glettukafla en umfram allt mjúkan og breiðan tón.

Sveitakristnin gamla, alvörugefin og húmorslítil, var Birni ekki að skapi. Okkur mönnunum hættir til að taka Guð allt of hátíðlega. Sjálfur held ég að Guð hafi líkan húmor og Björn hafði, stresstöskuhúmor og vilji það eitt að við njótum lífsins, séum glöð og fögnum af minnsta tilefni. Björn sem átti að verða prestur braust undan þeim væntingum fjölskyldu sinnar og gerðist læknir. Guðsþjónusta hans var því sungin á öðru sviði. Hins vegar hefði hann án efa geta orðið skemmtilegur ræðumaður og prédikari því það er varla hægt að bæla niður rótgróinn húmor. Ungur gekk hann til þjónustu við lífið og glímdi við tilvistarspurningar alla tíð. En hvað sem líður niðurstöðu í þeim pælingum öllum þá er lífið dásamlegt. Skáldið Tómas Guðmundsson og vinur Björns var maður vorsins og lífsgleðinnar. Hann orti ástfanginn um hlutskipti okkar:

Og það er á slíkum stundum, að maður getur gert sér
eins grein fyrir því og vert er,
að kynslóð vor hin eina kynslóð er,
sem nýtur þeirrar hamingju að hafa ekki dáið.
Svo hjartanlega náið
er lífið okkur enn, sem betur fer.

„Hver maður er barn síns tíma“ sagði Björn í bók sinni. „Umhverfið og uppeldið hafa áhrif á óskir og vonir. Allir hafa hlutverki að gegna og leita lífsfyllingar. Var það tilviljun ein að ég hóf læknamám og síðar nám í barnalækningum? Eða er nokkuð tilviljunum háð?“ (S. 177).

Og ég spyr: Er það tilviljun, að yfir moldum þessa einstaka vinar arnarins, skuli tala sóknarprestur hans og sá eini slíkur í öllu landinu, sem ber að fornafni, nafnið Örn?!

Spóinn og við

Sumarið er komið enda þótt það hafi þurft að berjast meir fyrir lífi sínu þetta árið en mörg önnur. Spóinn hefur fundið hreiðrið sitt í Viðvík. Er það tilviljun? Í 84. sálmi Davíðs undrast skáldið það sama og Björn í æsku og endra nær, er það segir: „Jafnvel fuglinn hefir fundið hús, og svalan á sér hreiður, þar sem hún leggur unga sína . . . “

Sagt er að alheimurinn sé þrettán komma sjö milljarða ára gamall. Hann er ógnarstór og er enn að þenjast út. Maðurinn þekkir að nokkru leyti fjóra af hundraði þess víðgelmis og jörðina sem hann stendur á þekkir hann ekki enn til hlítar. Tekst okkur að varðveita jörðina með gæðum sínum og fjölbreytni dýralífs? Hvað verður um okkur? Hver heldur öllu til haga, stýrir vorsins veldi, lætur spóann finna hreiður í heimsins Viðvíkum, á þessari jörð sem er eins og sandkorn á sjávarströnd í alheimsgeimi?

„Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað, hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?“ (Sl 8.4-5)

Hvað er tilviljun? Hvað er forsjón og handleiðsla? Hvers vegna trúir mannkyn? Hvaðan er gæskan komin, kærleikurinn, mannúðin, löngunin til að leggja lífinu lið, þörfin fyrir að elska. Og svo afleiðing elskunnar sem er að sakna og syrgja? Er það allt tilviljun?

Spóinn hefur fundið sér hreiður, hann á sér stað. Eigum við okkur stað? Hvað segir þessi staður okkur sem við erum nú stödd á? Höfum við fundið hreiðrið? Er það hér á Melum sem lífsins egg eru lögð? Og hvers vegna eru þau í felulitum?

Heimspekingurinn Gotthold Lessing sagði:

Ef Guð héldi á öllum sannleikanum í hægri hendi sinni og í þeirri vinstri staðfastri leit að sannleikanum . . . og segði við mig: Veldu nú! Þá mundi ég hneigja höfuð mitt í auðmýkt frammi fyrir þeirri vinstri og segja: Faðir, gef mér leitina, því sannleikurinn allur tilheyrir þér einum.

Hvað verður um okkur? Hvar er okkar staður í tilverunni? Höfum við fundið okkur hreiðurstað?

Árið 1974 var Björn beðinn að fara til Vietnam og sinna þar börnum sem slasast höfðu í stríðinu. Þangað fór hann og starfaði þar í 3 mánuði og var það talsverð lífsreynsla. Gefum honum orðið:

„Ég var nokkrum sinnum kallaður út að nóttu til, en þá var bannað að vera á ferli [í Saigon]. Útgöngubann ríkti í borginni frá klukkan ellefu að kvöldi til klukkan fimm að morgni. Það var óravegur á milli læknisbústaðarins og spítalans og nauðsynlegt að aka eins hratt og hægt var. Það var hrollur í mér en um leið spenningur. Mér hafði verið sagt að fyrst væri skotið og síðan spurt. Fáir voru á ferli um göturnar – nokkrar rottur og innbrotsþjófar – og ég ók á svona 150 kólómetra hraða. Líkt og Hitler í Hamborg. Eitt sinn villtist ég og keyrði stefnulaust um strætin í rúma tvo klukkutíma án þess að kannast við mig. Ég var dauðhræddur um að verða bensínlaus. Þá hefði getað farið illa. Á þessum stundum varð mér oft hugsað til æskustöðvanna í Skagafirði; og fannst þær æði fjarri.“

Að eiga sér stað, finna hreiður sitt, er mikilvægt og skapar í sálu og sinni öryggiskennd. Hreiður okkar manna á sér stað og er jafnframt umvafið ástríki fjölskyldu og samferðafólks. Sérstakar kveðjur hafa borist hingað frá útlöndum, frá Matthildi og fjölskyldu, Birni Birnir og börnum, Hildi Helgu og Önnu Garðarsdóttur og börnum.

Bernskuslóðir og öryggi, uppvöxtur og mótun, orð um æðstan tilgang og markmið lífs, eru gróðursett í sálu barnsins og þar spíra þau alla ævi, vaxa og gróa. Fuglinn finnur hreiðrið sitt og leggur þar egg sín. Líf í felulitum, líf sem á sér stað, hefur fundið sér hreiður, líf sem að lyktum brýtur sér leið út úr skurninni, fær vængi og flýgur.

Guð geymi Björn Guðbrandsson, barnalækni og fuglavin og allar góðu minningarnar um ævi hans. Við felum hann og okkur öll miskunn Guðs og náð. Guð blessi eftirlifandi eiginkonu hans, börn, tengdabörn og afkomendur alla, frændfólk og safmerðarmenn. Guð gefi okkur öllum náð til þess að njóta lífsins og gleðjast alla okkar daga, gleðjast yfir því að hafa átt góða að sem þjónuðu Guði með því að þjóna náunganum með gleðina og lífselskuna að leiðarljósi.

Blessuð sé minning Björns Guðbrandssonar. Amen.

– - –

Byggt á samtali við Sigríði, ekkju Björns og dætur þeirra og á bókinni: Minningar barnalæknis, Lífssaga Björns Guðbrandssonar, Matthías Viðar Sæmundsson, skráði, Forlagið 1987.

Tilvitnun í Tómas: Ljóðasafn Tómasar Guðmundssonar, Mál og menning, Reykjavík 1998, s. 282

Ritningarlestrar

Sálmarnir 8:

2. Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina! Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.
3. Af munni barna og brjóstmylkinga hefir þú gjört þér vígi til varnar gegn óvinum þínum, til þess að þagga niður í hefndargirni óvinarins.
4. Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað,
5. hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?
6. Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann.
7. Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum, allt lagðir þú að fótum hans:
8. sauðfénað allan og uxa, og auk þess dýr merkurinnar,
9. fugla loftsins og fiska hafsins, allt það er fer hafsins vegu.
10. Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!

Guðspjall s.l. sunnudags sem var þrenningarhátíð:
Jóh 3.1-5 og til vibótar Markús 10.13-16

Jóhannesarguðspjall 3:1-5

1. Maður hét Nikódemus, af flokki farísea, ráðsherra meðal Gyðinga.
2. Hann kom til Jesú um nótt og sagði við hann: Rabbí, vér vitum, að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gjört þessi tákn, sem þú gjörir, nema Guð sé með honum.
3. Jesús svaraði honum: Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju.
4. Nikódemus segir við hann: Hvernig getur maður fæðst, þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?
5. Jesús svaraði: Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda.

Markúsarguðspjall 10:13-16

13. Menn færðu börn til hans, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá.
14. Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá: Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.
15. Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma.
16. Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.

url: http://ornbardur.annall.is/2006-06-15/16.40.21/

© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli