örnbárður.annáll.is

AnnállAuglýsingarLíkræðurPistlar o.fl.PrédikanirSkopmyndirUm annálinnÞýðingar

« Um annálinn · Heim · Dýrt að vera í sambandi. Hvað hefði Páll postuli gert í sambandi við Netið? »

Prestur eða einstaklingur, hver skrifar annálinn?

Örn Bárður @ 16.32 10/6/04

Í annálnum eru birtar þrennskonar færslur

a) prédikanir sem ég flyt sem sóknarprestur í Neskirkju, hvort sem er í minni sóknarkirkju eða á öðrum kirkjulegum vettvangi

b) pistlar þar sem ég viðra persónulegar skoðanir mínar á ýmsum málum,

og

c) líkræður ef ættingjar óska eftir að fá þær birtar.

Segja má að í
a) og c) flokki tali ég sem embættismaður – „amts person“ en í
b) flokki sem einkaaðili eða „privat person“.

Nú kann skipting sem þessi að valda einhverjum heilabrotum en ég áskil mér rétt til þess að fara stundum úr hempunni (enda er hún heit og fyrirferðarmikil) og tjá mig sem einstaklingur endrum og sinnum.

Þannig hef ég t.d. komið fram á fundum um þjóðfélagsmál. Og enda þótt fjölmiðlar hafi síðan sagt frá þátttöku minni og titlað mig séra var ég ekki á staðnum sem prestur og aldrei í hempunni!

Fjölmiðlar eiga stundum í vanda með að aðgreina persónu og embætti. Sá vandi er reyndar furðu algengur og birtist t.d. oft í framkomu æðstu embættismanna framkvæmdavaldsins.

Annállinn er vistaður hjá Þjóðkirkjunni en ekki Neskirkju enda þótt vísað sé til netfangs míns í haus annálssíðunnar. Biskupsstofa heldur utan um annálinn og hefur hvatt presta til að tjá sig með því að „blogga“ eins og það er kallað.

Ég ber sjálfur fulla ábyrgð á annálnum sem er ekki á vegum Neskirkju, Þjóðkirkjunnar né nokkurs annars aðila.

url: http://ornbardur.annall.is/2004-06-10/16.32.10/

© örnbárður.annáll.is · Færslur · Ummæli