örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Óttaleg og dásamleg lausn · Heim · Stjórnviska bernskunnar »

„Vantrúarmönnum“ svarað

Örn Bárður @ 16.10 9/12/04

Vandi umræðunnar er öðrum þræði sá að menn styðjast ekki við sömu skilgreiningar á hugtökum og svo hitt að umræðunni hættir stundum til að falla í gryfju tiltals, gífuryrða og yfirgangs. . .

Þessi orð eru úr svari mínu til „vantrúarmanna“ sem birtist í heild hér að neðan en þeir höfðu margt að athuga við prédikun mína er ber heitið „Ég á von en aldrei hann“. Þá umræðu alla er hægt að skoða á slóðinni:

http://ornbardur.annall.is/2004-08-15/09.44.35

En svarið er hér að neðan:

Þegar ég birti eina af predikunum mínum hér á annálnum í haust fylgdi mikil umræða í kjölfarið þar sem nokkrir yfirlýstir vantrúarmenn og guðleysingjar gagnrýndu málflutning minn harðlega. Því miður hef ég ekki haft tök á því að bregðast strax við öllu því sem þar kom fram vegna mikils tímaskorts en rökræður geta reynst harla tímafrekar ef sinna á þeim af einhverju viti. Hér mun ég hins vegar bregðast við þeim megin atriðum í umræðunni sem mér fannst ástæða til.

Vandi umræðunnar er öðrum þræði sá að menn styðjast ekki við sömu skilgreiningar á hugtökum og svo hitt að umræðunni hættir stundum til að falla í gryfju tiltals, gífuryrða og yfirgangs. Hún verður m.ö.o. niðrandi eða „patronizing“ svo ég leyfi mér að sletta. Í prédikuninni sem olli öllum þessum titringi vantrúarmannanna yfirlýstu vísaði ég til sögulegrar reynslu af kommúnismanum í Sovétríkjunum en hann var guðlaus stefna og í eðli sínu tiltrú á tiltekna hugmyndafræði og skilgreiningu á heiminum og mannlífinu, manninum sjálfum. Kommúnisminn er trú skv. skilgreiningu minni og guðleysi sömuleiðis þar sem um er að ræða lífssýn, hugmyndafræði eða kerfi sem útskýrir tilveruna eða skilgreinir hana.

Það er af og frá að trú geti ekki verið „traust á tilteknum gildum eða skoðunum“, þ.e. lífsafstaða eða lífssýn. Í predikuninni gagnrýndi ég guðlausa efnishyggju jafnt kommúnista sem Vesturlandabúa og spurði hvort hún gæti ekki talist trúarafstaða. Þegar ég svaraði síðan gagnrýninni á predikunina sagði ég að þar sem guðleysi væri lífsafstaða væri hægt að líta á hana sem trúarafstöðu í tiltekinni mynd, en á þeirri forsendu hafnaði ég því sjónarmiði að til væru trúlausir menn því að allir hefðu einhverja lífsafstöðu. Ég lít svo á að trúin sé fólgin í trausti á að tilveran sé með tilteknum hætti og er það í fullu samræmi við málflutning minn í predikuninni. Þeir voru ófáir sem treystu kommúnismanum og létu hugmyndafræði hans og forsendur móta lífssýn sína, m.a. þá trú að enginn Guð væri til. Þannig lít ég á guðleysi sem trú í þeim tilfellum sem viðkomandi einstaklingar treysta því að enginn Guð sé til og miða jafnvel líf sitt út frá því.

Það er sömuleiðis af og frá að kristindómurinn sé gengisfelldur þótt gert sé ráð fyrir tilvist fleiri trúarhugmynda en hans. Þótt talað sé um guðleysi sem trú er ekki þar með verið að segja að hvers kyns trú sé jafngild eða hafi sömu merkingu. Þetta er grundvallaratriði sem nauðsynlegt er að átta sig á.

Máli mínu til stuðnings vísa ég til orða Bjarna Randvers Sigurvinssonar, guðfræðings sem er vel að sér í trúarlífsfélagsfræði (sociology of religion) en sú fræðigrein fæst ekki síst við trúarhugtakið. Og fræðigreinin er jafnframt rækilega mönnuð mörgum guðleysingjum, svo að ekki ætti það nú að spilla fyrir greininni í augum annarra sannfærðra guðleysingja. En leyfum Bjarna Randver að tala í því bréfi sem hann sendi mér:

„Í trúarlífsfélagsfræðinni er talað um að til séu tvenns konar skilgreiningar á trúarbrögðum sem ganga mis langt eftir því hver á í hlut hverju sinni. Annars vegar er þar um að ræða svonefndar innihaldsskilgreiningar og hins vegar hlutverkaskilgreiningar.

Innihaldsskilgreiningar taka fyrst og fremst mið af trúaratriðunum þegar sagt er til um hvað sé trú. Samkvæmt þeim getur trú verið hver sú hugmynd sem skírskotar til handanveruleika, yfirnáttúrulegra afla eða guða og segir til um tilvist þeirra. Margir félagsvísindamenn sem styðjast við innihaldsskilgreiningar einskorða trúna við skírskotunina til hins yfirnáttúrulega en ýmsir aðrir, t.d. guðfræðingar, hafa haldið því fram að allar fullyrðingar um yfirnáttúruleg efni séu í raun trúarlegar þar sem þær fari út fyrir takmörk vísindanna. Trúin veiti nefnilega svör við spurningum um lífið og tilveruna og takmarki sig ekki við þau svið sem vísindin hafi gert að vettvangi sínum. Dæmi um trú samkvæmt innihaldsskilgreiningu sé því sú fullyrðing að Guð sé ekki til því að vísindamenn geti hvorki sannað hana né afsannað sem tilgátu.

Hlutverkaskilgreiningar taka fyrst og fremst mið af því hlutverki sem trúin gegnir í lífi einstaklingsins og samfélaginu öllu. Samkvæmt þeim eru trúarhreyfingar táknkerfi um altæka skipan tilverunnar sem tiltekinn hópur sameinast um og veitir einstaklingnum heildstæða merkingu og tilgang með lífinu. Þar sem slíkt táknkerfi þarf ekki að skírskota til yfirnáttúrulegs veruleika, geta stjórnmálastefnur og listastefnur flokkast sem trúarbrögð út frá þessum forsendum.

Flestir trúarlífsfélagsfræðingar byggja á hlutverkaskilgreiningum í rannsóknum sínum, enda þótt þeir kjósi oftar en ekki að takmarka þær að einhverju leyti. Ljóst er hins vegar að trúarbragðafræðin skilgreinir trúarbrögð og trúarhreyfingar ekki út frá gildi þeirra og áreiðanleika heldur út frá inntaki þeirra og hlutverki fyrir einstaklinginn og samfélagið.

Samkvæmt þröngum innihaldsskilgreiningum er guðleysi ekki trúarlegt og flokkast því ekki til trúarbragða. En séu innihaldsskilgreiningarnar látnar ná til allra fullyrðinga um trúarleg efni myndi guðleysið hæglega flokkast sem trúarlegt. Þá mætti tilgreina margvíslegar stefnur sem trúarlegar þótt þær einkennist af guðleysi, t.d. siðrænan húmanisma, pósitívisma sem fullyrðir um tilvistarleg efni og theravada búddhisma. (Reyndar eru engir guðir heldur til í mahayana búddhismanum en þar eru samt verur sem frestað hafa nirvana um stundarsakir til að verða öðrum fyrirmynd.)

Samkvæmt hlutverkaskilgreiningum geta allar stefnur sem boða guðleysi hins vegar verið trúarlegar, sérstaklega ef guðleysið hefur þýðingu fyrir heimsmynd og lífssýn einstaklingsins og tiltekinn hópur sameinast um þá afstöðu.

Það er lenska meðal margra guðleysingja hér á landi að kalla sig trúleysingja, en færa má rök fyrir því að það sé misskilningur ef gengið er út frá hlutverkaskilgreiningum og víðum innihaldsskilgreiningum á trúarhugtakinu. Hins vegar má vel líta á guðleysi sem trúleysi ef gengið er út frá þröngum innihaldsskilgreiningum, þ.e. að trúin sé aðeins bundin við skírskotanir til hins yfirnáttúrulega.

Margir guðleysingjar tala jafnframt um hugtökin „guðleysi“ og „trúleysi“ sem eitt og hið sama, en fullyrða má að það sé misskilningur. Að vísu þýðir orðabók Arnars & Örlygs enska orðið „atheism“ sem (1) „trúleysi, guðleysi, sú trú að enginn guð sé til“ og (2) „óguðleiki“. Orðabækur geta hins vegar haft rangt fyrir sér eins og þessi sama bók gerir þegar hún þýðir enska orðið „denomination“ ranglega „sértrúarsöfnuð“ og minnist ekki á „kirkjudeild“ sem telst rétta þýðingin. Enska orðið „atheism“ þýðir í raun „guðleysi“ eins og forskeytið „a“ fyrir framan „theism“ ber vott um. Þó er athyglisvert að „atheism“ skuli einnig vera þýtt eða skilgreint í bókinni sem „sú trú að enginn guð sé til“, en í því felst að sjálfsögðu að það sé trú að halda því fram að enginn Guð sé til.

Í þessu sambandi er mikilvægt að skoða einnig hvernig ensk-enskar orðabækur skilgreina hugtakið „atheism“. Í Cambridge International Dictionary of English segir: „atheist/ … Someone who believes that God or gods do not exist.“

Webster’s Encyclopedic Unabridged Dictionary of the English Language er þó mun ítarlegri en þar kemur þetta fram:
„atheism … 1. the doctrine or belief that there is no God. 2. disbelief in the existence of God or gods.“
„atheist … one who denies or disbelieves the existence of God or gods.“
„An ATHEIST is one who denies the existence of a Deity or of divine beings. An AGNOSTIC is one who believes it impossible to know anything about God or about creation of the universe and refrains from committing himself to any religious doctrine. INFIDEL means an unbeliever, especially a nonbeliever in Mohammedanism or Christianity. A SKEPTIC doubts and is critical of all accepted doctrines and creeds.“

Réttar þýðingar á orðunum eru því þessar:
atheism = guðleysi
atheist = guðleysingi
agnostic = efahyggjumaður/ efasemdamaður (um yfirnáttúruleg efni)
infidel = vantrúaður, heiðingi
skeptic = efahyggjumaður/ efasemdamaður (um viðteknar kenningar)“

Hér lýkur ágætri umfjöllun Bjarna Randvers.

Í ljósi ofangreindra orða tel ég mig hafa verið samkvæman sjálfum mér og fræðunum í umræðunni enda þótt ég viðurkenni að á stundum hafi ég orðið pirraður út í beinan dónaskap viðmælenda og fúkyrði. Hvað annað er annars hægt að kalla orð á borð við „hindurvitni“, „smitsjúkdóm“, „kjaftæði“, „fíflaleik“, „geddit“, „ómálefnalegt væl“, bjánalegan hentifánaleik, „drullusokka“, „fífl“ og „geðsjúklinga“ sem komu rækilega við sögu í málflutningi gagnrýnendanna? Ég skal viðurkenna að í málflutningi margra yfirlýstra vantrúarmanna er að finna heiðarlega tilraun til samkvæmni en ég verð að segja að mér finnst hún stundum fara út í „trúboð“ af verstu gerð og þá á ég við trúboð í fundamental skilningi, bókstaflegt trúboð, kreddukennt og öfgafullt. En slíkt er til innan allra hugmyndakerfa, svo sem kristni, islam, kommúnisma og guðleysis. Öfgarnar búa nefnilega í okkur sjálfum en ekki endilega í hugmyndakerfunum sem slíkum. Við erum gallagripir, í okkur öllum er brotalöm og kristnin skilgreinir þennan vanda sem synd eða eitthvað sem sundrar hinu heila. Allir menn hljóta að kannast við ófullkomleika sinn, hvar í flokki sem þeir standa eða hvaða hugmyndafræði sem þeir aðhyllast.

Annars finnst mér dálítið skondið að hugsa til þess að vantrúarmennirnir yfirlýstu skuli vísa til þess að maðurinn sé ekki skapaður eða fæddur með trú heldur sé hún numin af boðun eða áróðri. Ég er nú ekki svo viss um að svo sé. Þeir tala um að maðurinn sé þróaður. Skítur það þá ekki skökku við ef hann þróast frá trúleysi til trúar?! Fer mannkyni aftur. Auk þess eru Guðstrú og þróun ekki andstæð sjónarmið nema gengið sé út frá guðlausri þróun, þ.e. að þróunin feli það í sér að enginn Guð sé til. Ófáir kristnir menn líta hins vegar svo á að sköpun Guðs geti vel verið fólgin í þróun.

Ef gengið er út frá víðum innihaldsskilgreiningum eða hlutverkaskilgreiningum á trúarhugtakinu er hæglega hægt að halda því fram að manneskjunni sé eðlislægt að trúa. Það að undrast yfir veröldinni, dást að sköpuninni (eða náttúrunni eins og vantrúarmennirnir yfirlýstu vilja væntanlega nefna umhverfið), hrífast af fegurðinni er auk þess í vissum skilningi trúarleg upplifun.

Matti segir t.d.: „Það er rétt að trúleysi mitt er sterkt og vissa mín er nokkuð mikil, næstum því trúarleg. En ég fullyrði ekki að ekki sé hugsanlega ti[l]. “einhver æðri máttur”. Mér finnst það ekki líklegt, ég tel það satt að segja fáránlega hugmynd, en ég fullyrði ekkert um það, ég get bara ekki vitað það. Það eina sem þarf til að fá mig til að fallast á að til sé svona máttur er að sýna mér sönnun fyrir því, það þarf ekkert annað. Þarna er eðlismunur, svo maður noti það orð enn og aftur, á viðhorfi mínu og trúaðra. Aftur á móti fullyrði ég að kristnar sögur eru mýtur, Guð kristinna manna fullkomin þverstæða og þar með ekki til og að ekkert bendir til að Jesús hafi verið raunveruleg persóna og að það er fullkomlega klikkað að trúa því að hann hafi framkvæmt kraftaverk, dáið á krossinum og risið upp frá dauðum.“

Bjarni Randver segir í bréfi til mín: „Guðleysi er hiklaust trúarleg afstaða [sé gengið út frá t.d. víðri innihaldsskilgreiningu eða hlutverkaskilgreiningu á trúarhugtakinu], sömuleiðis sú trú að [tilvist einhvers konar æðri máttar] sé ólíkleg og fáránleg hugmynd, jafnvel þótt fyrirvari sé gefinn. En Matti gengur lengra. Hann fullyrðir að Guð kristinna manna sé ekki til. [Út frá víðum innihaldsskilgreiningum telst þetta] trúarleg afstaða, svo og allar fullyrðingar um ýmis atriði kristinnar trúar.

Matti talar einnig um þann eðlismun á viðhorfi sínu og trúaðara að hann fallist ekki á tilvist æðri máttar nema hægt sé að sýna honum sönnur fyrir því. En kristindómurinn er ekki bara trúaratriði fyrir skynsemina heldur er hann ekki síður grundvallaður á reynslu hins trúaða af samfélaginu við Guð og öllu því sem í því felst. Jafnframt getur ýmislegt haft gildi þótt ekki séu færðar sannanir fyrir tilvist þess.

Matti segir reyndar líka að ekki hafi „einu sinni verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að frelsarinn … hafi verið til“. Þessi fullyrðing að Jesús Kristur hafi sennilega aldrei verið til er að finna í málflutningi … margra siðrænna húmanista úti í heimi, en bókaútgáfur þeirra hafa verið að gefa út slík rit eftir t.d. sagnfræðinga sem halda þessu fram. Þetta er hins vegar vægast sagt vafasamur málflutningur hvað svo sem okkur finnst um þann boðskap sem kenndur er við Jesúm Krist og má í raun alveg kalla þetta gervivísindi og virðist málflutningurinn fyrst og fremst byggður á óskhyggjunni og trúarlegum forsendum viðkomandi höfunda. Heimildirnar fyrir tilvist Jesú eru margar, ekki bara ritsafn Nýja testamentisins sem er í raun komið úr ótal áttum. Vísa ég þar meðal annars til ýmissa apókrýfarita Nýja testamentisins. Trúarbragðafræðingar (og held ég yfirleitt sagnfræðingar líka) eru upp til hópa sammála um að Búddha hafi verið uppi enda þótt heimildirnar um hann séu enn færri en um Jesúm Krist. Það þýðir hins vegar ekki að þeir skrifi undir allt það sem við Búddha er kennt.“ Vissulega halda ýmsir fræðimenn því fram að munur getur verið á hinum sögulega og trúarlega Jesú Kristi en fyrir kristnum mönnum er trúarþátturinn sprottinn af hinum sögulega.

Vantrúarmennirnir yfirlýstu og guðleysingjarnir kalla kristna trú „hindurvitni“ þar sem ekki sé hægt að sanna margt í kristinni trú. Sigurður Ólafsson vitnar t.d. til orðabókar þar sem „hindurvitni“ eru sögð „hjátrú“, þ.e. „trú á tilvist e-s sem fer í bága við (vísindalega) heimsskoðun samtímans“. Kristin trú byggir þó á vel rökstuddum rökum í mörgum efnum, þar á meðal sögulegum heimildum um Krist bæði í Biblíunni og ritum annarra sem uppi voru á ritunartíma Nýja testamentisins eins og Takítusar sem var rómverskur sagnaritari og Jósefusar sem var sagnaritari Gyðinga. Vandséð er jafnframt hvernig guðstrú getur talist fara „í bága við (vísindalega) heimsskoðun samtímans“ þar sem vísindin hafa ekkert um tilvist Guðs að segja. Rök guðleysingja um meinta hindurvitnatrú mína (þar sem ég get ekki sannað tilvist Guðs) hitta þá sjálfa fyrir því að þeir geta ekki heldur afsannað tilvist Guðs. Ergo: Guðleysingjar trúa á hindurvitni! Vandinn er nefnilega sá að hindurvitnahugtakið er gildishlaðið gífuryrði sem allt eins væri hægt að nota um guðleysi á þeirri forsendu að það færi í bága við vísindalega heimsskoðun samtímans að halda því fram að enginn Guð sé til. Vísindin hafa ekkert um tilvist Guðs að segja enda takmörkum háð. Trúaratriði kristindómsins liggja fyrir utan takmörk vísindanna og fara þannig ekki í bága við vísindalega heimsskoðun samtímans.

Lokaorð
Ljóst er að ég styðst við allt aðrar skilgreiningar en vantrúarmennirnir og guðleysingjarnir sem gagnrýndu predikunina á annálnum mínum. Þar sem hvorki ég get neytt þá til að samþykkja skilgreiningar mínar né þeir neytt mig til að samþykkja sínar er ljóst að frekari samræður eru tilgangslitlar nema því aðeins að gagnkvæmur vilji sé fyrir hendi til að virða og skilja sjónarmið allra aðila.

url: http://ornbardur.annall.is/2004-12-09/16.10.20/

© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli